Norræni silfurfiskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Argyropelecus olfersii
Danish: Olferts sølvøkse
Faroese: Silvuroks
Norwegian: Store perlemrfisk
Swedish: Pärlemorfisk, Olfers silveryxa
Plish: Topornik krepy
English: Olfer's hatchetfish
German: Silberbeil
Spanish: Hachita

Norræni silfurfiskur er lítill fiskur, mjög hávaxinn og þunnvaxinn. Hausinn er stór og kjafturinn einnig en tennur eru smáar. Í efri skolti vísa framtennur aftur en afturtennur fram. Fjöldi tanna sem vísa fram og aftur er breytilegur því tönnum fjölgar með aldrinum. Augu eru mjög stór og vita upp á við. Bolur er stuttur. Stirtla er grönn en alllöng. Bakuggi er fremst á stirtlu og framan hans er lágur kambur sem fer hækkandi aftur eftir. Aftan bakugga er langur og lágur veiðiuggi. Raufaruggi er ívið lengri en bakuggi andspænis veiðiugga og tvískiptur. Sporðblaðka er allstór, djúpsýld og hvasshyrnd. Eyruggar eru langir en kviðuggar litlir stubbar.

Ljósfæri prýða fiskinn víða og eru mest áberandi tvær raðir á kviði (12 í neðri röð og 6 í efri röð) auk 10 í tveimur aðskildum hópum (4 og 6) neðst á stirtlu og fjögurra á spyrðustæði. Þá eru tvö Ijósfæri á snjáldri, níu hvorum megin á gelgjubörðum og tvö við hvora eyruggarót. Norræni silfurfiskur verður allt að 10-12 cm á lengd.

Litur: Norræni silfurfiskur er dökkblár á lit að ofan, silfurgljáandi á hliðum og kviði, stirtluendi og sporðhorn eru svört. Ljósfæri eru perlugljáandi.

Geislar: B: (6+)8-10; R: 12,- hryggjarliðir: 34-40.

Heimkynni norræna silfurfisks eru í Norðaustur-Atlantshafi austan við 35°V, frá Vestur-Afríku til Noregs, Íslands og Grænlandsmiða suður fyrir Hvarf. Hann er ekki í Miðjarðarhafi en í Suður-Atlantshafi og sunnanverðu Kyrrahafi og a.m.k. einu sinni hefur hann veiðst við strendur Norður-Ameríku.

Á Íslandsmiðum veiddist þessi tegund fyrst árið 1885 og síðan hefur hennar orðið vart frá Rósagarði austan við landið þar sem einn veiddist í apríl árið 1956 til Suðvesturmiða, einkum á svæðinu á milli Dyrhólaeyjar og Reykjaness. Einnig er mikið af norræna silfurfiski sums staðar á djúpmiðum suðvestan Reykjaness en vegna smæðar sinnar veiðist hann ekki mikið í venjuleg veiðarfæri.

Lífshættir: Norræni silfurfiskur er úthafs- og miðsævisfiskur á 100-800 m dýpi og heldur hann sig gjarna á 200-300 m dýpi á nóttunni en 400-600 m á daginn.

Fæða hans er sennilega ýmsir smáfiskar og hefur 5 cm gulldepla fundist í maga eins norræna silfurfisks. Sjálfur verður hann öðrum fiskum að bráð. Um hrygningu og vöxt er lítið vitað. Þó hafa fundist 1000 egg í einni hrygnu og í Vestmannaeyjahöfn hefur rekið í einu 14 seiði, 2,5-3,5 cm á lengd.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?