Umhverfi

Purpurahimna. Ljósmynd Svanhildur Egilsdóttir

Rannsóknir umhverfissviðs beinast m.a. að eðlis- og efnafræði sjávar umhverfis landið, hafstraumum og mælingum á þeim, efnafræði ferskvatns, vistfræði sjávargróðurs, hvort sem er svifþörungum eða botngróðri, jarðfræði hafsbotnsins og kortlagningu hans. 

Umfangsmikil verkefni á sviðinu eru vöktun á ástandi sjávar, sem eru endurteknar athuganir á hita og seltu sjávar ásamt næringarefnum í sjó svo og kolefnisbúskap sjávar sem tengist m.a. súrnun hans. Vöktun beinist m.a. að veðurfarsbreytingum sjávar á lengri og skemmri tímaskala.

Hér undir er einnig árleg vöktun svifþörunga og kortlagning botngróðurs með þeim breytileika sem er á hvoru tveggja. Reglubundin vöktun á eitruðum þörungum við strendur landsins er dæmi um það.

Kortlagning hafsbotnsins er átaksverkefni næstu ára. Það verkefni stefnir að því að ljúkakortlagningu botnsins innan íslensku landhelginnar fyrir 2030. Einnig verða gerðar samtímis setþykktarmælingar og jarðeðlisfræðilegar mælingar af ýmsum toga í samvinnu við aðrar rannsóknastofnanir.

Undanfarið hafa starfsmenn umhverfissviðs fengist í auknum mæli við athuganir á grunnsævi í tengslum við könnun aðstæðna til fiskeldis. Töluverð vinna hefur farið í að meta getu fjarða til þess að takast á við lífrænt álag og er svonefnt burðarþol stór þáttur þessarar vinnu. Hluti af vinnu við matið felst í þróun og keyrslu mismunandi líkana sem matið er byggt á. Ljóst er að framundan er aukin vöktun á grunnsævi sem tengist auknu fiskeldi. 

Hratt vaxandi þáttur í vinnu sviðsins undanfarin misseri hefur tengst umsagnarskyldu stofnunarinnar gagnvart stjórnvöldum, svo sem við umhverfismat vegna framkvæmda af ýmsu tagi.

Starfsfólk
Nafn Starfsheiti Netfang
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?