Bretahveðnir

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Schedophilus medusophagus
Danish: Engelsk sortfisk
Swedish: Engelsk svartfisk
English: Cornish blackfish
German: Schwarzer Medusenfresser

Bretahveðnir er þunnvaxinn og hávaxinn fiskur, hauslítill og með stutt og snubbótt snjáldur. Kjaftur er lítill og fiskurinn er undirmynntur eða jafnskolta. Tennur eru litlar. Augu eru frekar lítil. Bakuggi er langur, nær frá haus og aftur á spyrðustæði og er hæstur um miðjuna. Raufaruggi er styttri og lægri en bakuggi. Sporður er stór og djúpsýldur. Spyrðustæði er grannt. Eyruggar eru litlir og kviðuggar minni. Hreistur er mjög smátt. Rák er greinileg og sveigist ofan við eyrugga. Bretahveðnir líkist svarthveðni talsvert í útliti en bakuggi er lengri og litur annar. Einnig minnir hann stundum dálítið á grálúðu við fyrstu sýn. Bretahveðnir verður um 60 cm. Sá stærsti á íslandsmiðum mældist 62 og veiddist í maí 1967 vestan Víkuráls.

Litur: Bretahveðnir er ljósrauð- eða brúnIeitur á lit.

Geislar: B: 45-51,- R: 25-31.

Heimkynni bretahveðnis eru í Miðjarðarhafi og Norður-Atlantshafi heimsálfa á milli.

Hann er undan Norðvestur-Afríku, við Asóreyjar og Madeira og vestur fyrir Bretlandseyjar. Flækingar þvælast til Noregs, Íslands og Austur-Grænlandsmiða. Hann hefur fundist á Nýfundnalandsmiðum (Stóra banka og Flæmska hattinum) og undan Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.

Hér fannst bretahveðnir fyrst rekinn í Grindavík í mars árið 1905. Síðan hafa allmargir veiðst á 370-1000 m dýpi frá Rósagarði vestur með Suðurlandi og allt norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Árið 1998 veiddust nokkrir tugir frá því í apríl til desember frá norðanverðum Rósagarði til Grindavíkurdjúps og nokkrir vestan Reykjaness allt vestur á móts við Látragrunn. Fiskar þessir voru 31-50 cm langir. Árið 2008 veiddust einnig margir bretahveðnar á svæðinu frá Rósagarði vestur á grálúðuslóð vestan Víkuráls.

Lífshættir: Bretahveðnir er miðsævis- og úthafsfiskur, algengastur á 300-900 m dýpi en hefur veiðst allt frá 15-20 m dýpi og einn veiddist í maí 1967 í botnvörpu á 770-1060 m dýpi á grálúðuslóðinni vestan Víkuráls. Hann mældist 62 cm langur og gæti verið sá lengsti og auk þess sá sem veiðst hefur á mestu dýpi.

Ungir fiskar, minni en 20 cm, finnast oft í slagtogi með hveljum í yfirborðslögum sjávar en eldri fiskar halda sig á meira dýpi.

Fæða er hveljur auk smákrabbadýra.

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?