Lúða

Samheiti á íslensku:
spraka, heilagafiskur
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Hippoglossus hippoglossus
Danska: Helleflynder
Færeyska: Kalvi
Norska: Kveite, Hellefisk, Helleflyndre, Storkveite
Sænska: Hälleflundra
Enska: Atlantic halibut, Common halibut, Halibut
Þýska: Heilbutt
Franska: Flétan
Spænska: Halibut, Fletán
Portúgalska: Alabote-do-Atlântico
Rússneska: Палтус атлантический {белокорый; обыкновенный} / Páltus atlantítsjeskij {belokóryj„ obyknovénnyj}

Lúðan er alllangvaxin, hausstór og kjaftstór með fremur litlar en beittar tennur. Neðri skoltur er framstæður. Augu eru lítil. Bakuggi byrjar yfir framanverðu vinstra auga en raufaruggi á móts við aftari enda eyrugga. Eyruggar eru í meðallagi stórir og kviðuggar frekar litlir. Sporður er stór og grunnsýldur. Hreistur er smátt og rák er greinileg. Hún er bein frá sporði að eyruggum en sveigist yfir þá. Lúðan er stærst allra flatfiska, með allra stærstu beinfiskum og sá stærsti með fasta búsetu hér við land.

Sæmilega örugg heimild er til um 470 cm langa lúðu sem vó 240 kg við Noreg. Frá Íslandi er kunnugt um lúðu sem var 365 cm löng, 45 cm á þykkt og 266 kg þung. Hún veiddist við norðanvert landið sumarið 1935.

Litur: Lúðan er mósvört, grá eða dökkgræn á hægri hlið en hvít á þeirri vinstri.

Geislar: B: 96-110,- R: 71-85,- hryggjarliðir: 32-35.

Heimkynni lúðunnar eru í Norður-Atlantshafi, Norður-Íshafi og Barentshafi frá Svalbarða og Múrmansk suður með Noregsströndum inn í dönsku sundin, í Norðursjó, við Bretlandseyjar og suður í Biskajaflóa. Þá er hún við Færeyjar og Ísland og við Austur- og Vestur-Grænland og Norður-Ameríku frá Labrador suður til Þorskhöfða. Í Kyrrahafi frá Beringshafi og Alaska til Suður-Kaliforníu og við Kamtsjatka suður til Japans er skyld tegund, kyrrahafslúða, Hippoglossus stenolepis sem sumir telja þó aðeins vera undirtegund eða jafnvel alveg sömu tegund og í Norður- Atlantshafi.

Við Ísland er lúðan allt í kringum landið en þó er hún algengari sunnan-, suðvestan- og vestanlands en norðan- og austanlands. Þekkt lúðumið frá gamalli tíð eru undan Vestfjörðum, á Breiðafirði, undan Suðvesturlandi, við Vestmannaeyjar og víðar. Ástand lúðustofnsins við Ísland er slæmt um þessar mundir. Hennar verður varla vart undan Norður- og Austurlandi og hefur stórfækkað annars staðar við landið.

Lífshættir: Lúðan er botnfiskur á sand-, leir- eða malarbotni og jafnvel hraunbotni. Einnig þvælist hún allmikið upp um sjó. Hún Iifir á 20-2000 m dýpi og við 2,5-9°C en kjörhiti er 3-9°C. Smálúðan elst upp á grunnunum til 3-5 ára aldurs en heldur þá út á djúpið. Á vorin og sumrin gengur stór lúða upp á grunnmið en dregur sig út á djúpið þegar haustar og kólnar. Stórar lúður sækja mjög í harða strauma.

Mikill flækingur er á lúðunni. Lúður merktar við Ísland hafa endurveiðst við Færeyjar, Austur- og Vestur-Grænland og nálægt Nýfundnalandi. Lúður merktar við Færeyjar hafa endurveiðst við Ísland og í Norðursjó. Þá veiddist í desember 1953 lúða við vestanvert Ísland sem hafði verið merkt við Kanada í júlí 1946. Síðan hafa fleiri bæst við.

Hrygning lúðu fer fram á 300-1000 m dýpi. Hrygningartíminn er í desember til apríl. Helstu hrygningarsvæðin sem þekkjast eru undan strönd Noregs, norðan Álasunds og í kantinum frá Skotlandi um Færeyjar til Íslands og e.t.v. Grænlands. Þó gæti Grænlandslúðan verið komin frá Íslandi. Lúða hrygnir við Nýfundnaland. Í mars 1993 veiddist hrygnandi lúða á 800-900 m dýpi við 4,8-5,4°C um 200 sjómílur djúpt suðvestur af Reykjanesi (61°00'N, 27°33'V).

Veturinn 1982-1983 fundust hrygningarstöðvar Iúðu á 800-1000 m dýpi suðvestur af Færeyjum. Þarna hrygnir lúða frá því í janúar og fram á vor.

Hrygna sem vegur 100 kg getur hrygnt árlega yfir tveimur milljónum eggja. Eggin eru 3- 4 mm í þvermál og svífa á allmiklu dýpi. Þau klekjast út á 16 dögum við 6°C og er lirfan 6,5-7 mm við klak. Þegar seiðin eru 3-4 cm á lengd byrjar botnlífið.

Talið hefur verið að lúðan verði að jafnaði ekki kynþroska fyrr en 7-14 ára gömul og eru hængarnir þá orðnir 110 cm og 18 kg en hrygnurnar 135 cm og 35 kg. Breyting gæti þó hafa orðið á þessu hin síðari ár eða áratugi þannig að lúðan verði kynþroska yngri og smærri en áður vegna stóraukinnar sóknar í lúðustofninn. Rannsóknir á hrygningarslóðum lúðu við Færeyjar 1985-1986 benda til að lúðan þar vaxi hraðar og verði fyrr kynþroska en annars staðar í Norður-Atlantshafi. Að meðaltali náðu hængar þar tæplega 80 cm lengd á 6 árum og 4-9 kg þyngd en hrygnur 85 cm og 6,5 kg þyngd á jafnlöngum tíma. Flestir hængar urðu fyrst kynþroska 4—5 ára (2-3 kg) og flestar hrygnur 7-8 ára (18-26 kg). Í eldistilraunum Hafrannsóknastofnunar hefur stór hluti hænga orðið kynþroska 2-4 kg þungur og margar hrygnur 7-15 kg. Lúðan getur orðið a.m.k. 25-30 ára en erfitt er að aldurs- ákvarða svo gamlar lúður.

Lúðan er mjög gráðugur fiskur og má segja að stórlúðan láti ofan í sig allt kvikt sem hún ræður við. Oft eltir hún bráð sína upp um allan sjó. Verða þá alls konar fiskar henni að bráð, svo sem þorskur, ýsa, loðna og sandsíli, einnig karfi og hrognkelsi auk krabbadýra en smálúða étur einkum krabbadýr og fleiri botndýr.

Óvinir lúðunnar, auk mannsins, eru selir, smáhveli, háfiskar, einkum hákarlinn og auk þess leita alls konar sníkjudýr á hana bæði útvortis og innvortis.

Nytjar: Nytsemi er allmikil og er lúðan verðmætur fiskur. Aðalveiðiþjóðir hafa verið Íslendingar og Norðmenn og helstu veiðisvæði voru við Ísland, Noreg og Færeyjar.

Árið 1964 er gefinn upp mestur lúðuafli í norðaustanverðu Atlantshafi, tæp 36 þúsund tonn. Mikið af þeim afla mun vera grálúðuafli Sovétmanna og sömu sögu er að segja af rúmlega 27 þúsund tonna lúðuafla árið 1965. Hæpið er að afli lúðu (Hippoglossus hippoglossus) hafi nokkurn tímann farið yfir 20 þúsund tonn í Norður-Atlantshafi og frá og með 1970, þegar farið var að gefa grálúðuafla upp sérstaklega í aflaskýrslum Alþjóða hafrannsóknaráðsins, hefur lúðuafli í Norðaustur-Atlantshafi orðið mestur tæp 7 þúsund tonn, árið 1970.

Á Íslandsmiðum varð afli mestur árið 1951 samkvæmt skýrslum um 6.600 tonn. Afli Íslendinga á Íslandsmiðum varð mestur tæp 2.400 tonn árið 1951. Undanfarin ár hefur lúðuafli á Íslandsmiðum farið hraðminnkandi, árið 1996 fór hann niður fyrir 1000 tonn og árið 2000 var afli Íslendinga orðinn minna en 500 tonn. Næstu ár komst afli okkar í um og yfir 600 tonn á ári.

Árið 1985 var farið að ala lúðu í kerum í tilraunaskyni á vegum Hafrannsóknastofnunar í Grindavík með það í huga að leggja grunninn að matfiskaeldi á lúðu. Í sama skyni hafa einnig verið gerðar fjölgunartilraunir, bæði í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík og hjá Fiskeldi Eyjafjarðar á Hjalteyri. Árið 1990 tókst að halda lífi í tveimur lúðuseiðum á Hjalteyri og um 2000 árið 1991. Klak og uppeldi lúðuseiða er nú orðið atvinnugrein og sömuleiðis lúðueldi. Árin 2001-2003 voru framleidd í eldisstöðvum um 100 tonn hvert ár.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?