Skata

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Dipturus batis
Danish: Skade
Faroese: Skota
Norwegian: Glattrokke, Skate, Storskate
Plish: Raja gladka
English: Blue skate
German: Glattrochen
French: Pocheteau gris
Spanish: Noriega, raya noriega
Russian: Гладкий скат / Gládkij skat

Skatan er trjónulöng og barðabreið með hálfsnubbótt horn á börðum. Hali er stuttur og aftast á honum eru tveir vel aðskildir bakuggar. Kviðuggar eru litlir. Á ungum skötum eru stórir og óreglulegir gaddar umhverfis augu og ein röð á halanum. Þessir gaddar hverfa með aldrinum en í þeirra stað koma tvær til þrjár tindaraðir á halann. Eftir miðjum hala eru 12-18 gaddar en 1-8 misstórir gaddar, sem eru ekki alltaf greinanlegir, eru á hvorri halahlið.

Skata getur náð um 2,85 m lengd en er sjaldan lengri en 100-150 cm. Við Flatey á Breiðafirði veiddist óhemju stór skata, sem gæti hafa verið um 3 m löng, sumarið 1947 skv. munnlegri heimild Jóns Bogasonar, fyrrum rannsóknarmanns á Hafrannsóknastofnun.

Litur er grár, mó- eða gulgrár að ofan, oft með dökkum eða Ijósum blettum. Að neðan er skatan hvít- eða gráleit með hríslóttum, blá- svörtum rákum.

Heimkynni skötunnar eru í austanverðu Norður-Atlantshafi frá Norður-Noregi suður með strönd Noregs og inn í dönsku sundin og vestanvert Eystrasalt. Þá er hún í Norðursjó, umhverfis Bretlandseyjar og áfram suður allt inn í Miðjarðarhaf. Einnig meðfram ströndum Vestur-Afríku og suður til Senegal. Hún er við Færeyjar og Ísland.

Skatan er ekki við Grænland né Norður- Ameríku en við Bandaríkin og Kanada er önnur tegund náskyld og lík, hlemmskata (Dipturus laevis).

Við ísland hefur skatan fundist allt í kringum land en hún var algengari undan landinu suðaustan-, suð- og suðvestanverðu heldur en norðanlands og austan. Nú er hún hvergi algeng lengur.

Lífshættir: Skatan er botnfiskur sem flækist oft upp um sjó, væntanlega í leit að bráð og stundum sést hún við yfirborð. Hún lifir á 10- 1000 m dýpi en hér er hún mest á 100-200 m dýpi. Á vorin og sumrin gengur hún upp á grunnin og smáskatan allt upp á 10 m dýpi en með haustinu þegar kólna tekur dregur hún sig út á dýpið og veiðist þá sjaldan grynnra en á 100 m.

Skatan lifir á alls konar botndýrum, eins og krabbadýrum, burstaormum og fleiru, en stórar skötur eru þó fyrst og fremst fiskaætur og hafa fundist í skötumaga þorskur, ýsa, lýsa, keila, skarkoli, sandsíli, hrognkelsi og fleiri fisktegundir.

Hrygnur með þroskuð pétursskip hafa fundist undan suðurströndinni í febrúar til ágúst. Pétursskipin eru 11—25 cm löng (án þráða) og 5-15 cm breið og sægræn á lit en verða gul þegar þau þorna. Seiði eru 21 cm við klak. Vöxtur er hægur eins og hjá öðrum brjóskfiskum.

Nytjar: Skata er sums staðar í hávegum höfð sem matfiskur og eru Frakkar sennilega fremstir í flokki aðdáenda hennar. Íslendingar hafa veitt skötu lengur en elstu menn muna. Hún hefur verið veidd á handfæri, línu eða í botnvörpu og jafnvel net. Við étum skötuna kæsta eða saltaða en síður nýja upp úr sjó eins og útlendingar gera.

Á Íslandsmiðum varð skötuafli mestur árið 1951 en þá veiddust þar 2537 tonn. Mestur mun skötuafli Íslendinga hafa orðið árið 1958 en þá veiddum við 1274 tonn. Skötuafli á Íslandsmiðum hefur minnkað mikið á undanförnum árum og áratugum sem og annars staðar þar sem hún hefur verið veidd og er ofveiði m.a. kennt um. Einnig munu auknar veiðar á got- og uppeldisstöðvum hafa slæm áhrif á ungviði skötunnar. Víða er svo langt gengið að hún er talin vera í útrýmingarhættu.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?