Dvalfiskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Remora remora
Danish: Almindelig sugefisk
Norwegian: Sugefisk
Swedish: Sugfisk
Plish: Remora
English: Shark sucker
German: Schiffshalter
French: Rémora
Spanish: Rémora
Portuguese: Rémora

Dvalfiskur er langvaxinn og sívalur fiskur með stóra sogflögu á haus og aftur á hnakka. Sogflaga þessi er ummyndaður fremri bakuggi og mynduð úr 17-19 beinflögum sem samsvara uggageislum. Nær sogflagan frá enni og aftur fyrir eyruggarætur. Er fiskurinn auðþekktur á þessari sogflögu. Haus er allstór og flatur. Neðri skoltur er framteygður og nær fram fyrir efri skolt. Kjaftur er í meðallagi stór og tennur eru smáar. Augu eru stór. Bolur er stuttur og tiltölulega digur. Aftari bakuggi og raufaruggi eru andspænis hvor öðrum og svipaðir að stærð og lögun. Eyr- og kviðuggar eru vel þroskaðir. Sporður er grunnsýldur. Dvalfiskur verður allt að 86 cm.

Litur: Dvalfiskur er dökkgrábrúnn eða grámórauður á lit en eyruggar eru meira eða minna ljósleitir.

Geislar: (Bl: 17-19),- B2: 22-24,- R: 22- 35,- hryggjarliðir: 27.

Heimkynni dvalfisks eru í hlýrri og tempruðu hlutum heimshafanna jörðina allt um kring. Flækingar í slagtogi með bláháfi og öðrum háfiskum slæðast m.a. til Bretlandseyja, Danmerkur og Noregs og jafnvel til íslandsmiða að talið er. Í bókinni Fiskarnir segir Bjarni Sæmundsson (1926): „Samkvæmt annálum eiga 4 fiskar (sennilega þessi tegund) að hafa fundist fastir á hámeri, sem veiddist við Engey (Gb.). Hugsanlegt er að þetta hefðu verið steinsugur, en jafn líklegt þó, eins og Eggert Ólafsson álítur, að það hafi verið dvalfiskar. Jón Ólafsson getur þess, að „Remora" hafi sest á bát á Húnaflóa haustið 1720. Eftir lýsingu hans að dæma, hefir það eins vel getað verið hrognkelsi. Loks fékk Steenstrup, hinn frægi danski dýrafræðingur, nokkura fiska af þessari tegund þegar hann var hér 1840. Höfðu þeir setið á kaupskipi í nánd við ísland. Síðan hefur fisksins ekki orðið vart hér."

Í norðvestanverðu Atlantshafi flækist dvalfiskur stundum norður fyrir Þorskhöfða (Cape Cod) og allt til miðanna norðan Nýja-Skotlands.

Lífshættir: Dvalfiskur er úthafs- og uppsjávarfiskur sem sýgur sig gjarnan fastan á háfiska og fleiri sjávardýr og berst þannig með þeim um sjóinn. Oftast mun bláháfur, Prionaceglauca, verða þess heiðurs aðnjótandi en einnig hámeri og fleiri tegundir.

Fæða er m.a. sníkjudýr sem dvalfiskurinn étur af húð gestgjafa sinna en einnig smáfiskar, kolkrabbar og krabbadýr. Það hefur verið talið að dvalfiskurinn njóti góðs af þeim molum sem falla af bráð gestgjafanna en ekki eru allir fræðingar sammála því.

Dvalfiskurinn hrygnir ekki á norðurslóðum og það eru eingöngu smáir fiskar sem flækjast þangað.

Nytjar: Íbúar eyja í Indlandshafi nota dvalfiska til að veiða skjaldbökur. Þeir binda línu um spyrðustæði fiskanna og láta þá síðan sjúga sig fasta við skjaldbökurnar og draga þær síðan að Iandi því dvalfiskurinn getur ekki losað um takið nema með því að synda áfram. Minna er gert af því að snæða dvalfiska.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?