Hrognkelsi

Cyclopterus lump


Stofnmatsskýrslur
Birt af

Hafrannsóknastofnun

Birt

26. 3. 2025

Almennar upplýsingar

Hér eru helstu gögn og forsendur kynnt sem leggja grunn að stofnmati og veiðiráðgjöf á hrognkelsi við Ísland. Ungviði hrognkelsis eru aðallega að finna í efri lögum sjávar líkt og uppsjávarfiskar en ekki í torfum. Það er að finna á víðáttu miklum svæðum í Norðaustur Atlantshafi, þar á meðal í Noregshafi, Grænlandssundi og Grænlandshafi. Þegar hrognkelsi verður kynþroska leitar það inn á strandsvæði kringum Ísland til hrygningar. Rauðmaginn fer að birtast þar á tímabilinu janúar-febrúar en grásleppan febrúar-mars. Merkingargögn hafa meðal annars sýnt að í hrygningargöngu hrognkelsis flakkar það milli botns og yfirborðslaga. Mikilvægasta afurð hrognkelsis eru hrognin sem vega um 25-35% af þyngd grásleppu. Mikill kynjamunur er hjá hrognkelsi þar sem rauðmaginn (karlinn) er minni (~25-35 cm) en grásleppan (~35-45 cm) og rauðmaginn hefur sterkan rauðan lit yfir hrygninguna. Grásleppan hrygnir botnlægum eggjum sem rauðmaginn gætir þar til þau klekjast út.

Sjá nánar um hrognkelsi.

Veiðar

Það eru tvennskonar veiðar stundaðar á hrognkelsi, annarsvegar rauðmagaveiðar (heildarveiði undir 40 tonn á ári) og hinsvegar grásleppuveiðar sem eru af allt annarri stærðargráðu (venjulega 2-10 þúsund tonn) þar sem helsta afurðin eru hrognin.

Grásleppuveiðar fara fram á tímabilinu mars-ágúst með grásleppunetum með 267 og 292 mm möskvastærð. Meira en 99% af heildarveiði á grásleppu við landið kemur frá beinu veiðunum. Grásleppuveiðar fara fram nálægt ströndum landsins á svæðinu frá Faxaflóa, í Breiðafirði og með norðurströndinni (Mynd 1). Afli grásleppu var mestur seinni hluta 8. áratugsins og yfir 9. áratuginn (Mynd 2). Síðan 1980 hefur ársaflinn sveiflast á milli 2-13 þúsund tonn. Fram til ársins 2008 var ársaflinn metinn út frá fjölda framleiddra tunna af hrognum samkvæmt gögnum frá Landsambandi smábátaeigenda. Árið 2008 tóku hinsvegar gildi reglur þar sem allur grásleppuafli skyldi veginn líkt og með veiðar á öðrum fisktegundum við Ísland. Hinsvegar var enn löglegt að henda hveljunni í hafið og því var uppistaðan í vegnum afla aðeins hrogn. Árið 2012 urðu þær breytingar að landa þurfti hveljunni líka og setja á vigt. Undantekningar frá þeirri reglu voru árin 2021 og 2022 vegna markaðsaðstæðna á sölu á hveljunni. Þar sem ekkert eiginlegt aflamark er á hrognkelsi er enginn hvati fyrir brottkasti á því. Hinsvegar voru settar reglur árið 2019 um bann á brottkasti á rauðmaga við veiðar á grásleppu.

Mynd 1: Hrognkelsi.** Landanir á grásleppu síðastliðin sex ár eftir löndunarhöfn. Stjórnunarsvæði grásleppuveiða eru afmörkuð. Árið 2020 voru stjórnunarsvæðin aðeins tvö.
Mynd 2: Hrognkelsi. Landanir á grásleppu 1970-2023 (súlur) og sóknarvísitala grásleppuneta (blá lína) frá árunum 1980 til seinasta árs. Ljósblárar súlur sýna ár þar sem afli var metinn út frá fjölda tunna af hrognum, dökkgráar súlur sýna landanir hrogna umreiknaðar í heila grásleppu, ljósgráar súlur landanir heillar grásleppu úr grásleppuveiðum, svartar úr öðrum veiðum. Ráðlögð heildarveiði er sýnd með rauðum stjörnum.

Rauðmagaveiðar fara jafnan fram á nokkrum svæðum fyrir norðan og stöku sinnum í Faxaflóa (Mynd 3) á tímabilinu janúar-mars. Við veiðarnar eru notuð net með 178 og 203 mm möskva stærð. Um það bil 20-60 tonn af rauðmaga er landað árlega frá beinum veiðum sem er metið vera milli 2-56% af heildarveiði rauðmaga yfir árin 2003-2021 (Mynd 4). Annar afli á rauðmaga kemur frá veiðum á grásleppu og við veiðar á botnfiski í þorskanet, dragnót og botnvörpu. Almennt jókst sókn með þorskanetum á árunum 2002-2006 en minnkaði svo frá 2006-2020 sem endurspeglar vel rauðmagaafla í þorskanet. Þessar veiðar á rauðmaga í þorskanet skýra að mestu breytileikann í veiði á rauðmaga í öðrum veiðarfærum eftir árum.

Mynd 3: Hrognkelsi. Landanir á rauðmaga úr rauðmaganetum síðastliðin 6 ár.
Mynd 4: Hrognkelsi. Landanir á rauðmaga frá 2002 til síðastliðins árs úr rauðmaganetum og öðrum veiðfærum. Bláa línan sýnir fjölda báta sem tóku þátt í rauðmaganetaveiðum hvert ár.

Mat á afla fyrri ára

Þar sem landaður afli á grásleppu var ekki veginn fram til ársins 2008 var hann metinn út frá fjölda framleiddra tunna af hrognum samkvæmt gögnum frá Landsambandi smábátaeigenda. Aðferðin bak við það mat er útskýrð í grein James Kennedy og Sigurðar Þ. Jónssonar (2020). Í fáum orðum var meðalþyngd hrogna í tunnu metin frá afladagbókum sem og það magn af ferskum hrognum sem þurfti til að fylla tunnu. Það mat sýndi að hrogn væru að meðaltali 29,4% af þyngd grásleppu og að það þurfi að meðaltali 139 kg af ferskum hrognum til að fylla tunnu. Þetta þýðir að magn grásleppu úr sjó sem þarf til að fylla tunnu af hrognum er 472 kg. Heildarafli í tonnum hvert ár reiknast því sem fjöldi tunna margfaldaður með 0.472 tonnum.

Þyngd landaðra hrogna sem Fiskistofa heldur utan yfir er umreiknuð í þyngd grásleppu samkvæmt eftirfarandi reikniaðferð

\[\text{W}_{grásleppa} = \text{W}_{hrogn}\times\text{1.25}\times\frac{\text{100}}{\text{29.4}}\]

þar sem Wgrásleppa táknar þyngd grásleppu og Whrogn þyngd landaðara hrogna. Þegar hrognum er landað er gert ráð fyrir 20% vatnsfrádrætti sem byggist á mati Fiskistofu. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að þyngd hrogna sé að meðaltali 29,4% af þyngd grásleppu.

Stjórnun veiða og fyrri ráðgjöf

Stjórnun veiða á grásleppu er samkvæmt sóknarstýringu með takmörkunum á samanlagðri teinalengd neta, fjölda veiðidaga og fjölda báta. Fjöldi báta er takmarkaður því bátar sem hafa gilt leyfi til atvinnuveiða þurfa jafnframt að hafa gilt grásleppuveiðileyfi. Í mars 2024 voru 437 bátar með grásleppuveiðileyfi. Ný leyfi eru ekki gefin út en leyfilegt er að færa leyfin milli báta að uppfylltum skilyrðum. Frekari upplýsingar um veiðleyfin má finna í árlegri Reglugerð um hrognkelsaveiðar frá Matvælaráðuneytinu (https://island.is/reglugerdir/nr/0228-2023).

Fram til ársins 2020 var strandlínunni kringum Ísland skipt í 7 veiðisvæði (Mynd 1) þar sem hvert svæði var opið til veiða á grásleppu í um 2,5 mánuð á ári. Hver bátur þurfti að velja sér svæði fyrir hvert ár og hafði ekki leyfi til grásleppuveiða á öðru. Hvert veiðileyfi gaf leyfi til veiða á grásleppu í ákveðna marga daga innan þess tímabils og þurfti að taka þá daga í samfellu. Þetta kerfi var lagt af árið 2020 og fengu bátar þá leyfi til að flakka milli svæða að vild, fyrir utan innri hluta Breiðafjarðar (B2) sem opnaði seinna (20. maí). Svæðakerfið var endurvakið árið 2021. Þessu fyrir utan, eru fjöldi svæða sem eru lokuð fyri grásleppuveiðar til að lágmarka meðaflaveiðar, sérstaklega á sjávarspendýrum (Mynd 5).

Megin stjórnunartækið við að takmarka heildarafla grásleppu fellst í ákvörðun um fjölda veiðidag fyrir hvern bát. Fjöldi daga er ákvarðaður og gefinn árlega af Ráðherra Matvælaráðuneytisins. Sú ákvörðun byggir á ráðlögðum heildarafla grásleppu frá Hafrannsóknastofnun og samráði við Landsamband smábátaeigenda. Hafrannsóknastofnun hefur gefið út ráðleggingu um aflamark á grásleppu í tonnum síðan 2012 (tafla 2). Vikið er að ráðgjöf þessa árs að neðan.

Einu takmarkanir á veiðum á rauðmaga eru bundnar við tímabil sem rauðmaganet mega vera í sjó (1. janúar- 15. júní), möskvastærð og hæð neta. Það er ekkert aflamark fyrir landaðan afla og Hafrannsóknastofnun gefur ekki ráðleggingar um aflamark fyrir grásleppu.

Mynd 5: Hrognkelsi. Kort sem sýnir lokuð svæði fyrir veiðum með hrognkelsanetum með það að markmiði að draga úr meðafla sjávarspendýra.

Sókn og afli á sóknareiningu (CPUE)

Fjöldi báta sem taka þátt í grásleppuveiðum hvers árs er breytilegur af ýmsum ástæðum en afurðaverð á hrognum hefur mikla þýðingu þar. Fram til 1996 voru jafnan fleiri bátar í veiðunum, eða frá 290-450 bátar (tafla 2). Eftir 1996 hefur fjöldinn verið 144-363 bátar. Hinsvegar hefur fjöldi neta á bát verið meiri eftir 1996 jafnframt því sem fjöldi leyfilegra veiðidaga hefur verið lægri (Tafla 2). Fjöldi báta sem stundað hafa veiðar á rauðmaga hefur verið 2-17 á árunum mill 2001 til 2021 (Mynd 4).

Afli á sóknareiningu er reiknaður út frá gögnum úr afladagbókum og er skilgreindur sem afli deildur með fjölda neta (Mynd 6). Afli á sóknareiningu hefur sveiflast milli ára bæði vegna stærðar á hrygningarstofni grásleppu sem og sjálfri sókninni.

Mynd 6: Hrognkelsi. Lífmassavísitala grásleppu í stofnmælingu í mars (IS-SMB) og afli á sóknareiningu við grásleppuveiðar.

Lengdarsamsetning í afla

Fram til ársins 2012 var vandamál að fá lengdarmælingar á grásleppu úr afla báta því fiskinum var hent í sjóinn og aðeins hrognum var landað. Árið 2012 varð hinsvegar breyting á reglugerð um löndun sem þýddi að mest af hveljunum var landað líka og hægt var að nálgast fisk fyrir lengdarmælingar. Meðallengd grásleppu úr afla er um 38-41 cm með tilltölulega lítinn breytileika milli ára (mynd 8). Þetta skýrist af þröngri lengdardreifingu innan stofnsins á grásleppu og veiðni grásleppuneta.

Mynd 7: Hrognkelsi. Lengdardreifing grásleppu í afla árin 2008-2023, ásamt fjölda báta og meðallengd hvert ár. Fjörutíu fiskar eru mældir í sýni úr afla hvers báts.

Lífmassa vísitölur

Gögn frá stofnmælingu botnfiska að vori (SMB) eru notuð við mat á sveiflum í stærð grásleppustofnsins kringum Ísland (Mynd 8). Þessi leiðangur er talinn ná yfir útbreiðslu grásleppu með tilliti til dreifingu og dýpis. Gögn frá árlegu stofnmælingu hrygningarþorsks með þorskanetum (SMN) eru einnig skoðuð í þessum tilgangi til samanburðar. Vísitala frá SMB fyrir grásleppu var að öllu jöfnu há árin 1985-1990, lág á 10. áratuginum, en nálægt meðaltali á fyrsta áratugi þessarar aldar. Síðan 2010 hefur vísitalan verið almennt lág en farið hækkandi með töluverðum sveiflum. Lengdardreifing grásleppu í SMB hefur tekið breytingum á tímabilinu þar sem grásleppa ≥ 45 cm var í hlutfallslega meira magni tímabilið 1985-1990 en eftir 1990 (Mynd 9). Hlutfall stórrar grásleppu náði lágmarki árið 1997 en hefur farið hækkandi síðan þá, og var hlutfall hennar 2017 það hæsta síðan 1990.

Veiðni rauðmaga í SMB er lítil og gögn frá leiðangrinum eru því ekki talin gefa rétta mynd af sveiflum í stofninum milli ára (Mynd 10). Það hafa verið litlar breytingar á lengdardreifingu rauðmaga innan tímaraðar SMB (Mynd 9).

Mynd 8: Hrognkelsi. Lífmassavísitölur grásleppu og grásleppu ≥ 45 cm í stofnmælingu í mars (SMB). Til samanburðar er lífmassavísitala hrognkelsa í stofnmælingu með netum (SMN). ATH vísitalan er fyrir bæði kynin.
Mynd 9: Hrognkelsi. Lengdardreifingar grásleppu og rauðmaga í SMB,
Mynd 10: Hrognkelsi. Lífmassavísitala rauðmaga í stofnmælingu í mars (SMB)

FPROXY

Vísitala veiðihlutfalls (Fproxy) grásleppu hefur verið metin frá SMB gögnum og gögnum um afla og er skilgreind á eftirfarandi hátt: Fproxy = afli/vísitala frá SMB (Mynd 11, Tafla 1).

Mynd 11: Hrognkelsi. Vísitala veiðihlutfalls hrygna 1985 til síðastliðins árs. Sýnt er meðaltal viðmiðunarára (1985-2019)

Ráðgjöf

Árið 2020 var haldinn rýnifundur um stofnmat og aflareglu fyrir grásleppu (Kennedy et al. 2021) með þátttöku sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar og þátttakenda frá stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. Ein af niðurstöðum þess fundar var að aflagögn fram til 2007 væru ekki þess eðlis að hægt væri að byggja ráðgjöf á þeim, og bæri að miða aðeins við aflagögn þar á eftir frá Fiskistofu.

Ný ráðgjafarregla var tekin upp á þeim fundi sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar byggir á. Í henni fellst að ráðlagður afli er í samræmi við veiðar með vísitölu veiðihlutfalls Fproxy=0.75 sem byggir á afla áranna 2008-2020. Sú vísitala veiðihlutfalls er talin stuðla að sjálfbærri nýtingu á stofninum.

Vísitala um magn grásleppu frá SMB sveiflast töluvert milli ára sem helgast meðal annars af óvissu í mælingum. Vegna þess er tekið tillit til vísitölu fyrra árs (30% vægi) á móti nýrri mælingu (70% vægi) við útreikning ráðlagðs hámarksafla. Ráðgjöf stofnunarinnar sem byggir á Fproxy er því tvískipt, annarsvegar upphafsaflamark fyrir komandi vertíð og lokaaflamark fyrir yfirstandandi vertíð.

Aflareglan styðst ennfremur við viðmiðunarmörk (Tafla 1). Ef SMB vísitala grásleppu (Iy) er á milli Ilim og Itrigger lækkar veiðihlutfall sem stefnt er að í samræmi við eftirfarandi jöfnu: Fproxy = 0.75 ⋅ \(\frac{I_{y}}{I_{trigger}}\) . Ef grásleppuvísitala SMB fer undir lægsta gildi stofnmælingarinnar (Ilim) verður sá hluti aflamarks sem byggir á því ári settur sem núll.

Tafla. 1: Gátmörk fyrir grásleppu og grunnur þeirra.

Approach

Reference point

Value

Basis

MSY approach

Itrigger

5 403

Ilim×1.4

FMSY proxy

0.75

AMean Fproxy for 2014-2020

Precautionary approach

Ilim

3 859

Iloss

Mynd 12: Hrognkelsi. Breytingar í vísitölu veiðihlutfalls (Fproxy) notað í útreikningum á veiðráðgjöf miðað við lífmassavísitölu frá SMB. Vísitala og raun veiðihlutfall fyrri ára er sýnt með punktum.
Tafla. 2: Hrognkelsi. Yfirlitstafla um fjölda báta á grásleppuveiðum, hámarks fjöldi/heildarlengd neta (hámarksfjöldi neta á áhafnarmeðlim og á bát, innan sviga, er gefin fyrir árin 1980-2012), hámarksfjöldi veiðidaga á bát, lífmassavísitölur grásleppu SMB,ráðlagður afli, heildarafli í beinum veiðum og heildarafli í óbeinum veiðum.
Ár Bátar Net Veiðidagar SMB vísitala Ráðgjöf Landaður afli úr beinum veiðum Óbeinar veiðar
1980 343 50 (150) 7926 0
1981 347 50 (150) 10798 0
1982 219 50 (150) 3615 0
1983 292 50 (150) 5214 0
1984 384 50 (150) 12637 0
1985 401 50 (150) 10273 10798 0
1986 298 50 (150) 9546 7624 0
1987 350 50 (150) 12052 10798 0
1988 334 50 (150) 9887 4815 0
1989 353 50 (150) 12680 6372 0
1990 234 50 (150) 10461 3068 0
1991 356 50 (150) 4283 4673 0
1992 393 50 (150) 8180 6137 0
1993 326 50 (150) 6092 4200 0
1994 401 100 (300) 5756 5504 0
1995 417 100 (300) 4682 5315 0
1996 447 100 (300) 4628 4922 0
1997 372 100 (300) 5177 6313 0
1998 277 100 (300) 4454 3065 0
1999 258 100 (300) 7091 3266 0
2000 266 100 (300) 3859 2380 0
2001 197 100 (300) 5513 3167 0
2002 222 100 (300) 10132 4887 0
2003 272 100 (300) 7259 6033 0
2004 353 100 (300) 9012 5599 0
2005 256 100 (300) 60 7163 3613 0
2006 163 100 (300) 50 12896 3898 0
2007 144 100 (300) 50 8841 3196 0
2008 205 100 (300) 50 7879 5717 216
2009 265 100 (300) 62 8020 5726 105
2010 338 100 (300) 62 6995 9357 236
2011 363 100 (300) 50 4970 5240 219
2012 334 100 (300) 50 7467 3700 6558 434
2013 282 200 32 4285 4000 4652 299
2014 221 200 32 6322 4300 4011 332
2015 316 7500m 32 9041 6200 6357 604
2016 239 7500m 32 8901 6800 5385 622
2017 246 7500m 36 8241 6350 4513 52
2018 218 7500m 46 6937 5487 4469 48
2019 240 7500m 44 6173 4805 4967 77
2020 202 7500m 44 7260 5200 5193 122
2021 173 7500m 40 14108 9040 7465 136
2022 175 7500m 25 7233 6972 4197 138
2023 165 7500m 45 5352 4411 3802 206
2024 140 7500m 55 5403 4030 3746 216
2025 3994 2766 0 0

Heimildir

ICES 2020. Tenth Workshop on the Development of Quantitative Assessment Methodologies based on LIFE-history traits, exploitation characteristics, and other relevant parameters for data-limited stocks (WKLIFE X). ICES Scientific Reports. 2:98. 72 pp. http://doi.org/10.17895/ices.pub.5985

James Kennedy og Sigurður Þ. Jónsson 2020 .Umreikningur á fjölda tunna af grásleppuhrognum yfir í óslægðan afla byggður á veiðdagbókum. Haf- og vatnarannsóknir. HV- 2020-32. 9 bls. https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2020-32.pdf [in English: Converting number of barrels of lumpfish roe to ungutted landings based on logbook data. HV- 2020-33, 9 pp. https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2020-33.pdf]

James Kennedy, Sigurður Þór Jónsson, Höskuldur Björnsson, Guðmundur J. Óskarsson, Bjarki Þór Elvarsson, Guðmundur Þórðarson (2021) Report on benchmark assessment and revision of an advisory rule for lumpfish around Iceland. KV 2021-1. Kver Hafrannsóknastofnunar https://www.hafogvatn.is/static/research/files/kv2021-1.pdf