Marangi

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Holtbyrnia macrops
Danish: storøjet skulderlysfisk
English: bigeye searsid

Marangi er lítill fiskur og frekar grannvaxinn og þunnvaxinn. Haus er í meðallagi stór, hreisturlaus og augun eru mjög stór. Raufaruggi byrjar á móts við miðjan bakugga og nær aftur fyrir hann. Sporður er stór og djúpsýldur. Eyr- og kviðuggar eru frekar litlir.

Ljósfæri eru augnaljós, undiraugnaljós, hökuljós, 7 gelgjuljós hvorum megin, hálsljós, eyruggarótarljós, brjóstljós, miðkviðarljós, ofankviðarljós, miðljós, eyruggaljós, ofanraufarljós, raufaruggaljós og spyrðuljós. Óljóst er hvort hausljós, tálknaloksljós og kviðuggaljós eru til staðar. Hins vegar vantar greinilega kverkarljós, hliðarljós, raufarljós og sporðljós. Marangi verður um 25 cm á Iengd.

Litur er dökkur.

Geislar: B: 18-21, R: 14-18.

Heimkynni: Í Norður-Atlantshafi hefur marangi veiðst við Kanaríeyjar, Madeira, Asóreyjar, í Biskajaflóa, á Íslandsmiðum og við Austur- og Vestur-Grænland (við Ammasalik og undan Fyllubanka) og suður til 5°S í Mið-Atlantshafi. Einnig finnst hann í austanverðu Suður-Atlantshafi.

Hér varð maranga fyrst vart í ágúst 1950 en þá veiddist einn á 460 m dýpi í Rósagarðinum undan Suðausturlandi. Í júlí 1994 veiddust fimm í Grænlandshafi suðvestur af Reykjanesi, í febrúar 1995 þrír, 14, 18 og 23 cm langir, á 620— 730 m dýpi á Reykjaneshrygg og þrír, 8-11 cm langir, á 440 m dýpi í janúar 1996 suðvestur af Reykjanesi. Einnig hefur hann veiðst djúpt undan Suðurlandi og á milli íslands og Grænlands.

Lífshættir: Maranginn er miðsævis og botnfiskur sem veiðst hefur á 100-1000 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?