Móra

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Mora moro
Faroese: morafiskur
Norwegian: mora
Swedish: moratorsk
English: common mora
French: moro commun
Spanish: mollera moranella
Portuguese: mora
Russian: Трескa глубоководная / Treská glubokovódnaja, Рибaльдо / Ribál'do, Мора / Móra

Móra er gildvaxinn og sívalur fiskur á bol. Haus er í meðallagi stór, snjáldur stutt og snubbótt. Augu eru stór og kjaftur allstór, undirmynntur. Tennur eru smáar og í breiðum í efri skolti. Á höku er skeggþráður. Fremri bakuggi er stuttur og fremsti geisli hans teygist aftur í stuttan þráð. Aftari bakuggi er langur, nær aftur að spyrðustæði. Hann er lægstur um miðuna. Raufaruggar eru tveir og vel aðskildir. Sporður er allstór og grunnsýldur. Eyruggar eru í meðallagi stórir en kviðuggar litlir og annar geisli þeirra lengstur. Hreistur er stórt. Rák er greinileg og sveigist lítillega upp yfir eyruggum. Móra getur orðið um 89 cm á lengd.

Litur er móbrúnn að ofan en grár að neðan. Á kjálkabarði er blár blettur. Uggar eru ljósbláir, kjaftur blásvartur að innan.

Geislar: B1; 7-9; B2: 42-46; R1: 16-19; R2: 15-22.

Heimkynni móru eru í Miðjarðarhafi og Norðaustur-Atlantshafi frá Norðvestur Afríku og Asóreyjum og vestur fyrir Bretlandseyjar og Færeyjar til Íslandsmiða. Þá hefur móra fundist í þorskmaga á Dohrnbanka við Austur -Grænland. Einnig hefur hún fundist í Indlandshafi sunnan Madagaskar, við sunnan og suðvestanverða Ástralíu, Nýja-Sjáland og undan Valpariso í Chile.

Hér við land veiddist hún fyrst á 250 m dýpi í Háfadjúpi haustið 1914 en þá veiddust tvær mórur, sem voru um 60 cm langar, á lóð. Á síðari árum hafa nokkrar veiðst undan Suður- og Suðvesturlandi.

Lífshættir: Móra er botn- og miðsævisdjúpfiskur sem veiðst hefur á 250-2500 m dýpi. Hér virðist móra vera algengust á 700-800 m dýpi en hefur veiðst niður á 1300 m. Fæða er einkum fiskar, krabbadýr og smokkfiskar. Um hrygningu er lítið vitað nema að egg og lirfur eru sviflæg.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?