Blágóma

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Anarhichas denticulatus
Danska: blå havkat
Færeyska: blágóma
Norska: blåsteinbit
Enska: arctic wolffish, blue sea cat, jelly cat, northern wolffish
Þýska: Blauer Katfisch, Wasserkatze
Franska: loup à tête large, loup de mer bleu, loup gelatineux, poisson loup
Portúgalska: peixe-lobo-azul

Blágóma er langvaxinn, allhár og gildvaxinn fiskur. Hún líkist steinbít fljótt á litið en er öll mun þykkari og klunnalegri og holdið skvapmikið. Haus er allstór og enni breitt og ávalt. Kjaftur er örlítið skástæður og frekar lítill. Hann nær aftur á móts við aftari jaðar augna. Blágóma er jafnskolta. Tennur eru smærri og veikbyggðari en hjá steinbít og hlýra en oddhvassari, einkum plógbeins- og gómbeinatennur. Augu eru lítil. Bolur er alllangur og digur, stirtla er löng. Bakuggi er einn, allhár og langur, nær frá hnakka og aftur á spyrðustæði. Raufaruggi er um helmingi styttri en bakuggi. Sporðblaðka er frekar lítil og greinilega aðgreind frá bak- og raufarugga. Spyrðustæði er frekar grannt.

Eyruggar eru stórir og kviðugga vantar. Hreistur er örsmátt. Rák er aðeins á fremri hluta bols og ógreinileg, tvískipt og langt bil á milli greina. Á Íslandsmiðum hefur blágóma veiðst stærst 126 cm (mars 1995, Suðausturmið), en 134 cm í Barentshafi og 144 cm við Norður-Ameríku. Sumar heimildir segja blágómu ná 180 cm lengd.

Litur: Blágóma er dökkrauðbrún eða blá- grænleit á lit með daufum svörtum dílum á baki og bakugga.

Geislar: B: 77-79;- R: 45-47; hryggjarliðir: 79-80.

Heimkynni blágómu eru í Norður-Íshafi, Barentshafi og kaldari hlutum Norður- Atlantshafs beggja vegna. Hún er við Austur- Grænland norður til Ammasalik, Ísland, Færeyjar og norðan Hjaltlandseyja. Þá er hún við Noreg, Finnmörku, Múrmansk, í Barentshafi og við Svalbarða og Novaja Semlja. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hún við Vestur- Grænland norður til Upernavik, sunnan Baffinslands, við Labrador, Nýfundnaland og næstum til Þorskhöfða í Bandaríkjunum.

Við Ísland hefur blágóma fundist allt í kringum landið en hún er algengari í kalda sjónum norðvestan-, norðan-, norðaustan- og austanlands en sunnanlands.

Um hrygningu er lítið vitað en sennilega fer hún fram miðsævis úti á reginhafi. Í júníbyrjun árið 1992 veiddist 119 cm hrygna og 19 kg þung, á 962-966 m dýpi vestur af Bjargtöngum og átti hún skammt eftir í hrygningu. Þyngd gotu var 2,455 kg. Egg eru 7-8 mm í þvermál.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).



Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?