Gljáháfur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Centroscymnus coelolepis
Danish: portugisisk haj
Norwegian: dypvannshå
English: Portuguese dogfish, Portuguese shark
German: Portugieserhai
French: pailona, pailona commun
Spanish: pailona
Portuguese: carocho, pailona-preta
Russian: ortugál'skaja akúla

Gljáháfur er langvaxinn með sívalan bol og allgildvaxinn. Engir hliðarkilir eru á spyrðustæði né skörð í sporði. Haus er stór og trjóna þykk og ávöl og áberandi stutt. Kjaftur er örlítið bogadreginn og breidd hans um tvöföld lengdin á milli nasanna og örlítið meiri en fjarlægðin frá trjónu að kjafti. Raufar við kjaftvikin eru mjög stórar og því er unnt að þenja ginið mikið út. Tennur í efri og neðri skolti eru mjög ólíkar. Í þeim efri eru framtennurnar mjóar og einyddar en breiðar og tvíyddar i þeim neðri. Tálknaop eru smá, miklu minni en hjá svartháfi. Þau eru öll jafnlöng og jafnt bil á milli þeirra. Fimmta og aftasta tálknaopið er rétt framan við eyrugga. Húðtennur eru mjög smáar nema á uggum og neðan á haus framan við tálknin og skarast svo þétt að þær mynda samhangandi brynju. Fremri bakuggi er lítill. Aftari bakuggi gaddar ná svo stutt upp úr húðinni framan ugganna að þeir eru illgreinanlegir. Í maí 1992 veiddist 120 cm langur gljáháfur djúpt vestur af Reykjanesi (63°55'N, 27°06'V). Er hann sá lengsti sem þekkist.

Litur er yfirleitt dökkbrúnn en kjafthol hvítt.

Heimkynni gljáháfs eru í landgrunnshalla Norðaustur-Atlantshafsins, frá Íslandsmiðum um Færeyjar og vestur fyrir Bretlandseyjar til Madeira, Asóreyja, í vestanverðu Miðjarðarhafi og suður til Senegal í Afríku. Einnig við Suður-Afríku. Hefur orðið vart við Suðaustur- Grænland og í Baffinssundi undan Vestur- Grænlandi. Í norðvestanverðu Atlantshafi lifir gljáháfur frá Massachusetts í Bandaríkjunum til Stórabanka við Nýfundnaland. Hann hefur einnig fundist við Kúbu og í vestanverðu Kyrrahafi.

Hér varð hans fyrst vart í byrjun nóvember árið 1921 en þá rak hrygnu með 14 stór fóstur á fjörur við Grindavík. Síðan hefur hann veiðst nokkrum sinnum og mun hann vera nokkuð algengur djúpt í Berufjarðarál, undan Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi og finnst hann allt norður í sunnanvert Grænlandssund.

Lífshættir: Gljáháfur er sennilega hægfara djúp- og botnfiskur sem þvælist stundum miðsævis. Hann hefur veiðst á 270-3675 m dýpi en er sjaldséður grynnra en 400 m. Hér hefur hann veiðst niður á meira en 1500—1600 m dýpi. Hann virðist vera algengastur á um 800— 1100 m dýpi.

Fæða er einkum ýmsir fiskar svo sem gjölnir, gulllax og langhali en einnig smokkfiskur. Þá hafa fundist stykki af hvalkjöti og spiki í maga gljáháfa á Íslandsmiðum svo hann fúlsar ekki við hræjum sem á vegi hans verða því varla ræðst hann á hvali í fullu fjöri þótt kröftugur sé.

Nytjar: Gljáháfur er sums staðar veiddur í botnvörpur, net eða á línu og nýttur í mjöl eða þurrkaður og saltaður. Hér er hann þó sjaldnast hirtur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?