Djúpkarfi

Sebastes mentella


Tækniskýrsla
Birt af

Hafrannsóknastofnun

Birt

6. júní 2025

Helstu niðurstöður

  • Heildarvísitölur fyrir lífmassa og fjölda hafa sveiflast lítillega frá árinu 2003 án sýnilegrar langtímaþróunar.
  • Lítið var um smáan djúpkarfa (<30 cm) í stofnmælingum frá árinu 2012 til ársin 2024.
  • Lengdardreifing í stofnmælingum og afla hefur smám saman hliðrast í átt að stærri fiskum, sem endurspeglar langt tímabil með lélegri nýliðun.
  • Hrygningarstofninn minnkaði hratt á árunum 1990 til 2000, var tiltölulega stöðugur frá 2000 til 2016, en hefur síðan farið minnkandi og er nú metinn sá minnsti frá 1970.
  • Fiskveiðidánartala hefur lækkað verulega frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar og fór undir Fmsy árið 2024.

Inngangur

Djúpkarfi (Sebastes mentella) á Íslandsmiðum telst til ættkvíslarinnar Sebastes. Almennt má segja um karfategundir að þær eru hægvaxta, langlífar og seinkynþroska. Slíkar tegundir eru jafnan viðkvæmar fyrir miklu veiðiálagi. Djúpkarfi telst til botnfiska þó hann sé í raun bæði botn- og miðsjávarfiskur. Hann er algengastur á 400–600 m dýpi á landgrunnshallanum í hlýja sjónum vestur, suður og suðaustur af landinu. Hann heldur sig við botn að degi til en leitar upp í sjó að nóttu.

Djúpkarfi á Íslandsmiðum (innan íslensku efnahagslögsögunnar) er skilgreindur sem sérstakur líffræðilegur stofn og sem sérstök stjórnunareining. Talið er að helstu uppeldissvæði íslenska veiðistofnsins séu við Grænland.

Sjá nánar um djúpkarfa.

Veiðar

Aflaþróun

Árlegur heildarafli djúpkarfa á Íslandsmiðum 1950–2024 er sýndur á Mynd 1.

Á tímabilinu 1950–1977, áður en íslenska efnahagslögsagan var stækkuð í 200 sjómílur, var djúpkarfi að mestu veiddur af Vestur-Þjóðverjum. Aflinn náði hámarki árið 1953 þegar um 87 þús. tonnum var landað en minnkaði eftir það og var árið 1977 um 23 þús. tonn. Frá árinu 1978 hafa Íslendingar nánast einir staðið að veiðum á djúpkarfa. Aflinn jókst og var 57 þús. tonn árið 1994 en minnkaði hratt í 17 þús. tonn árið 2001. Árlegur afli árin 2001–2010 var á bilinu 17–29 þús. tonn en 2–12 þús. tonn á tímabilinu 2011–2024. Aflinn árið 2024 var 2618 tonn sem var 4057 tonnum minni afli en árið 2023.

Mynd 1: Djúpkarfi. Landaður afli (í tonnum) á Íslandsmiðum 1950–2024.

Veiðar og floti

Djúpkarfi á Íslandsmiðum er veiddur í botnvörpu á landgrunnskantinum suðvestur og vestur af landinu á 500–800 m dýpi (Mynd 2). Fjöldi skipa sem veiða 95 % djúpkarfaaflans hefur fækkað um rúman helming frá árunum 1996 (Mynd 3). Á undanförnum árum hafa á bilinu 13–23 togarar veitt 95 % af aflanum.

Mynd 2: Djúpkarfi. Útbreiðsla botnvörpuveiða á Íslandsmiðum 2010–2024 samkvæmt afladagbókum. Sýndar eru 100, 500 og 1000 m dýptarlínur.
Mynd 3: Djúpkarfi. Fjöldi skipa (öll veiðarfæri) sem veiddu 95 % heildaraflans hvert ár frá 1994. Vinstri: Sýnt eftir árum. Hægri: Sýnt í samanburði við heildarafla. Gögn frá aflaskráningarkerfi Fiskistofu.

Yfirlit gagnasöfnunar úr afla

Sýnataka úr afla árin 2000–2024 er sýnd í Tafla 1. Fjöldi sýna og fjöldi lengdarmældra fiska hefur minnkað frá árinu 2012 (Mynd 4), einkum vegna minni sýnasöfnunar veiðieftirlitsmanna frá Fiskistofu.

Staðsetning sýnatöku 2020–2024 er sýnd á Mynd 5 og sýnir að sýnatakan á sér stað á þeim svæðum þar sem veiðarnar eru stundaðar.

Tafla 1: Djúpkarfi. Fjöldi sýna og fjöldi mældra fiska úr afla 2000–2024.

Ár

Afli (t)

Sýni

Lengdarmælingar

2000

31393

167

34357

2001

17230

95

18563

2002

19045

177

32500

2003

28478

149

26196

2004

17564

117

19640

2005

20563

596

93465

2006

17208

325

50237

2007

17372

203

30107

2008

24125

192

32535

2009

19429

168

27647

2010

17642

168

28464

2011

11737

138

21239

2012

11963

69

11237

2013

8761

63

9360

2014

9501

93

15380

2015

9314

58

9089

2016

9537

88

13026

2017

8372

45

8570

2018

9996

27

5038

2019

8715

40

7509

2020

11375

29

5508

2021

10589

26

4125

2022

9465

8

319

2023

6675

22

2045

2024

2704

26

3018

Mynd 4: Djúparfi. Hlutfall sýna eftir mánuðum (súlur) 2014–2024 samanborið við landanir eftir mánuðum (svört lína), skipt eftir árum og helstu veiðarfærum. Tölur fyrir ofan súlur sýna heildarfjölda sýna.
Mynd 5: Djúpkarfi. Veiðisvæði við Ísland árin 2020–2024 samkvæmt afladagbókum (rautt) og staðsetningar sýna úr lönduðum afla (stjörnumerki).

Lengdardreifing úr afla

Lengdardreifing djúpkarfa úr afla í botnvörpu sýnir að aukning var af smáum djúpkarfa í afla árið 1994 samanborið við árin á undan (Mynd 6). Þessum toppi í lengdardreifingunni, sem var í kringum 32 cm, er hægt að fylgja fram til ársins 2002 og virðist karfinn vaxa um 1 cm á ári. Meðallengd djúpkarfa árin 2004–2024 var 39–43 cm og er hærri seinni árin.

Lengdardreifing úr afla flotvörpu, árin sem þær veiðar voru stundaðar, sýnir að flest árin var sá djúpkarfi að meðaltali stærri en sá sem veiddist í botnvörpu.

Mynd 6: Djúpkarfi. Lengdardreifing úr afla botnvörpu (bláar línur) og flotvörpu (rauðar línur) 1991–2024.

Afli á sóknareiningu

Afli djúpkarfa á sóknareiningu (kg/klst) í botnvörpu og sókn (fjöldi klukkustunda veiddur) 1978–2024 eru sýnd á Mynd 7. Afli djúpkarfa á sóknareiningu minnkaði jafnt og þétt fram til ársins 1994 þegar hann náði lágmarki. Síðan þá hefur afli á sóknareiningu aukist og var árin 2020–2021 sá hæsti á tímabilinu. Á sama tíma eða frá árinu 1994 hefur sókn í djúpkarfa minnkað mikið og verið lág en stöðug s.l. áratug. Engar upplýsingar um afla á sóknareiningu og sókn eru til fyrir árið 2022.

Mynd 7: Djúpkarfi. Afli á sóknareiningu (vinstri) og sókn (hægri) í botnvörpu frá íslenskum skipum 1978–2024 þar sem djúpkarfi var að minnsta kosti 50 % af heildarafla í hverju togi (svört lína), 80 % af heildarafla í hverju togi (rauð lína) og þar sem afli djúpkarfa var minni en 50 % af heildarafla í hverju togi(blá lína).

Brottkast

Ekki eru til upplýsingar um brottkast á djúpkarfa, en það er talið lítið.

Stofnmælingar

Upplýsingum um líffræði djúpkarfa hefur verið safnað í stofnmælingu botnfiska að haustlagi (SMH) árin 2000–2024 að slepptu árinu 2011. SMH nær yfir útbreiðslusvæði veiðistofns djúpkarfa á Íslandsmiðum.

Heildarlífmassa- og fjöldavísitölur voru hæstar árin 2000 og 2001, en lækkuðu árið 2002. Síðan þá hafa vísitölur djúpkarfa sveiflast án sýnilegrar langtímaþróunar (Mynd 8). Lífmassavísitala djúpkarfa 45 cm og stærri hækkaði frá lágmarki árið 2007 til hámarks árið 2021 en hefur síðan lækkað (Mynd 8). Fjöldavísitala djúpkarfa 30 cm og minni (mælikvarði á nýliðun) hefur verið mjög lág frá árinu 2007. Árin 2021 og 2022 fékkst ekkert af karfa 30 cm og minni pg mjög lítið árið 2023 og 2024 (Mynd 8).

Mynd 8: Djúpkarfi: Heildarlífmassavísitala (efri til vinstri), heildarfjöldavísitala (efri til hægri), lífmassavísitala stærri einstaklinga (≥45 cm, neðri til vinstri) og nýliðunarvísitölu (≤30 cm, neðri til hægri) úr stofnmælingu botnfiska að hausti (SMH) 2000–2024, ásamt staðalfráviki. Engin stofnmæling var árið 2011.

Dreifing

Djúpkarfa er að finna á landgrunnskantinum suður og vestur af landinu og veiðist mest af honum fyrir suðvestan og vestan land (Mynd 9 og Mynd 10) á um 400–800 m dýpi (Mynd 11).

Mynd 9: Djúpkarfi. Útbreiðsla í stofnmælingu botnfiska að hausti árin 2000–2024. Engin stofnmæling var árið 2011.
Mynd 10: Djúpkarfi. Dreifing lífmassavísitölu eftir svæðum í stofnmælingu botnfiska að hausti frá árinu 2000–2024. Engin stofnmæling var árið 2011.
Mynd 11: Djúpkarfi. Dreifing lífmassavísitölu eftir dýpi í stofnmælingu botnfiska að hausti frá árinu 2000–2024. Engin stofnmæling var árið 2011.

Lengd og aldur

Djúpkarfi sem veiðist í SMH er á lengdarbilinu 25–55 cm (Mynd 12) Meðallengd hefur aukist og þessi þróun lengdardreifingar er gott dæmi um það sem gerist þegar nýliðun er léleg, þ.e. meðallengd eykst þar sem lítið fæst af smáum karfa. Frá árinu 2000 hefur meðallengdin aukist úr 37.4 cm í 43.2 cm árið 2024 eða um 6 cm (Mynd 12).

Mynd 12: Djúpkarfi. Lengdarskiptar vísitölur úr stofnmælingu botnfiska að hausti 2000–2024 ásamt meðaltali allra ára (blá lína). Engin stofnmæling var árið 2011.

Aldursgreiningar úr SMH sýna að stofninn samanstendur af mörgum árgöngum og er aldursbilið frá 5 til meira en 50 ára (Mynd 13). Árgangarnir frá 1985 og 1990 voru stórir og voru enn áberandi í SMH 2019. Merki um lélega nýliðun sjást í aldursdreifingunni, þar sem mjög fáir fiskar tíu ára og yngri hafa sést frá árinu 2018.

Mynd 13: Djúpkarfi. Aldursdreifing úr stofnmælingu botnfiska að hausti. Aldursflokkurinn 50 ára er samansettur úr fiski 50 ára og eldri.

Kynþroski

Kynþroskagögn úr SMH eru sýnd á Mynd 14. Hængar verða að jafnaði kynþroska minni og yngri en hrygnur. Flestir fiskar eru orðnir kynþroska um 20 ára.

Mynd 14: Djúpkarfi. Hlutfall kynþroska úr SMH.

Stofnmat

Ný stofnmatsaðferð fyrir djúpkarfa var samþykkt á rýnifundi árið 2023 (WKBNORTH) þar sem viðmiðunarpunktar fyrir stofninn voru einnig skilgreindir. Stofnmatið byggir á aldurs- og lengdarháðu líkani (Gadget) sem nýtir upplýsingar um vöxt og viðgang stofnsins. Í 2024, voru allir viðmiðunarpunktar endurmetnir. Þetta endurmat var vegna villu sem uppgötvaðist við reglubundna uppfærslu á stofnmati djúpkarfa (ICES 2024).

Yfirlit yfir helstu stillingar líkansins eru hér fyrir neðan:

Stofnmat

Inntaksgögn

Líkanið nýtir sér fjölda mismunandi gagna, allt frá vísitölum úr SMH, landaðs afla og aflasamsetningu botnvörpuflotans.

  • Lengdarskiptar vísitölur úr SMH (2000–2024).

  • Lengdargögn úr veiðum íslenska flotans (1975–2024).

  • Landaður djúpkarfaafli frá 1975 til dagsins í dag þar sem hverju ári er skipt upp í tvö jafnstór tímabil.

  • Aldurs-lengdardreifing úr SMH.

  • Kynþroskagögn úr SMH.

Yfirlit yfir inntaksgögnin má sjá á Mynd 15.

Mynd 15: Djúpkarfi. Yfirlit yfir inntaksgögn stofnmatslíkansins.

Stillingar líkans

  • Líkanið nær yfir tímabilið frá 1975 til dagsins í dag þar sem hverju ári er skipt upp í tvö jafnstór tímaskref.

  • Aldur frá 3 til 50\(^{+}\).

  • Lengd frá 5–60 cm, skipt í 1 cm lengdarbil.

  • Tveir undirstofnar:

    • Ókynþroska stofn sem er 3–30 ára.

    • Kynþroska stofn sem er 5–50 ára.

  • Tilfærsla úr ókynþroska yfir í kynþroska gerist með tvennum hætti:

    • Kynþroska (byggt á lengdarháðum safnferli)

    • Aldri (allur fiskur 20 ára og eldri fer sjálfkrafa í kynþroska stofninn við lok árs).

  • Nýliðun í ókynþroska hluta stofnsins er við 3 ára aldur.

  • Náttúruleg dánartala er fest við 0.05.

  • Lengdarbil í stofnmælingu voru 10–30 cm, 30–35 cm, 34–40 cm, 41–45 cm, and 46–55 cm.

  • Veiðin í líkaninu er skipt í tvo flota, stofnmælingaleiðangur og botnvörpuveiðar við Ísland.

    • Veiðimynstur flotanna er stærðarháður veldisvísisferlinn, hver floti með sitt mynstur.
  • Vöxtur

    • Stærðarháð uppfærsla byggð á umritun á jöfnu von Bertalanffy (\(k\), \(L_{\infty}\)) Mynd 16

    • Beta-tvíkostadreifð tvístrun á meðalvexti (\(\beta\))

    • Lengdar-þyngdarsamband metið byggt á gögnum úr SMH.

  • Kynþroski metinn innan líkansins.

  • Upphafsstofnstærð og nýliðun:

    • Árleg nýliðun á sér stað á fyrsta tímaskrefi hvers árs, einn stiki metinn fyrir hvert ár (\(R_{y}\)).

    • Meðallengd og staðalfrávik í lengd við nýliðun metin fyrir öll ár

    • Upphafsfjöldi hvert ár \(S \times \mathfrak{n}_{a} \times e^{- a\left( M_{a} + \widehat{F} \right)}\)

    • Meðallengd í aldri er metin skv. jöfnu von Bertalanffy, og fjölda er deilt niður á lengdarflokka byggt á Gauss dreifingu byggt á þeirri meðallengd og með föstum frávikastuðli.

  • Líknaföll:

    • Samband vísitalna og líkansins er álitið vera á forminu \(\log(I) = \alpha + \beta\log\left( \widehat{I} \right)\), þar sem \(I\) er vísitalan og \(\widehat{I}\) spá líkansins fyrir gefna stikun. Stika sambandsins eru metnir með aðhvarfsgreiningu við hverja ítrun.

    • Gert er ráð fyrir að aflasamsetning (aldurs- og/eða lengdardreifing) sé tekin að handahófi og fjarlægð líkans frá gögnum er metin með fervikasummum hlutfalla.

  • Óvissa í líkaninu er byggð á hermun inntaksgagna. Óvissa í samsetningu á afla er metin byggt á svæðistengdu úrtaki með endurvali. Fyrir vísitölur vöru nýjar vísitölur hermdar byggt á metnum frávikastuðlum.

Lengd-þyngdarsamband

Við umreikning úr lengd í þyngd er notast við eftirfarandi formúlu:

\[W_{l} = \ \alpha*l^{\beta}\] Í stofnmatslíkaninu eru α og β festir. Þeir eru metnir út frá líffræðilegum upplýsingum sem safnað eru í SMH. Séð gildi og metið samband eru sýnd á Mynd 16.

Mynd 16: Djúpkarfi. Lengdar-þyngdarsamband (punktar) úr SMH ásamt metnu sambandi (rauð lína).

Greiningar á niðurstöðum stofnmats

Á Mynd 17 eru sýnd mátgæði líkans við mældar vísitölur mismunandi lengdarflokka í stofnmælingaleiðangri. Líkanið fylgir nokkuð vel þróun lengdarflokkana þó svo töluverð frávik (vanmat líkansins) 2000–2003 fyrir 10–30 cm, 30–35 cm og 35–40 cm lengdarflokka. Tiltölulega lítil frávik eru á milli endapunkts spáðrar og mældrar vísitölu.

Mynd 17: Djúpkarfi. Vísitala úr Gadget líkani (svartar línur) ásamt 90 % öryggismörkum (gult svæði) eftir stærðarflokkum borin saman við fjölda djúpkarfa úr stofnmælingu (punktar). Grænar línur sýna muninn á samsvörun gagna og líkans við lok tímabilsins.

Lengdar- og aldursdreifingar

Mátgæði líkansins á aflasamsetningu er borið saman við gögn eru sýndar á Mynd 18 til og með Mynd 22, þar sem leifarit er sýnt á Mynd 23. Mátgæði líkans eru nálægt lengdardreifingum úr SMH og úr afla íslenska flotans nema hin síðustu ár þar sem líkanið virðist ekki ná yfir toppa lengdardreifingarinnar (40–45 cm fiskur) í SMH (Mynd 19, Mynd 21 and Mynd 22). Mátgæði líkansins eru nálægt aldursdreifingum úr SMH fyrir fisk yngri en 30 ára en versna eftir það þar sem líkanið vanmetur fjölda fisk eldri en 30 ár (Mynd 18). Jafnframt ofmetur líkanið ákveðna árganga sem hægt er að fylgja eftir, fyrst árið 2009 fyrir 12–19 ára fisk og svo árin 2017 og 2018 sem 20–28 ára fisk. Mátgæði líkansins við aldursdreifingu úr afla eru mun verri enda er lítið um aldurgreiningar (Mynd 20).

Heilt yfir virðist líkanið passa best við upplýsingar úr SMH, sem á greina af leifum líkansins (Mynd 23).

Mynd 18: Djúpkarfi. Hlutfall eftir aldri úr Gadget líkani (rauð lína) samanborið við hlutföll úr SMH við Ísland (gráar súlur). Fjöldi aldursgreindra fiska ár hvert er skráður á hverja mynd.
Mynd 19: Hlutfall eftir lengd úr Gadget líkani (rauð lína) samanborið við hlutföll úr SMH við Ísland (gráar súlur).
Mynd 20: Djúpkarfi. Hlutfall eftir aldri úr Gadget líkani (rauð lína) samanborið við hlutföll úr afla við Ísland (gráar súlur). Fjöldi aldursgreindra fiska ár hvert er skráður á hverja mynd.
Mynd 21: Djúpkarfi. Hlutfall eftir lengd úr Gadget líkani (rauð lína) samanborið við hlutföll úr afla 1975–1999 við Ísland (gráar súlur).
Mynd 22: Djúpkarfi. Hlutfall eftir lengd úr Gadget líkani (rauð lína) samanborið við hlutföll úr afla 2000–2024 við Ísland (gráar súlur).
Mynd 23: Djúpkarfi. Leifar líkansins skipt eftir gagnasafni.

Vöxtur og kynþroski

Samanburður á mati líkansins á meðallengd eftir aldri og mælinga úr SMH má sjá á Mynd 24. Mátgæði líkansins er gott fyrir fisk 10 ára og eldri en vanmetur vöxt fisk yngri en 10 ára. Mátgæði líkansins við gögn úr afla (Mynd 25) eru svipuð og við SMH þó svo minna sé um gögn. Niðurstöðurnar benda til að líkanið ofmeti meðallengd við nýliðun en bent skal á að minna er um aldursgögn fyrir yngsta fiskinn.

Samanburður á mati líkansins á kynþroska eftir lengd og mælinga úr SMH má sjá á Mynd 26.

Mynd 24: Metin meðallengd eftir aldri úr SMH (svört lína) ásamt staðalfráviki í lengd (skyggt svæði) borin saman við gögn úr SMH (punktar og lóðrétt vikmörk).
Mynd 25: Metin meðallengd eftir aldri úr afla (svört lína) ásamt staðalfráviki í lengd (skyggt svæði) borin saman við gögn úr afla (punktar og lóðrétt vikmörk).
Mynd 26: Djúpkarfi. Metinn kynþorski eftir lengd úr SMH (svört lína) borin saman við gögn úr SMH (grá lína) fyrir ókynþroska (vinstri, cred_immat) og kynþroska (hægri, cred_mat) stofnhluta.

Valmynstur flotans

Metið veiðimynstur í stofnmatinu er sýnt á Mynd 27. Veiðimynstur er talsvert mismunandi eftir veiðarfærum og er skýringin sú að gagnaröð úr afla er lengri.

Mynd 27: Djúpkarfi. Veiðimynstur botnvörpuflotans (rauð lína) og SMH (blá lína).

Niðurstöður stofnmats

Niðurstöður líkansins eru sýndar á Mynd 28. Hrygningarstofninn er metinn hafa minnkað hratt síðan seint á níunda áratug síðustu aldar fram að öndverðum aldamótum. Síðan kom tímabil þar sem stofninn var nokkuð stöðugur en hefur frá 2020 minnkað. Hrygningarstofninn er nú metinn sá minnsti frá upphafi. Nýliðun hefur verið mjög lítil frá árinu 2010 sem hefur leitt til stofnminnkunar. Stofninn samanstendur nú nær eingöngu af eldri kynþroska fiski. Fiskveiðidánartala hefur minnkað mikið frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar og var nokkuð stöðug á árunum 2013–2019. Það hefur aukist í 0.1 frá 2020–2023, en lækkaði í 0.03 árið 2024.

Mynd 28: Djúpkarfi. Áætluð stærð hrygningarstofns, heildarstofnstærð, veiðidánartala, og nýliðun (3 ára). Einnig eru 90 % öryggismörk sýnd. Brotin lína við hrygningarstofns sýnir gátmörk (Bpa) og heil lína varúðarmörk (Blim). Við veiðidánartölu eru varúðarmörk (brotin lína, Flim), gátmörk (svört lína, Fpa) og kjörsókn (svört lína, FMSY).

Endurlitsgreining

Reiknaða endurlitsgreiningu má sjá á Mynd 29. Reiknuð endurlitsgreining, sem sýnir stöðugleika í mati líkansins fimm ár aftur í tímann, gefur til kynna að leiðrétting milli ára sé innan óvissumarka fyrir hrygningarstofn og veiðidánartölu. \(\rho\) Mohns er metið ásættanlegt fyrir hrygningarstofn og veiðidánartölu (0.056 fyrir hrygningarstofn og -0.071 fyrir veiðidánartölu). \(\rho\) Mohns gildi fyrir nýliðun er mjög há og skýrist af mikilli óvissu í kringum nýliðun þar sem leiðangurinn nær ekki yfir yngri árganga.

Áhrif takmarkaðra aldursupplýsinga eru þar greinileg, því þegar ár af gögnum er tekið frá líkaninu hverfur stór hluti aldursupplýsinga sem veldur stökki milli ára (Mynd 18).

Mynd 29: Djúpkarfi. Reiknuð endurlitsgreining sem sýnir stöðuleika í mati líkansins fimm ár aftur í tímann. Niðurstöður eru sýndar fyrir hrygningarstofn, fiskveiðidánartölu, F, og nýliðun (3 ára) ásamt óvissu.

Viðmiðunarmörk

Skilgreindir viðmiðunarpunktar stofnsins eru sýnir í Tafla 2.

Tafla 2: Djúkarfi. Viðmiðunarpunktar.

Nálgun

Viðmiðunarmörk

Gildi

Grundvöllur

Hámarksafrakstur

MSY Btrigger

217 563

Bpa

FMSY

0.041

Fiskveiðidánartala sem leiðir til hámarksafraksturs, byggt á slembihermunum.

Varúðarnálgun

Blim

156 568

Bloss. Miðgildi hrygningarstofns 2000–2005

Bpa

217 563

Blim × e1.645σ, σ = 0.2.

Flim

0.079

Fiskveiðidánartala sem í framreikningum leiðir til þess miðgildi hrygningarstofns er við Blim

Fpa

0.041

Hæsta veiðidánartala þar sem líkurnar á því hrygningarstofn fari niður fyrir Blim eru <5 %

Stöðumat stofnsins

Smáum djúpkarfa (<30 cm) hefur fækkað mikið á tímabilinu sem gefur til kynna að nýliðun sé lítil. Þar sem ekki er að vænta umtalsverðrar nýliðunar á næstu árum er líklegt framleiðni stofnsins minnki í framtíðinni.

Landgrunnið við Austur-Grænland er talið vera uppvaxtarsvæði djúpkarfa í landgrunnshlíðum Íslands en er einnig uppvaxtarsvæði djúpkarfa við Austur-Grænland og úthafskarfastofnanna. Óvíst er hversu stór hluti karfa frá þessu svæði skilar sér í veiðistofn djúpkarfa við Ísland. Í stofnmælingum Þjóðverja á landgrunninu við Austur-Grænland mældist á árunum 2000–2008 mikið af smáum djúpkarfa (20–30 cm). Mjög lítið hefur mælst af smáum djúpkarfa síðan þá.

Skammtímaspá

Skammtímaspár úr stofnmatslíkaninu eru notaðar til þess að veita ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. Forsendur fyrir stofnmatsárið eru sýndar í Tafla 3 og niðurstöður framreikninga í Tafla 4.

Tafla 3: Djúpkarfi. Forsendur fyrir stofnmatsárið og í framreikningum.

Breyta

Gildi

Athugasemdir

F (2025)

0.04

Fiskveiðidánartala sem svarar til áætlaðs heildarafla árið 2025

Hrygningarstofn (2026)

92 057

Úr framreikningum stofnmats; í tonnum

Nýliðun 3 ára (2026)

0.038

Faldmeðaltal nýliðunar frá 2020-2024; milljónir

Nýliðun 3 ára (2027)

0.038

Faldmeðaltal nýliðunar frá 2020-2024; milljónir

Afli (2025)

3 800

Sett aflamark fyrir 2025; í tonnum

Tafla 4: Djúpkarfi. Áætluð þróun stofnstærðar hrygningarstofns (tonn) miðað við veiðar samkvæmt markmiðum um hámarksafrakstur.

Grunnur

Afli (2026)

Veiðidánartala (2026)

Hrygningarstofn (2027)

% Breyting á hrygningarstofni1)

% Breyting á aflamark2)

% Breyting á ráðgjöf3)

Hámarksafrakstur

0

0.00

91 171

-1.0

-100

0

Aðrar veiðisviðsmyndir

FMSY*SSB2025/MSY Btrigger

1 466

0.02

89 746

-2.5

-61

FMSY

3 284

0.04

87 977

-4.4

-14

F2026 = F2024

2 500

0.03

88 739

-3.6

-34

1) Hrygningarstofn árið 2027 miðað við hrygningarstofn 2026

2) Ráðlagt aflamark fyrir 2025/2026 miðað við ráðlagt aflamark 2024/2025 (3800 t)

3) Ráðlagt aflamark fyrir 2025/2026 miðað við ráðlagt aflamark 2024/2025 (0 t)

Óvissa í stofnmati og framreikningum

Aðeins veiðistofn djúpkarfa er að finna á Íslandsmiðum og nýliðun kemur líklegea frá Austur-Grænlandi. Samgangur milli djúpkarfa á Íslandsmiðum, þess stofns sem er við Austur-Grænland og svo dýpri stofns úthafskarfa í Grænlandshafi eru ekki að fullu þekktar.

Sérstök áhersla hefur verið á að aldursgreina djúpkarfa úr SMH og við hvert ár sem bætis við af aldursgögnum aukast gæði stofnmatsins. Þegar ár eru fjarlægð í endurlitsgreiningu geta niðurstöðurnar breyst umtalsvert.

Grunnur ráðgjafar

Nálgun Alþjóðahafrannsóknaráðsins um hámarksafrakstur (MSY nálgun) samþykkt á rýnifundi 2023 (ICES, 2023).

Stöðumat

Djúpkarfi er langlíf, hægvaxta tegund og nær ekki kynþroska fyrr en um 12 ára aldur. Slíkum tegundum er sérstaklega hætt við ofveiði og langan tíma þarf til að ná viðsnúningi í stofnþróun eftir ofveiði. Einnig er veiðihlutfall sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið mun lægra en í skammlífari tegundum. Því er mikilvægt að fara varlega við nýtingu stofnsins.

Fiskveiðistjórnun

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ber ábyrgð á stjórnun fiskveiða við Ísland. Stjórnun fiskveiða er bundin í lög og árlega eru gefnar út reglugerðir sem geta verið háðar breytingum frá ári til árs. Vísindaleg ráðgjöf um fiskveiðar og nýtingu fiskistofna kemur frá Hafrannsóknastofnun og frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES). Aflamarkskvóti var fyrst settur á djúpkarfa fiskveiðiárið 2010/2011 en fram að því hafði sameiginlegt aflamark verið gefið út fyrir gullkarfa og djúpkarfa. Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðið hafði þó frá níunda áratug síðustu aldar veitt aðskilda ráðgjöf fyrir þessar tvær tegundir.

Mynd 30 sýnir nettó tilfærslu kvóta eftir fiskveiðiárum. Tilfærsla kvóta annarra tegunda yfir á djúpkarfa hefur verið mjög lítil nema fyrir fiskveiðiárin 2021/2022, 2022/2023 og 2023/2024 þegar tilfærslan yfir í djúpkarfa var um 15–20 % af alflamarki djúpkarfa. Á fiskveiðiárunum 2015/2016-2020/2021 var tilfærsla kvóta frá djúpkarfa yfir á aðrar tegundir á bilinu 7–18 % af kvóta djúpkarfa. Á fiskveiðiárunum 2016/2017–2020/2021 var hluti setts aflamarks ekki veiddur en var fiskveiðiárin 2021/2022, 2022/2023 og 2023/2024 yfir 20 % umfram sett aflamark.

Mynd 30: Djúpkarfi. Tilfærsla á kvóta eftir fiskveiðiárum. Efsta röð: Afli umfram aflamark. Önnur röð: Eftirstöðvar aflamarks. Þriðja röð: Tilfærsla aflamarks frá fyrra fiskveiðiári. Fjórða röð: Tilfærsla aflamarks yfir á næsta fiskveiðiár. Fimmta röð: Tilfærsla milli tegunda þar sem jákvæð gildi tákna tilfærslu á kvóta annarra tegunda yfir á djúpkarfa en neikvæð gildi tilfærslu djúpkarfakvóta á aðrar tegundir.

Heimildir

ICES. 2023. Benchmark workshop on Greenland halibut and redfish stocks (WKBNORTH). ICES Scientific Reports. 5:33. https://doi.org/10.17895/ices.pub.22304638

ICES. 2024. Northwestern Working Group (NWWG). ICES Scientific Reports. 6:39. https://doi.org/10.17895/ices.pub.25605738