svartaspraka (icelandic)

Grálúða

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
svartaspraka
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Reinhardtius hippoglossoides
Danish: hellefisk
Faroese: svartkalvi
Norwegian: blåkveite, svartkveite
Swedish: svart hälleflundra, Grönlandsk hälleflundra, liten hälleflundra
English: Greenland halibut, Greenland turbot, mock halibut, blue halibut, Newfoundland halibut
German: Schwarzer Heilbutt
French: flétan du Groenland, flétan noir commun
Spanish: halibut negro, hipogloso negro
Portuguese: alabote-da-Gronelândia, alabote-negro, palmeta-da-Gronelândia

Grálúða líkist lúðu allmjög í vexti. Hægri hlið snýr upp en vinstra auga er á hausröndinni. Kjaftur er allstór og tennur hvassar. Neðri skoltur er sterklegur og framteygður. Bakuggi byrjar aftan við aftari enda vinstra auga. Hreistur er smátt. Rák er bein og sveigist upp yfir eyruggum. Grálúða getur orðið 123 cm en á Íslandsmiðum eru grálúður stærri en 100 cm sjaldséðar. Stærsta grálúða sem hér hefur veiðst sást á Faxamarkaði í maí 1992 og mun hún hafa veiðst á grálúðuslóðinni vestan Víkuráls. Hún var 122 cm og um 20 kg á þyngd.

Litur: Grálúða er dökkbrún, dökkgrá eða rauðgrá á hægri hlið en grá eða Ijósrauðgrá á vinstri hlið sem snýr niður. Hvítar og rauðgular grálúður sjást einnig.

Geislar: B, 83-108; R, 62-79; hryggjarliðir: 60-64.

Heimkynni grálúðu eru í Norður-Atlantshafi og Barentshafi frá suðvestanverðum Svalbarða að Múrmansk og Finnmörku, meðfram ströndum Noregs suður til Björgvinjar. Hún er við Færeyjar og Ísland og við Austur- og Vestur-Grænland, við strendur Norður- Ameríku frá Baffinslandi og Labrador til hallans suðvestur af Georgsbanka undan Woods Hole og flækingar suður á móts við Newjersey. Grálúðan í Norður-Atlantshafi skiptist í nokkra stofna. Einn stofn er í Barentshafi, annar er við Austur-Grænland, Ísland og Færeyjar.

Í norðvestanverðu Atlantshafi er staða stofna nokkuð óljós. Við Nýfundnaland og í Davissundi er stofn og svo virðist sem nokkrir staðbundnir innfjarðastofnar séu við vesturströnd Grænlands. Í Norður-Kyrrahafi er grálúða frá Aljútaeyjum til Kamtsjatka, Sakhalín og Japan og er hún stundum talin vera undirtegund, Reinhardtius hippoglossoides matsurae.

Við Ísland hefur grálúða fundist allt í kringum landið en hún er þó afar sjaldséð undan suðurströndinni. Hún er algengust í köldum djúpsjó undan Vestur-, Norður- og Austurlandi.

Lífshættir: Grálúða er botnfiskur á leirbotni en hún flækist einnig mikið upp um sjó og er sú flatfisktegund hér sem virðist vera einna minnst háð botnlífinu. Merkingar hafa sýnt að grálúða flækist frá Íslandsmiðum til Færeyja, Hjaltlands og Barentshafs og frá Grænlandi til Íslands.

Fæða grálúðunnar er alls konar fiskar eins og loðna, mjórar, ískóð, kolmunni, karfi, hveljusogfiskur, rauða sævesla og fleiri en einnig krabbadýr eins og rækja, ísrækja, Ijósáta og marflær, auk þess smokkfiskur og fleira. Sjálf verður hún hákarli að bráð. Einnig éta mjaldur og náhvalur grálúðu.

Flestar grálúður verða kynþroska 8-12 ára gamlar en sumar þó fyrr, einkum hængar. Vitað er að grálúða hrygnir snemma árs á 600-1000 m dýpi í Davissundi við Vestur-Grænland. Undan vesturströnd Norður-Noregs og norður í Barentshafi hrygnir hún einkum á 600-900 m dýpi í landgrunnshallanum á milli 70°N og 75°N. Á þessum svæðum hrygnir grálúða í október til janúar.

Grálúðan hrygnir í landgrunnshallanum vestur af Íslandi á um eða yfir 1000 m dýpi.

Þetta kunna að vera aðalhrygningarstöðvar grálúðu við landið en Iíkur eru taldar til að hún hrygni einnig á Íslands-Færeyjahryggnum. Sviflægra seiða hefur einkum orðið vart í úthafinu milli Íslands og Grænlands og við Austur-Grænland. Ekki er Ijóst hvar seiðin alast upp. Eina svæðið þar sem mjög smáar grálúður hafa fundist í einhverju magni er við Suðvestur-Grænland en ekki er Ijóst hvaðan sá fiskur er kominn.

Að lokinni hrygningu vestur af landinu heldur grálúðan í fæðuleit norður og austur fyrir land. Í apríl og maí er hún djúpt undan Vestfjörðum og í júní og júlí er hún komin á djúpmið undan Norðurlandi.

Egg og seiði eru sviflæg og eru seiðin orðin um 7 cm löng þegar myndbreytingu er lokið og þau hverfa til botnlífsins.

Nytjar: Um langt skeið stunduðu Sovétmenn, Austur-Þjóðverjar og Vestur-Þjóðverjar grálúðuveiðar í Norður-Atlantshafi, m.a. við Ísland. Það var þó ekki fyrr en árið 1969 sem Íslendingar fóru að gefa grálúðu gaum að einhverju ráði.

Grálúðuaflinn í norðaustanverðu Atlantshafi varð mestur rúm 98 þúsund tonn árið 1971. Á Íslandsmiðum varð hann mestur rúm 59 þúsund tonn árið 1989. Þar af veiddu Íslendingar tæp 58.500 tonn sem er mesti grálúðuafli okkar til þessa. Árið 1998 var grálúðuaflinn á Íslandsmiðum kominn niður fyrir 11 þúsund tonn en hann hefur aukist eftir það.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?