Deplaháfur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Scyliorhinus canicula
Danish: Rødhai
Faroese: Reyðhávur
Norwegian: Rødhai
Swedish: Småfläckig rödhaj
Plish: Rekinek psi
English: Lesser spotted dogfish
German: Kleiner Katzenhai
French: Petite rousette
Spanish: Pintarroja
Portuguese: Pata-roxa
Russian: Morskoy pes

Ljósmynd vantar.

 

Deplaháfur er grannvaxinn og langvaxinn háfiskur. Hann hefur tvo gaddalausa bakugga. Sá fremri er aftan við kviðugga en sá aftari byrjar á móts við aftari rætur raufarugga. Sporðblaðka sveigist ekki upp á við. Nasaop eru stór og vel þroskuð og renna saman að nokkru leyti. Þau eru hulin sameiginlegri loku og ná næstum aftur að kjaftvikum. Augu eru blikhimnulaus. Hann getur orðið 100 cm á lengd.

Litur: Háfurinn er grárauður á baki og hliðum með mörgum svörtum smáblettum sem einnig eru á uggunum. Kviður er gulhvítur.

Heimkynni: Deplaháfur finnst í Miðjarðarhafi þar sem hann er algengur. Einnig er hann við vesturströnd Afríku suður til Senegal. Hann er að finna meðfram suðvestur- og vesturströndum Evrópu, umhverfis Bretlandseyjar, í Norðursjó, Skagerak og Kattegat og við Suðvestur-Noreg.

Deplaháfur hefur einu sinni fundist við Ísland. Í október árið 1966 veiddist einn á 90 m dýpi í norðanverðum Faxaflóa um 5 sjómílur SSA frá Hellnanesi á Snæfellsnesi.

Lífshættir: Deplaháfur er botnfiskur sem heldur sig mest á grunnu vatni og hefur hann veiðst á 3-110 m dýpi við Bretlandseyjar en 20-400 m í Miðjarðarhafi. Hann er einna algengastur á 10-100 m dýpi á sand-, malar- eða leirbotni.

Eins og flestir háfar þessarar ættar gýtur deplaháfurinn eggjum (pétursskipum), um 20 í einu, og eru þau smá eða um 5-7 cm á lengd og 2-3 cm á breidd. Þau eru fest við kóralla eða steina með löngum þráðum sem ganga út frá hornum pétursskipanna. Þessir þræðir eru meira en metri á lengd. Ungarnir eru um 10 cm við klak sem tekur um 8-10 mánuði og kynþroska er náð við 57-60 cm lengd.

Fæða er einkum skeldýr (kuðungar og samlokuskeljar) og krabbadýr (kuðungakrabbi, humar, rækja o.fl.) en einnig smáfiskar (urrari, sandkoli, síld, lýsa o.fl ).

Nytjar: Nytsemi er talsverð þar sem deplaháfurinn veiðist og er hann oft kallaður klettaáll eða klettalax.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?