Álbrosma

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Lycenchelys muraena
Faroese: Álakendi úlvfiskur
Norwegian: Havålebrosme
English: Moray wolfeel

Álbrosma er lítill fiskur, langvaxinn, mjóvaxinn og þunnvaxinn. Haus er lítill, um 13% af fisklengdinni og flatvaxinn. Kjaftur er smár og fiskurinn undirmynntur. Tennur eru á skoltum, plógbeini og gómbeinum. Augu eru lítil. Bolur er stuttur og haus og bolur (trjóna að rauf) til samans eru venjulega um þriðjungur af heildarlengd fisksins. Bakuggi er langur, nær frá miðjum bol og sameinast raufarugga við sporð því ekki vottar fyrir sporðblöðku. Eyruggar eru mjög stórir en kviðuggar eru mjög litlir og kverkstæðir. Hreistur er smátt og nær næstum fram á rætur eyrugga en hnakki, háls, haus og uggar eru hreisturlausir. Stundum vantar hreistur á miðjan kvið. Rák er tvískipt, miðlæg og kviðlæg og er sú kviðlæga oft ógreinileg. Álbrosma verður um 23 cm.

Litur: Álbrosma er gulbrún á lit og vottar hvorki fyrir blettum né röndum. Lífhimna er svört.

Geislar: B: +1/2; S: 118-126; R: +1/2 S: 100-104.

Heimkynni álbrosmu eru kaldur djúpsjór Grænlandshafs, við Ísland og í hafinu á milli Íslands og Noregs. Einnig er hún í Færeyjadjúpi og vestan Svalbarða.

Hér við land fannst álbrosma fyrst í maga þorsks sem veiddist á 420-440 m dýpi í Eyjafjarðarál árið 1926. Næst verður hennar vart í apríl árið 1964 en þá veiddust tvær, 20 og 21 cm langar, á Barðagrunni (66°28'N, 25°40'V).

Árið 1976 veiddust um tíu í júní til nóvember á 520-1130 m dýpi frá miðunum djúpt sunnan Vestmannaeyja vestur með landi og norður og austur fyrir land allt til suðausturmiða. Árið 1977 veiddust 18 á djúpmiðum undan Suðvesturlandi þar sem dýpi var 905—1175 m. Nokkrar hafa bæst við síðan úr kalda sjónum undan Norður-, Austur- og Suðausturlandi. Álbrosmur þessar hafa verið 11-21 cm á lengd.

Lífshættir: Álbrosma er kaldsjávarfiskur á leirbotni og 155-1700 m dýpi. Fæða er smákrabbadýr og fleira. Um hrygningu er ekkert vitað.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?