Álsnípa

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Nemichthys scolopaceus
Danish: langhalet sneppeål
Faroese: snípuállur
Norwegian: sneppeål
Swedish: trådål
English: snipe-eel, slender snipe eel
German: Schnepfenaal
French: avocette ruban
Russian: Угорь нитехвостый / Úgor' nitekhvostyj

Álsnípa er óhemju langvaxinn fiskur, sívalur á bol og endar í þráðlaga sporði eða hala sem slitnar oft af í veiðarfærum. Hausinn er langur og skoltar teygjast fram eins og fuglsgoggur og glennast hvor frá öðrum í framendann og eru því trektlaga. Tennur eru örsmáar bæði í efri og neðri skolti.

Nasaopin eru víð og rétt framan við augu sem eru stór og sitja yfir afturenda efri skoltsins. Bolur er mjög stuttur og rauf er undir eyruggarotum. Bakugginn er mjög langur, byrjar yfir tálknalokum og nær út á halaenda. Fremri hluti bakugga er með linum geislum en aftari endi með broddgeislum. Alls eru geislar í bakugga um 320. Raufaruggi er einnig mjög langur, byrjar undir eyruggum og rennur saman við halann. Eyruggar eru litlir og kviðugga vantar. Hreistur vantar einnig. Rákin er röð þéttstæðra hola. Álsnípa verður allt að 130-140 cm, sú stærsta hérlendis mældist 137 cm og veiddist á grálúðuslóð suðvestan Víkuráls árið 1992.

Litur: Álsnípa er brún á lit að ofan en svartleit á kviði og raufarugga.

Heimkynni hennar eru í öllum heimshöfum og í Miðjarðarhafi. Í Atlantshafi er álsnípu að finna allt frá djúpmiðum Íslands og Grænlands, bæði austan og vestan, suður til Argentínu og Suður-Afríku.

Hér varð álsnípu fyrst vart í septemberbyrjun árið 1952 í Rósagarðinum á milli Íslands og Færeyja (64°N, 11°40'V) og síðan í júní 1956 á 396 m dýpi nyrst í Víkurál. Sú var 108 cm löng. Síðan hefur álsnípa veiðst alloft á djúpmiðum suðaustan-, sunnan-, suðvestan- og vestanlands allt norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Auk þess hefur hún veiðst tvisvar undan Norðurlandi, sú fyrri í september 1992 á 275 m dýpi suðaustur af Grímsey og hin í september eða október 1993 á svipuðum slóðum eða nokkru vestar.

Lífshættir: Álsnípa er miðsævis- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 100-2000 m dýpi en er sennilega algengust á meira en 200 m dýpi niður á 1000 m. Grannvaxin og vatnstær seiðin lifa í efri lögum sjávar. Fæða er einkum sviflæg krabbadýr.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?