Líffræði og vistfræði langreyðar

Frá því að hvalarannsóknir urðu reglubundinn þáttur í starfsemi Hafrannsóknastofnunar á áttunda áratug síðustu aldar hefur verið lögð áhersla á að tryggja sýnatöku úr öllum veiddum stórhvölum sem landað var í hvalstöðinni í Hvalfirði. Stofnunin stóð fyrir sérstöku átaki í hvalarannsóknum árin 1986-1989 sem markaði þáttaskil í þekkingu á líffræði langreyðar hér við land. Næstu 15 árin þar á eftir voru engar langreyðar veiddar vegna banns Alþjóðahvalveiðiráðsins við hvalveiðum í atvinnuskyni. Síðan langreyðarveiðar hófust að nýju árið 2006 hefur Hafrannsóknastofnun sem fyrr tryggt sýnatöku og rannsóknir á öllum veiddum dýrum, enda liggur nú fyrir gagnagrunnur sem er einstakur á heimsvísu.

Mikilvægi sýnatökunnar hefur aukist í ljósi yfirstandandi loftslagbreytinga en skíðishvalir eru taldir góðir vísbendar um áhrif hlýnunar sjávar á lífríkið. Rannsóknir stofnunarinnar hafa leitt í ljós sterk líffræðileg viðbrögð langreyðar við breytilegum aðstæðum í sjónum undanfarna áratugi. Þannig eru t.d. kynþroskaaldur hærri og frjósemi minni en ella þegar fæðuskilyrði eru slæm, en þessir líffræðilegu þættir ráðast af þeim orkuforða sem langreyðarkýr ná að safna yfir sumarið.

Meginmarkmið yfirstandandi rannsókna er að fylgjast með breytingum varðandi líffræði, fæðuvistfræði og orkubúskap langreyða. Auk hefðbundinna greininga á magainnihaldi er fæðuvistfræðin rannsökuð með ísótópagreiningu m.a. í samvinnu við háskólann í Barcelona. Sú samvinna hefur m.a. leitt af sér þróun aðferðar til að greina fæðuþrep hvala aftur í tímann með ísótópagreiningu aldurslaga í skíðum.

Síða uppfærð 23. júní 2021.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?