Veiðar
Veiðisvæðið við Snæfellsnes afmarkast af Kolluál, sunnanverðum Breiðafirði og Jökuldjúpi (Mynd 1). Veiðar í sunnanverðum Breiðafirði eru heimilaðar frá 8. maí til 31. júlí skipum sem eru 105 brl að stærð eða minni og hafa aflamark á veiðisvæðinu við Snæfellsnes.
Rækjuafli við Snæfellsnes var mikill á árunum 1992-1995 þegar veiddust nær 8000 tonn (Mynd 2). Líklega hefur mikið veiðiálag á þessum árum leitt til þess að rækjustofninn hrundi. Rækjuaflinn var lítill frá 1997-1999 en jókst eftir árið 2007 þar til hann náði hámarki á árunum 2012-2014. Frá árinu 2016 hefur afli minnkað stöðugt í samræmi við lækkandi vísitölu stofnsins. Árið 2019 var aflinn óverulegur en hann jókst aftur á árunum 2020-2022. Fjöldi skipa á svæðinu jókst hratt til ársins 1994 þegar 47 skip lönduðu rækju. Árið 2006 voru aðeins nokkur skip sem lönduðu rækju, þeim fjölgaði aftur til ársins 2013 en fækkaði eftir það og árið 2023 voru aðeins 3 skip sem lönduðu rækju við Snæfellsnes (Mynd 2).
Afli á sóknareiningu lækkaði frá 2000 til 2003 en hækkaði aftur til ársins 2006 þegar hann var hæstur (Mynd 3). Hann lækkaði til ársins 2011 en hefur verið nokkuð stöðugur síðan. Afli á sóknareiningu er hæstur í mars til maí en fer svo lækkandi eftir því sem líður á árið. Ekki er mikill breytileiki í afla á sóknareiningu eftir stærð veiðarfæris, en hann er hærri þegar rækjutroll með 3500-4000 möskva er notað.
Að jafnaði eykst afli á sóknareiningu með hækkandi lífmassavísitölu rækju (Mynd 4). Breytileikinn er þó töluverður þegar lífmassavísitalan er hærri en 1000. Ágætis samræmi er á milli lífmassavísitölu rækju úr stofnmælingu og afla á sóknareiningu (Mynd 4).
Útbreiðsla veiðanna hefur breyst milli ára (Mynd 5). Á árunum 1988-1996 var aðalveiðisvæðið utarlega í Kolluál en frá árinu 2006 hefur mestur afli verið tekinn nær landi. Veiðarnar eru mest stundaðar yfir sumartímann og árið 2024 var allur aflinn veiddur í maí.
Leiðangrar
Frá árinu 1990 hefur verið farið árlega í leiðangur til að meta stofnstærð rækju við Snæfellsnes (að undanskyldum árunum 2007, 2021, 2022 og 2024). Allar upplýsingar um framkvæmd leiðangursins má finna í handbók verkefnisins (Ingibjörg G. Jónsdóttir 2025). Árið 2025 fór stofnmælingin fram 22. -26. apríl. Teknar voru 31 stöðvar á 120 - 333 m dýpi.
Þéttleiki rækju var mestur í sunnanverðum Breiðafirði (Mynd 6). Til samanburðar var þéttleiki rækju jafnari í Kolluál og sunnanverðum Breiðafirði á árunum 2017-2023. Nær engin rækja fékkst í Jökuldýpi.
Vísitölur
Reiknaðar eru fjórar vísitölur til að meta ástand stofnsins: vísitala stofnstærðar, vísitala veiðistofns, kvendýravísitala og vísitala ungrækju. Ungrækja eru allir einstaklingar með skjaldarlengd minni en 13 mm meðan veiðistofn eru allir einstaklingar 15,5 mm og stærri. Einstaklingum frá 13,0-15,5 mm skjaldarlengd er skipt á milli ungrækju og veiðistofns. Kvendýravísitala miðar við öll kvendýr og er það skilgreiningin á hrygningarstofni.
Vísitölurnar hafa sveiflast mikið í gegnum tíðina (Mynd 7). Þær lækkuðu mikið milli áranna 1995 og 1998 þegar veiðiálagið var hátt. Vísitölurnar sveifluðust í kringum meðaltal árin 2008-2016. Frá 2017 hafa þær verið töluvert lægri en árin á undan og þær lægstu frá árinu 2005. Viðmiðunargildi (Ilim) er 20 % af meðaltali þriggja hæstu vísitalna úr stofnmælingu. Vísitala ungrækju sveiflaðist frá 1990 til 2013 en hefur verið mjög lág frá árinu 2014.
Lengdardreifingar
Stærstur hluti stofnsins eru kynþroska dýr (Mynd 8). Lítið magn ungrækju bendir til þess að lítið sé vitað um nýliðun og rek lirfa frá nálægum svæðum. Ekki hafa verið miklar breytingar í lengdardreifingu á árunum 2019-2025.
Magn þorsks og ýsu
Magn ýsu hefur sveiflast í gegnum tíðina. Magn 1 árs ýsu hefur verið mikið frá árinu 2020. Magn ýsu 2 ára og eldri var lágt árin 2011-2025 að undanskildum árunum 2019 og 2023, þegar magnið var mjög mikið.
Enginn 1 árs þorskur fæst en magn þorsks 2 ára og eldri var tiltölulega hátt milli 1994 og 2006 en minnkaði árin 2014-2019 og hefur haldist lágt síðan (Mynd 9).
Hitastig sjávar
Meðal yfirborðs- og botnhiti sjávar hækkuðu, yfirborðshiti til ársins 2008 en botnhiti var í hámarki árið 2003. Eftir lækkun til ársins 2020 hefur hitastig sjávar farið hækkandi aftur (Mynd 10).
Fiskveiðistjórnun
Atvinnuvegaráðuneytið ber ábyrgð á og gefur út aflamark fyrir alla nytjastofna við Ísland. Hafrannsóknastofnun veitti fyrst ráðgjöf fyrir rækju við Snæfellsnes árið 2002 en til ársins 2014 var svæðið þó skilgreint sem úthafsrækjusvæði og ekki var gefið út sérstakt aflmark fyrir svæðið við Snæfellsnes. Fiskveiðiárin 2010/2011 til 2013/2014 voru úthafsrækjuveiðar gefnar frjálsar. Sum árin hefur afli við Snæfellsnes farið töluvert yfir ráðlagt aflamark. Árið 2015 ráðlagði Hafrannsóknastofnun að fiskveiðiárið myndi hefjast 1. maí og lyki 15. mars ári síðar. Síðan þá hafa rækjuveiðar ekki verið heimilaðar frá 16. mars til 30. apríl (Mynd 11).
Heimildir
Ingibjörg G. Jónsdóttir 2025. Handbók um stofnmælingu rækju árið 2025. Kver Hafrannsóknastofnunar, KV2025-003.