Atlantshafslax (icelandic)

Lax (atlantshafslax)

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
Atlantshafslax
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Salmo salar
Danish: laks
Faroese: laksur
Norwegian: laks
Swedish: lax
English: Salmon, Atlantic salmon
German: Atlantischer Lachs, Lachs
French: saumon
Spanish: salmón común, salmón del Atlántico
Portuguese: salmão-do-Atlântico, salmão-europeu
Russian: Losós' atlantítsjeskij

Laxinn er rennilegur fiskur, straumlínulaga, þ.e. hæstur um miðjuna og mjókkar til beggja enda.

Haus er lítill og einnig augu en kjaftur er í meðallagi stór. Skoltar ná ekki aftur fyrir augu. Þeir eru jafnlangir fram (jafnskolta) þar til um hrygningartímann en þá fær hængurinn framteygðan og boginn neðri kjálka með uppsveigðum krók og er auðþekktur á honum. Tennur eru hvassar og sterklegar. Bakuggi er miðja vegu á milli trjónu og sporðs. Aftan hans er veiðiuggi andspænis raufarugga. Eyr- og kviðuggar eru vel þroskaðir og eru kviðuggar andspænis bakugga. Sporðblaðka er stór og sterkleg eins og hjá öllum miklum sundfiskum. Á ungum laxi er hún sýld. Hreistur er í meðallagi stórt og rákin er bein og greinileg. Lax getur orðið 150 cm langur og 50 kg á þyngd Lengsti lax sem hér hefur veiðst mældist 132 cm og veiddist við Grímsey í apríl árið 1957. Hann var 24,5 kg blóðgaður og 10 ára gamall. Oftast er laxinn 60-100 cm. Hængar eru stærri en hrygnur.

Litur er breytilegur eftir aldri. Á eldri laxi fer hann eftir því hvort laxinn er í sjó eða vatni. Í sjó og nýgenginn úr sjó er laxinn silfurgljáandi og blágrænn á baki, silfurgljáandi á hliðum og hvítur á kviði. Þá hefur hann svarta x-laga bletti eða díla á bakinu.

Í ferskvatni missir laxinn smám saman silfurlitinn og krossblettina en verður grænleitur eða brúnleitur og rauður og appelsínugulur með dökkum blettum eða doppum. Laxaseiðin eru dökkblá eða brún á baki með 8-11 þverröndum á hliðum og appelsínugula bletti á milli þverrandanna. Auk þess eru dreifðir blettir á bol og haus.

Geislar: B, 12-15,- R: 10-14; hryggjarliðir 58-61.

Heimkynni laxins eru beggja vegna í Norður-Atlantshafi milli 43 °N og 75°N. Að austan er útbreiðslusvæði hans upphaflega frá Barentshafi og Hvítahafi suður með Noregi, inn í Eystrasalt, í Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar, suður í Biskajaflóa og að Spáni og Portúgal norðanverðu. Hann er við Færeyjar, Ísland og Suðaustur- og Suðvestur- Grænland. Í norðvestanverðu Atlantshafi var útbreiðslusvæði hans frá Hudsonflóa í Kanada suður til Connecticut í Bandaríkjunum en útbreiðsla hans hefur víða dregist saman á síðustu áratugum vegna mengunar fljóta og virkjana. Reynt hefur verið að rækta hann í ám og vötnum í Bandaríkjunum allt suður til New York ríkis og einnig á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna og Nýja-Sjálandi.

Við Ísland er mikið um lax, einkum í ám sunnan-, vestan- og norðanlands en minna á Vestfjörðum og Austfjörðum. Af merkum laxveiðiám má nefna Ytri- og Eystri-Rangá, Elliðaárnar, Laxá í Kjós, Laxá í Leirársveit, Grímsá, Þverá, Norðurá, Langá, Laxá í Dölum, Miðfjarðará, Víðidalsá, Fitjá, Laxá á Ásum, Laxá í Aðaldal og Hofsá í Vopnafirði. Einnig jökulárnar Hvítá í Borgarfirði og Ölfusá en í þeim er mikil laxagengd og flestir þeir laxar sem þar eru ganga síðar upp í að rennandi bergvatnsár.

Lífshættir: Laxinn hrygnir í ám og vex þar upp í sjógöngustærð, þ.e. 10-15 cm og er þá 10-40 g á þyngd þegar hann gengur til sjávar að vori eða fyrri hluta sumars. Í sjó vex hann ört þar til kynþroska er náð enda eru fæðuskilyrði í sjónum miklu betri en í fersku vatni. Í nokkrum stöðuvötnum erlendis, eins og Vænisvatni í Svíþjóð, Ladóga í Rússlandi og í ýmsum vötnum á Labradorskaga og víðar, eru laxaafbrigði sem ganga aldrei til sjávar en ala allan aldur sinn í vötnum. Slíkir vatnalaxar verða aldrei eins stórir og frændur þeirra sem leita til sjávar.

Í sjó er laxinn uppsjávarfiskur sem lifir á ýmsum smáfiskum, svo sem loðnu og sandsílum, en einnig rækju, rauðátu og fleiri krabbadýrum auk smokkfisks. Fæðusvæði hans eru dreifð um allt norðanvert Norður-Atlantshaf en á nokkrum stöðum þar sem æti er mikið þéttist hann og magnið verður svo mikið að hagkvæmt hefur verið að veiða hann þar í reknet eða á línu. Helstu veiðisvæði í hafi hafa verið við Vestur-Grænland allt norður að Diskóflóa og í hafinu norður af Færeyjum á milli Íslands og Noregs.

Þegar hrygningartíminn nálgast heldur laxinn í átt til árinnar sem hann á rætur að rekja til og er ratvísi hans viðbrugðið. Áður en hann fer upp í ána til hrygningar dokar hann við í árósnum til að venjast seltuleysinu en síðan gengur hann rösklega upp í árnar. Þegar ferskvatnsdvölin lengist róast hann og leitar í djúpa hylji og lætur þá sem minnst á sér bera. Hann er feitur og sællegur þegar hann kemur upp úr sjónum en í ánum bíða hans erfiðir tímar. Fyrst er það sundið upp árnar og stökkin upp allt að þriggja metra háa fossa og loks hrygningin. Göngutíminn er mjög mismunandi. Hér við land byrjar laxinn að ganga í árnar í maí og er að því fram í september og fyrir kemur að stöku hrygnur skili sér ekki fyrr en í október og jafnvel nóvember. Hámark göngunnar er í júlí. Fyrst kemur stórlaxinn en síðar smálaxinn.

Á meðan laxinn er að ganga í árnar tekur hann litla sem enga fæðu til sín enda hafa kynfærin þanist út og þroskast á kostnað meltingarfæranna. Jafnframt breytist liturinn og laxinn fær eins konar brúðkaupsbúning. Hrygnurnar verða dökkmórauðar á baki, dökksilfurgráar á hliðum og sótrauðar á kviðinn að sjá. Á haus og ugga koma blettir. Hængar verða litflekkóttir og krókur kemur á neðri skoltinn.

Hrygning fer fram í ánum á tímabilinu september og fram í desember. Hrygnan velur rið á hálfs til eins metra dýpi í köldu og tæru vatni þar sem straumur er góður og smámöl í botni. Hún grefur síðan gryfju með snjáldri og sporði. Síðan koma hængarnir og nudda sér upp við hana og þá spýtast hrogn og svil samtímis niður í gryfjuna. Eggin loða við steina en þó berst nokkuð af þeim burt með straumnum og glatast. Hrygnan grefur síðan aðra holu ástreymis og sópar uppgreftrinum yfir hrognin. Sú athöfn endurtekur sig nokkrum sinnum í ljósaskiptunum kvölds og morgna.

Hrygndi laxinn er horaður og slæptur (niðurgöngulax, hoplax). Öll fita hefur eyðst og laxinn er varla annað en roð og bein og flestir drepast í ánni um veturinn. Þeir hoplaxar sem lifa af veturinn og komast aftur til sjávar braggast þar fljótt aftur og geta gengið í ána aftur til hrygningar. Hrygningin hefur sett mark sitt á laxinn og má sjá það á hreistrinu sem verður skorðótt og slitið í jaðarinn. Hreistrið vex áfram en ummerkin sjást og af því má greina hversu oft laxinn hefur hrygnt.

Hér við land er laxinn tveggja til fimm ára þegar hann gengur fyrst til sjávar. Síðan bætast við eitt til þrjú ár í sjó. Hrygningarlax er því oftast þriggja til sjö ára hér á landi.

Hrognin eru stór, um 5-7 mm í þvermál, en tiltölulega fá, aðeins 4-10 þúsund í hverri hrygnu. Klakið tekur nokkra mánuði við 1-3°C og klekjast seiðin ekki út fyrr en á tímabilinu frá mars og fram í maí. Þau eru þá 2,5 cm löng og með kviðpoka. Kviðpokaseiðin halda sig í mölinni fram á mitt sumar og lifa í fyrstu á kviðpokanæringunni en þegar hún er uppurin verða þau að fara að afla sér fæðu. Fæða seiðanna er þá einkum lirfur og púpur vorflugna og mýflugna, smákrabbadýr o.fl. Vöxtur seiðanna er mishraður og fer eftir vatnshita og fæðuframboði. Þegar seiðin yfirgefa árnar taka þau á sig fullorðinsbúning, verða silfruð og seltuþolin. Þá eru þau kölluð gönguseiði og halda þau venjulega til hafs frá í maí og fram í júlí. Þar taka þau að vaxa hraðar og getur laxinn allt að hundraðfaldast að þyngd á fyrsta ári í sjó. Meðalþyngdin eftir eitt ár í sjó er um 2,5 kg. Síðan heldur laxinn sig í sjónum eitt til þrjú næstu árin og fer stærð göngulaxins mjög eftir því hve mörg ár hann er í sjó.

Óvinir laxins eru margir. Í ánum eru hrognin étin af öðrum vatnafiskum og seiðin eru bráð fyrir stærri fiska, fugla og mink. Í sjónum eru það fiskar eins og hákarl, skata, þorskur, ufsi, blálanga, túnfiskur, lúða og fleiri sem sækja í lax. Einnig ofsækja hann háhyrningar og höfrungar og ekki má gleyma selnum sem fylgist vel með þegar laxinn fer að ganga í árnar og étur mikið af honum. Hrygningarlaxinn verður mjög fyrir áreitni fugla, einkum veiðibjöllu og jafnvel arnar. Auk þess ásækja laxinn alls konar sníkjudýr bæði innvortis og útvortis. Sæsteinsugan sest á hann og sýgur úr honum blóð. A tálknum og í kjafti eru krabbasníkjudýr, í innyflum bandormar og annar ófögnuður. Þá má geta sveppa og sýkla sem setjast í sár og svo framvegis. Síðast en ekki síst má geta mannsins og mengunarinnar.

Nytjar: Nytsemi af laxi er mikil. Laxinn er ýmist veiddur í sjó eða í ám og vötnum. Hér við land er öll veiði í sjó bönnuð. Aðeins er leyft að veiða lax í fersku vatni en þar er hann ýmist veiddur á stöng, í net eða gildrur. Í Eystrasalti hefur lax verið veiddur í reknet og á línu. Við Grænland var mikið veitt af laxi í sjó. Víða er lagt í mikinn kostnað við laxeldi í ám og á árunum 1962-1998 lögðu Íslendingar stund á hafbeit frá hafbeitarstöðvum og voru þeir brautryðjendur í hafbeit með Atlantshafslax en hafbeit með ýmsar tegundir Kyrrahafslaxa var orðin þróuð atvinnugrein í Bandaríkjunum og Japan á þessum tíma. Við hafbeit notfæra menn sér þá venju laxins að hann gengur alltaf í heimaána. Er þá gönguseiðum sleppt í miklu magni beint úr frárennsli eldisstöðva eða jafnvel frá laxlausum ám. Síðan snýr laxinn aftur á þann stað þar sem honum var áður sleppt. Reynt er að setja hafbeitarstöðvar fjarri veiðiám til að minnka villu hafbeitarlaxa í árnar. Einnig má nýta hafbeit til þess að byggja upp laxveiði í laxlitlum ám og hefur það m.a. verið gert í Ytri- og Eystri-Rangám í Rangárvallasýslu en þar var mesta laxveiði á stöng sumarið 1990. Lækkandi verð á laxi vegna vaxandi matfiskeldis o.fl. hefur kippt stoðunum undan rekstri hafbeitarstöðvanna. Þegar umfang þessara stöðva var mest hérlendis voru starfræktar nokkrar stórar stöðvar við Breiðafjörð (í Hraunsfirði, Lárósi) og Faxaflóa (Kollafirði og Vogum á Vatnsleysuströnd) auk fáeinna smærri stöðva.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Nánari umfjöllun um laxinn má sjá hér.

Einnig má sjá upplýsingar um lax- og silungsveiði hér.

 

 

Did you find the content of this page helpful?