Skjóttaskata

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Amblyraja hyperborea
Danish: Arktisk rokke
Faroese: lógvaskøta, íshavsskøta
Norwegian: isskate
Swedish: isrocka
English: arctic skate, northern skate
German: Eisrochen
French: raie arctique, raie boréale
Spanish: Raya ártica
Russian: Скат северный / Skat sévernyj, Арктический {Северный} скат / Arktítsjeskij {Sévernyj} skat, Шиповатый скат / Shipovátyj skat, Полярный {Арктический} скат / Poljárnyj {Arktítsjeskij} skat

Helstu einkenni skjóttuskötu eru stuttur hali (eins og á tindaskötu og hvítaskötu) og röð af þykkum göddum eftir endilöngu miðju baki frá hnakka aftur á hala (að fremri bakugga). Fjöldi þessara gadda er 21-32. Á tindaskötu eru þeir 10 en 42-51 á hvítaskötu. Gaddar í nánd við aftari enda kviðuggagjarðar eru miklu stærri en þeir sem eru aftast á halanum. Milli bakugga er venjulega einn gaddur, sjaldan tveir eða enginn, Skjóttaskata er slétt að neðan. Trjóna er frammjórri en á tindaskötu og hvítaskötu. Í hvorum skolti 38-44 tennur í röð. Ungar skjóttuskötur líkjast pólskötu í útliti, en þekkjast m.a. á styttri hala og oddmjórri trjónu. Skjóttaskata verður um eða yfir 100 cm (113 cm skjóttaskata veiddist á Reykjaneshrygg sumarið 1997).

Litur er mjög einkennandi fyir skjóttuskötu. Neðri hliðin er dökkflekkótt og ljós eða hvít en að ofan er skjóttaskata blágrá eða brúngrá og oft með smáum, ljósum og dökkum dílum. Ungar skötur eru oft móbrúnar að ofan með dökkum dílum og gulleitar að neðan.

Lífshættir: Skjóttaskata er botnfiskur á leirbotni og hefur hún fundist á 185-255 m dýpi. Á Íslandsmiðum hefur hún veiðst niður á 1540 m dýpi en einna mest virðist um hana hér á 600-1000 m dýpi. Um got er lítið vitað en pétursskip eru um 8-12,5 cm á lengd og 5,6-8 cm á breidd og án þráða. Hafa þau meðal annars fundist á 460-800 m dýpi sunnan Vestmannaeyja (Sneiðin, janúar 1998) og fjöldi á 1060-1335 m dýpi austur af Langanesi (maí 1998). Seiði eru 15-16 cm við klak.

Fæða skjóttuskötu er ýmsir kaldsjávarfiskar, mjóri, ískóð, rauða sævesla og fleira og einnig rækja. Nytsemi er engin þótt skjóttaskata sé vel æt.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?