Lýsa

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Merlangius merlangus
Danish: hvilling
Faroese: hvítingur
Norwegian: hvitting
Swedish: vitling
English: whiting
German: Wittling
French: merlan
Spanish: merlán
Portuguese: badejo, corvelo
Russian: Mерланг / Merláng

Lýsa er langvaxinn og grannvaxinn fiskur, straumlínulaga og hæstur rétt framan við miðju. Haus er stór, trjóna og kjaftur í meðallagi og nær efri skoltur aðeins lengra fram en sá neðri. Tennur á skoltum eru stórar og hvassar. Augu eru stór. Mjög lítill hökuþráður er á höku. Bolur er mjög stuttur. Bakuggar eru þrír og er sá í miðið lengstur. Sporður er stór, eyruggar í meðallagi en kviðuggar frekar smáir. Hreistur er allstórt og þunnt. Rák er greinleg og sveigist aðeins yfir eyruggum og niður á móts við miðjan annan bakugga. Lengsta lýsa sem mæld hefur verið hérlendis var 79 cm hængur sem veiddist í mars árið 1996 á 159-181 m dýpi sunnan við Vestmannaeyjar (63°13´N, 20°32´V). Í mars árið 1986 veiddist 78 cm lýsa á 243-262 m dýpi suðvestur af Reykjanesi (63°27´N, 24°39´V) en lýsan er annars sjaldan lengri en 50-60 cm og algeng stærð er 30-40 cm. Þessar stóru lýsur virðast ekki hafa vakið neina sérstaka athygli því allt til ársins 2001 var 68 cm lýsan sem Bjarni Sæmundsson getur um í bók sinni Fiskarnir (1926) talin vera lengst lýsa hér við land og víðar.

Litur er nokkuð breytilegur, oftast grágrænn á baki með gullnu ívafi, silfurgljáandi á hliðum og mjólkurhvítur að neðan. Rák er grágræn eins og bakið. Við eyruggarætur er dökkur díll.

Geislar: B1: 12-16; B2: 18-25; B3: 19-22; R1: 30-38; R2: 20-25; hryggjarliðir: 54-57.

Heimkynni lýsu eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Norður-Noregi suður í Skagerak og Kattegat og inn í vestanvert Eystrasalt, í Norðursjó, Ermasundi, Biskajaflóa og suður til Portúgals. Hún er umhverfis Bretlandseyjar, við Færeyjar og Ísland. Þá hefur hennar orðið vart vestan Grænlands snemma á þessari öld (2004 og 2007). Undirtegundin Merlangius merlangus euxinus er í austanverðu Miðjarðarhafi frá Adríahafi og inn í Svartahaf. Lýsa er ekki við Grænland né í vestanverðu Norður- Atlantshafi. Hér við land er lýsa allt í kringum landið en er algengust í hlýja sjónum sunnan- og vestanlands frá Meðallandsbugt verstur til Reykjaness. Síðsumars árið 2003 bar talsvert á lýsu, m.a. í Eyjafirði.

Lífshættir: Lýsan er grunnsævisfiskur og botnfiskur á leir- og sandbotni líkt og ýsan. Ókynþroska fiskur heldur sig allt upp á 5-30 m dýpi en eldri fiskar á 30 til 200-300 m dýpi. Fæðan er ýmiss konar smáfiskar, eins og marsíli, sandsíli, trönusíli, loðna, spærlingur, smásíld og fiskseiði. Auk þess smákrabbadýr, eins og hrossarækja, burstaormar, skeldýr og fleira góðgæti.

Hrygning hér við land fer eingöngu fram í hlýja sjónum sunnan og suðvestanlands og einkum á svæðinu frá Ingólfshöfða að Snæfellsnesi á 30-60 m dýpi og við 6-7°C hita. Aðalhrygningarsvæðið er á milli Vestmannaeyja og Reykjaness og mest á Selvogsbanka. Hrygning byrjar í maí, mun síðar en hjá öðrum þorskfiskum hér við land og er lokið að mestu um miðjan júlí. Egg eru smá, um 1-1,3 mm í þvermál, sviflæg og er fjöldi þeirra um 100 þúsund til ein miljón eftir stærð hrygnu. Lýsuseiði, allt að 3 cm löng, leita oft skjóls undir hlíf marglyttna. Virðast þau ónæm fyrir eitri marglyttnanna eða hafa lag á að forðast brenniþræði þeirra. Þegar seiðin eru um 5 cm löng leita þau botns, bæði á hrygningarstöðvum og meðfram vestur- og norðurströndinni þangað sem þau berast með straumnum. Vöxtur er allhraður og getur lýsan orðið um 10 ára gömul. Kynþroska er náð þegar hún er tveggja til fjögurra ára gömul og 30-40 cm löng. Hrygnur vaxa hraðar en hængar og verða eldri.

Óvinir lýsunnar eru margir og sækja flestir stærri fiskar sem eru fiskaætur í hana og fuglar í seiðin.

Nytjar: Nytsemi er lítil hér á landi en víða erlendis er lýsan veidd og talin góð til átu, einkum í Englandi og Frakklandi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Meiri fróðleik um lýsu má finna hér.

Did you find the content of this page helpful?