Langa laxsíld

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Notoscopelus kroyeri
Danish: Krøyers prikfisk
Faroese: mjái prikkafiskur
Norwegian: stor lysprikkfisk
Swedish: större prickfisk
English: Lancet fish
German: Kroeyers lanternfisch
French: lanterne de Kroeyer
Russian: Северный нотоскопел / Sévernyj notoskopél

Langa laxsíld er dökkbrún, langvaxin og þunnvaxin. Hún er með stóran haus og kjaft skoltar ná langt aftur fyrir stór augu. Bolurinn er aðeins lengri en hausinn en stirtla mun lengri. Bakuggi er langur- lengri en á öðrum laxsíldartegundum á Íslandsmiðum en raufaruggi er aðeins styttri. Veiðiuggi er rétt aftan við bakugga og nær honum að sporði. Eyruggar eru stuttir – ná tæplega að rótum kviðugga sem eru svipaðir eyruggum að stærð.

Ljósfæri eru neðriskoltsljós, augnljós, forljós, eyruggaljós og það fremsta vel yfir eyruggarótum, fjögur til fimm brjóstljós, fimm raufarljós, átta raufaruggaljós og ekkert þeirra upphækkað, tvö eða þrjú hliðarljós lárétt, sex spyrðuljós. Þá eru ljóskirtlar undir eyruggaljósi og kviðuggaljósi og framan við fyrsta raufaruggaljós. Fullorðnir hængar eru með ljóskirtla ofan á spyrðustæði sem skiptast í hreisturlaga flögur. Langa laxsíld getur náð um 17 cm lengd.

Geislar: B: 21-25; R, 17-20; hryggjarliðir: 38-40.

Heimkynni löngu laxsíldar eru í Norður- Atlantshafi, frá Suður-Spáni og vestur fyrir Bretlandseyjar til Noregs og Íslandsmiða, Suðaustur- og Vestur-Grænlands, Labrador og suður fyrir Nýfundnaland.

Hér varð hennar fyrst vart úr maga löngu sem veiddist í Hafadjúpi í júlí arið 1914. Síðan hefur hún veiðst alloft sunnan og vestan Íslands og er hún víða mjög algeng a djúpmiðum þar.

Lífshættir: Langa laxsíld er úthafs- og miðsævisfiskur sem veiðst hefur frá yfirborði niður á meira en 1000 m dýpi.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?