Jafnréttisstefna

Jafnréttisstefna Hafrannsóknastofnunar

Framtíðarsýn Hafrannsóknastofnunar er að jafnrétti ríki á stofnuninni gagnvart starfsfólki. Jafnréttisstefna er skuldbinding Hafrannsóknastofnunar um stöðugar umbætur í jafnréttismálum. Jafnréttisstefna Hafrannsóknastofnunar er unnin í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Með jafnréttisstefnunni miðar stofnunin að því að meta einstaklinga að eigin verðleikum og að þeir fái notið jafns réttar. Kynbundið ofbeldi, kynbundin og/eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin á vinnustaðnum og skuldbindir Hafrannsóknastofnun sig til þess að bregðast við ef slík atvik skyldu koma upp í samræmi við aðgerðir í jafnréttisáætlun. Einnig miðar jafnréttisstefnan að því að Hafrannsóknastofnun sé góður og eftirsóknarverður vinnustaður fyrir alla, óháð kyni.

Jafnréttisáætlun

Í jafnréttisáætlun Hafrannsóknastofnunar eru markmið í jafnréttismálum skilgreind, tilgreint hvernig skal unnið að þeim og hver ber ábyrgð á aðgerðum. Einnig fylgir hverri aðgerð tímarammi þannig að hægt sé að fylgjast reglubundið með framvindu verkefna. Jafnréttisáætlunin er endurskoðuð a.m.k. árlega og þá er farið yfir stöðu verkefna og skoðað hvað hefur gengið vel og hvað má betur fara. Endurskoðun jafnréttisáætlunar er á ábyrgð mannauðsstjóra.

Launajafnrétti

Sjá 6.-7. gr. laga nr. 150/2020 og 9. gr. laga nr. 86/2018

Hafrannsóknastofnun gætir fyllsta jafnréttis við ákvörðun launa og annarra starfskjara. Allt starfsfólk fær greidd jöfn laun og nýtur sömu starfskjara fyrir jafnverðmæt störf.

Ráðningar

Sjá 12. gr. laga nr. 150/2020 og 8. gr. laga nr. 86/2018

Hafrannsóknastofnun miðar að því að gæta fyllsta jafnréttis við ráðningu í nýtt starf og að val á starfsfólki sé óháð kyni. Auglýst störf skulu standa öllum kynjum opin til umsóknar.

Starfsþróun og endurmenntun

Sjá 12. gr. laga nr. 150/2020 og 8. gr. laga nr. 86/2018

Starfsfólk Hafrannsóknastofnunar hefur tækifæri til starfsþróunar. Í því felst meðal annars þátttaka í vinnuhópum og námskeiðum til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf. Allt starfsfólk er hvatt til að sýna frumkvæði að endurmenntun og þátttöku í fræðslustarfi.

Samræming fjölskyldu og atvinnulífs

Sjá 13. gr. laga nr. 150/2020

Hafrannsóknastofnun skipuleggur vinnufyrirkomulag og gerir nauðsynlegar ráðstafanir til að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og einkalíf eins og frekast er kostur. Samræming þessara þátta byggist á gagnkvæmum skilningi vinnuveitanda og starfsfólks á þörfum hvors annars og vilja beggja aðila til að sýna tillitssemi og ná fram sanngjarnri niðurstöðu. Lykilhugtak í samræmingu vinnu og einkalífs er „sveigjanleiki”, en nota ber það með hagsmuni beggja aðila að leiðarljósi.

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Sjá 14. gr. laga nr. 150/2020 og reglugerð félagsmálaráðuneytisins 1009/2015

Hafrannsóknastofnun líður ekki kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni, mismunun eða fordóma af nokkru tagi. Komi upp aðstæður innan vinnustaðarins sem lýsa má með ofangreindum hætti skal haft samband við næsta yfirmann eða mannauðsstjóra. Unnið er með sérhvert tilfelli og hlutaðeigandi aðilar studdir til að leysa málin. Þyki ástæða til eru utanaðkomandi sérfræðingar fengnir til aðstoðar.

Fræðsla og jafnréttismál

Sjá 4., 5. og 14. gr. laga nr. 150/2020

Hafrannsóknastofnun leggur áherslu að auka þekkingu stjórnenda og starfsfólks á jafnréttismálum.

Endurskoðun

Jafnréttisstefna og jafnréttisáætlun þessi gildir í þrjú ár frá samþykki Jafnréttisstofu.

Samþykkt í framkvæmdastjórn Hafrannsóknastofnunar

Hafnarfjörður 29. nóvember 2022.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?