Lýsingur

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
kolmúli
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Merluccius merluccius
Danish: kulmule
Faroese: lysingur
Norwegian: lysing
Swedish: kummel
English: hake, common hake
German: Hechtdorsch, Seehecht
French: merlu commun
Spanish: carioca, merluza europea, pescada, pescadilla
Portuguese: marmota, pescada-branca
Russian: Merlúza (jevropéjskaja)

Lýsingur er allstór fiskur, langvaxinn og sívalur. Haus er langur lengri en bolurinn. Stirtla er löng og sterkleg. Kjaftur, er stór, nær aftur á móts við mið augu og neðri skoltur er framteygður. Lýsingur hefur engan hökuþráð. Stórar og hvassar tennur eru í tveimur til þremur röðum á skoltum. Bakuggar eru tveir og sá fremri, sem byrjar á móts við eyruggarætur, er hár, stuttur og þríhyrndur en sá aftari, sem byrjar á móts við afturenda eyrugga er langur. Raufaruggi er einnig langur en þó ívið styttri en aftari bakuggi. Báðir eru þeir hæstir aftast. Sporðblaðka er allstór og þverstýfð fyrir endann. Eyr- og kviðuggar eru vel þroskaðir. Kviðuggar eru framan við eyrugga. Hreistur er í meðallagi stórt og rákin bein og greinileg. Lýsingur verður allt að 140 cm á lengd. Í febrúar 1983 veiddist einn 116 cm langur suðvestur af Surtsey og er hann sá stærsti sem sést hefur hér við land.

Litur er breytilegur, grábrúnn eða blár að ofan, silfurgrár eða ljós á hliðum og að neðan. Kjaftur er svartu að innan.

Geislar: B1: 9-11; B2: 36-40; R:36-40; hryggjarliðir: 51-53.

Heimkynni lýsings eru í Miðjarðarhafi og Svartahafi, norðaustanverðu Atlantshafi frá Marokkó inn í Biskajaflóa, við Bretlandseyjar og í Norðursjó inn í Skagerak og Kattegat og meðfram strönd Noregs. Hann flækist stundum til Færeyja og Íslands.

Hér var lýsings fyrst vart haustið 1910 en þá veiddust fjórir fiskar í botnvörpu þýsks togara á 150-170 m dýpi á Eldeyjarbanka.

Síðan hafa nokkrir veiðst allt frá Grindavíkurdjúpi austur á Hvalbaksgrunn.

Lífshættir: Lýsingur er miðsævis- og botnfiskur. Hann heldur sig miðsævis á nóttunni og er þá í fæðuleit en á daginn er hann við botn. Oftast heldur hann sig á 70-400 m dýpi, stundum dýpra.

Fæða er alls konar fiskar, t.d. kolmunni, smálýsingur, lýsa, spærlingur, makríll og síld og auk þess smokkfiskur og fleira. Ungir fiskar éta m.a. ljósátu. Hrygning fer fram á 100-300 m dýpi í desember til júlí. Hún hefst í Miðjarðarhafi og undan norðvestanverðri Afríku en færist síðan norður eftir til Skotlands og Norðursjávar. Eggjafjöldi er 2-7 miljónir. Egg og seiði eru sviflæg miðsævis. Í Miðjarðarhafi verða hængar kynþroska 3-4 ára og 25 cm langir en hrygnur 38 cm lagnar. Lýsingurinn verður kynþroska eldri og stærri á norðurslóðum. Hængar verða sjaldan stærri en 80 cm og hrygnur 100 cm, 10 kg og 20 ára.

Nytjar: Lýsingur er mikill nytjafiskur, einkum í Miðjarðarhafi. Hann er veiddur í botnvörpu og á línu og seldur flakaður, saltaður eða þurrkaður en einnig nýr og ísaður. Hrogn eru nýtt. Aðalveiðiþjóðir eru Spánverjar og Frakkar.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?