| Ár |
Botnvarpa
|
Net
|
Önnur veiðarfæri
|
Heild
|
|||
|---|---|---|---|---|---|---|---|
| Fjöldi báta | Afli | Fjöldi báta | Afli | Fjöldi báta | Afli | Afli | |
| 2000 | 157 | 25 936 | 258 | 4 308 | 90 | 980 | 31 224 |
| 2001 | 138 | 24 586 | 308 | 4 549 | 65 | 757 | 29 892 |
| 2002 | 131 | 35 606 | 281 | 3 311 | 66 | 942 | 39 859 |
| 2003 | 123 | 45 096 | 246 | 2 214 | 72 | 1 097 | 48 407 |
| 2004 | 124 | 55 394 | 250 | 2 254 | 87 | 1 347 | 58 995 |
| 2005 | 130 | 59 947 | 210 | 2 996 | 84 | 1 399 | 64 342 |
| 2006 | 124 | 65 698 | 165 | 3 790 | 81 | 1 448 | 70 936 |
| 2007 | 120 | 56 092 | 135 | 3 919 | 103 | 1 312 | 61 323 |
| 2008 | 103 | 59 385 | 129 | 6 199 | 131 | 1 359 | 66 943 |
| 2009 | 109 | 46 731 | 135 | 9 380 | 127 | 1 440 | 57 551 |
| 2010 | 107 | 43 903 | 163 | 4 483 | 142 | 1 166 | 49 552 |
| 2011 | 104 | 40 991 | 157 | 3 451 | 129 | 1 487 | 45 929 |
| 2012 | 99 | 41 183 | 166 | 3 664 | 111 | 1 643 | 46 490 |
| 2013 | 102 | 48 813 | 145 | 3 109 | 98 | 1 383 | 53 305 |
| 2014 | 96 | 39 294 | 145 | 2 368 | 78 | 1 037 | 42 699 |
| 2015 | 95 | 41 358 | 141 | 2 425 | 96 | 1 197 | 44 980 |
| 2016 | 89 | 43 176 | 130 | 2 521 | 84 | 921 | 46 618 |
| 2017 | 85 | 44 748 | 109 | 1 350 | 73 | 977 | 47 075 |
| 2018 | 79 | 61 507 | 94 | 1 717 | 84 | 987 | 64 211 |
| 2019 | 69 | 58 836 | 96 | 1 425 | 65 | 1 461 | 61 722 |
| 2020 | 79 | 44 141 | 88 | 2 583 | 59 | 990 | 47 714 |
| 2021 | 84 | 53 482 | 105 | 2 979 | 74 | 1 201 | 57 662 |
| 2022 | 79 | 53 760 | 89 | 2 642 | 82 | 1 476 | 57 878 |
| 2023 | 79 | 36 430 | 96 | 1 335 | 78 | 937 | 38 702 |
| 2024 | 79 | 35 123 | 81 | 940 | 57 | 552 | 36 615 |
Helstu niðurstöður
Afli hefur verið undir úthlutuðu aflamarki á hverju ári síðan 2013. Frávikið hefur farið vaxandi og á fiskveiðiárinu 2023/2024 var aðeins ~60 % af úthlutuðu aflamarki veitt. Brottkast er talið mjög lítið (~0,1 %).
Veiðihlutfall hefur verið lægra en viðmiðunargildi undanfarin ár (HRMGT, HRMSY, HRpa).
Hrygningarstofn er yfir öllum viðmiðunargildum (Blim, Btrigger, Bpa).
Tæplega 90 % aflans hafa verið tekin í botnvörpu undanfarin ár en önnur veiðarfæri eru net, handfæri og dragnót. Aflinn 2024 er sá minnsti síðan 2001.
Útbreiðsla ufsa hefur færst norður frá 2002–2018 og hlutfall ufsa sem veiddist norðvestur af Íslandi jókst úr < 10 % yfir í ~50 %.
Aflamark er ákvarðað út frá Cy/y+1 = 0,2 × B4+, þar sem B4+ er byggt á stofnþyngdum. Þessi aflaregla var metin af ICES (ICES 2025).
Almennar upplýsingar
Litið er á ufsa sem sjálfstæðan stofn þó merkingar hafi sýnt að ufsi frá öðrum hafsvæðum gangi til Íslands og öfugt. Ufsi er bæði botnlægur og upp í sjó, reyndar mun meira upp í sjó en flestir botnlægir fiskar. Útbreiðslusvæði hans er allt í kringum landið en ufsi var algengastur í hlýja sjónum fyrir sunnan og vestan land. Á þessari öld hefur útbreiðslusvæði ufsa smám saman færst norðar. Hrygning er talin fara fram á grunnsævi (100–200 m) suðaustan, sunnan og vestan við landið, aðallega fyrir sunnan/suðvestan (Selvogsbanki, Eldeyjarbanki). Hrygning fer fram í febrúar–apríl og er líklega fyrr en hjá þorski. Lirfur reka með strandstraumnum réttsælis í kringum landið og smáufsi á fyrsta ári finnst víða inn á fjörðum. Á öðru ári gengur ufsinn dýpra, einkum á veturna. Ufsi nær kynþroska við 4–7 ára aldur og fer þá að ganga milli hafsvæða.
Á 20. öld voru um 115 000 ufsar merktir í Norðaustur-Atlantshafi, flestir í Barentshafi, og um 20 000 endurheimtust (Jónsson, 1994). Á árunum 1964–1965 voru um 6000 ufsar merktir við Ísland og endurheimtust um 50 % þeirra (Jones og Jónsson, 1971). Af ufsum sem voru merktir utan íslenskra hafsvæða endurheimtust einn af hverjum 500 við Ísland en af þeim sem voru merktir við Ísland endurheimtust einn af hverjum 300 utan Íslandsmiða (Jónsson, 1994). Til samanburðar endurheimtust 1 af hverjum 2000 þorskum merktum við Ísland utan Íslandsmiða (Jónsson, 1996). Aðrar, óbeinar vísbendingar um ufsagöngur eru skyndilegar breytingar í meðalstærð eða þyngd eftir aldri og sveiflur í aflatölum eftir aldri á mismunandi svæðum í Norðaustur-Atlantshafi (Reinsch, 1976; Jakobsen og Olsen, 1987; Jónsson, 1994). Þar sem meðalþyngd eftir aldri minnkar frá norðvestri til suðausturs og áfram til norðausturs er talið að far ufsa úr Barentshafi til íslenska hafsvæðisins sjáist með minnkun á stærð eftir aldri í íslenska ufsaaflanum. Aflaferlar nokkurra árganga frá mismunandi svæðum sýna slíkar sveiflur. Greining gagna bendir til að líklegustu ár og aldur við innflutning ufsa séu: 10 ára ufsi árið 1986; 7 ára árið 1991; 9 ára árið 1993; og árgangur 1992 sem 7 ára árið 1999 og 8 ára árið 2000. Nú eru engar göngur metnar í stofnmatinu. Í stofnmati fyrri ára var ganga 7 ára ufsa árið 1991 metin, en hún er stærst, metin um 10 milljónir einstaklinga eða 35 000 tonn. Aðrar mögulegar göngur eru minni og ekki marktækar.
Nýjustu ufsamerkingar við Ísland fóru fram á árunum 2000–2004 og hafa 1750 af 16 000 merkjum endurheimst. Endurheimtur utan íslensku efnahagslögsögunnar eru nú 10 talsins, eða um 2,5 % af endurheimtum utan stjórnsvæðis stofnsins. Endurheimtur í færeyskri lögsögu komu úr merkingum út af Austurlandi og endurheimtust 5 af 11 merkjanna árið 2006. Aðrir ufsar sem endurheimtust fyrir utan íslenska efnahagslögsögu veiddust við Skotland og Grænland.
Sjá nánar: https://www.hafogvatn.is/is/sjavardyr/ufsi
Veiðar
Fjöldi báta sem standa undir 95 % af heildarafla ufsa hefur dregist saman úr 200-300 bátum á árunum 1994–2001 í kringum 100 báta eftir 2000 (Mynd 1, Tafla 1).
Botnvarpa hefur alltaf verið langmikilvægasta veiðarfærið og nánast allur ufsaafli útlendinga var tekinn í botnvörpu. Allt að þriðjungur íslenska aflans var tekinn með netum en mjög dró úr netaveiðum eftir 1996 (Mynd 2, Tafla 1). Af öðrum veiðarfærum en botnvörpu og netum hafa handfæri og dragnót verið mikilvægust. Undanfarin ár hefur um 90 % aflans verið tekinn með botnvörpu. Af aflanum árið 2024 voru 35 023 tonn veidd í botnvörpu, 930 tonn í net og afgangurinn í önnur veiðarfæri.
Minnkun í netaflotanum tengdist bátum sem færðu sig úr netaveiðum (og öðrum veiðarfærum) yfir í línuveiðar, breyting sem tengdist þorsk- og ýsuveiðum. Aukning á ýsu á árunum eftir 2000 og tæknibreytingar í línuveiðum voru líka mikilvægir þættir. Það er mikilvægt að hafa í huga að ufsi veiðist illa á línu þannig að með auknum línuveiðum beinast veiðarnar minna að ufsa en áður. Hlutdeild línu í ufsaafla jókst úr minna en 1 % fyrir árið 2000 í 2 % síðasta áratug, en nokkur breytileiki er milli ára. Árin 2021 og 2022 minnkaði hlutdeild línu í ufsaafla og var innan við 1 %. Árið 2023 jókst hlutdeild línu aðeins en magnið var svipað.
Skipta má botnvörpuflotanum í tvo hluta, frysti- og ísfisktogara. Þróunin undanfarinn áratug hefur verið að hlutdeild ísfiskstogara í heildarafla hefur aukist. Frystitogarar hafa veitt mun hærra hlutfall af ufsa- og gullkarfaafla en af þorsk- og ýsuafla. Ástæðan fyrir þessum mun er líklega hlutfall verðs á frystum og ferskum fiski fyrir hverja tegund. Að auki forðast ísfiskstogarar gullkarfa þar sem hann rispar meðafla, nokkuð sem gerir minna til á frystitogurum þar sem aflinn er roðrifinn. Sömu skipin eru að miklu leyti að veiða gullkarfa og ufsa, þó ekki endilega í sömu togum þar sem gullkarfi veiðist aðallega á daginn og ufsi frekar á nóttinni.
Mest af ufsa er tekið í botnvörpu á 100-200 m dýpi (Mynd 3). Önnur veiðarfæri eru net sem veiða ufsa á 50-200 m dýpi og dragnót og handfæri sem veiða ufsa á minna en 150 m dýpi. Dýpisdreifing veiðanna endurspeglar því að hluta til breytingar í veiðarfærasamsetningu en botnvarpa hefur verið ráðandi veiðarfæri eftir 2000.
Útbreiðsla ufsaveiða breyttist mikið frá 2002–2013 (Mynd 4). Fyrir 2002 var mest af aflanum veitt fyrir sunnan og vestan land en frá 2013 hafa 40-50 % aflans veiðst norðvestur af landinu. Sambærileg prósenta fyrir 2002 var 3-8 %. Svipuð breyting á útbreiðslu sést hjá gullkarfa. Svæðið þar sem mest hefur verið veitt af ufsa undanfarin ár hefur verið mikilvægasta þorskveiðisvæði togara við Ísland síðan snemma á 20. öld.
Aflaþróun
Upplýsingar um landanir á ufsa eru til frá árinu 1905 (Mynd 6). Frá 1905–1939 var ufsi mest veiddur af útlendingum og þannig var það einnig á árunum 1950–1975 þegar útlendingar, mest Þjóðverjar, veiddu um 60 % ufsaaflans (Mynd 6). Meðalafli ufsa á ári frá 1955 er um 65 þús. tonn, 73 þús. tonn fyrir 1980 en 60 þús. tonn eftir 1980. Síðustu fimm ár hefur afli útlendinga verið minna en 300 tonn, mest afli Færeyinga og alltaf undir 0,5 % af heildaraflanum. Afli af ufsa við Ísland árið 2024 var 38 538 tonn. Það er tæplega 10 % minnkun frá 2023 þegar aflinn var 42 114 tonn og langt frá aflamarkinu sem var 66 114 tonn fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 og 66 705 tonn fyrir fiskveiðiárið 2024/2025. Ufsaafli árið 2024 er áætlaður 38 736 tonn (sjá Mynd 6).
Yfirlit gagna
Aldursgreindur afli byggir á sýnum sem safnað er af eftirlitsmönnum á sjó og úr lönduðum afla (Mynd 7, Mynd 8). Stór hluti sýna frá eftirlitsmönnum koma af frystitogurum en sýni úr lönduðum afla eru flest frá ísfisktogurum. Tiltölulega fá kvarnasýni koma af frystitogurum en aldurs-lengdarlyklar af frystitogurum og úr lönduðum afla eru svipaðir, jafnvel þó að lengdardreifingin sé mismunandi. Sýnataka úr afla er því talin viðunandi.
Lengdardreifingar úr sýnum eftirlitsmanna og úr lönduðum afla eru mismunandi, en fiskar úr lönduðum afla eru iðulega stærri.
Brottkast
Brottkast hefur ekki verið talið vandamál í ufsaveiðum og hefur lengdarháð brottkast verið metið < 0,1 % (Pálsson 2005, 2008; Sigurðsson et al. 2016). Oftar en ekki hefur það kostað talsverða fyrirhöfn að ná settu aflamarki sem gerir brottkast ólíklegt.
Á árunum 1999–2005 voru miklar kolmunnaveiðar í íslenskri og færeyskri lögsögu. Meðafli ufsa í þessum veiðum var metinn 1500-4000 tonn á árunum 2003–2005, innan við helmingur í íslenskri lögsögu (Ólafur K. Pálsson 2005). Síðan 2007 hafa kolmunnaveiðar í íslenskri lögsögu verið stærðargráðu minni en á árunum 2000–2005.
Lengdardreifingar
Megnið af lengdarmælingunum eru úr botnvörpu, dragnót, netum og handfærum. Fjöldi mælinga úr hverju veiðarfæri hefur sveiflast í takt við breytingar á afla í mismunandi veiðarfæri.
Ufsi sem veiðist í net er að öllu jöfnu stærri en í botnvörpu (Mynd 9). Lengdardreifingar í önnur veiðarfæri eru svipaðar og í botnvörpu.
Söfnun úr lönduðum afla hefur verið endurskoðuð á undanförnum áratugum, bæði hefur sýnum verið fækkað og fjöldi aldursgreindra fiska í hverju sýni minnkaður.
Sýnataka árið 2020 var talsvert minni en árin á undan, sérstaklega fjöldi aldurssýna. Ein skýringin er minni afli en einnig spilaði COVID-19 faraldurinn inn í. Sýnataka jókst aftur árið 2021 og var svipuð og árin 2017–2019 en sýnum fækkaði aftur 2022–2024 (Tafla 2).
Lengdardreifingar úr botnvörpu sýna tilhneigingu til að veiða minni fiska á árunum 2003–2017 en aftur stærri fiska eftir það (Mynd 9). Árið 2020 var mikið af ufsa > 110 cm en hlutfall 60-69 cm ufsa var yfir meðallagi árið 2022. Árið 2024 jókst magn stærri ufsa í afla.
| Ár |
Botnvarpa
|
Net
|
||
|---|---|---|---|---|
| Fjöldi sýna | Fjöldi lengdarmælinga | Fjöldi sýna | Fjöldi lengdarmælinga | |
| 2000 | 146 | 21 359 | 20 | 2 646 |
| 2001 | 156 | 23 798 | 27 | 3 224 |
| 2002 | 197 | 30 638 | 17 | 2 722 |
| 2003 | 231 | 36 570 | 13 | 1 540 |
| 2004 | 245 | 38 768 | 5 | 588 |
| 2005 | 354 | 57 381 | 26 | 1 806 |
| 2006 | 383 | 50 122 | 32 | 3 794 |
| 2007 | 450 | 47 544 | 28 | 2 845 |
| 2008 | 431 | 43 666 | 34 | 4 039 |
| 2009 | 326 | 30 414 | 52 | 7 248 |
| 2010 | 362 | 41 688 | 38 | 5 020 |
| 2011 | 191 | 25 150 | 31 | 5 248 |
| 2012 | 353 | 34 757 | 13 | 1 833 |
| 2013 | 314 | 33 966 | 9 | 1 331 |
| 2014 | 306 | 32 654 | 10 | 1 036 |
| 2015 | 229 | 32 599 | 18 | 2 044 |
| 2016 | 249 | 36 940 | 14 | 1 382 |
| 2017 | 213 | 29 646 | 8 | 408 |
| 2018 | 143 | 25 487 | 6 | 465 |
| 2019 | 159 | 28 297 | 2 | 14 |
| 2020 | 57 | 8 182 | 9 | 631 |
| 2021 | 159 | 29 047 | 2 | 234 |
| 2022 | 104 | 15 325 | 6 | 707 |
| 2023 | 87 | 14 295 | 4 | 374 |
| 2024 | 86 | 12 133 | 6 | 383 |
Aldurssamsetning
Tafla 3 sýnir fjölda sýna og kvarna sem safnað hefur verið, skipt upp eftir árum og veiðarfærum. Fjöldi sýna út netum hefur dregist saman vegna samdráttar í sókn netabáta.
Árið 2024 samanstendur aflinn mest af árgöngunum frá 2014–2017 (Mynd 10). Fjöldi árganga í afla hefur aukist undanfarin ár sem getur endurspeglað lágan fiskveiðidauða (Mynd 11).
| Ár |
Botnvarpa
|
Net
|
||
|---|---|---|---|---|
| Fjöldi sýna | Fjöldi kvarna | Fjöldi sýna | Fjöldi kvarna | |
| 2000 | 146 | 4 491 | 20 | 921 |
| 2001 | 156 | 4 646 | 27 | 1 159 |
| 2002 | 197 | 4 908 | 17 | 500 |
| 2003 | 231 | 6 462 | 13 | 451 |
| 2004 | 245 | 4 988 | 5 | 150 |
| 2005 | 354 | 5 267 | 26 | 71 |
| 2006 | 383 | 6 267 | 32 | 450 |
| 2007 | 450 | 6 464 | 28 | 359 |
| 2008 | 431 | 6 325 | 34 | 800 |
| 2009 | 326 | 4 687 | 52 | 897 |
| 2010 | 362 | 5 184 | 38 | 550 |
| 2011 | 191 | 4 775 | 31 | 299 |
| 2012 | 353 | 6 292 | 13 | 402 |
| 2013 | 314 | 3 993 | 9 | 449 |
| 2014 | 306 | 2 511 | 10 | 250 |
| 2015 | 229 | 2 426 | 18 | 375 |
| 2016 | 249 | 2 565 | 14 | 300 |
| 2017 | 213 | 1 541 | 8 | 82 |
| 2018 | 143 | 1 659 | 6 | 75 |
| 2019 | 159 | 1 270 | 2 | 0 |
| 2020 | 57 | 850 | 9 | 75 |
| 2021 | 159 | 1 581 | 2 | 50 |
| 2022 | 104 | 1 201 | 6 | 100 |
| 2023 | 87 | 925 | 4 | 20 |
| 2024 | 86 | 983 | 6 | 0 |
Meðalþyngd eftir aldri í afla
Meðalþyngd 3-6 og 11-14 ára hafa verið lágar undanfarin ár en 7-10 ára nálægt meðaltali (Mynd 12). Stóri árangurinn frá 2012 var með lægstu meðalþyngd allra árganga, bæði í afla og stofnmælingu. Það styður vísbendingar um þéttleikaháðan vöxt sem hefur sést hjá ufsa til dæmis hjá árgöngum 1984 og 2000 sem báðir voru stórir. Langtímaþróunin síðan 1980 er hæg minnkun í þyngd allra aldursflokka. Meðalþyngd í afla árið 2024 var nálægt meðaltali.
Viðmiðunarstofn (B4+) sem er grunnur að ráðgjöf hefur verið byggður á aflaþyngdum. Á rýnifundinum 2025 (ICES, 2025) var ákveðið að byggja viðmiðunarstofninn á stofnþyngdum þ.e. þyngdum úr stofnmælingu í mars. Sambærileg breyting var gerð á útreikningum á hrygningarstofni sem er nú byggður á meðalþyngdum og kynþroskahlutalli í stofnmælingu í mars en var áður byggður á meðalþyngdum í afla.
Náttúrulegur dauði
Engar upplýsingar eru til um náttúrulegan dauða. Í stofnmati er byggt á því að náttúrulegur dauði sé 0,2 fyrir alla aldurshópa (ICES, 2025).
Afli á sóknareiningu
Afli á sóknareiningu (CPUE) hjá botnvörpuflotanum sýnir verulegan breytileika og hefur lækkað mikið frá hámarkinu 2018 (Mynd 13). Síðustu 3 ár hefur afli á sóknareiningu verið sá lægsti síðan 2011. Sóknareiningin er togtímar og vísitala afla á sóknareiningu er miðgildi afla á togtíma fyrir þau tog sem eru valin.
Þegar kemur að því að velja hvaða tog eru notuð koma nokkrir möguleikar til greina; öll tog innan tiltekins svæði, öll tog þar sem ufsi fæst eða tog þar sem hlutdeild ufsa í heildarafla er hærri en eitthvað tiltekið gildi. Hærri hlutdeild leiðir til meiri breytileika í vísitölu afla á sóknareiningu.
Vísitala afla á sóknareiningu í dag er ekki lág borið saman við fyrri ár, sérstaklega ef byggt er á öllum togum þar sem ufsi hefur verið skráður. Spurningin er hvort vegna tækniframfara séu 15-20 ára gömul gögn sambærileg við nýleg gögn. Það ber að hafa í huga að stór hluti aflamarks hefur ekki verið veiddur undanfarin ár, aflabrögð eru kannski ekki nógu góð til að ufsaveiðar borgi sig. Hins vegar sýnir afli á sóknareiningu svipaða þróun og lífmassa vísitölur úr stofnmælingu í mars (Mynd 14).
Stofnmælingar
Ufsi er með erfiðustu botnfiskategundum til að fá áreiðanlegar upplýsingar í stofnmælingum með botnvörpu. Í stofnmælingu botnfiska að vori (SMB), sem er með 500-600 stöðvar, fæst stór hluti ufsans í fáum togum og töluverður breytileiki er á milli ára í fjölda þessara toga.
Lífmassavísitala ufsa í SMB sveiflaðist mikið á árunum 1985–1995 en var lág á árunum 1995–2001 (Mynd 14). Síðan 1995 hafa vísitölurnar verið breytilegar en borið saman við tímabilið 1985–1995 virðist hluti breytileikans vera raunverulegur frekar en óreiðukenndur. Þessi munur sést líka í metnum vikmörkum sem eru mun þrengri eftir 1995. Árið 2018 voru vísitölurnar þær hæstu í SMB og höfðu þrefaldast síðan 2014. Mest af aukningunni var vegna 2012 árgangsins sem var stór í stofnmælingunum árin 2015–2018. Vísitalan lækkaði síðan árin 2018–2020. Hún hefur verið breytileg síðustu sex ár en heldur hækkandi síðustu þrjú ár.
Háa vísitalan árið 1986 orsakaðist af einu togi með mjög miklu af ufsa. Það var lækkað niður í næst hæsta gildið þegar verið var að reikna vísitölur til samstillingar í stofnmati. Metin óvissumörk í stofnmælingunni eru frekar víð. Mörg lág gildi koma fyrir í rallvísitölum bæði hjá yngsta og elsta fiskinum. Yngsti ufsinn (3-4 ára og yngri) lifir að verulegu leiti á grunnslóð sem er ekki vel dekkuð í stofnmælingunum og eldri ufsa er farið að fækka auk þess sem þeir eru talsvert upp í sjó. Háa lífmassavísitalan árið 2018 tengdist miklum afla á mörgum stöðvum svo metin óvissa er nálægt meðaltali.
Stofnmæling botnfiska að hausti (SMH) sýnir svipaða þróun og SMB og vísitalan var mjög há árið 2017 (2004 og 2018 eru útgildi vegna mjög víðra vikmarka). Vegna færri stöðva er SMH með mun hærri vikmörk en SMB. Gildin fyrir 2000 gætu verið vanmat vegna stöðva sem var bætt við árið 2000 á svæði þar sem stórir hópar af ufsa finnast stundum. Ef þessum stöðvum er sleppt verður vísitalan lægri en stöðugri.
Töluverður breytileiki er milli árstíða á útbreiðslu ufsa. Í SMB er meiri hluti ufsans suður og vestur af landinu en í SMH er stærri hluti hans norður af landinu (Mynd 15). Þetta endurspeglar mun á útbreiðslu á hrygningartíma og fæðuslóð.
Lengdardreifingar úr SMB og SMH má sjá á Mynd 17, og staðsetningu togstöðva má finna á Mynd 16. Mynd 17 sýnir lengdardreifingar úr SMN sem er stofmæling með netum sem fer fram í apríl á hverju ári. Fást mun stærri ufsar í SMN en hinum stofnmælingunum.
Aldurskiptar fjölda vísitölur frá SMB og SMH má sjá á Mynd 18.
Meðalþyngd í stofni
Meðalþyngd í stofni eftir aldri hjá íslenskum ufsa byggir á gögnum úr SMB (Mynd 19). Í SMB er tiltekið hlutfall fiska tekið til aldursgreiningar. Þessir fiskar eru kyn- og kynþroskastigsgreindir, vigtaðir óslægðir og slægðir, lifur vigtuð og kynkirtlar vigtaðir hjá þeim fiskum sem eru greindir kynþroska. Útreikningar á meðalþyngd fela í sér þrjú skref. Fyrst er samband lengdar og óslægðrar þyngdar reiknað. Því er síðan beitt á lengdarmælda fiska til að fá fjölda og lífmassa eftir lengd á hverri stöð. Næsta skref er svo að nota aldurs-lengdarlykla til að fá fjölda og lífmassa eftir aldri á hverri stöð. Að lokum eru fjölda og lífmassa vísitölur eftir aldri reiknaðar og meðalþyngd er lífmassavísitala deilt með fjöldavísitölu. Vísitölureikningarnir byggja á svæðaskiptingu sem leiðir til þess að stöðvar á svæðum þar sem stöðvanetið er þétt fá minna vægi. Jafnt vægi á allar stöðvar myndi leiða til mjög líkra niðurstaðna.
Kynþroski eftir aldri
Kynþroskahlutfall eftir aldri til að reikna hrygningarstofn byggir á gögnum úr SMB. Í stofnmælingum eru þorskur, ýsa og ufsi sem öll hrygna á vorin flokkuð í fimm kynþroskastig; ókynþroska, kynþroska, hrygnandi, lokið hrygningu og óvisst kynþroskastig (m.a. þeir sem eru að sleppa hrygningu).
Við útreikninga á kynþroska eftir aldri í stofnmati hefur verið miðað við að fiskur með kynþroskastig 2-5 sé hluti af hrygningarstofni en kynþroskastig 1 ókynþroska. Til að minnka breytileika í kynþroska eftir aldri er tekið þriggja ára hlaupandi meðaltal.
Kynþroskahlutfall 4-6 ára ufsa hefur verið lágt undanfarin ár og verið undir meðaltali síðan 1985, en rétt yfir meðaltali hjá 7-9 ára ufsa (Mynd 20).
Stofnmat
Uppsetning stofnmatsins
Stofmat ufsa byggir á tölfræðilegu aldursaflalíkani (Nielsen og Berg 2014), þar sem stikar líkansins er settir fram sem slembiþættir í stöðurúmslíkani. Í því fylgir þróun ástandsbreyta (fjölda fiska og fiskveiðidauði) fjölvíðri normaldreifingu. Líkanið gefur möguleika á breytilegum náttúrulegum dauða og veiðimynstri ef mynstur í gögnunum benda til þess. Einnig eru margir möguleikar á að skilgreina dreifni í gögnum og tengja hana við aldur eða fjölda fiska í stofni. Fylgni í gögnum er einnig hægt að skilgreina á fjölbreyttan hátt.
Helstu atriði uppsetningar stofnmatslíksans fyrir ufsa eru eftirfarandi:
- Aldursbil:
- Afli: 3 til 14\(^+\)
- Stofnmæling: 3 til 14\(^+\)
- F aldursbil: 4 til 9 ára.
- Náttúrulegur dauði: 0,2 fyrir alla aldurshópa.
- Nýliðunarlíkan: Faldmeðaltal fyrri ára.
- Vigtun á gögnum: Sjálfgefin.
- Frávik breytileika í M: Sjálfgefið.
- Stofnmælingarlíkön: Línulegt samband.
- Upphafsár líkansins: 1979
Frekari upplýsingar sjá ICES, 2025.
Breytingar frá síðasta stofnmati
Stofnmat á ufsa fór í rýni í upphafi árs 2025 og jafnframt var aflaregla fyrir stofninn metin (ICES, 2025). Skipt var um stofnmatslíkan og hætt að nota Muppet (Bjornsson et al. 2019) og í staðinn farið að nota stöðurúmslíkanið SAM sem lýst er hér að ofan.
Frá 2010 hefur stofnmatið byggst á aldursgreindum afla og aldursgreindum vísitölum úr SMB. Á þessum tíma hefur stofnmatið þrisvar farið í rýni, árin 2010, 2019 og 2025. Á síðasta rýnifundi var prófað að nýta gögn úr öðrum stofnmælingum og eru niðurstöður þeirra prófana í skýrslu frá rýnifundinum (ICES, 2025). Niðurstöður voru að best væri að nota einungis vísitölur úr SMB. Miðað við SMH er SMB með mun fleiri stöðvar (lægri óvissumörk) og lengri tímaröð.
Við uppfærslu stofnmatsaðferðarinnar var ákveðið endurskoða inntaksgögn stofnmatsins, þ.m.t. gögn um aldursgreindan afla. Fyrir þessa endurskoðun var aldursgreindur afli ákvarðaður miðað við lengdar-þyngdarsamband sem byggt var á slægðum þyngdum. Til þess að reikna óslægða þyngd var svo stuðst við slægingarstuðla. Þess í stað var ákveðið að nota óslægða þyngd eftir lengd úr SMB. Áhrifin af þessum breytingum eru mest á þá hluta stofnsins sem sjást lítið í afla, áætluð þyngd eldri fiska er hærri og yngri minni.
Gögn um kynþroska eftir aldri, sem fást úr SMB, voru einnig endurskoðuð og dregið var úr þjálgun gagnanna. Kynþroski fylgir nú betur sveiflum í mældum kynþroska eftir aldri. Til þess að draga úr sveiflum í stofnþyngdum voru meðalþyngdir ufsa 9 ára og eldri tiltekið ár settar sem hlaupandi meðaltal þriggja áranna þar á undan.
Einnig var úrvinnslunni breytt þannig að nú eru ufsar 14 og eldri í afla og í vísitölum flokkaðir saman í ‘plúshóp’.
Greining á niðurstöðum stofnmats
Mátgæði líkansins eru sýnd á Mynd 21 og Mynd 24 þar sem ekkert mynstur er greinanlegt í leifum líkansins, fyrir utan að dreifni leifa er ívið meiri fyrstu árin. Þegar horft er til mátgæða fyrir heildarvísitölu ufsa (sjá Mynd 25 sem sýnir spáða vísitölu borna saman við mælingar) sést að líkanið nær að fylgja leitni SMB vísitölunnar, en nær illa að fylgja mestu sveiflum í upphafi tímaraðarinnar og nú nýlega toppinum árið 2018. Leiða má líkur að því að þessi mæligildi séu útgildi miðað við gildi vísitölunnar árin á undan og eftir.
Niðurstöður stofnmats
Niðurstöður stofnmatsins má sjá á Mynd 26. Fram til ársins 2000 voru stofnstærð og afli sveiflukennd, en eftir 2000 minnkuðu sveiflunar í kjölfarið á samdrætti í veiðidánartölu/veiðihlutfalli. Nýliðun hefur verið sveiflukennd en nokkuð stöðug yfir þennan tíma. Stofnmatið sýnir að stærð hrygningarstofns árið 2025 er í hámarki, en þó fylgir talsverð óvissa því mati.
Reiknuð endurlitsgreining gefur til kynna að breytingar milli ára í mati á lykilstærðum stofnmatsins séu minniháttar, þrátt fyrir miklar sveiflur í inntaksgögnum (Mynd 27). Stofnmatið er því álitið stöðugt og metið 5 ára Mohns \(\rho\) er innan eðlilegra marka.
Metið hrygningarstofns-nýliðunarsamband, sem sjá má á Mynd 28, gefur til kynna talsverðan breytileika í árgangastyrk en ekki eru skýr merki um að nýliðun hafi skerst vegna bágrar stöðu hrygningarstofnsins á þeim tíma sem stofnmatið nær yfir.
Veiðimynstur eftir stærð og aldri er sýnt á Mynd 29. Töluverður breytileiki er í veiðimynstri eftir aldri sem má að hluta rekja til breytinga í sókn.
Fiskveiðistjórnun
Fyrir alla íslenska stofna sem er stjórnað með aflamarkskerfi er aflamarkinu úthlutað frá 1. september til 31. ágúst. Stofnmat á vormánuðum er grunnur aflamarks á fiskveiðiárinu sem byrjar 1. september sama ár. Hjá flestum stofnum botnfiska er stofnmælingin í mars (SMB) mikilvægustu gögnin í stofnmati og nýjasta SMB er notað í ráðgjöf sem er gefin út í júní sama ár.
Stofnmatið og aflareglan fyrir ufsa voru óbreytt frá 2010 til 2025. Ráðgjöfin var byggð á sömu 20 % aflareglu og hjá þorski, þ.e.a.s með innbyggðri sveiflujöfnun. Frá fiskveiðiárinu 2014/2015 hefur aflamarkið ekki verið veitt en frá 1997/1998 til 2013/2014 var aflamarkið veitt nema 2007/2008 og 2008/2009 (Mynd 31). Aflinn fiskveiðiárið 2023/2024 var 40 200 tonn meðan aflamarkið var 66 700 tonn svo aðeins 60 % af aflamarkinu var veitt.
Árið 2025 var aflareglu stjórnvalda breytt og nú er aflamark sett sem 20 % af stærð viðmiðunarstofns (ufsi fjögurra ára og eldri) án sveiflujöfnunar þar sem mat á viðmiðunarstofni er byggt á stofnþyngdum í stað aflaþyngda áður.
Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið leyfir takmarkaða tilfærslu milli tegunda byggt á þorskígildisstuðlum sem eiga að vera vísbending um verð á tegundinni miðað við þorsk (sjá ICES, 2021). Skipti yfir í þorsk eru ekki leyfð í kerfinu sem er frekar takmarkað. Undanfarin ár hefur ufsa verið skipt í aðrar tegundir (Mynd 30) sem eru líklega auðveiddari en ufsi. Möguleikar á tilfærslum milli tegunda minnkuðu nýlega þegar tilfærsla í stofna sem Íslendingar nýta með öðrum þjóðum var bönnuð, t.d gullkarfa.
Jafnvel þó hluti aflamarks ufsa hafi verið færður í aðrar tegundir hefur stór hluti þess ekki verið notaður. Það er vísbending um að ufsaveiðar séu ekki hagkvæmar, annað hvort vegna þess að stofninn er minni en hann er metinn, eða erfiðleika við að veiða ufsann. Sögulegt stofnmat sýnir að fiskveiðidauði hjá íslenskum ufsa var aldrei mjög hár, jafnvel á tímabilum þegar fiskveiðar voru lítið takmarkaðar (ICES, 2002).
Stöðumat ráðgjafar
Öll merki frá rannsóknaleiðöngrum og afla gefa til kynna að ástand ufsastofnsins sé gott um þessar mundir. Stofnmatið rennir frekari stoðum undir það mat. Aflamark hefur þó ekki náðst undanfarin ár.
Heimildir
Bjornsson, H., Hjorleifsson, E., Elvarsson, B. 2019. “Muppet: Program for Simulating Harvest Control Rules.” Reykjavik: Marine and Freshwater Research Institute. http://www.github.com/hoski/Muppet-HCR.
ICES 2019. “Stock Annex: Saithe (Pollachius virens) in Division 5.a (Iceland grounds).” https://ices-library.figshare.com/articles/report/Stock_Annex_Saithe_Pollachius_virens_in_Division_5_aIceland_grounds/18623102
ICES 2025. Workshop on the assessment and management plan evaluation for Icelandic haddock and saithe (WKICEGAD). ICES Scientific Reports. 7:26. 161 pp. https://doi.org/10.17895/ices.pub.28444499
Jakobsen, T., S. Olsen 1987. Variation in rates of migration of saithe from Norwegian waters to Iceland an Fareoe Islands. Fisheries Researh 5:217-222.
Jones, B. W., Jónsson, J. 1971. Coalfish tagging experiments at Icelan. Rit Fiskideildar 5:1-27.
Jónsson, S. Th. 1994. Saithe on a shelf. Two studies of Pollachius virens in Icelandic waters. M.S. Thesis, University of Bergen.
Jónsson, J. 1996. Tagging of cod in Icelandic waters 1948 - 1986. Rit Fiskideildar 14(1) 5:82.
MFRI 2024. Assessment report. MRI Report. Reports of the Marine Research Institute. Available from: https://www.hafogvatn.is/static/extras/images/03-sai_techreport_en.html
Nielsen, Anders, and Casper W. Berg. 2014. “Estimation of Time-Varying Selectivity in Stock Assessments Using State-Space Models.” Fisheries Research 158: 96–101. https://doi.org/10.1016/j.fishres.2014.01.014.
Pálsson, Ó. K. 2005. Discard in the Icelandic demersal fisheries 2004. Reports of the Marine Research Institute. Vol. 117.
Pálsson, Ó. K. 2008. Discard in demersal fisheries in 2007. Reports of the Marine Research Institute. Vol. 142.
Reinch H. 1976. Köhler und Steinköhler - A. Ziemsen Verlag, Vittenberg Lutherstadt. 158 pp.
Sigurðsson, G. M., Pálsson, Ó. K., Björnsson, H., Hólmgeirsdóttir, Á. E., Guðmundsson, S., Ottesen, Þ. 2016. Mælingar á brottkasti þorsks og ýsu 2014–2015 (e. Measurments of discards of Cod and Haddock in 2014–2015). HV2016-003.