Helstu niðurstöður
Afli hörpudisks náði hámarki um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Aflinn var að mestu veiddur í Breiðafirði.
Veiðibann var komið á árið 2003 eftir að stofninn hrundi í Breiðafirði sem stóð fram til ársins 2020.
Tilraunaveiðar voru stundaðar á árunum 2014–2019 í Breiðafirði og síðan hafa takmarkaðar veiðar verið stundaðar með aflamarki.
Lífmassavísitala hörpudisks í Breiðafirði er sú lægsta síðan myndavélaleiðangur hófst árið 2014.
Almennt
Hörpudiskur (Chlamys islandica) er lindýr af flokki samloka og telst vera hægvaxta tegund. Hörpudiskur finnst allt í kringum Ísland. Hann finnst í mesta magni víða innfjarðar við Vestur- og Norðvesturland. Hörpudiskurinn heldur sig aðallega á hörðum botni, malarbotni eða grófum skeljasandsbotni og hefur fundist á 2 til 300 m dýpi. Mest heldur hann sig þó á 20 til 50 m dýpi.
Hörpudiskur hefur verið nýttur við Ísland síðan seint á sjöunda áratug síðustu aldar og helstu veiðisvæðin hafa verið í Breiðafirði.
Sjá nánar um líffræði hörpudisks.
Veiðar
Veiðar á hörpudiski hófust árið 1969 þegar 400 tonn voru veidd í Ísafjarðardjúpi. Árið 1970 hófust veiðar í Breiðafirði þar sem umfangsmikil hörpuskelsmið fundust. Á árunum 1970 fram að veiðibanni árið 2003 var heildarveiðin þar 254 þúsund tonn. Þau svæði sem koma næst á eftir Breiðafirði eru Húnaflói með 18 þúsund tonna uppsafnaðan afla og Ísafjarðardjúp með 14 þúsund tonn.
Hrun stofnsins í Breiðafirði á árunum 1999–2003, sem leiddi til veiðibanns, er talin hafa stafað af nokkrum þáttum (Jónas Páll Jónasson o.fl. 2007). Fáir árgangar voru þá í veiðistofninum og nýliðun léleg. Á öllum veiðisvæðum var hár náttúrulegur dauði sem rekja mátti til frumdýrasýkingar (grár vöðvi). Versta ástandið var á megin veiðisvæðunum í suðurhluta Breiðafjarðar þar sem metið var að 40 % skelja hafi drepist árlega. Sýkingin var meiri í eldri og veiðanlega hluta stofnsins (>60 mm skelhæð). Undanfarin ár hefur sýkingin verið í rénum og vöðvi í góðu ástandi.
Frá árinu 2014 hefur stofninn í Breiðafirði verið kannaður með botnmyndatöku og það árið hófust einnig tilraunaveiðar. Í Breiðasundi í suðurhluta Breiðafjarðar var einkunn veitt á vesturhluta og miðju svæðisins á hefðbundinni veiðislóð (Mynd 1). Heildarstærð veiðisvæðis, sem byggir á staðsetningum báta við tilraunaveiðarnar, var sú stærsta af öllum rannsóknasvæðum, eða 5,64 km2. Veiðar í Hvammsfirði fóru fram á þremur undirsvæðum, tveimur í norðanverðum og einum í sunnanverðum hluta utanverðs fjarðarins (Mynd 1). Metin stærð veiðisvæða var 2,34 km2.
Á veiðisvæðum nærri Flatey var veitt á fjórum undirsvæðum (Mynd 2). Stærð veiðisvæðanna var metin vera 3,83 km2. Nokkuð samfellt veiðisvæði var við Bjarneyjar, en einnig var veitt á tveimur smáum svæðum innar við eyjarnar (Mynd 2). Stærð veiðisvæðanna var metin vera 3,26 km2. Veiðar voru stundaðar við Rúfeyjar á afmörkuðu svæði í rennu sem liggur í átt að eyjunum (Mynd 2).Veiðisvæðið þar var metið nokkuð lítið eða 1,05 km2. Á veiðisvæðum vestur af Látralöndum var veitt á tveimur aðalsvæðum og einu minni (Mynd 2). Stærð veiðisvæðanna var metin vera 4,05km2.
Hörpudiskur hefur einnig verið tíndur af köfurum á Vestfjörðum, en á árunum 2017 til 2021 var landað 2,24 tonnum að jafnaði hvert ár. Fáar landanir voru skráðar í gagnagrunna Fiskistofu árið 2020 og engar 2023 og 2024.
Árið 2024, var 40 tonnum landað úr Breiðasundi og 20 tonnum frá Hvammsfirði (Mynd 3).
Stofnmælingaleiðangrar
Fyrsti myndavéla leiðangurinn var farinn í apríl 2014 og voru einkum könnuð veiðisvæði í Breiðasundi í suðurhluta Breiðafjarðar þar sem fyrirhugaðar voru tilraunaveiðar. Einnig voru önnur þekkt og ókönnuð svæðií firðinum mynduð. Þau svæði voru í Hvammsfirði, suður af Skálmarnesi, vestur af Látralöndum og við Sauðeyjar í norðvestur hluta Breiðafjarðar. Nokkuð af skel fannst víða á þessum svæðum. Aftur var myndað í desember 2014, þá á veiðisvæði í Breiðasundi. Haust og sumur 2015-2019 og 2024, var myndað á flestum tilraunaveiðisvæðunum en einnig víðar í firðinum. Einnig er sýnum safnað með plóg til að meta stærðarsamsetningu og fá líffræðileg sýni.
Tíu myndir eru teknar á hverri stöð og að jafnaði er talið af annarri hverri mynd eða fimm í heildina. Öll dýr eru talin og stærð myndflatar er þekktur. Hörpudiskur hefur einnig verið lengdarmældur af myndum frá árinu 2018. Veiðanlegur lífmassi byggir á meðalfjölda skelja stærri en 60 mm (hlutfallið kemur frá lengdardreifingu úr plógum) og lengd/þyngdar sambandi, margfaldað með stærð hvers svæðis. Þegar metið er hlutfall smárra skelja er skeljum minni en 25 mm sleppt. Litlar skeljar fela sig oft í dauðum skeljum og erfiðara er að greina þær af myndum.
| Veiðarfæri | 2014 | 2015 | 2016 | 2017 | 2018 | 2019 | 2024 |
|---|---|---|---|---|---|---|---|
| Dregin plógur | 52 | 29 | 32 | 21 | 28 | 38 | 22 |
| Myndavél | 195 | 83 | 168 | 241 | 192 | 245 | 124 |
Lengdardreifingar
Meðalskelhæð á öllum svæðum í Breiðafriði jókst árunum 2014 til 2024, úr 66.3 mm í 77.6 mm (Mynd 4). Fjöldi smærri skelja fækkaði og á sama tíma fjölgaði í hóp stærri og eldri skelja. Þetta bendir til lélegrar nýliðunar á undanförnum árum.
Mismunandi þróun var á skelhæð milli svæða. Þannig var minni munur milli ára á skelhæð við Bjarneyjar, samanborið við önnur svæði (Mynd 5). Meðalskelhæð jókst hinsvegar á Breiðasundi úr 69.6 mm árið 2014 í 74.5 mm 2024. Meðalskelhæð jókst við Flatey 71.5 mm í 79.6 mm á sama tímabili. Í Hvammsfirði var mesta breytingin, úr 63.9 mm í 77.6 mm og voru fáar skeljar undir meðalskelhæð árið 2024. Ekki var mælt við Látralönd árið 2024, en þar jókst skelhæð milli áranna 2014-2019 úr 70.5 mm í 74.0 mm. Litla nýliðun var á sjá á flestum svæðum árið 2024, að undanskild Rúfeyjum, en meðalskelhæð þær jókst úr 74.8 mm í 78.4 mm milli 2014 og 2024.
Stofnmat
Lífmassalíkan byggt á leiðöngrum
Lífmassi hörpudisks var metinn út frá gögnum úr myndavéla- og plógleiðöngrum. Fjöldi hörpudiska á 0.1 m2 var metinn með alhæfðri þjálli aðhvarsgreiningu (GAMM) sem notar svæðisbundnda Gaussian Markov tilviljanakennda reiti í R - pakkanum “sdmTMB” (Anderson et al. 2024). Gert var ráð fyrir að svarbreytan fygldi tweedie-dreifingu með log-tengifall. Dýpi og ár eru skýribreytur. Líkanið spáir gildum á þríhyrnings laga hnitakerfi sem tekur tillit til þeirra fjölda eyja og skerja sem er að finna í Breiðafirði. Lokaniðurstaða líkanins spáir með 100 m upplausn. Upplýsingar um dýpi er metið á hverjum punkti. Hundrað hermanir eru keyrðar til að fá fá öryggismörk (95 %) á mat á fjölda skelja.
Veiðanlegur lífmassi \(FB\) fyrir hvert veiðisvæði \(b\) á hverju ári \(y\) var:
\[FB_{b,y} = \bar{D}_{b,y}A_{b}\bar{W}_{b,y}Pr_{60}\]
þar sem \(\bar{D}\) er meðal þéttleiki, \(A\) er stærð veiðisvæðis, \(\bar{W}\) er meðal þyngd skelja á því svæði, og \(Pr_{60}\) er hlutfall skelja yfir lágmarkslöndunarstærð í afla, eða 60 mm.
Eftir að sviflægu lirfustigi lýkur, og hörpudiskar setjast á botninn, hreyfa þeir sig lítið. Talið er þeir dreifist nokkuð víða um fjörðinn á lirfustigi og er því gert ráð fyrir að stofninn í Breiðafirði sé einn líffræðilegur stofn. Heildar veiðanlegur lífmassi er samanlagður lífmassi reiknaður frá öllum sex metnu veiðisvæðunum.
Niðurstöður úr þessum rannsóknaleiðangri sýna að lífmassavísitölur hafa lækkað frá árinu 2015, þegar hún hvar hæst, til ársins 2024 á öllum svæðum, að undanskildu Breiðasundi (Mynd 6). Heildarlífmassinn hefur því lækkað á þessu tímabili (Mynd 7).
Lýsing á stofnmatsaðferð og ráðgjafarreglu
Grunnur ráðgjafar fylgir forskrift Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES 2025) fyrir stofna þar sem ekki er hægt að framkvæma tölfræðilegt stofnmat, en til eru vísitölur og aðrar upplýsingar um lífsögulega þætti.
Ráðgjöfin í ár byggir á rfb-reglu (ICES 2025):
\[A_{y + 1} = A_{y}rf^{-1}bm\]
þar sem Ay+1 er ráðlagður heildarafli, Ay er ráðgjöf síðasta árs, r er hlutfall meðaltals vísitalna síðustu tveggja ára (vísitala A) og meðaltals vísitalna þriggja ára þar á undan (vísitala B), f er nálgun (e: proxy) á nýtingu (MSY-viðmiðunarlengd deilt með meðallengd úr afla) og b eru varúðarmörk (ráðlagður heildarafli minnkar þegar lífmassavísitala fellur fyrir neðan gildi aðgerðarmarka).
r er hlutfall meðaltals vísitölu síðustu tveggja ára (vísitala A) og meðaltals þriggja ára þar á undan (vísitala B) eða:
\[r = \frac{\sum_{i = y - 2}^{y - 1}\left( I_{i}\text{/}2 \right)}{\sum_{i = y - 5}^{y - 3}\left( I_{i}\text{/}3 \right)}\]
f er vísihlutfall á nýtingu:
\[f = \frac{L_{F = M}}{{\overline{L}}_{y - 1}}\]
þar sem \({\overline{L}}_{y - 1}\) er meðallengd úr afla sem er hærri en lengd sem kemur fyrst í veiði Lc. Þ.e. Lc er lengd þar sem tíðnin er helmingurinn af tíðni algengasta gildis (Mynd 8).
Lengd við kjörsókn \(L_{F = M}\) er sú meðallengd sem vænta má við veiðar við hámarksnýtingu (MSY) er reiknuð með eftirfarandi hætti:
\[L_{F = M} = 0.75L_{c} + 0.25L_{\infty}\]
þar sem Lc er lengd sem kemur fyrst í veiði (sjá ofar) og L∞ er hámarkslengd tegundar samkvæmt jöfnu von Bertalanffy. Þetta byggir á þeirri forsendu að hlutfallið \(M/K\) sé 1.5.
b er varúðarmörk og er notað til að takmarka ráðgjöf þegar vísitala fellur undir aðgerðamörk:
\[b = \min\left\{ 1,\frac{I_{y}}{I_{trigger}} \right\}\,\]
þar sem Itrigger = 1.4Iloss. Iloss er lægsta gildi vísitölu (Mynd 6). Þar sem síðasta ár var lægsta gildi vísitölunnar, var næst lægsta vísitalan notuð sem Iloss.
m er margfaldari byggður á vaxtarhraða K, sem er fenginn með aðferð von Bertalanffy. Fyrir tegundir með K<0.2 yr-1; þá er m=0.95 (hægvaxta tegundir). Von Bertalanffy K fyrir hörpudisk er 0.139 og því er m=0.95.
Beyting rfb-reglunnar
- r er reiknað sem meðaltal síðustu tveggja ára, deilt með meðaltali þriggja áranna á undan, sem gefur r=0.895 (Mynd 7).
- f er lengdarhlutfalls þáttur rfb stofnmatsjöfnunnar. Meðallengd úr afla síðasta árs (2024) var 81 mm og mark-viðmiðunarlengd (Lc * 0.75 + L∞ * 0.25) er 78 mm (Mynd 8 og Mynd 9). Útkoman var f\(^{-1}\) = 1.034 og f = 0.967.
b er varúðarmörk og er notað til að takmarka ráðgjöf þegar vísitala fer undir ákveðið gildi (Itrigger). Lægsta vísitala hörpudisks var árið 2024. Þess í stað var notað næst lægsta gildið fyrir Iloss (6009 árið 2014). Itrigger er Iloss * 1.4 eða 8413 (Mynd 8). Vísitalan 2025 var 5153 og því fyrir ofan Itrigger og b = 0.61.
m er stillingarbreyta en fyrir hægvaxta tegundir (með von Bertalanffy K<0.2), er m = 0.95.
Fiskveiðistjórnun
Atvinnuvegaráðuneytið ber ábyrgð á stjórnun fiskveiða á hafsvæði við Ísland. Stjórnun fiskveiða er bundin í lög og árlega eru gefnar út reglugerðir sem geta verið háðar árlegum breytingum. Aflamark í Breiðafirði var nokkuð stöðugt milli 8000 og 8500 tonn árin 1993-2000. Ráðlagt afamark var byggt á að veiða 10 % af metinni stofnstærð út frá plógleiðöngrum, en útgefið aflamark fylgdi ráðgjöf frá árinu 1994. Á árunum 2003–2013 var í gilidi veiðibann í Breiðafirði.
Árið 2014 voru tilraunaveiðar leyfðar á hörpudiski í Breiðafirði, við jaðar og utan við svæði sem eldri leiðangrar með plóg tóku til. Sama ráðgjöf var gefin út um tilraunaveiðar árin 2015–2019. Upphaflega voru þessar veiðar stundaðar á svæðum sem lítið eða ekkert hafði verið veitt á áður, en seinna var einnig farið inn á þekkt veiðisvæði þar sem skel var að finna í veiðanlegu magni. Tilraunaveiðunum lauk fiskveiðiárið 2019/2020. Síðan þá hefur verið veitt ráðgjöf á veiðisvæðum í suðurhluta fjarðarins, en veiðisvæði í norðurhluta fjarðarins höfðu gefið eftir í tilraunaveiðunum sökum lélegrar nýliðunar. Ráðgjöf var lækkuð í varúðarskyni um 20 % árið 2023/2024 sökum óvissu um þróun stofnsins. Sama ráðgjöf var veitt fyrir fiskveiðiárið 2024/2025 þar sem ekki lá fyrir nýtt mat á stöðu stofnsins.
References
Anderson, S. C., Ward, E. J., English, P. A., Barnett, L. A. K., & Thorson, J. T. (2024). sdmTMB: An R package for fast, flexible, and user-friendly generalized linear mixed effects models with spatial and spatiotemporal random fields [Preprint]. bioRxiv. https://doi.org/10.1101/2022.03.24.485545
ICES. 2025. “ICES Guidelines - Advice rules for stocks in category 2 and 3,” February. https://doi.org/10.17895/ices.pub.28506179.v2.
Jonasson, J.P., Thorarinsdottir, G., Eiriksson, H., Solmundsson, J., Marteinsdottir, G., 2007. Collapse of the fishery for Iceland scallop in Breidafjordur, West Iceland. ICES J. Mar. Sci. 64, 298-308