Helstu niðurstöður
Síðustu fimm ár hefur meðafli sjávarspendýra sést í neta- og botnvörpuveiðum. Hnísa var algengasta tegundin, aðallega í þorsknetum, auk landsels og útsels í grásleppunetum.
Meðafli sjófugla hefur verið skráður í net, línu og flotvörpu undanfarin 5 ár. Mestur meðafli var í grásleppunetum, en einnig nokkur í línu og þorsknetum.
Hnísa var algengasta tegund sjávarspendýra sem veiddist sem meðafli, bæði í þorska- og grásleppunetum. Áætlaður árlegur meðafli hnísa er um 700 dýr. Landselur var næst algengasta dýrið sem veiddist sem meðafli, með áætlaðan árlegan meðafla upp á um 500 dýr í grásleppunetum.
Æðarfugl var algengasti sjófuglinn sem veiddist sem meðafli á tímabilinu. Áætlaður árlegur meðafli er 2 245 fuglar, í grásleppunetum. Þar á eftir var langvía algengust, en áætlaður meðafli hennar hljóðar uppá um 1 900 fugla árlega í þorsk- og grásleppunetum.
Meðafli landsels gefur ástæðu til að fylgjast vel með, þar sem stofninn er frekar lítill og hefur minnkað um 80 % síðan 1980 vegna mikils veiðiálags. Stofninn virðist vera að ná sér hægt á strik, og meðaflatíðni hefur lækkað í grásleppunetum, en mikilvægt er að fylgjast með hvort sú þróun haldi áfram.
Meðafli nokkurra fuglategunda kallar einnig á frekara eftirlit og rannsókna. Áætlaður meðafli teistu er hár, miðað við stofnstærð og mikla óvissu varðandi stofnstærð þeirra hér á landi. Eins kallar meðaflamat himbrima á frekari rannsóknir, þar sem stofninn hér á landi er mjög smár.
Inngangur
Meðafli sjávarspendýra, sjófugla og sumra fisktegunda er alþjóðlegt vandamál, og helsta dánarorsök sumra hópa eins og t.d. smáhvela (Reeves et al. 2013). Ísland með sitt fjölbreytta fugla og sjávarspendýralíf er engin undantekning.
Hér á labndi hefur meðafli í grásleppunetum fengið mesta athygli vegna mikils meðafla bæði sela og sjófugla. Tvær tækniskýrslur sem voru gefnar út (2019) og (2024) fjalla ítarlega um meðafla í þeim veiðum, og er samantekt á nýrri skýrslunni í þessum texta.
Meðafli í öðrum veiðarfærum hefur ekki fengið sömu athygli, þótt hann hafi verið til skoðunar í vinnu vinnuhóps Alþjóðahafrannsóknaráðsins um meðafla (ICES Working Group on Bycatch, WGBYC). Nýleg þróun innan þess vinnuhóps hefur nú leitt til þess að meðafli hefur verið áætlaður fyrir sum veiðarfæri við landið, og eru þessar niðurstöður kynntar hér í fyrsta sinn. Ítarlega lýsingu á ferlinu og aðferðafræðinni á bak við þessar niðurstöður má finna í skýrslu vinnuhópsins hér).
Skylda er að skrá meðafla sjófugla og sjávarspendýra í afladagbækur samkvæmt reglugerð 307/2023). Eins og með önnur gögn sem koma beint úr afladagbókum þarfnast þessar skráningar ákveðna rýni, en þau geta veitt frekari upplýsingar og eru kynnt hér í þessari samantekt sem viðbótaupplýsingar um meðafla á Íslandsmiðum.
Í þessari skýrslu eru allar tiltækar upplýsingar um meðafla sjávarspendýra og sjófugla í íslenskum hafsvæðum teknar saman. Markmiðið er að veita heildstæða yfirsýn yfir málið á íslenskum hafsvæðum, ásamt því að birta mat á meðafla þar sem það er hægt auk skráðan meðafla í afladagbókum íslenska fiskveiðiflotans.
Gagnasöfn
Áætlaður meðafli í grásleppuveiðum byggir á skráningum eftirlitsmanna Fiskistofu í róðrum milli 2020-2023. Ítarlega lýsingu á aðferðafræðinni má finna í tækniskýrslu (hér). Meðafli í öðrum veiðarfærum, samkvæmt mati vinnuhóps ICES (ICES WGBYC), byggir á athugunum eftirlitsmanna Fiskistofu um borð í skipum á árunum 2017 til 2023, en auk þess er notast við skráningar í netaralli Hafrannsóknastofnunar á sama tímabili. Skráður meðafli í afladagbækur er birtur beint frá Fiskistofu fyrir árið 2023, en augljósar villur og prufskráningar voru þó teknar út.
Aðferðafræði við meðaflamat
Til að reikna meðafla fylgjum við aðferðafræðinni “Bycatch Evaluation and Assessment Matrix” (BEAM) fyrir bæði gagnarýni og líkanagerð, sem þróuð var innan vinnuhóps Alþjóðahafrannsóknaráðsins um meðafla (ICES WGBYC). Aðferðafræðin felur í sér rýniferli til að meta þær ýmsu upplýsingar sem þarf til mats á meðafla með það markmið að meta áhrif meðafla á stofna. BEAM aðferðafræðinni má skipta upp í nokkra þætti, sem eru: 1) greining á meðaflatíðnigögnum, 2) gögn um veiðiálag, 3) meðaflamat 4) stofnstærðarmat. BEAM aðferðafræðin mun fara í gegnum rýnifund seinnipart 2025 innan ICES.
Meðafli í grásleppunetum var metin á annan hátt, þar sem tíðni meðafla í eftirliti Fiskistofu er notað til margföldunar á heildarfjölda róðra flotans á hverju grásleppuveiðisvæði fyrir sig. Frávikshlutfall (CV) er síðan reiknað fyrir meðaflamatið með skóþvengsaðferð. Nánari lýsingu á aðferðafræðinni má finna hér.
Mat á meðafla sjávarspendýra
Hnísa (Phocoena phocoena) var algengasta sjávarspendýrið sem veiddist sem meðafli, en hún veiddist bæði í þorsk- og grásleppunetum (Mynd 1). Áætlaður meðafli hnísa í þessum veiðarfærum er um 800 dýr árlega. Landselur (Phoca vitulina) var annað næst algengasta dýrið, en áætlað er að 500 dýr veiðist árlega í grásleppunet. Grásel (Halichoerus grypus) var þriðja algengasta dýrið, með áætlaðan meðafla í grásleppunet upp á um 160 dýr árlega. Einnig veiddust vöðuselir (Pagophilus groenlandicus), hringanórar (Pusa hispida) og hnýðingar (Lagenorhynchus albirostris) en áætlaður meðafli þeirra er mun lægri.
Mat á meðafla sjófugla
Æðarfugl (Somateria mollissima) var algengasti sjófuglinn sem veiddist sem meðafli, en þeir veiddust aðallega í grásleppunet. Áætlaður meðafli æðarfugls er um 2 300 fuglar ár hvert (Mynd 2). Langvía (Uria aalge) var næst algengasti fuglinn sem veiddist, en hún veiddist bæði í þorsk- og grásleppunetum. Áætlaður meðafli er um 1 800 fuglar ár hvert í þessum tveimur veiðarfærum. Teista (Cepphus grylle) var þriðja algengasta sjófuglategundin, en áætlaður meðafli hennar er um 1 500 fuglar ár hvert í grásleppunetum. Fýll (Fulmarus glacialis) veiddist í töluverðu mæli í línuveiðum, en áætlaður meðafli þar er um 800 fuglar ár hvert þótt svo að óvissan í kringum matið er mikil.
Skráður meðafli sjávarspendýra í afladagbækur
Alls voru 462 sjávarspendýr skráð í afladagbækur árið 2023. Bróðurpartur þeirra (423) voru skráð í afladagbækur báta á grásleppuveiðum. Fjöldi skráðra tegunda (9 tegundir) var hærri sen sá fjöldi sem eftirlitsmenn um borð skrásettu.
Tafla 1. Sjávarspendýr skráð í afladagbækur árið 2023
| Veiðarfæri | Tegund | Fjöldi dýra |
|---|---|---|
| Grásleppunet | Landselur (Phoca vitulina) | 157 |
| Grásleppunet | Hnísa (Phocoena phocoena) | 117 |
| Grásleppunet | Útselur (Halichoerus grypus) | 47 |
| Grásleppunet | Selir (ógr.) (Phocidae) | 60 |
| Grásleppunet | Hringanóri (Pusa hispida) | 20 |
| Grásleppunet | Vöðuselur (Pagophilus groenlandicus) | 16 |
| Grásleppunet | Hnýðingur (Lagenorhynchus albirostris) | 3 |
| Grásleppunet | Léttir (Delphinus delphis) | 2 |
| Grásleppunet | Kampselur (Erignathus barbatus) | 1 |
| Botnvarpa | Útselur (Halichoerus grypus) | 1 |
| Botnvarpa | Meðalstór hvalur | 1 |
| Þorsknet | Hnísa (Phocoena phocoena) | 30 |
| Þorsknet | Landselur (Phoca vitulina) | 5 |
| Þorsknet | Útselur (Halichoerus grypus) | 1 |
| Handfæri | Léttir (Delphinus delphis) | 1 |
Skráður meðafli sjófugla í afladagbækur
Alls voru 2 542 sjófuglar skráðir í afladagbækur árið 2023. Eins og hjá sjávarspendýrunum var bróðurpartur þeirra (2 423 fuglar) skráðir í afladagbækur báta sem stunduðu grásleppuveiðar. Auk þess voru um 1 100 fuglar skráðir í línuveiðum, en færri í öðrum veiðum. Fjöldi skráðra tegunda (17) var svipaður og hjá skráningum eftirlitsmanna Fiskistofu, þó svo að í einhverjum tilfellum var ekki um sömu tegundir að ræða. Til dæmis voru nokkrar máfategundir skráðar í afladagbækur en ekki af eftirlitsmönnum.
Tafla 2. Sjófuglar skráðir í afladagbækur árið 2023
| Veiðarfæri | Tegund | Fjöldi fugla |
|---|---|---|
| Grásleppunet | Æðarfugl (Somateria mollissima) | 953 |
| Grásleppunet | Teista (Cepphus grylle) | 635 |
| Grásleppunet | Skarfar (Phalacrocorax carbo og Phalacrocorax aristotelis) | 424 |
| Grásleppunet | Langvía (Uria aalge) | 302 |
| Grásleppunet | Lundi (Fratercula arctica) | 17 |
| Grásleppunet | Stuttnefja (Uria lomvia) | 8 |
| Grásleppunet | Álka (Alca torda) | 8 |
| Grásleppunet | Hávella (Clangula hyemalis) | 6 |
| Grásleppunet | Himbrimi (Gavia immer) | 5 |
| Grásleppunet | Fýll (Fulmarus glacialis) | 5 |
| Grásleppunet | Lómur (Gavia stellata) | 3 |
| Grásleppunet | Súla (Morus bassanus) | 2 |
| Grásleppunet | Rita (Rissa tridactyla) | 1 |
| Grásleppunet | Svartfuglar (Alcidae) | 36 |
| Grásleppunet | Fuglar (ógr.) (Aves) | 18 |
| Þorsknet | Svartfuglar (Alcidae) | 16 |
| Lína | Fýll (Fulmarus glacialis) | 1 000 |
| Lína | Svartbakur (Larus marinus) | 32 |
| Lína | Súla (Morus bassanus) | 31 |
| Lína | Sílamáfur (Larus fuscus) | 19 |
| Lína | Silfurmáfur (Larus argentatus) | 9 |
| Lína | Hvítmáfur (Larus hyperboreus) | 3 |
| Lína | Rita (Rissa tridactyla) | 3 |
| Lína | Teista (Cepphus grylle) | 1 |
| Lína | Svartfuglar (Alcidae) | 3 |
| Lína | Máfar (Larus spp.) | 2 |
Ástand sjávarspendýrastofna sem veiðast sem meðafli
Stofnstærð hnísu í íslenskum hafsvæðum hefur verið metin með tveimur mismunandi aðferðum. Í (flugtalningu) árið 2007 hljóðaði stofnmatið uppá 43 000 dýr í kringum landið. Vegna kostnaðar og erfiðra skilyrða við slíkar talningar hefur hún ekki verið endurtekin síðan. Seinni aðferðin notast við erfðafræði til að meta hlutfallslega stofnstærð útfrá líkum að finna skyldleika (t.d. forelda og afkvæmi) í gagnasafninu (Babyn ofl. 2024). Þessari aðferð var beitt á gagnasöfn frá tveimur tímabilum: 1991–2000 og 2011–2018, en sýnin komu úr meðafla og reknum dýrum. Niðurstöður þessarar greiningar benda til að hnísustofninn hafi tvöfaldast að fjölda milli þessara tímabila (NAMMCO 2019), líklega vegni minni meðaflatíðni þar sem veiði með netum hefur minnkað verulega á síðustu áratugum (sjá yfirlit yfir veiðar á Íslandsmiðum.
Landselsstofninn við Ísland hefur verið metinn með reglulegum flugtalningum síðan 1980. Í síðustu könnun sem fór fram árið 2020, var áætluð stofnstærð 10 319 dýr. Þessi stofnstærð er um 9 % stærri en í talningunni 2018, en 69 % minni en þegar talningar hófust árið 1980. Þessi fækkun er að öllum líkindum að mestu leiti vegna átaks til fækkunar sela við landið með það markmið að fækka hringormum í fiski. Beinar selveiðar voru bannaðar árið 2019 (reglugerð 1100/2019), og meðafli í grásleppuveiðum hefur farið minnkandi. Mælt er með reglulegu eftirliti með bæði stofninum og meðaflatíðni vegna stofnþróunar og þess mikla meðafla sem sást áður fyrr í grásleppuveiðum.
Stofn íslenska útselsstofnsins hefur verið metinn reglulega frá árinu 1982. Stofnstærð er áætluð út frá talningum á kópum úr lofti. Byggt á þessum kópatalningum var heildarfjöldi útsela við landið 2022 6 697 dýr. Stofninn árið 2022 var þannig 27 % minni en í fyrstu talningunni árið 1982, en samsvarar 6,8 % aukningu frá talningu ársins 2017. Mælt er með reglulegu eftirliti bæði með stofninum og meðaflatíðni vegna stofnþróunar og þess mikla meðafla sem sást áður fyrr í grásleppuveiðum.
Stofn hnýðinga við landið er talinn mjög stór, eða um 160 000 dýr (Pike ofl. 2019), og meðafli í því litla magni sem hefur mælst ólíklegur til að hafa áhrif á stofninn.
Þrjár tegundir heimskautasela sem veiddust sem meðafli; vöðuselur, hringanóri og kampselur, eru allir flækingar á Íslandsmiðum. Þessi dýr sem finnast hér við land eru því hluti af stórum stofnum norður af landinu, og meðafli í þessu litla magni sem við höfum séð er ólíklegur til að hafa áhrif á stofna þessara tegunda á svæðinu.
Ástand sjófuglastofna sem veiðast sem meðafli
Stofnar sjófugla eru ekki metnir á kerfisbundinn hátt af Hafrannsóknastofnun, en Náttúrufræðistofnun (heimasíða) hefur séð um vöktun og stofnmat þessara tegunda við landið. Bestu upplýsingar fyrir flestar tegundir má finna í (válista fyrir fugla), þótt að í sumum tilfellum séu þessar upplýsingar komnar til ára sinna.
Af þeim tegundum sem veiðast reglulega sem meðafli er æðarfugl flokkaður í nokkurri hættu (vulnerable) vegna 20–25 % fækkunar í stofninum síðustu þrjár kynslóðir. Stofninn er engu síður stór, eða um 850 000 fuglar. Ef að stofnþróun heldur áfram að vera neikvæð þarf að skoða möguleg áhrif meðafla á þessa þróun.
Langvíur eru líka flokkaðar í nokkurri hættu á válistanum, vegna 30 % fækkunar síðustu 3 kynslóðir. Eins og hjá æðarfuglinum er stofninn þó ennþá mjög stór, eða 1,3 milljónir fugla við landið. Meðafli er því ólíklegur til að hafa mikil áhrif á stofninn. Þessi tegund er líka veidd af skotveiðimönnum, og því þarf að skoða heildarveiði ef rannsaka á þessa neikvæðu stofnþróun.
Teista, sem var þriðja algengasta meðaflategundin, er flokkuð í hættu (endangered) á válistanum. Stofn teistu við landið er talinn vera lítill, og mikil óvissa er í kringum matið sem hljómar uppá 20 000–30 000 fugla, vegna erfiðleika við að telja þessa tegund á kerfisbundinn hátt. Meðafli hefur eða hafði líklega áhrif á þessa tegund við landið, sérstaklega þegar hún var einnig veidd í skotveiði en bein veiði á teistu var bönnuð árið 2017.
Fýll var nokkuð algengur meðafli, og eru einnig flokkaðir í hættu á válistanum vegna mikillar fækkunar í stofninum undanfarin ár. Stofninn telst þó ennþá mjög stór, eða yfir 1,2 milljónir fugla, og meðafli einn og sér því ólíklegur til að útskýra fækkunina í stofninum.
Aðrar tegundir sjófugla veiddust í minna mæli, og í flestum tilfellum er meðafli ólíklegur til að hafa áhrif á þessa stofna með einni undantekningu. Meðafli himbrima kallar á frekari rannsóknir, þar sem þó að metinn meðafli sé lítill, þá er stofninn á landinu talinn mjög smár. Hættuflokka og stofnstærðir allra tegunda sem hafa veiðst sem meðafli má finna í töflunni hér að neðan.
Tafla 3. IUCN hættuflokkur og besta stofnmat Náttúrufræðistofnunar þeirra sjófuglategunda sem veiddust sem meðafli.
| Tegund | Hættuflokkur | Stofnstærð |
|---|---|---|
| Æðarfugl | Í nokkurri hættu | 850 000 |
| Langvía | Í nokkurri hættu | 1 200 000 |
| Teista | Í nokkurri hættu | 20 000–30 000 |
| Fýll | Í hættu | 1 200 000 |
| Súla | Í nokkurri hættu | 80 000 |
| Skarfar (Dílaskarfur og toppskarfur) | Ekki í hættu/Í nokkurri hættu | 9 162/11 600 |
| Silfurmáfur | Í yfirvofandi hættu | 5 000–10 000 |
| Stuttnefja | Í yfirvofandi hættu | 654 000 |
| Sílamáfur | Gögn vantar | 100 000 |
| Hávella | Í yfirvofandi hættu | 110 000 |
| Álka | Í yfirvofandi hættu | 626 000 |
| Himbrimi | Í nokkurri hættu | 600 |
| Lundi | Í bráðri hættu | 4 000 000 |
| Rita | Í nokkurri hættu | 1 160 000 |
| Lómur | Ekki í hættu | 1 000–2 000 |
| Svartbakur | Í bráðri hættu | 12 000–16 000 |
| Hvítmáfur | Í hættu | 4 800 |
Viðauki 1 - Meðaflatöflur
Tafla 4. Meðafli sjávarspendýra metinn með BEAM aðferðafræði ICES WGBYC. Fjöldi dýra er fjöldi dýra í eftirlitsferðum Fiskistofu og leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar 2017–2023. BPUE er meðafli á sóknareiningu, og áætlaður meðafli er fjöldi dýra á ári hverju. Lægra og efra mat sýnir 95 % örrygismörk.
| Veiðarfæri | Tegund | Fjöldi dýra | BPUE (lægri-efri öryggismörk) | Áætlarður meðafli (lægri-efri öryggismörk) |
|---|---|---|---|---|
| Þorsknet | Hnísa (Phocoena phocoena) | 254 | 0.207 (0.063–0.685) | 559 (312–1033) |
| Þorsknet | Hnýðingur (Lagenorhynchus albirostris) | 4 | 0.004 (0.001–0.018) | 7 (2–35) |
| Þorsknet | Vöðuselur (Pagophilus groenlandicus) | 31 | 0.036 (0.002–0.088) | 61 (24–153) |
| Þorsknet | Hringanóri (Pusa hispida) | 3 | 0.003 (0.001–0.011) | 5 (1–21) |
| Botnvarpa | Vöðuselur (Pagophilus groenlandicus) | 1 | 0.001 (0.001–0.003) | 3 (1–18) |
Tafla 5. Meðafli sjávarspendýra í grásleppunetum. Heildarmeðafli er metinn með hlutfallsaðferð, þar sem meðaflatíðni í eftirlitsróðrum á hverju veiðisvæði er margfölduð með heildarfjölda róðra. Fjöldi dýra er fjöldi dýra í eftirlitsferðum Fiskistofu 2020–2023. Áætlaður meðafli er fjöldi dýra á ári hverju. Reiknað frávikshlutfall (CV) er sýnt innan sviga.
| Veiðarfæri | Tegund | Fjöldi dýra | Áætlaður meðafli (CV) |
|---|---|---|---|
| Grásleppunet | Landselur (Phoca vitulina) | 46 | 501 (43) |
| Grásleppunet | Útselur (Halichoerus grypus) | 12 | 159 (83) |
| Grásleppunet | Hnísa (Phocoena phocoena) | 11 | 108 (62) |
Tafla 6. Meðafli sjófugla metinn með BEAM aðferðafræði ICES WGBYC. Fjöldi fugla er fjöldi fugla í eftirlitsferðum Fiskistofu og leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar 2017–2023. BPUE er meðafli á sóknareiningu, og áætlaður meðafli er fjöldi fugla á ári hverju. Lægra og efra mat sýnir 95 % örrygismörk.
| Veiðarfæri | Tegund | Fjöldi fugla | BPUE (lægri-efri öryggismörk) | Áætlarður meðafli (lægri-efri öryggismörk) |
|---|---|---|---|---|
| Þorsknet | Langvía (Uria aalge) | 643 | 0.558 (0.318–0.977) | 984 (587–1 647) |
| Þorsknet | Fýll (Fulmarus glacialis) | 14 | 0.013 (0.005–0.289) | 25 (11–57) |
| Þorsknet | Stuttnefja (Uria lomvia) | 10 | 0.009 (0.003–0.028) | 18 (6–55) |
| Þorsknet | Súla (Morus bassanus) | 6 | 0.006 (0.003–0.013) | 11 (5–25) |
| Þorsknet | Lómur (Gavia stellata) | 1 | 0.001 (0.001–0.007) | 2 (1–13) |
| Lína | Fýll (Fulmarus glacialis) | 146 | 0.056 (0.008–0.0371) | 763 (115–5 040) |
| Lína | Súla (Morus bassanus) | 25 | 0.039 (0.009–0.017) | 534 (123–2 316) |
| Lína | Sílamáfur (Larus fuscus) | 5 | 0.011 (0.002–0.073) | 152 (23–992) |
| Flotvarpa | Langvía (Uria aalge) | 2 | 0.007 (0.001–0.050) | 133 (18–1 009) |
Tafla 7. Meðafli sjófugla í grásleppunetum. Heildarmeðafli er metinn með hlutfallsaðferð, þar sem meðaflatíðni í eftirlitsróðrum á hverju veiðisvæði er margfölduð með heildarfjölda róðra. Fjöldi fugla er fjöldi fugla í eftirlitsferðum Fiskistofu 2020–2023. Áætlaður meðafli er fjöldi fugla á ári hverju. Reiknað frávikshlutfall (CV) er sýnt innan sviga.
| Veiðarfæri | Tegund | Fjöldi fugla | Áætlaður meðafli (CV) |
|---|---|---|---|
| Grásleppunet | Æðarfugl (Somateria mollissima) | 217 | 2 245 (43) |
| Grásleppunet | Teista | 143 | 1 485 (53) |
| Grásleppunet | Langvía (Uria aalge) | 87 | 890 (56) |
| Grásleppunet | Skarfar (Phalacrocorax carbo og Phalacrocorax aristotelis) | 33 | 333 (64) |
| Grásleppunet | Hávella (Clangula hyemalis) | 5 | 50 (80) |
| Grásleppunet | Stuttnefja (Uria lomvia) | 5 | 54 (70) |
| Grásleppunet | Fýll (Fulmarus glacialis) | 4 | 41 (61) |
| Grásleppunet | Álka (Alca torda) | 3 | 28 (85) |
| Grásleppunet | Lundi (Fratercula arctica) | 1 | 10 (100) |
| Grásleppunet | Rita (Rissa tridactyla) | 1 | 10 (100) |
| Grásleppunet | Súla (Morus bassanus) | 1 | 10 (100) |
| Grásleppunet | Himbrimi (Gavia immer) | 1 | 11 (100) |