Skrínan

Unnið er að nýrri rafrænni veiðidagbók sem komin verður á vefinn fyrir næsta tímabil 2023.

Veiðiréttareigendum/leigutökum gefst kostur á að skrá veiði rafrænt.  Upplýsingar um veiði eru skráðar með sama sniði og þær koma fyrir í veiðibókunum. Einstakar skráningar verða sýnilegar í rafrænni veiðibók jafnharðan og þær hafa verið skráðar, auk þess sem þar verða samtölur um veiði einstakra áa. 

Veiðiskráning með þessum hætti breytir miklu varðandi aðgengi veiðimanna og almennings að nýjustu veiðitölum. Ekki er ætlunin að hætta skráningu í hefðbundnar veiðibækur að sinni a.m.k. Þær eru nauðsynleg frumheimild um veiðina á hverjum tíma, auk þess sem e.t.v. hafa ekki allir möguleika á að skrá veiði jafnóðum inn í kerfið. 

Skráning á veiði í fersku vatni hér á landi hefur verið í mjög föstum skorðum um árabil. Við upphaf veiðitíma hafa veiðibækur verið sendar til veiðiréttarhafa sem síðan endursenda þær til Hafrannsóknastofnunar að veiðitíma loknum. Stofnunin annast samantekt veiðitalna í samstarfi við Fiskistofu. Upplýsingar úr veiðibókum eru meðal annars notaðar við mat á verðamæti veiða, skiptingu arðs og mati á stöðu stofna og árangri fiskræktar. Svo ítarleg skráning á veiði, þar sem hver einstakur fiskur er skráður ásamt upplýsingum um hann, er einsdæmi í heiminum. Verðmæti gagnanna er mikið og mikilvægt að skráningin rofni ekki.

Veiðiréttareigendur og/eða leigutakar eru hvattir til að huga að rafrænni skráningu á veiði. Þeir sem hyggjast nýta sér þennnan möguleika þurfa að sækja um aðgang. Frekari upplýsingar um rafræna skráningu veiðitalna má nálgast hjá Hafrannsóknastofnun í síma 575 2000.

Sækja um aðgang

Leiðbeiningar um uppsetningu á veiðidagbók

Skrá veiðitölur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?