Gulldepla

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Maurolicus mülleri
Danish: laksesild
Faroese: lakssild
Norwegian: laksesild
Swedish: laxsill
English: Pearlside
German: Lachshering, Leuchtsardine
French: maurolique de Mueller
Russian: Мавролик Мюллера / Mavrolík Mjúllera, Мауролик / Maurolík

Gulldepla er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Haus er stór en kjaftur frekar lítill og skástæður og nær ekki aftur að augum. Augu eru stór. Bakuggi er stuttur og aftan við miðju. Aftan hans er langur og lágur veiðiuggi. Raufaruggi er langur og byrjar á móts við aftari rætur bakugga. Sporðblaðka er allstór og djúpsýld. Eyruggar eru miðlungsstórir en kviðuggar frekar litlir. Hreistur er stórt og fellur auðveldlega af en rák er ógreinileg.

Á gelgjubörðum eru sex Ijósfæri hvorum megin og fimm á lífodda. Þá eru ljósfæri í tveimur röðum á kviði, 9 í efri röð og 12 í neðri. Sex Ijósfæri eru á milli kviðugga og raufarugga, yfir raufarugga eru 16 ljósfæri og 8 á milli hans og sporðblöðku. Eitt ljósfæri er yfir rauf hvorum megin. Gulldepla verður allt að 7-8 cm á lengd.

Litur: Gulldepla er dökkbilá á lit, græn eða móbrún á baki, silfurhvít á hliðum og kviði. Ljósfæri eru bláhvít í svartri umgjörð. Á þetta slær síðan silfur- eða gullslikju.

Geislar: B: 9-12; R, I 9-24; hryggjarliðir: 33-35.

Heimkynni gulldeplu eru í vestanverðu Miðjarðarhafi og Atlantshafi frá 5°S til 70° N. Í norðanverðu Atlantshafi finnst hún við Bretlandseyjar, í Norðursjó, Skagerak, Kattegat, við Noreg og Ísland, m.a. langt suðvestur af landinu, og að vestan frá Maineflóa til Mexíkóflóa og í Karíbahafinu. Hefur orðið vart við Suðvestur-Grænland.

Hér við land verður gulldeplu einkum vart suðaustan-, sunnan- og suðvestanlands og í apríl árið 2002 veiddust m.a. um I0 tonn af gulldeplu í 3,5 klukkustunda löngu togi í flotvörpu á 200 m dýpi djúpt suðvestur af Reykjanesi (63°I5'N, 26°44'V). Gulldeplu verður stundum einnig vart norðanlands og í janúar og febrúar árið 1980 var óvenju mikið um hana við Norðurland, þar á meðal í Öxarfirði.

Lífshættir: Gulldepla er miðsævisfiskur sem heldur sig mest á 100-200 m dýpi á nóttunni og 200-500 m dýpi á daginn. Hún veiðist einnig grynnra og dýpra, allt niður á 1500 m.

Fæða hennar er einkum ýmiss konar svifkrabbadýr eins og krabbaflær og ljósáta. Sjálf verður gulldeplan ýmsum fiskum að bráð, svo sem þorski, ufsa, síld og fleirum.

Gulldepla verður kynþroska eins árs gömul og er þá 2-3 cm löng. Hún hrygnir norðan 40° N að vori og sumri, í Miðjarðarhafi allt árið um kring. Eggjafjöldi er 200-500 og þau eru 1,3-2,0 mm í þvermál og sviflæg. Gulldepla getur orðið fjögurra ára gömul. Tilraunaveiðar á gulldeplu hófust árið 2008 og árið 2009 voru veidd um 46 þúsund tonn af gulldeplu á Íslandsmiðum.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?