ÝSA

Melanogrammus aeglefinus


Stofnmatsskýrsla
Birt af

Hafrannsóknastofnun

Birt

6. júní 2025

Helstu niðurstöður

  • Lífmassi í stofnmælingum jókst jafnt og þétt frá árinu 2011 og náði hámarki á árunum 2023–2025 sem er nærri hámarki áranna 2003–2006.

  • Nýliðunargögn benda til þess að núverandi hámark sé vegna aukinnar nýliðunar áranna 2020–2022. Nýliðun áranna 2023 og 2024 er hins vegar undir meðaltali síðasta áratugs, en fyrstu mælingar benda til að 2025 árgangurinn sé við meðaltal. Því er líklegt að stærð ýsustofnsins minnki á næstu árum.

  • Lengdardreifingar hafa verið stöðugar síðasta áratuginn, sem bendir til reglulegrar nýliðunar, og hlutfall stórrar ýsu í stofninum hefur aukist.

  • Stofnmatið bendir til þess að stofnstærð ýsu sé sú hæsta sem mælst hefur síðan árið 1979, en matið er þó háð talsverðri óvissu.

  • Veiðihlutfall hefur verið nálægt markmiðum aflareglu seinasta áratug.

Inngangur

Ýsa á Íslandsmiðum (Melanogrammus aeglefinus) er tiltölulega stór stofn og einskorðast að mestu við landgrunnið á um 10–200 m dýpi. Hún er algengust í hlýja sjónum fyrir sunnan og vestan land og hrygning er mest suður af landinu. Á hlýskeiðum hefur stór hluti ókynþroska ýsu fundist norður af landinu og á þessari öld hefur stærri hluti veiðistofnsins haldið sig norður af landinu, samanborið við síðustu tvo áratugi seinustu aldar.

Sjá nánar um líffræði ýsu.

Veiðar

Veiðar á ýsu hafa lítið breyst seinasta áratuginn, en þó hefur fjölda báta sem veiða 95 % aflans fækkað (Mynd 1 og Tafla 1). Um 250 línubátar, 60 togarar og 40 dragnótabátar skrá nú afla ýsu. Mest af ýsu er veidd í botnvörpu. Hlutfall ýsuafla í botnvörpu féll úr um 70 % í kringum 1995 í um 45 % árið 2017, en hefur aukist aftur síðan. Á sama tíma hefur hlutfall ýsu sem veidd er á línu hækkað úr um 15 % á árunum 1995-2000 í um 40 % á árunum 2011–2017, en hefur lækkað nokkuð síðan. Hlutfall ýsuafla sem fæst í dragnót hefur hins vegar verið nokkuð stöðugt, eða um 15 %. Um 2 % aflans hafa í seinni tíð verið veidd í önnur veiðarfæri, mest í net. Á tíunda áratug síðust aldar var hlutfallið sem veitt var í net um 10–30 % en hefur dregist saman í takti við minni sókn netabáta (Mynd 2).

Ýsa, sem veidd er af íslenskum fiskiskipum fæst að stærstum hluta á dýpi minna en 200 m (Mynd 3). Helstu ýsumið eru suður, suðvestur og vestur af landinu (Mynd 4 og Mynd 5). Töluverð aukning var á afla norður og norðaustur af landinu á árunum 2003–2005 og hefur hlutfall ýsuafla þar haldist hátt síðan.

Mynd 1: Ýsa. Fjöldi skipa og báta (öll veiðarfæri) sem veiddu 95 % heildaraflans hvert ár frá 1994. Vinstri: Sýnt eftir árum. Hægri: Sýnt í samanburði við heildarafla. Gögn frá aflaskráningarkerfi Fiskistofu.
Mynd 2: Ýsa. Landaður afli eftir veiðarfærum samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu.
Tafla 1: Ýsa. Fjöldi íslenskra skipa sem landað hafa ýsu og allur landaður afli eftir veiðarfærum og árum
Ár
Botnvarpa
Dragnót
Lína
Önnur veiðarfæri
Heild
Fjöldi báta Afli Fjöldi báta Afli Fjöldi báta Afli Fjöldi báta Afli Afli
2000 164 23 300 117 3 101 479 13 089 504 1 740 41 230
2001 146 22 034 91 3 036 447 11 982 631 2 050 39 102
2002 144 30 377 91 3 596 417 13 638 548 1 990 49 601
2003 136 36 239 96 4 804 435 17 284 550 1 664 59 991
2004 131 50 722 95 8 095 449 23 198 656 1 787 83 802
2005 126 53 046 90 10 493 449 30 767 488 1 573 95 879
2006 116 45 968 93 12 709 436 36 237 416 1 217 96 131
2007 109 57 033 94 12 869 407 37 199 345 1 080 108 181
2008 102 51 228 91 16 457 362 33 051 311 944 101 680
2009 98 39 078 81 15 182 335 26 571 448 608 81 439
2010 94 29 341 67 10 138 279 23 916 623 475 63 870
2011 95 20 718 54 6 866 278 21 175 630 473 49 232
2012 98 20 469 56 6 048 289 18 722 699 473 45 712
2013 95 18 829 65 4 955 282 19 197 702 398 43 379
2014 84 13 438 47 3 776 283 15 598 654 329 33 141
2015 83 17 337 50 4 327 257 16 432 607 360 38 456
2016 82 17 045 53 4 456 237 14 927 580 321 36 749
2017 80 16 456 53 4 539 210 14 447 531 343 35 785
2018 71 26 639 58 5 585 194 15 190 494 336 47 750
2019 69 35 947 43 6 237 183 14 650 493 302 57 136
2020 73 32 005 42 5 079 149 16 189 536 278 53 551
2021 82 35 961 46 5 338 142 14 541 532 264 56 104
2022 73 39 003 57 3 929 115 13 830 513 243 57 005
2023 76 44 869 60 6 599 97 17 589 607 304 69 361
2024 79 57 706 37 8 757 89 16 817 594 265 83 545
Mynd 3: Ýsa. Afli eftir dýpi samkvæmt afladagbókum.
Mynd 4: Ýsa. Útbreiðsla veiða á íslensku veiðisvæði samkvæmt aflaskýrslum.
Mynd 5: Ýsa. Útbreiðsla veiða frá öllum veiðarfærum, samkvæmt afladagbókum.

Aflaþróun

Áætlað er að árið 2024 hafi ýsuaflinn verið 85177 þúsund tonn (Mynd 6). Í seinni tíð fór aflinn mest í um 100 þúsund tonn á árunum 2005–2008, sem er nærri hæstu aflatölum sjöunda áratugar seinustu aldar, en hefur síðan lækkað niður í svipuð gildi og á árunum 1975–2000.

Afli erlendra fiskiskipa var áður talsverður hluti af heildarafla ýsu á Íslandsmiðum en eftir stækkun íslensku lögsögunnar hefur afli erlendra skipa verið hverfandi. Undanfarin ár hafa það aðallega verið færeysk skip sem veitt hafa ýsu og var afli þeirra 1442 tonn árið 2024.

Mynd 6: Ýsa. Skráður afli á Íslandsmiðum síðan 1905.

Yfirlit gagna

Sýnataka úr afla helstu veiðarfæra (dragnót, lína og botnvarpa) er almennt góð. Sýnatakan fylgir að mestu útbreiðslu og árstíðasveiflu veiðanna ( Mynd 7 og Mynd 8).

Mynd 7: Ýsa. Hlutfall sýna eftir mánuðum (súlur) samanborið við landanir eftir mánuðum (svört lína), skipt eftir árum og helstu veiðarfærm. Tölur fyrir ofan súlur sýna heildarfjölda sýna.
Mynd 8: Ýsa. Veiðislóð seinasta árs samkvæmt afladagbókum og staðsetning sýna (krossar) skipt eftir helstu veiðarfærum.

Landanir og brottkast

Allar skráðar landanir frá Íslandsmiðum fyrir árið 1966, sem og landanir erlendra fiskiskipa til og með árinu 2014, eru skráðar í STATLANT löndunargrunn Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Landanir innlendra fiskiskipa frá árinu 1966 eru skráðar af Fiskistofu (áður Fiskifélagið).

Þó að brottkast sé bannað í botnfiskveiðum á Íslandsmiðum er það þó talið eiga sér stað. Byggt á mati á lengdarháðu brottkasti árin 2001–2018, þar sem gert er ráð fyrir að smáfiski sé frekar hent en stærri fiski, hefur hlutfall brottkasts á ýsu af heildarafla verið lítið seinni ár (<3% bæði í þyngd og í fjölda, Mynd 9 - sjá nánar í MRI (2016)). Til þess að lágmarka líkur á brottkasti hafa útgerðir möguleika á því að landa undirmáli utan kvóta, að því gefnu að ágóðinn fari í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Að auki er möguleiki á því flytja kvóta milli tegunda.

Mynd 9: Ýsa. Mat á lengdarháðu brottkasti eftir veiðarfærum (punktmat og 95 % öryggisbil).

Lengdardreifing landaðrar ýsu

Tafla 2 sýnir fjölda sýna og lengdarmælinga sem safnað er úr afla. Lengdardreifing ýsu úr afla eftir árum er sýnd á Mynd 10. Stærðarsamsetning afla á línu og í botnvörpu virðist nokkuð stöðug, að mestu ýsa milli 40 og 70 cm. Ýsa veidd í net er stærri, en stærðasamsetningin er breytilegri eftir því sem hlutfall stærri fisks er hærra í stofninum.

Mynd 10: Ýsa. Lengdardreifing úr afla eftir veiðarfærum og árum
Tafla 2: Ýsa. Fjöldi sýna og lengdarmælinga úr lönduðum afla.
Ár
Botnvarpa
Dragnót
Lína
Fjöldi sýna Fjöldi lengdarmælinga Fjöldi sýna Fjöldi lengdarmælinga Fjöldi sýna Fjöldi lengdarmælinga
2000 344 66 143 21 3 114 88 14 393
2001 359 71 914 26 4 098 168 30 110
2002 467 85 869 47 7 644 212 32 425
2003 422 71 509 75 7 094 210 31 239
2004 503 82 474 75 10 416 252 35 405
2005 514 94 529 102 14 880 375 53 472
2006 500 74 627 241 29 862 747 75 392
2007 837 102 155 515 34 922 531 87 737
2008 813 83 284 389 29 477 572 88 920
2009 630 56 466 349 35 176 406 63 817
2010 470 59 477 265 19 727 344 56 681
2011 357 53 462 204 8 494 237 43 200
2012 349 41 424 191 10 270 306 60 842
2013 267 34 357 92 2 597 237 43 132
2014 155 13 731 51 3 157 217 37 035
2015 187 26 101 92 2 816 222 41 594
2016 163 21 500 132 2 540 202 37 492
2017 200 23 387 151 6 417 232 42 360
2018 134 21 780 94 5 611 231 35 621
2019 295 50 698 42 3 266 187 25 692
2020 109 17 640 15 1 552 64 8 929
2021 139 22 264 20 2 112 38 4 669
2022 124 18 937 16 1 942 34 3 941
2023 129 23 280 35 1 947 28 3 382
2024 255 51 257 30 4 050 52 6 510

Aldursgreindur afli

Fjöldi sýna og aldurslesinna fiska úr afla er gefinn í Tafla 3. Afli í fjölda eftir aldri er sýndur á Mynd 11. Líkt og árið á undan var aflinn árið 2024 að stórum hluta samsettur af einstaka sterkum árgöngum á milli lakari árganga (Mynd 12). Óvenju mikið hefur þó verið af 11 ára og eldri ýsu í afla síðastliðinn áratug sem stafar m.a. af lægri fiskveiðidánartölu seinni ár.

Tafla 3: Ýsa. Fjöldi sýna og kvarna úr lönduðum afla eftir árum og veiðarfærum.
Ár
Botnvarpa
Dragnót
Lína
Fjöldi sýna Fjöldi kvarna Fjöldi sýna Fjöldi kvarna Fjöldi sýna Fjöldi kvarna
2000 344 6 773 21 800 88 2 848
2001 359 5 208 26 359 168 2 755
2002 467 6 510 47 750 212 2 848
2003 422 7 237 75 878 210 3 499
2004 503 6 786 75 698 252 2 855
2005 514 6 478 102 823 375 3 520
2006 500 6 447 241 1 219 747 4 806
2007 837 6 602 515 1 969 531 4 451
2008 813 7 637 389 2 163 572 4 464
2009 630 5 449 349 1 822 406 2 800
2010 470 5 458 265 1 473 344 3 199
2011 357 3 522 204 1 140 237 2 675
2012 349 4 448 191 1 436 306 3 204
2013 267 3 039 92 750 237 2 751
2014 155 1 421 51 329 217 1 550
2015 187 1 924 92 324 222 1 151
2016 163 1 769 132 440 202 975
2017 200 1 363 151 337 232 945
2018 134 1 385 94 291 231 845
2019 295 1 740 42 362 187 925
2020 109 1 322 15 276 64 625
2021 139 1 820 20 300 38 775
2022 124 1 100 16 120 34 265
2023 129 1 462 35 234 28 440
2024 255 2 178 30 300 52 700
Mynd 11: Ýsa. Aldursskiptur afli. Súlur gefa til kynna afla í fjölda eftir aldri og eru litaðar eftir árgangi
Mynd 12: Ýsa. Áætluð samsetning heildarafla á ári skipt eftir árgangi.

Þyngd eftir aldri í afla

Meðalþyngd í afla eftir aldri má sjá á Mynd 13. Aflaþyngdir sýna að samband er milli meðalþyngdar og stofnstærðar. Hærri meðalþyngd er áberandi hjá minni árgöngum (2008–2013) á meðan stærri árgangar (2003–2004) hafa almennt lægri meðalþyngd. Meðalþyngd eftir aldri hefur hækkað síðan stofninn var í hámarki árin 2005–2009 og er meðalþyngd flestra árganga í stofninum um eða yfir meðaltali.

Mynd 13: Ýsa. Aflaþyngdir eftir aldri. Súlur gefa til kynna frávik frá meðalþyngd eftir aldri og eru litaðar eftir árgangi.

Náttúruleg dánartala

Engar upplýsingar eru um náttúrulega dánartölu. Í. stofnmati er gert ráð fyrir að hún sé 0,2 fyrir alla aldurshópa.

Gögn um afla, sókn og frá rannsóknaleiðöngrum

Afli á sóknareiningu

Óstaðlaðan afla ýsu á sóknareiningu má sjá á Mynd 14. Afli á sóknareiningu, þar sem ýsa er meira en 50 % aflans í togi, hefur aukist töluvert frá árinu 2000 og er nú í hámarki. Sé horft til allra veiðiferða þar sem ýsa veiddist náði afli á sóknareiningu hámarki á seinni hluta fyrsta áratugar þessarar aldar, minnkaði síðan um og eftir 2010 en hefur síðan aukist aftur.

Séu þessar tímaraðir bornar saman við niðurstöður leiðangra Hafrannsóknastofnunar má því lesa aðra þróun í stofninum. Það er almennur eiginleiki vísitalna sem byggðar eru á aflagögnum að þær lýsa fleiri þáttum en bara stofnþróun. Til að mynda hækkaði hlutfall stofnsins norður af Íslandi verulega eftir 2003, auk þess sem að stærðarhlutföll hafa breyst töluvert vegna breytinga á veiðimynstri og sókn. Sé t.d. horft til vísitölu fisks stærri en 60 cm sést að sá hluti stofnsins hefur aldrei mælst stærri en síðustu tvö ár (Mynd 15)

Mynd 14: Ýsa. Afli á sóknareiningu skipt eftir helstu veiðarfæraflokkum. Brotalínur gefa til kynna afla á sóknareiningu þar sem meira en 50 % aflans í togi var ýsa en heilar línur allar skráningar þar sem ýsa veiddist. Athugið að breyting átti sér stað í september 1999 þar sem öll skip voru skyldug til að skila inn afladagbók en fyrir þann tíma voru skip minni en 10 brúttólestir undanskilin þeirri skyldu.

Gögn frá rannsóknaleiðöngrum

Upplýsingum um vistfræði ýsu á Íslandsmiðum er safnað í tveimur reglubundnum rannsóknaleiðöngrum, stofnmælingu botnfiska að vori (SMB) og að hausti (SMH). SMB hefur farið fram árlega síðan 1985 og nær yfir helstu útbreiðslusvæði ýsunnar (Jón Sólmundsson, n.d.). SMH hefur farið fram árlega frá árinu 1996, að slepptu árinu 2011 (Klara B. Jakobsdóttir, n.d.). Þó að báðir stofnmælingaleiðangrarnir (SMB og grunnslóðarstöðvar SMH) hafi upprunalega verið hannaðir til að meta ástand þorskstofnisins þá eru þeir álitnir gefa góða mynd af viðgangi ýsustofnsins.

Mynd 15 sýnir þróun vísitalna lífmassa og vísitölur nýliðunar (í fjölda) í SMB og SMH. Breytingar á útbreiðslu í SMB og SMH sýna að stærri hluti lífmassans er nú norðvestur, norður og norðaustur af landinu (Mynd 16). Stærðarsamsetningu úr rannsóknaleiðöngrum má sjá á Mynd 17 (í fjölda) og afli á stöð í síðustu leiðöngrum er sýndur á Mynd 18.

Góður samhljómur er milli vísitalna úr SMB og SMH, þó að vísitala stórrar ýsu (>60 cm) hafi mælst hærri í SMH á árunum 2013–2015 samanborið við SMB sömu ár.

Aldursskiptar vísitölur má sjá á Mynd 19. Í seinni tíð hefur fjöldi fiska 11 ára og eldri í SMB aukist töluvert, sem er í samræmi við þróun lífmassa >60 cm. Eftir slaka nýliðun áranna 2007-2013 hefur nýliðun farið vaxandi og mælast árgangar 2019–2021 stórir.

Mynd 15: Ýsa. Vísitölur úr stofnmælingum Hafrannsóknastofnunar. Vísitala úr SMB er táknuð með heilli línu, þar sem skyggð svæði gefa til kynna óvissu í mælingum (staðalfrávik), og vísitala úr SMH er táknuð með punktum, þar sem lóðréttar línur tákna óvissu.
Mynd 16: Ýsa. Breytingar á dreifingu lífmassa vísitölu ýsu í SMB og SMH.
Mynd 17: Ýsa. Lengdardreifingar úr SMB og SMH.
Mynd 18: Ýsa. Útbreiðsla ýsu í SMB í ár og SMH í fyrra. Punktastærð er í hlutfalli við afla í togi.
Mynd 19: Ýsa. Aldursskiptar fjöldavísitölur úr SMB og SMH. Súlur gefa til kynna vísitölu eftir aldri og eru litaðar eftir árgangi.

Stofnþyngdir

Meðalþyngd í stofni eftir aldri má sjá á Mynd 20. Stofnþyngdir, líkt og aflaþyngdir, sýna samband milli meðalþyngdar og stofnstærðar. Hærri meðalþyngd er áberandi hjá minni árgöngum (2008 til 2013) en stærri árgangar (2003 og 2004) hafa almennt lægri meðalþyngd. Meðalþyngd eftir aldri hefur hækkað síðan stofninn var í hámarki 2005–2009 og eru eldri árgangar í stofninum um eða yfir meðaltali. Meðalþyngd árganga 2019–2021, sem eru stórir, er hins vegar um eða undir meðalagi í SMB árið 2025.

Mynd 20: Ýsa. Stofnþyngdir eftir aldri úr SMB. Súlur gefa til kynna frávik frá meðalþyngd eftir aldri og eru litaðar eftir árgangi.

Kynþroski eftir aldri

Upplýsingum um hlutfall kynþroska ýsu eftir aldri er safnað í stofnmælingu botnfiska að vori og má sjá á Mynd 21. Í seinni tíð hefur ýsa orðið kynþroska seinna og eru þessar breytingar mögulega tengdar tilfærslu ýsunnar til norðurs í kaldari sjó þar sem ýsa er almennt eldri við kynþroska.

Mynd 21: Ýsa. Kynþroski (úr SMB) eftir aldri. Súlur gefa til kynna frávik frá meðalkynþroska eftir aldri og litaðar eftir árgangi. Gögnin eru notuð til þess að reikna stærð hrygningarstofns.

Úrvinnsla gagna

Stofnmat

Stofnmatsaðferðin sem beitt er fyrir ýsu var endurskoðuð á rýnifundi Alþjóðahafrannsóknaráðsins árið 2025 (ICES (2025)). Á þeim fundi var aflareglan einnig enduskoðuð. Stofnmatið byggir nú á tölfræðilegu aldurs-aflalíkani (SAM; Nielsen and Berg (2014)). Líkanið byggir á gögnum frá árinu 1979 til ársins í ár, þar sem fylgst er með ýsu á aldursbilinu 1 til 12+ ára, þar sem 12+ ára eru 12 ára og eldri fiskur (plúsgrúppa). Náttúruleg dánartala er sett sem 0.2 að meðaltali fyrir alla aldurshópa. Valmynstur veiðanna er breytilegt eftir aldri og árum.

Hlutfall fiskveiðidánartölu fyrir hrygningu er sett sem 0.4 og fyrir náttúrulegrar dánartölu fyrir hrygningu sem 0.3, þar sem hrygningatími ýsu er talinn vera frá apríl til loka maí.

Inntaksgögn stofnmats

Stofnmatið byggir á fjórum gagnastoðum sem lýst er hér að ofan. Það eru SMB og SMH, sýnataka úr afla og landaður afli. Gögn úr veiðum eru notuð til þess að búa til aldursskiptan afla sem, ásamt aldursskiptum vísitölum úr SMB og SMH, eru borin saman við úttak líkansins í gegnum vegið líknafall til þess að meta stika líkansins. Afla- og stofnþyngdir koma úr sýnatöku úr afla og SMB. Kynþroski eftir aldri er einnig metinn byggt á gögnum úr SMB. Fyrir tímabilið 1979-1985, þ.e.a.s. áður en SMB hófst, eru stofnþyngdir og hlutfall kynþroska eftir aldri sett það sama og árið 1985. Nánari lýsingu á stofnmatsaðferðinni má finna í stofnviðauka Alþjóðahafrannsóknaráðsins um ýsu (ICES (2019)).

Greining á níðurstöðum stofnmats

Mátgæði líkansins eru sýnd á Mynd 22 og Mynd 23 þar sem ekkert mynstur er greinanlegt í leifum líkansins. Þegar horft er til mátgæða fyrir heildarvísitölu ýsu (sjá Mynd 24 sem sýnir spáða vísitölu bornar saman við mælingar) sést að líkanið spáir illa fyrir toppi vísitölunnar úr SMB og ofmetur stofnstærðina eftir að vísitalan fer lækkandi. Þessi frávik eru ekki eins áberandi fyrir SMH en hið gagnstæða virðist eiga við um mátgæðin við SMB gögnin. Þegar horft er til gildanna í tímaröð heildarvísitölu fyrir og eftir hámarkið má sjá að SMH gefur til kynna að stofninn sé stærri en fyrir hámark, en á sama tíma er SMB að gefa til kynna að stofninn sé á svipuðum slóðum og fyrir hámarkið. Því virðist líkanið fara til bil beggja vísitalna.

Mynd 22: Ýsa. Leifar stofnmatslíkansins þegar úttak líkansins er borið saman við aldursskiptar vísitölur úr SMB og SMH. Rauðir hringir tákna neikvæðar leifar (mæligögn < spá líkans), en bláir jákvæðar leifar. Stærð hringja er í hlutfalli við stærð leifa.
Mynd 23: Ýsa. Ferilfrávik stofnmatslíkansins fyrir metinn fjöld og veiðidánartölu eftir árum og aldri. Rauðir hringir tákna neikvæðar leifar (mæligögn < spá líkans), en bláir jákvæðar leifar. Stærð hringja er í hlutfalli við stærð leifa.
Mynd 24: Ýsa. Samanburður á niðurstöðum líkans (línur) og heildarvísitölum stofnmælingaleiðangra (punktar).

Niðurstöður stofnmats

Stofninn minnkaði milli áranna 2008 og 2011 þegar stór árgangur hvarf úr veiðinni og smærri árgangar komu í staðinn (Mynd 25). Frá 2011 hefur samdrátturinn verið minni eftir því sem fiskveiðidánartala hefur lækkað. Hrygningarstofninn hefur dregist hraðar saman en viðmiðunarstofninn vegna minnkandi hlutfalls kynþroska eftir aldri/stærð. Veiðihlutfallið er lágt í sögulegu samhengi en er þó yfir markmiðum gildandi aflareglu. Stofnmatið gefur til kynna að stofnstærð hafið farið vaxandi undanfarin ár.

Metið hrygningarstofns-nýliðunarsamband, sem sjá má á Mynd 28, gefur til kynna talsverðan breytileika í árgangastyrk en ekki eru skýr merki um að nýliðun hafi skerst vegna bágrar stöðu hrygningarstofnsins á þeim tíma sem stofnmatið nær yfir. Sterkir árgangar hafa, þó sjaldgæfir séu, leitt til þess að stofninn hefur styrkst umtalsvert líkt og hefur gerst á síðastliðnum árum.

Reiknuð endurlitsgreining gefur til kynna leiðréttingu upp á við seinni ár (Mynd 26). Það er talið tengjast mikilli aukningu stofnstærðar eftir að sterkir árgangar komu inn í viðmiðunarstofninn. Stofnmatið er þó álitið stöðugt og metið 5 ára Mohns \(\rho\) er innan eðlilegra marka.

Samanburður milli mismunandi stofnmatskeyrslna þar sem vísitölum annað hvort úr SMB eða SMH er sleppt gefur til kynna að það hefur lítil áhrif að meta stofninn einungis með öðrum leiðangrinum og eru áhrifin metin innan skekkjumarka (Mynd 27).

Veiðimynstur eftir stærð og aldri er sýnd á Mynd 29. Töluverður breytileiki er í veiðimynstri eftir aldri eins og rætt var hér að ofan. Ýsan sýnir sterk merki um þéttleikaháðan vöxt sem hefur umtalsverð áhrif á veiðimynstur eftir aldri.

Mynd 25: Ýsa. Samantekt stofnmats. Lóðrétt brotalína gefur til kynna úttektarár, skyggð svæði sýna 95 % óvissumörk. Lárétt brotin lína sýnir veiðhlutfallið sem stefnt er og aðgerðamörk aflareglunnar. Heil svört lína sýnir varúðarmörk (Blim).
Mynd 26: Ýsa. 5 ára reiknuð endurlitsgreining á stofnmati.
Mynd 27: Ýsa. Samanburður á stofnmatsniðurstöðum þar sem annaðhvort SMH eða SMB er sleppt.
Mynd 28: Ýsa. Metið hygningarstofns-nýliðunarsamband.
Mynd 29: Ýsa. Veiðimynstur eftir aldri.

Skammtímaspá

Eftir breytingar á aflareglu fyrir ýsu árið 2025 er ráðgjöfin fyrir komandi fiskveiðiár ekki byggð á skammtímaspá (sjá Undirkafli 7) þar sem hún byggir á stærð viðmiðunarstofns á stofnmatsári. Þrátt fyrir það er skammtímaspá notuð til þess að meta áhrif ráðgjafarinnar á þróun lykilstærð eins og stærð hrygningarstofns. Í þeim framreikningum er byggt á stofnþyngdum og kynþroskahlutfalli stofnmatsársins og aflaþyngdum ársins þar á undan auk þess sem að nýliðun er byggð á 10 ára meðaltali. Tæknilega lýsingu má finna í stofnviðauka (sjá ICES 2019).

Fiskveiðistjórnun

Atvinnuvegaráðuneytið er ábyrgt fyrir stjórnun fiskveiða á hafsvæðinu við Ísland og innleiðingu laga um fiskveiðistjórnun. Ráðuneytið setur reglur um fiskveiðar í atvinnuskyni fyrir hvert fiskveiðiár (frá 1. september til 31. ágúst), þ.m.t. úthlutun fiskveiðiheimilda fyrir hvern fiskistofn sem lýtur slíkri stjórn. Veiðiheimildum fyrir ýsu við Ísland hefur verið úthlutað skv. aflamarki síðan 1987. Leyfilegt aflamark hefur að mestu fylgt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Landaður afli hefur hins vegar ítrekað farið yfir sett aflamark (sjá Mynd 30) sem rekja má til tegundatilfærslukerfisins sem leyfir flutning á kvóta frá einni tegund til annarar. Afli fiskveiðiárið 2020/2021 var umfram ráðgjöf m.a. vegna þess að aflaheimildir voru auknar um 8  000 tonn sem dregin voru af heimildum fiskveiðiárið 2021/2022.

Afli erlendra fiskiskipa er eins og áður sagði lítill og einvörðungu norsk og færeysk fiskiskip sem hafa heimild til veiða við Ísland. Samningurinn við Færeyjar leyfir veiði á 5  600 tonnum af bolfiski, þar af að hámarki 1  200 tonn af þorski og 40 tonn af lúðu. Þessi skip eru ekki partur af aflamarkskerfinu og þar til nýlega var ekki tekið tillit til þeirra þegar heildaraflamark íslenskra fiskiskipa var ákvarðað.

Áhrif tegunda- og kvótatilfærslukerfisins má sjá á Mynd 31. Myndin sýnir að þegar ýsustofninn var stór var mikið breytt úr öðrum tegundum í ýsu. Þetta má að hluta skýra með tilfærslu stofnsins (sjá Mynd 5) þar sem ýsuveiðar voru áður nær einvörðungu suður af landinu. Eftir að ýsan færðist norðar var kvótastaða þeirra útgerða sem veiddu meira af ýsu fyrir norðan land minni en það sem var veitt. Þegar horft er til lengri tíma má sjá að meðaltal frávika er nokkuð nálægt núlli. Eftir að aflareglu var komið á árið 2013 minnkaði flutningur veiðiheimilda milli ára, en að sama skapi jókst flutningur frá öðrum tegundum. Þetta gæti verið vegna þess að auðvelt er að veiða ýsu, eins og sjá má á afla á sóknareiningu, auk þess sem að ýsa veiðist mikið í blönduðum veiðum.

Ráðgjöf um heildaraflamark ýsu fylgir aflareglu íslenskra stjórnvalda. Aflaregla var fyrst sett fyrir þennan stofn árið 2013. Aflareglan var síðast rýnd af Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES, 2025), og uppfærðri aflareglu fyrst beitt fiskveiðiárið 2025/2026. Núgildandi aflaregla er lýst með eftirfarandi formúlum:

Ef \(SSB_{y}\geq B_{trigger}\) þá: \[ TAC_{y+1/y} = 0.35 B_{45cm^+,y} \]

Ef \(SSB_{y}< B_{trigger}\) þá: \[TAC_{y+1/y} = 0.35 B_{45cm^+,y} SSB_{y}/B_{trigger}\]

Þessi aflaregla byggir á sama viðmiðunarstofni og fyrri reglur en nú er miðað við stærð viðmiðunarstofns á stofnmatsári (\(y\)) í stað ráðgjafarárs (\(y+1\)) áður. Því er ekki lengur þörf á skammtímaspá um stofn- og aflaþyngdir.

Mynd 30: Ýsa. Samanburður á heildarafla og aflamarki í íslenskri lögsögu.
Mynd 31: Ýsa. Nettó tilfærsla á kvóta eftir fiskveiðiárum. Tilfærsla milli tegunda (efri myndir): Jákvæð gildi tákna tilfærslu á kvóta annarra tegunda yfir á ýsu en neikvæð gildi tilfærslu ýsukvóta á aðrar tegundir. Tilfærsla milli ára (neðri myndir): Nettó tilfærsla kvóta á viðkomandi fiskveiðiári

Stöðumat ráðgjafar

Öll merki frá rannsóknaleiðöngrum og úr afla gefa til kynna að ástand ýsustofnsins sé gott um þessar mundir. Stofnmatið rennir frekari stoðum undir það mat. Árið 2019 var veiðihlutfall í aflareglu lækkað úr 0.4 í 0.35 til þess að taka tillit til breytinga á stofninum tengdum seinkuðum kynþroska. Stórir árgangar frá 2018–2020 gefa vísbendingu um að ástand stofnsins verði gott til skemmri tíma litið. Árið 2025 er stofninn metinn hafa vaxið umtalsvert, en búist er við að stofninn fari minnkandi eftir því sem árgangar 2018–2020 ganga í gegnum veiðistofninn.

Heimildaskrá

ICES. 2019. Stock Annex: Haddock (Melanogrammus aeglefinus ) in Division 5.a (Iceland grounds).” International Council for the Exploration of the Seas; ICES publishing.
———. 2025. Workshop on the benchmark assessment and management plan evaluation for Icelandic haddock and saithe (WKICEGAD). ICES Scientific Reports [in press].
Jón Sólmundsson, Höskuldur Björnsson, Hjalti Karlsson. n.d. “Handbók Um Stofnmælingu Botnfiska.” Hafrannsóknastofnun; Hafrannsóknastofnun.
Klara B. Jakobsdóttir, Georg Haney, Einar Hjörleifsson. n.d. “Handbók Um Stofnmælingu Botnfiska a Haustlagi.” Hafrannsóknastofnun; Hafrannsóknastofnun.
MRI. 2016. Mælingar á brottkasti þorsks og ýsu (e. Measurments of discards of Cod and Haddock), 2014–2016, Reykjavik, Iceland.” Vol. 3. Marine; Freshwater Research Institute, Iceland; Marine Research Institute, Iceland. https://www.hafogvatn.is/static/research/files/fjolrit-183pdf.
Nielsen, Anders, and Casper W. Berg. 2014. “Estimation of Time-Varying Selectivity in Stock Assessments Using State-Space Models.” Fisheries Research 158: 96–101. https://doi.org/10.1016/j.fishres.2014.01.014.