Stutti silfurfiskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Sternoptyx diaphana
Danish: Glas-sølvøkse
English: Diaphanous hatchet fish
French: Hache d'argent diaphane

Stutti silfurfiskur er hávaxinn og þunnvaxinn fiskur, með allstóran haus og mjög stór augu. Kjaftur er lóðréttur. Framan við bakugga er blaðlaga sagtenntur kambur. Aftan við bakugga er langur og lágur veiðiuggi og nær hann næstum á milli bakugga og sporðs. Raufaruggi er andspænis bakugga. Eyruggar eru í meðallagi stórir en kviðuggar smáir. Framan við kviðugga eru örsmáir gaddar sem vísa fram og svipaðir gaddar eru framan við raufarugga.

Ljósfæri eru undir neðri skolti, við kviðrönd (10 í beinni röð), ofan eyrugga (3), ofan raufar (3), við aftanverðan raufarugga (3 og eitt minna aðeins ofar) og á milli raufarugga og sporðs (4). Stutti silfurfiskur verður allt að 11 cm á lengd.

Litur: Stutti silfurfiskur er dökkur á lit á baki en silfraður á hliðum.

Geislar: B: 9-1l; R: 12-16,- hryggjarliðir: 29-30.

Heimkynni stutta silfurfisks hafa verið talin hinir hlýrri og tempruðu hlutar Atlantshafs, einkum á milli 45°N og 30°S, en hann er einnig í Kyrrahafi og Indlandshafi. Hann hefur fundist suðvestan Írlands og vorið 1995 veiddist einn 6 cm langur um 200 sjómílur suðvestur af Reykjanesi og var það þá nyrsti fundarstaður tegundarinnar. Í júní 2001 veiddist einn 4,6 cm á 160 m dýpi djúpt suður af landinu (61°29'N, 21°08'V) og annar 5 cm á 520 m dýpi á svipuðum slóðum (62°18'N, 20°13'V). Þá veiddist einn 5,5 cm í júlí sama ár á 500-800 m dýpi vestur af Garðskaga (63°14'N, 27°53'V). Einnig veiddust nokkrir utan Íslenskrar fiskveiðilögsögu í Grænlandshafi, m.a. djúpt suðaustur af Hvarfi í júlí árið 2001 svo og árið 2003 rétt utan fiskveiðilögsögunnar suðvestanlands sem og suðvestur af Hvarfi.

Lífshættir: Stutti silfurfiskur er úthafs- og miðsævisdjúpfiskur sem veiðst hefur á 160- 3600 m dýpi en hann er sjaldséður á meira dýpi en 1800 m.

Fæða er ýmis smákrabbadýr (krabbaflær, ljósáta) smáfiskar o.fl.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?