Svartgóma

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Helicolenus dactylopterus
Danish: blåkjæft
Faroese: kjaftsvarti kongafiskur
Norwegian: blåkjeft
Swedish: blåkäft
English: black-bellied rosefish, red bream, blue mouth
German: Blaumaul, Drachenkopf
French: sébaste chèvre, sébaste dactyloptère
Spanish: boca negra, rascacio rubio
Portuguese: cantarilho-legítimo
Russian: Синеротый окунь / Sinerótyj ókun'

Svartgóma er frekar hávaxinn fiskur, þunnvaxinn, hausstór og stóreygður. Bil milli augna er stutt. Svartgóma líkist karfa talsvert í útliti og jafnvel lit en þekkist frá honum m.a. á því að kjaftur er endastæður. Einnig eru kambar á haus þroskaðri en á karfa. Lögun eyrugga er sérkennileg en í eftir hluta þeirra eru tveir óskiptir geislar og 9-10 óskiptir geislar sem þaktir eru himnu að hluta. Neðstu geislarnir eru himnulausir í endann. Bakuggi er einn langur. Fremri hluti hans er með broddgeislum en aftari hluti, sem er hærri, er með liðgeislum. Raufaruggi er miklu minni en bakuggi og andspænis honum aftanverðum. Í honum eru þrír broddgeislar fremst. Kviðuggar eru af meðalstærð. Hreistur nær fram á tálknalok og kinn. Sundmagi er enginn. Svartgóma getur náð 57 cm lengd en er sjaldan stærri en 40-46 cm.

Litur er rauður á baki en ljósari á hliðum og oft með þrjár til fimm blettóttar rendur sem mynda óreglulegt mynstur. Á tálknaloki er dökkur blettur. Tálknalok er ljóst, kjaftur og kok eru blásvört. Lífhimna er einnig blásvört.

Geislar: B: XII+12-13; R: III+ (4)5; hryggjarliðir:24-25

Lífshættir: Svartgóma er greinilega meiri hlýsjávarfiskur en karfinn. Hún er botnfiskur og er einkum á sand- og leirbotni á 156-1000 m dýpi en fullorðnir fiskar halda sig mest í landgrunnshallanum á 200-700 eða 800 m dýpi.

Fæða er einkum krabbadýr, smáfiskar eins og laxsíldir en einnig smokkfiskar, ígulker, slöngustjörnur og margt fleira.

Svartgóma gýtur lifandi afkvæmum í mars til júlí. Seiði og ungfiskar eru sviflæg.

Vöxtur er frekar hægur eins og hjá öðrum tegundum ættarinnar. Svartgóma getur náð um 30 cm lengd á 12 árum.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?