Keila

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Brosme brosme
Danish: almendelig brosme
Faroese: brosma
Norwegian: brosme
Swedish: lubb
English: cusk, torsk, tusk
German: Brosme, Lumb
French: brosme
Spanish: brosmio
Portuguese: bolota, lobina
Russian: Менёк / Menjók

Keila er langvaxinn, sívalur, hauslítill og trjónustuttur fiskur. Kjafturinn er lítill og tennur fremur smáar. Skeggþráður er á höku. Augu eru smá. Bakuggi er einn og langur, hann byrjar á móts við miðja eyrugga. Raufaruggi er rúmlega helmingur af lengd bakugga. Sporðblaðka er fremur lítil, bogadregin fyrir endann og skýrt afmörkuð frá bak- og raufarugga. Eyr- og kviðuggar eru í meðallagi stórir. Rákin er greinileg og liggur ofarlega á bolnum en sveigir niður á miðja stirtlu. Keilan verður sjaldan lengri en 90 cm, en sú lengsta sem vitað er um mældist 120 cm og veiddist í utanverðu Háfadjúpi (63°14'N, 20°04'V) í maí 1987.

Litur keilunnar er breytilegur eftir umhverfi, oft grámórauður eða móleitur að ofan, mógulur á hliðum og ljós að neðan. Eftir endilöngum bak- og raufaruggum og fyrir enda sporðblöðku er dökkleit rönd, ljós í jaðarinn.

Geislar: B: 93-107; R, 62-77; hryggjarliðir: 62-75.

Heimkynni keilu eru í Norður-Atlantshafi og vestanverðu Barentshafi, frá Múrmansk í norðri suður með Noregi og inn í Skagerak og Kattegat og norðanverðan Norðursjó. Þá er hún vestan Írlands og norðan og vestan Skotlands til Færeyja og Íslands. Hún er við sunnanvert Grænland og Norður-Ameríku frá Nýfundnalandsmiðum og Nýja-Skotlandi til Þorskhöfða (Cape Cod).

Hér við land er keila allt í kringum landið en hún er algengust suðaustan-, sunnan- og suðvestanlands. Smákeila elst meðal annars upp undan Norður- og Austurlandi.

Lífshættir: Keila er botnfiskur sem heldur sig á 20-1000 m dýpi, einkum á 200-500 m - þær eldri dýpra - og mest á hörðum botni, þ.e. grýttum botni eða hrauni, en síður á leirbotni.

Fæða keilu er alls konar krabbadýr, eins og humar, trjónukrabbi, humrungur, tenglingur og augnasíli, auk fiska eins og spærlings og smákarfa, og fleira.

Hrygning fer fram á um 200-400 m dýpi hér við land í apríl til júlí. Hér hrygnir hún einkum á útjöðrum landgrunnsins undan Suður- og Suðvesturlandi ásamt löngu og ufsa. Einnig fer hrygning fram grynnra og nálægt landi suðvestanlands. Stærð eggja er 1,2-1,5 mm eða álíka og þorskeggja. Þau klekjast svífandi og er lirfan um 4 mm við klak. Þegar lirfurnar eru um 2 cm langar hafa þær fengið á sig mynd foreldranna að mestu leyti nema hvað kviðuggarnir eru klofnir í þrjár svartar álmur. Seiðin halda sig yfirleitt nokkra tugi metra undir yfirborði sjávar. Í lok ágúst eru seiðin orðin 5-6 cm löng og kviðuggarnir hafa smækkað. Þá leita þau líklega botnsins á miklu dýpi. Á meðan á sviflífinu stendur berast seiðin oft langt á haf út og eru þar í félagsskap seiða annarra fisktegunda. Einnig hrygnir keilan við Lófót í Noregi, í norðanverðum Norðursjó, norðan og vestan Skotlands, á Rockallgrunni og við Færeyjar, sem og í vestanverðu Norður- Atlantshafi.

Keilan verður kynþroska 45-60 cm löng og er þá 8-10 ára gömul. Hún getur orðið a.m.k. 20 ára.

Óvinir keilunnar eru margir, m.a. langa, blálanga, skata, stórlúða, hákarl og fleiri háfiskar. Þá ásækja hana alls konar sníkjudýr, meðal annars hringormar.

Nytjar: Árlega veiðist nokkuð af keilu, einkum á línu en einnig sem aukaafli í botnvörpu, í norðaustanverðu Atlantshafi. Aðalveiðisvæðin eru vestan Noregs, við Ísland og Færeyjar og aðalveiðiþjóðir eru Norðmenn, Færeyingar og Íslendingar.

Árið 1980 komst keiluaflinn í norðaustanverðu Atlantshafi í 49 þúsund tonn og hefur ekki orðið meiri. Mestur varð keiluaflinn á Íslandsmiðum 12.316 tonn árið 1960 og afli Íslendinga það árið varð 7.804 tonn sem er mesti keiluafli okkar til þessa.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?