Vöktunarrannsóknir á stofnum laxfiska Grímsár og Tunguár 2022. HV 2023-21

Nánari upplýsingar
Titill Vöktunarrannsóknir á stofnum laxfiska Grímsár og Tunguár 2022. HV 2023-21
Lýsing

Ágrip

Alls veiddist 818 laxar á vatnasvæði Grímsár 2022, þar af 17 laxar í hliðaránni Tunguá. Auk lax veiddist 231 urriði, 2 bleikjur og 1 hnúðlax. Alls var 69,8% laxa sleppt aftur eftir veiði í Grímsá og Tunguá, þar af 68,3% eins árs laxa og 89,7% stórlaxa. Langtíma meðalveiði í Grímsá og Tunguá 1974 − 2021 er 1.275 laxar og var laxveiðin 2022 64% af meðalveiði og var fjórða árið í röð í hópi slakra veiðiára. Hrognafjöldi Grímsár og Tunguár árið 2022 var áætlaður 2,6 milljónir hrogna (1,5 hrogn/m2), en hrognafjöldi Grímsár hefur sveiflast frá 0,9 − 4,7 hrogn/m2 á tímabilinu 1974 – 2019 og er að meðaltali 2,3 hrogn/m2 (3.9 millj. hrogna í heildina). Seiðavísitala laxa í Grímsá mældist samanlagt 66,5 seiði/100 m2 en urriðinn fylgdi fast á eftir með 44,2 seiði/100 m2 að meðaltali og vakti athygli veruleg fjölgun urriða í Tunguá. Vísitala 0+ laxaseiða mældist 38,6 seiði/100 m2, nokkuð yfir langtíma meðaltali en vísitala 1+ seiða 22,8 seiði/100 m2, aðeins undir langtíma meðaltali. Nýliðun hefur nokkuð minnkað undanfarin ár en hrygningarstofn laxa hefur minnkað í vatnakerfinu ef dæma má af minnkandi veiði. Sleppingar í veiðinni eru mjög mikilvægar til að styrkja hrygningarstofninn auk þess sem þær draga úr sveiflum af minnkandi laxgengd. Æskilegt væri að laxateljara verði komið fyrir í ánni til að styrkja grundvöll ráðgjafar um stærð hrygningarstofnsins.

Kannaður var árangur laxaflutninga og hrognagraftar á ófiskgengu svæði Tunguár. Þessi starfsemi hefur borið töluverðan árangur, en nýtir aðeins lítinn hluta framleiðslugetu ársvæðanna á ófiskgenga svæðinu í Tunguá. Til lengri tíma litið er æskilegt að gera Englandsfoss fiskgengan sem myndi styrkja verulega framleiðslugetu laxabúsvæða á sjálfbæran hátt. 

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2023
Blaðsíður 19
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
Leitarorð Grímsá, Tunguá, lax, urriði, stangaveiði, hrognafjöldi, seiðaþéttleiki, fiskirækt
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?