Karfalingur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Setarches guentheri
English: Guenther´s (deepwater) scorpion fish, Midwater scorpionfish

Karfalingur er smár fiskur, hávaxinn, þunnvaxinn og hausstór og líkist karfa mjög í vexti. Haus er hreistraður að ofan. Á vangabeini eru fimm áberandi gaddar og vísar sá efsti örlítið upp á við, annar og þriðji gaddur vísa aftur og fjórði og fimmti niður. Fyrir neðan augu og aftur að efsta gaddi vangabeins er eins konar beinhryggur. Á skoltum eru örsmáar tennur. Uggar eru allir vel þroskaðir. Broddgeislar eru í fremri hluta bakugga og raufarugga. Eyruggar eru mjög stórir og ná aftur að eða aftur fyrir fremri rætur raufarugga. Rætur kviðugga eru undir eyruggarotum. Hreistur er smátt diskahreistur og rák er greinileg og greypt í roðið. Sundmaga vantar eða hann er ummyndaður. Karfalingur getur orðið 27 cm á lengd.

Litur: Karfalingur er brúnleitur á lit og með rauðleitum blæ. Geislar í eyruggum eru rauðir. Munnhol er dökkt og lífhimna og innyfli fölleit.

Geislar: B: Xl-Xll+9-l 1; R: 111+5-7; E: 18-19(20).

Heimkynni: Karfalingur hefur veiðst í norðaustanverðu Atlantshafi við Afríku frá Síerra Leóne til Kamerún, í norðvestanverðu Atlantshafi undan Nýja-Skotlandi Flórida og við Púertó Ríkó, Hondúras og Kólumbíu. Einnig í Kyrrahafi undan Hawaii, við Galapagoseyjar og undan Perú. Og nú er hann farinn að veiðast á Íslandsmiðum.

Í apríl árið 1994 veiddist 18 cm karfalingur á 695 m dýpi á grálúðuslóð vestan Víkuráls (64°40'N, 27°27'V). Þá veiddist annar, 20 cm langur, á 512-641 m dýpi í kantinum sunnan og suðvestan Surtseyjar í nóvember árið 1995. Sá þriðji, 16,5 cm langur veiddist sunnan Vestmannaeyja (62°59'N, 20°42'V) í janúar árið 1998. Í byrjun mars árið 2002 veiddist sá fjórði á 732-824 m dýpi á grálúðuslóð vestan Víkuráls (65°43'N, 27°44'V). Hann mældist 27 cm og er hann sá stærsti á Íslandsmiðum og víðar. Í apríl sama ár veiddist sá fimmti á 600 m dýpi í Skerjadjúpi (62°51 'N, 24°05'V). Hann var 17 cm langur. Allir þessir fiskar veiddust í botnvörpu. Sá sjötti veiddist í flotvörpu á 732 m dýpi í maí 2002 djúpt suðvestur af Reykjanesi (62°28'N, 26°55'V) og var hann 20 cm langur. Í maí 2006 veiddist einn 19 cm í flotvörpu djúpt vestur af Reykjanesi (62°50'N, 27°00'V).

Þegar karfalingur veiddist fyrst á Íslandsmiðum var hann talinn tilheyra tegundinni Setarches guentheri og var greint frá honum sem slíkum. Sú tegund hefur m.a. veiðst við Madeira, norðvestanverða Afríku og í öllum heimshöfum og er útbreiddasta tegund karfaættar.

Lífshættir: Karfalingur er úthafsfiskur sem heldur sig miðsævis og við botn eða í botnnánd, mest á 300-800 m dýpi en hefur veiðst niður á 2000 m dýpi. Um fæðu og hrygningu er lítið vitað. Þó hafa fundist leifar smákrabbadýra í maga karfalings.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?