Digurnefur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Hydrolagus mirabilis
Danish: storøjet havmus
Faroese: fjaðurfagra havmús
Norwegian: blåvinget havmus
Swedish: blåvingad havsmus
English: Largeeyed rabbitfish
French: chimère à gros yeux
Spanish: quimera ojón
Russian: Bol'sheglázyj gidróla

Digurnefur er þykkvaxinn fiskur að framan en mjókkar og endar í löngum og grönnum þræði. Haus er stuttur og ávalur og jafnlangur bolnum. Augun eru mjög stór og um það bil jafnlöng trjónunni. Bakuggar eru tveir og er stutt bil á milli þeirra. Fremri bakuggi er hár og stuttur og er gaddur fremst í honum, sléttur að framan en skörðóttur að aftan. Aftari bakuggi er öldulaga og mjög lágur í miðjunni. Raufaruggi og sporðblaðka eru samvaxin. Sporðblöðkuþráður er mjög langur. Eyruggar eru langir og ná að kviðuggum eða aftur fyrir þá miðja. Kviðuggar hænganna mynda sáðrennu. Digurnefur getur orðið um 80 cm á lengd.

Litur: Digurnefur er dökkbrúnn á lit, eyruggar eru blá- eða svartleitir og bakuggi grænn.

Heimkynni: Digurnefur hefur veiðst á djúpmiðum í Atlantshafi suðaustan, sunnan og suðvestan Íslands, við Færeyjar, í landgrunnshallanum vestan Írlands, undan Norður-Spáni og undan Vestur-Sahara, Senegal og Namibíu. Þá hefur hann veiðst undan ströndum Gvæjana í Suður-Ameríku. Hér mun hann hafa fundist fyrst á 750- 800 m dýpi sunnan Selvogsbanka (63°06'N, 2 1°33'V) í apríl árið 1964. Næst varð hans vart í apríl 1965 á 800 m dýpi djúpt suðvestur af Reykjanesi og á 600-700 m dýpi suður af Vestmannaeyjum, út af Grindavíkurdjúpi og sunnan Skerjadjúps. Síðan hefur digurnefur veiðst nokkrum sinnum á 700—800 m dýpi djúpt undan Suðausturlandi, suður af Vestmannaeyjum, út af Selvogsbanka, Grindavíkurdjúpi og sunnan Skerjadjúps.

Lífshættir: Um lífshætti digurnefs er lítið vitað. Hann mun vera djúpsjávar-botnfiskur og hefur veiðst á 400-1200 m dýpi. Fæða digurnefs er ýmsir smáfiskar og hryggleysingjar, svo sem burstaormar og krabbadýr.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?