Búsvæði og þéttleiki laxfiska í Fitjaá í Skorradal

Nánari upplýsingar
Titill Búsvæði og þéttleiki laxfiska í Fitjaá í Skorradal
Lýsing

Fitjaá er helsta innrennslisá Skorradalsvatns. Áin á upptök sín í Eiríksvatni í 278 m h.y.s. Áin er dragá, nokkuð miðluð af stöðuvatni og er rúmlega 10 km að lengd en fiskgeng 4.365 m að Keilufossi. Búsvæði fyrir laxfiska í Fitjaá voru kortlögð í ágúst 2014 og á sama tíma var gerð athugun á útbreiðslu og þéttleika ferskvatnsfiska í ánni. Farið var með öllum fiskgenga hluta árinnar og farveginum skipt í einsleita kafla með hliðsjón af botngerð og straumlagi. Á hverjum kafla var botngerð, straumlag og dýpi skrásett með þversniðum í farvegi árinnar. Lengd kaflanna var mæld á korti og meðalbreidd þeirra reiknuð auk flatarmáls, meðaldýpis og hlutfallslegrar þekju mismunandi botnefna. Framleiðslugeta hvers kafla var síðan metin sem fjöldi framleiðslueininga. Flatarmál fiskgenga hluta Fitjaár mældist 72.762 m2 og var honum skipt í 3 einsleita kafla (1 - 3).  Fjöldi framleiðslueininga (FE) reyndist vera 836,4. Mat á búsvæðum Fitjaár leiddi í ljós að búsvæði á efri hluta árinnar (kaflar 1 og 2) voru með góð skilyrði til hrygningar og seiðauppeldis fyrir laxfiska og bjuggu yfir um 80% framleiðslugetu svæðisins, en skilyrði á neðsta hlutanum voru mjög rýr.  Urriði var ríkjandi fisktegund í ánni, en einnig varð vart við bleikju. Stofnstærð urriða hefur vaxið mjög mikið í ánni síðastliðin 20 ár samfara því að stofnstærð urriða virðist vera vaxandi í Skorradalsvatni. Svæði sem nýtt hafa verið til malartekju í Fitjaá eru á kafla 2 í ánni, en þar eru góð hrygningar- og uppeldisskilyrði fyrir urriða. Efnistaka upp úr farvegi árinnar er því líkleg til að valda skaða á mikilvægu hrygningar – og uppeldissvæði. Því er lagt til að annarra leiða verði leitað vegna vegagerðar í Skorradal.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Útgáfa Veiðimálastofnunar (1948-2016)
Útgáfuár 2014
Leitarorð Fitjaá, urriði, bleikja, búsvæðamat, seiðaathuganir, malatekja
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?