Digra geirsíli

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Magnisudis atlantica
Danish: kort laksetobis
Faroese: stóra lakstobis
Swedish: laxtobis
English: Atlantic barracudina, duckbill barracudina
German: Kurzern Lachsspilerling
French: Lussion á bec de canard

Digra geirsíli er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur, nokkuð hávaxnari en litla og stóra geirsíli. Haus er í meðallagi stór og frammjór. Trjóna er í meðallagi. Augu eru stór og með fituhúð. Kjaftur er stór. Neðri skoltur teygist lengra fram en sá efri. Tennur eru á miðskolti en vantar á neðri skolti á stórum fiskum. Plógbein er ýmist tennt eða tannlaust. Gómbein eru tennt. Bakuggi er aftan við miðju og andspænis honum eru kviðuggar. Eyr- og kviðuggar eru svipaðir að stærð. Raufaruggi er langur og aftarlega, andspænis honum aftanverðum, er lítill veiðiuggi. Sporður er sýldur. Roð er fíngert og mjúkt. Hreistur er á bol, uggarótum og haus. Rák er greinileg. Digra geirsíli verður allt að 56 cm langt.

Litur er silfraður, uggar og lífhimna svört.

Geislar: B: 9-12,- R: 20-25,- hryggjarliðir: 60-73.

Heimkynni digra geirsílis eru svipuð og litla geirsílis, þ.e. í öllum heimshöfum heimskautshafa á milli. Það er þó ekki í Miðjarðarhafi.

Hér við land fannst digra geirsíli fyrst í júlímánuði árið 1900 í Grafarvogi við Reykjavík og síðan við Breiðuvík á Snæfellsnesi í febrúar árið 1925. Þessi geirsíli voru þá talin vera stóra geirsíli. Nú veiðist digra geirsíli alloft á Íslandsmiðum allt frá Rósagarði undan Suðausturlandi suður og vestur með landi allt norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls og er það nokkuð algengt víða á djúpslóð.

Lífshættir: Digra geirsíli er miðsævis- og djúpfiskur á 50-2000 m dýpi.

Fæða þess er einkum smáfiskar og seiði, ljósáta o.fl. Það verður sjálft ýmsum fiskum, t.d. háfiskum og túnfiskum, að bráð.

Hrygning fer fram allt árið um kring í hlýjum og heittempruðum höfum.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?