Patreksfjörður

kort

Hnit - 65°35´N 24°01´W
Flatarmál - 66 km2
Meðaldýpi - 20-50m
Mesta dýpi - 72 m

Patreksfjörður er syðstur þeirra fjarða á Vestfjörðum sem snúa til norðvesturs. Utan við fjörðinn er Patreksfjarðarflói, talsvert grunn þar sem botndýpi er minna en 40 m. Það er um 10 km breitt við Tálkna en utar um 15 km við Blakk sem er í mynni grunnsins. Breidd í mynni Patreksfjarðar er 5,7 km en lengd úr mynni í botn um 21 km en fjörðurinn mjókkar mjög eftir því sem innar dregur. Norður úr botni hans gengur smáfjörður, Ósafjörður. Undirlendi á ströndum er sáralítið, einkum að norðanverðu. Utarlega í firðinum er dýpi mest rúmlega 70 metrar í ál sem gengur inn miðjan fjörð en grynnkar eftir því sem innar dregur og nær landi. Flatarmál fjarðarins innan við Tálkna er um 66 km2.

Á árunum 2008 til 2009 voru gerðar miklar vistfræðirannsóknir í Patreksfirði og Tálknafirði. Að þeim stóðu Hafrannsóknastofnun, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Þóroddur hf. Einnig tóku þátt í rannsóknunum tveir stúdentar við Háskóla Íslands með sérverkefnum á hveljum. Markmið rannsóknanna var að fá vitneskju um helstu umhverfisþætti í fjörðunum einkum með tilliti til þess hvort firðirnir hentuðu fyrir eldi í sjó. Mælingar voru gerðar á straumum, hita, seltu, næringarefnum og svifþörungum. Einnig voru gerðar athuganir á hveljum. 

Botn

Botnkort

Gert hefur verið botnkort af Patreksfirði með svokölluðum fjölgeislamæli (sjá mynd). Fram kemur að sunnan megin í firðinum er grunn ræma en síðan dýpkar mjög hratt niður í fjörðinn þar sem er 50-70 m dýpi. Norðan megin í firðinum eru nánast ekkert grunn nema á stöku stað. Þegar innar dregur í fjörðinn grynnkar og fyrir botni hans þar sem heitir Ósafjörður er grunnur þröskuldur en aðeins dýpra þar fyrir innan þó grunnt sé.

Fjölgeislakort úr Patreksfirði 

 

Fjölgeisladýptarkort af Patreksfirði.

Botngerð

Samhliða botndýrarannsóknum í Patreksfirði árið 2009 voru gerðar kornastærðarmælingar á botnsýnum úr firðinum (sjá töflu). Mitt í Patreksfirði, þar sem dýpi var mest, var leirbotn en nær landi var grófara efni. Hlutfall leirs hækkaði eftir dýpi og það er þekkt að dýpi og kornastærð haldast oft í hendur og ekki gott að segja hvort hafi meira vægi við flokkun í mismunandi samfélgög. Telja má að hlutfallslega þekur leir mun stærra svæði en sandur eða skeljasandur.

Mælingar á kornastærð sýndu að mjög fínt set <0,063 (decant) var ríkjandi á flestum stöðvunum í Patreksfirði. Yfir 55% leir var á alls níu stöðvum í firðinum.  Sandur (0,063-2 mm) var ríkjandi á stöðvum 6 og 4 (94,4 og 47,8%). Jafnt hlutfall sands og leirs var á stöð 7 í firðinum.

kornstærðarmælingar

Sjór

Næringarefni

Rannsóknir á næringarefnum voru gerðar frá apríl 2008 til apríl 2009 bæði í Patreksfirði og Tálknafirði og sýnir 1. mynd staðsetningar mælistöðva í báðum fjörðum. Mæld voru næringarefni, einkum köfnunarefni og fosfór sem voru mæld sem nítrat (NO3) og fosfat (PO4) í umræddri rannsókn. Einnig var mældur kísill (SiO2).

næringarefnismælistöðvar

1. mynd. Mælistöðvar í Patreks- og Tálknafirði árin 2008 til 2009.

Vetrarástand ríkti í firðinum frá því í desember 2008 og fram í mars 2009. Þá var sjór í firðinum uppblandaður og einsleitur. Á 2. mynd er sýndur styrkur nítrats á sniði eftir endilöngum Patreksfirði þann 10. mars 2009. Þar sést að litlar breytingar eru á nítratstyrk bæði lárétt og lóðrétt og að hæstu gildi verða rúmlega 13 µmól l-1. Sama gildir um fosfat en breytingar á fosfatstyrk fylgja breytingum á nítratstyrk.

mynd af nítratstyrk

 

2. mynd. Nítratstyrkur í µmól l-1 á sniði eftir endilöngum Patreksfirði þann 10. mars 2009. X-ás sýnir fjarlægð (í km) frá mynni fjarðarins.

3. mynd sýnir ársferil nítrats á stöð P3 sem er innan við miðjan fjörð (sjá 1. mynd). Þar sést hve lágur styrkur köfunarefnis er í efstu metrunum frá vori og fram í september þegar hægir á frumframleiðni svifþörunga og þar til sjórinn blandast á nýjan leik a' vetri og styrkur nítrats verður jafndreifður í firðinum.

árstíðabreytingar á styrk nítrats

3. mynd. Árstíðabreytingar í styrk nítrats í µmól l-1 á stöð P3 (sjá 1. mynd) í Patreksfiði frá 14. apríl 2008 til 24. apríl 2009.

4. mynd sýnir ársferil kísils í Patreksfirði á stöð P3 (sjá 1. mynd). Kísilstyrkur verður aldrei mjög lágur svo innarlega í firðinum. Fremur lítil ferskvatnsáhrif eru merkjanleg í firðinum að jafnaði og kísilstyrkur mjög lágur stærstan hluta sumars á mælistöðvum yst í firðinum. Breytileiki á styrk næringarefna var mestur milli leiðangra á vorin en almennt var lítill breytileiki milli stöðva. Undantekning er að stundum var að finna háan kísilstyrk innst í firðinum sem tengist ferskvatnsfrárennsli.

árstíðabreytingar á styrk kísils

4. mynd. Árstíðabreytingar í styrk kísils (í µmól l-1) á stöð P3 í Patreksfiði frá 14. apríl 2008 til 24. apríl 2009.

Ólífræn snefilefni í lífverum við NV-land

Tilgangur rannsóknarinnar var að leita skýringa á sérstöðu NV-miða, sérstaklega Arnarfjarðar, m.t.t. ólífrænna snefilefna, einkum kadmíns, í lífverum. Í því skyni var mældur styrkur snefilefna í sýnum af kræklingi (Mytilus edulis), hörpudiski (Chlamys islandica) og sjávarseti á nokkrum stöðum við Ísland, en sérstök áhersla lögð á sýnasöfnun á NV-miðum.

Helstu niðurstöður verkefnisins eru að styrkur kadmíns í kræklingasýnum frá Arnarfirði er almennt töluvert hærri en í öðrum sýnum sem tekin voru af kræklingi á NV-miðum og er þessi munur tölfræðilega marktækur (T-próf, α = 0,05 (5%)). Sömuleiðis er tilhneiging til að styrkur járns, kopars, mangan og sínks sé lægri í kræklingi í Arnarfirði en öðrum fjörðum á NV-miðum, og er þessi munur mest áberandi fyrir járn og sink. Niðurstöðurnar leiða í ljós að styrkur kadmíns í krælingi úr Arnarfirði er yfir hámarksgildum ESB fyrir krækling í 9 sýnum af 10, auk þess eru sýni af kræklingi af ræktunarböndum úr Hestfirði í Ísafjarðardjúpi og Ósafirði (inn af Patreksfirði) yfir mörkum ESB (1,0 mg/kg votvigt fyrir samlokur). Kræklingasýni frá Dýrafirði, Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi og Patreksfirði við Sandodda eru einnig mjög nálægt mörkum ESB. Magn snefilefna í seti á NV-miðum virðist vera mjög svipað og fyrri mælingar á snefilefnum í íslensku sjávarseti á þessum slóðum gefa til kynna. Þetta bendir til þess að skýringa á háum styrk kadmíns í kræklingi úr Arnarfriði sé líklega ekki að leita í hærri styrk kadmíns í seti á þessu svæði.

Niðurstöður verkefnisins gefa upplýsingar um sérstöðu íslenskra hafsvæða m.t.t. ólífrænna snefilefna. Slíkar upplýsingar og vísindaleg gögn eru forsenda þess að Íslendingar geti haft áhrif á ákvarðanatöku við setningu hámarksgilda fyrir matvæli t.d. hjá ESB. Niðurstöður úr verkefninu hafa nú þegar verið nýttar til að að hafa áhrif á hækkun á hámarksgildum ESB fyrir kadmín í samlokum og hafa verið send til EFSA vegna gagnasöfnunar um kadmín í matvælum.

Sjá nánar á: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/Skyrsla_44-07.pdf 

Líf

Í Patreksfirði og Tálknafirði fóru fram miklar rannsóknir á grunnþáttum sjávar í firðinum á árunum 2008-2009. Safnað var gögnum um strauma, hita, seltu, næringarefni (sjá undir liðnum Sjór) og svifþörunga. Gögnum var safnað á 6 stöðvum í Patreksfirði og 4 stöðvum í Tálknafirði (sjá 1. mynd). Til viðbótar var safnað gögnum um marglyttu í fjörðunum og gerð ítarleg úttekt á botndýrum. Áður hafa verið gerðar allnokkrar rannsóknir á skeldýrum í fjörðunum með nýtingu í huga og ýmsar fiskifræðilegar rannsóknir.

Í Patreksfirði hafa verið gerðar umfangsmiklar rannsóknir á botndýralífi á vegum Hafrannsóknastofnunar með tilstyrk Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og fleiri aðila. Var þar einkum haft í huga fyrirhugað fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði sem þá var í undirbúningi. Hafrannsóknastofnun var fengin af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Atvest, til að framkvæma rannsóknina. Rannsókninni stýrði Steinunn Hilma Ólafsdóttir botndýrasérfræðingur á Hafrannsóknastofnun en rannsóknin var hluti af stærra verkefni í fjörðunum þar sem gerðar voru ýmsar rannsóknir á eðlis-, efna- og líffræðilegum þáttum fjarðanna.

Dagana 13. og 14. maí 2009 fór fram söfnun botndýra í Patreksfirði. Sýnum var safnað á 18 til 66 metra dýpi á 14 stöðvum í firðinum. Sýni voru tekin með Shipek botngreip og á hverri stöð voru tekin 3 greiparsýni. Úr einu greiparsýni á hverri stöð voru tekin hlutsýni til kornastærðargreiningar. Báturinn Tálkni frá Tálknafriði var notaður við sýnatökuna.

Algengustu tegundir

Úrvinnsla hefur farið fram á stöðvum 4, 5, 7, 9, 11, 12.  Alls hafa verið greindar 128 tegundir/hópar frá þessum stöðvum. Þessi dýr tilheyrðu að mestu fylkingum burstorma, krabbadýra og lindýra. Afar fáar tegundir tilheyrðu öðrum hópum og meðal annars var mjög lítið um skrápdýr og flest dýr sem tilheyrðu lindýrum voru samlokur.

Flestar tegundir/hópar fundust á stöð 4 (93) en fæstar á stöð 7 (39). Fjölbreytileiki botndýra var á milli 1,6 og 3,3 (Shannon H'loge) og var mestur á stöðvum 4 og 9.

Leirbotn var á stöðvum 5, 7, 9, 11 og 12. Tegundasamsetning botndýra milli þessara stöðva var mjög lík og myndar ákveðið botndýrasamfélag. Stöð 9 skar sig dálítið frá hinum með áberandi lítið af krabbadýrum. Burstaormurinn Galathowenia oculata var algengasta tegundin en aðrar algengar tegundir á þessum stöðvum voru gljáhytla (Ennucula tenuis) og burstaormurinn Cossura longocirrata.

Þar sem botninn var grófari (stöð 4), skar engin ein tegund sig verulega úr með mikinn þéttleika en algengasti burstaormurinn var roðamaðkur (Scoloplos armiger) og þráðormar voru einnig í töluverðum fjölda. Burstaormar sem eru rándýr voru nokkuð algengir á þessari stöð.

Heimildir: Benthic communities in Tálknafjörður and Patreksfjörður. (2015). Steinunn Hilma Ólafsdóttir. Hafrannsóknir nr. 179.

Svifþörungar

Rannsóknir á svifþörungum fóru fram í Patreksfirði á árunum 2008 til 2009 sem Hafsteinn G. Guðfinnsson annaðist og gerði hann eftirfarandi samantekt.

Safnað var gögnum um svifþörunga á 6 stöðvum í firðinum. Mælingar voru gerðar á blaðgrænu-a sem mælikvarða á magn svifþörunga í sjó en einnig var safnað sýnum til greininga og talninga á svifþörungum. Þá var mælt sjóndýpi á hverri rannsóknastöð. Hér er aðallega sagt frá niðurstöðum á annarri stöð í Patreksfirði (P2) sem er næst innst í firðinum (sjá 1. mynd). Þar er dýpi rúmlega 30 metrar.

Sjóndýpi gefur upplýsingar um hvort mikið eða lítið svif og/eða grugg er í sjónum. Þar geta átt í hlut svifþörungar (algengast), dýrasvif, annað svif, grugg og fleira sem dregur úr skyggni í sjónum. Mælingin fer fram með hvítri 30 cm skífu sem rennt er niður í sjóinn á bandi sem er með metramerkjum og má lesa af því hve margir metrar eru farnir í sjó. Þegar skífan hverfur sjónum er lesið af kvarða bandsins og segir talan til um sjóndýpið í metrum á hverjum stað.

Sjóndýpismælingar á stöð P2 og fleiri stöðvum sýndu að 1% ljósdýpi var iðulega á  20 til 30 m dýpi frá vori til hausts en þegar ljós í sjónum er meira en 1% af því ljósi sem berst yfirborðinu er talið að svifþörungar framleiði meira af lífrænu efni en þeir eyða. Þetta þýðir að í vorblómanum og meira eða minna allt sumarið vaxa svifþörungar frá yfirborði niður undir 30 m dýpi sem er niður undir botn innst í firðinum og framleiða lífrænt efni. Þetta er mjög mikilvægt fyrir frumframleiðslu fjarðarins.

Magn blaðgrænu í 0, 10 og 20 metra dýpi á stöð P2 frá apríl 2008 til apríl 2009 er sýnd á mynd hér til hliðar. Niðurstöðurnar sýna að blaðgrænu ferlarnir fyrir öll dýpi eru mjög svipaðir yfir vaxtartímann ef undan er skilinn ferill blaðgrænu í yfirborði (0m) sem hefur mun lægri vorgildi en neðri dýpin. Þetta skýrist sennilega af því að yfirborðssjórinn blandast ferskvatni á vorin sem er næringarsnautt og þynnir út þau næringarefni sem eru til staðar í yfirborðslagi sjávar þannig að vöxtur verður takmarkaðri en neðar í sjónum. Þegar líður á sumarið og áhrif ferskvatnsins minnka verður gróðurinn álíka mikill við yfirborð og í neðri dýpum. Skýrt kemur fram á myndinni að svifþörungarnir mynda marga gróðurtoppa yfir sumarið. Í apríl 2009 verður gróðurhámark á öllum dýpum samtímis.

Kísilþörungar eru að ljúka vorvexti sýnum þegar sýnataka hefst vorið 2008 í apríl og því höfum við misst af aðal vortoppnum. Síðan verður hlé á vexti þeirra nokkurn tíma en í byrjun júní mynda þeir vaxtartoppa sem standa yfir í júní og júni með yfir 400 þúsund frumur í lítra. Að því loknu ber lítið á kísilþörungum þó svolítil aukning verði í september áður en þeir lognast út af vegna takmarkandi birtuskilyrða. Vorið 2009 mynda þeir geysimikinn topp í apríl.

Skoruþörungar eru til staðar í svifinu allt sumarið og er fjöldi þeirra mjög breytilegur. Mestur er hann um 100 þúsund frumur í lítra. Hluti af þessum hópi getur verið  svifþörungar sem valda eitrununum í skelfiski. Þær tegundir eru aðallega af ættkvíslunum Dinophysis og Alexandrium.

Á myndinni hér ofar má sjá breytingar sem urðu í fjölda þessara tveggja ættkvísla sumarið 2008. Fjöldi Dinophysis tegunda er mestur á tímabilinu júlí til september en þá er frumufjöldi þeirra frá 500 til 2000 frumur í lítra. Fjöldi Alexandrium tegunda er mestur í júlí um 800 frumur í lítra en annars mjög lítill. Fjöldi beggja hópa fer yfir þau viðmiðunarmörk sem notuð eru þegar metin er hætta á eitrunum í skelfiski.

Nánari upplýsingar um eitraða svifþörunga má sjá á vefsíðu MAST, https://www.mast.is/is/um-mast/eftirlitsnidurstodur/thorungaeitur-i-skelfiski

Svifdýr

Hveljur

Úr grein Guðjóns Más Sigurðssonar og fleiri 2009 í Fjölrit 152, https://www.hafogvatn.is/static/research/files/fjolrit-152.pdf 

Hlaupkennt dýrasvif er fjölbreyttur hópur dýra sem inniheldur smáhveljur (Hydrozoa), marglyttur (Scyphozoa) og kambhveljur (Ctenophora), en stundum eru sviflæg möttuldýr (Larvacea) og pílormar (Chaetognata) einnig talin með í þessum hópi (Hosia 2007). Mörg dýr sem eru í þessum hópi hafa tiltölulega stuttan kynslóðatíma, hraðan vöxt og eru því oft á tíðum öflug rándýr á svifi í uppsjónum.

Sýnin voru tekin í Patreksfirði og Tálknafirði frá apríl til september 2008, og var farið einu sinni í hverjum mánuði nema í maí þegar farið var tvisvar. Tvær sýnatökustöðvar voru í Tálknafirði, en þrjár í Patreksfirði. Sýnin voru tekin með Bongóháfi en bongóháfur er í raun tveir háfar sem festir eru saman og er hver háfur 60 cm í þvermál, 250 cm langur og möskvastærðin var 500 μm. V-laga sökka eða vængur var fest neðst á háfinn til að draga hann niður og halda honum stöðugum í togunum. Á hverri stöð var háfurinn dreginn á u.þ.b. 10 metra dýpi í 10 mínútur á 3 sjómílna hraða. Magn sjávar sem fór í gegnum háfinn var mælt með Hydro-bios flæðismæli sem festur var í opið á öðrum háfnum. Allt hlaupkennt dýrasvif sem kom í háfinn var varðveitt í 10% formalíni til greiningar. Auk þess var þvermál allra marglyttna (Scyphozoa) mælt. Út frá rúmmáli sjávar sem háfurinn síaði voru allar fjöldatölur.

Ellefu flokkunareiningar af smáhveljum (Hydrozoa), ein tegund kambhvelja (Ctenophora) og tvær marglyttutegundir (Scyphozoa) fundust í Tálknafirði og Patreksfirði í apríl til september 2008. Algengasta smáhveljan var Clytia sp. en mjög erfitt er að greina þessa ættkvísl niður til tegunda og því er hún ekki greind frekar. Hér er þó að öllum líkindum um að ræða tegundina Clytia hemisphaerica sem finnst víða á nálægum hafsvæðum. Algengasta marglyttutegundin var bláglytta (Aurelia aurita) en aðeins ein tegund af kambhveljum fannst, Beroë cucumis.

Í apríl 2008 fannst lítið af hveljum og aðeins tvær tegundir (Bouganvillea superciliaris og Leuckartiara octona). Í byrjun maí fjölgaði hlaupkenndu dýrasvifi talsvert og átta tegundir fundust, aðallega Podocoryne borealis sem var algengasta tegundin, en þar á eftir kom smáhveljan Sarsia tubulosa og bláglyttan (Aurelia aurita). Um miðjan maí hafði magnið meira en tífaldast og tvær tegundir til viðbótar fundust, smáhveljurnar Staurophora mertensii og Obelia sp.

Hámarki var náð í hveljumagni í júní þegar tólf tegundir fundust. Færri fundust í júlí og ágúst en fjöldinn jókst aftur í september þegar næstmest fannst. Þegar á heildina er litið var Clytia sp. algengasta tegundin (72.2 % af öllu hlaupkenndu dýrasvifi yfir sumarið). Aðrar algengar tegundir voru bláglytta, Eutonia indicans, Obelia sp., Podocoryne borealis og Sarsia tubulosa.

Fiskar

Skarkolaseiði í Patreksfirði

Skarkolinn er mikilvægur nytjafiskur og mjög algengur á grunnslóð allt í kringum landið. Í júlí 2006 var farinn leiðangur hringinn í kringum landið og sýni tekin á 32 stöðvum með litlu trolli sem dregið var í sandfjörum með handafli af tveimur mönnum. Trollið er bjálkatroll sem er nokkurskonar botntroll. Það er spennt á álramma sem situr á meiðum, 1 m á breidd og 20 cm á hæð, og er það dregið með handafli í fjöruborðinu á u.þ.b. 1 m dýpi eða af slöngubát á dýpra vatni. Leitast var við að dreifa sýnasöfnun þannig að á sem stystum tíma fengist heildstæð mynd af fjölda og lengdardreifingu skarkolaseiða allt í kringum landið.

mynd af bjálkatrolli

Unnið með bjálkatroll.

Tilgangur rannsóknanna sem hér er greint frá var að auka skilning á uppruna skarkolaseiða við Ísland. Til þess var útbreiðsla, aldur og vöxtur seiða við landið kannaður og í framhaldinu er ætlunin að tengja þessa þætti við upplýsingar um strauma og rekhraða og þannig áætla frá hvaða svæðum seiðin eru (sjá Björn Gunnarsson og fl. 2010).

Þann 20. júlí 2006 voru tekin þrjú 100 m tog í sunnanverðum Patreksfirði (65.5513 N - 23.9397 V) og reyndist þéttleiki skarkolaseiða þar vera um 318 einst. á hverja 100 m2 og var meðallengdin um 19 mm.

bjálkatroll dregið

Rannsóknamenn draga bjálkatroll.

Heimildir: Björn Gunnarsson, Jónas P. Jónasson og Bruce J. McAdam, 2010. Variation in hatch date distributions, settlement and growth of juvenile plaice (Pleuronectes platessa L) in Icelandic waters. Journal of Sea Research 64, 61-67.

Nytjar

Ýmsar nytjar hafa farið fram í Patreksfirði. Má þar fyrst nefna fiskveiðar á mörgum tegundum nytjafiska, með margvíslegum veiðarfærum. Veiðar á botndýrum hafa verið reyndar og má þar sérstaklega nefna skelveiðar og þá sérstaklega á kúfskel. Fiskeldi í smáum stíl hefur verið reynt í firðinum lengi en frá árinu 2010 hefur allmikið laxeldi verið stundað þar. Nytjar á botnþörungum hafa verið stundaðar frá ómunatíð.

Fiskveiðar

Í Patreksfirði hefur verið veitt með flestum veiðarfærum en hér eru settar fram upplýsingar um veiðar á nytjategundum í fimm veiðarfæri. Heildarafli er innan við 3000 tonn á tímabilinu frá árinu 2000 til 2014 ef miðað er við upplýsingar úr gagnasafni Hafrannsóknastofnunar. Mest hefur fengist af ýsu í firðinum á þessu tímabili um 1500 tonn en næstmest af þorski um 1000 tonn. Af öðrum tegundum hefur fengist mun minna. Mestur afli hefur fengist í dragnót en næstmest á línu en minna í handfæri og net.

Gerð var samantekt á skiptingu afla milli tegunda í Patreksfirði á tímabilinu 2000 til 2014 og kom þá í ljós að aflahlutfall ýsu er 54%, af þorski 36% en af öðrum tegundum er afli langt innan við 5 %..

Fiskeldi

Fjarðarlax ehf hefur stundað laxeldi í Patreksfirði frá árinu 2010. Félagið hefur leyfi til að rækta 1500 tonn af laxi á ári í firðinum á nokkrum aðskildum stöðum í firðinum. Það hyggur nú á stækkun eldisins um 7000 tonn á ári samanlagt í Patreksfirði og Tálknafirði.

Dýrfiskur ehf er fyrirtæki sem hyggur á eldi á regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði með allt að 4000 tonna framleiðslu á ári.

Tilraunarækt á kræklingi

Á árunum 2010 til 2011 voru gerðar rannsóknir á umhverfisaðstæðum í Patreksfirði með tilliti til kræklingaræktunar. Að rannsókninni stóðu: Hafrannsóknastofnun, AVS. Nýsköpunarsjóður V-Barðastrandasýslu, Einherji ehf, Íslenskur kræklingur ehf og Skor þekkingarsetur. Hitastig sjávar (síritandi hitamælir á 5 m dýpi) og blaðgræna svifþörunga (sýni frá yfirborði sjávar), sem er mælikvarði á fæðuframboð fyrir krækling, voru mæld ásamt vexti, kynþroska og hrygningu kræklings í línurækt.

Meðalhiti í Patreksfirði var hæstur í júlí (12,3 ± 1,1°C) en lægstur í febrúar (2,2° ± 0,1°C ). Hæsti meðahiti á sólarhring var í lok júlí (13°C) og sá lægsti um miðjan janúar (2,0°C).

Blaðgræna var mæld frá apríl til október 2010. Þegar sjósýnataka hófst í lok apríl var vorblómi svifþörunganna í fullum gangi og blaðgrænumagnið í hámarki (8,7 µg l-1). Eftir vorblómann minnkaði blaðgrænan hratt og mældist lítil yfir sumartímann (< 1 µg l-1) þar til í lok júlí að hún jókst aftur og náði aftur háum gildum í september (6,0 µg l-1).                                                                             

Skellengd kræklings í Patreksfirði var mæld frá apríl 2010 til maí 2011. Við upphaf mælinga var skelin að meðallengd 34,3 mm. Vöxturinn var hægur í upphafi tímabilsins, tók aðeins við sér í maí og aftur í ágúst. Um fjórum mánuðum eftir að mælingar hófust, hafði skelin vaxið um 13,7 mm og var þá 48 mm meðallengd náð. Frá miðjum ágúst fram undir miðjan september dró úr vextinum en hann tók aðeins við sér eftir það og fram í nóvember þegar hann stöðvaðist. Ársvöxturinn var 26 mm.

Kynþroskastuðull og hrygning voru metin út frá vigt og vefjasýnum úr möttli kræklingsins en hann inniheldur kynvefinn. Í byrjun maí var kynþroskastuðullinn hár (GI=4,1), þar sem stærstur hluti stofnsins var orðinn kynþroska og tilbúinn til hrygningar. Hrygning hófst í lok júlí við 12°C. Aðalhrygningartíminn var frá ágúst til október við meðalsjávarhita frá 12 og niður í 7°C en allri hrygningu lauk í nóvember og var þá hitinn kominn niður í 4,5°C. Þroskun kynfruma hófst strax að lokinni hrygningu í nóvember, en að öllum líkindum hefur verið lítið um fæðu á formi svifþörunga á þeim tíma, og skelin því notað forðanæringu sína til myndunar kynfruma. Þroskun kynfruma jókst hægt þar til í marslok, að hún jókst verulega, samfara aukinni fæðu á formi svifþörunga að vori og auknum sjávarhita.

Heimildir: Gudrun G. Thorarinsdóttir, Hafsteinn G. Gudfinnsson, Svanhildur Egilsdóttir and Jón Örn Pálsson. (2013). The gametogenic cycle and spawning in Mytilus edulis L. in two fjords in northwestern Iceland. J. Mar. Biol.. 93(6), 1609-1615

Guðrún G. Þórarinsdóttir, Hafsteinn G. Guðfinnsson og  Jón Örn Pálsson. (2015). Kræklingarækt og umhverfisaðstæður í Patreksfirði og Steingrímsfirði. Hafrannsóknastofnunin. Fjölrit nr. 177. Ritstjóri Karl Gunnarsson. Reykjavík 2014. Í birtingu.

Stofnstærðarmat kúfskelja í Patreksfirði 1994

kúfskel

Kúfskel (ljósm. Svanhildur Egilsdóttir).

Kúfskel (Arctica islandica) finnst nánast allt í kringum Ísland og lifir á 0-200 m dýpi í sendnum leirbotni, sandbotni eða skeljasandbotni. Skelin sem lifir niðurgrafin í sjávarbotninum allt frá því að vera rétt undir yfirborði og niður á 15 cm, er staðbundin en getur hreyft sig upp og niður í bontlaginu með hjálp fótarins. Kúflskelin er sérlega langlíf og hægvaxta dýrategund og getur orðið yfir 400 ára gömul. Skeljarnar eru sérkynja. Veiðar á kúfskel til beitu hafa verið stundaðar á Íslandi frá aldamótunum 1900 en tilraunaveiðar til manneldis hófust fyrst 1987 og svo aftur árið 1995 til útflutnings og var hámarks landaður afli rúm 14000 tonn árið 2003.

Snemma árs 1994 hófust rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á kúfskel við Vestfirði með það markmið að kortleggja útbreiðslu, magn á flatareiningu og stofnstærð í fjörðunum með nýtingu í huga. Einnig voru skeljar úr afla lengdarmældar og vigtaðar. Til rannsóknanna var notaður skelveiðibátur útbúinn vatnsþrýstiplógi.

Í Patreksfirði vor tekin 19 tog á 0,6 ferkílómetra svæði og var lífþyngdin að meðaltali 2,6 kg/m2. Stofnstærð var áætluð um 1600 tonn á svæðinu. Meðallengdin í afla var 76 mm og lengdardreifingin 23-101 mm. Meðalþyngd skeljanna var 127 gr og holdfyllingin 28%.

Þess ber að geta að vatnsþrýstiplógurinn veiðir aðallega skeljar stærri en 50 mm og eykst veiðigetan eftir því sem skelin er stærri.

mynd af vatnsþrýstiplógi

Heimildir: Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson. (1994). Kúfskeljarannsókn (Arctica islandica) á Norðvesturlandi janúar til mars 1994 (Investigation of Arctica islandica in Northwest Iceland, January-March 1994). Hafrannsóknastofnunin, 29 pp.

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson. (1997). Kúfskel við Ísland. Náttúrufræðingurinn, 66 (2), 91-100. 

G. G. Thórarinsdóttir & S. Einarsson. (1996). Distribution and abundance of ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), from Icelandic waters. J. Shellf. Res. 15 (3), 729-733.

Heimildir

Björn Gunnarsson, Jónas P. Jónasson og Bruce J. McAdam. (2010). Variation in hatch date distributions, settlement and growth of juvenile plaice (Pleuronectes platessa L) in Icelandic waters. Journal of Sea Research 64, 61-67.

Böðvar Þórisson, Eva Dögg Jóhannsdóttir, Þorleifur Eiríksson. (2012). Botndýraathuganir í Arnar- og Patreksfirði vegna fyrirhugaðs fiskeldis Fjarðarlax.

Eva Dögg Jóhannsdóttir og Valgeir Ægir Ingólfsson. (2014). Sjávartengd ferðaþjónusta á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. NV nr. 01-14

Guðjón Már Sigurðsson, Ástþór Gíslason og Jörundur Svavarsson. (2009). Hveljur í Patreksfirði og Tálknafirði sumarið 2008. Hafrannsóknir nr. 152, bls. 20-24. 

Guðrún G. Þórarinsdóttir og Sólmundur Tr. Einarsson. (1994). Kúfskeljarannsóknir á Norðvesturlandi janúar til mars 1994. Hafrannsóknastofnun 1994, 29 bls.

G. G. Thórarinsdóttir & S. Einarsson. (1996). Distribution and abundance of ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), from Icelandic waters. J. Shellf. Res. 15 (3), 729-733.

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson. (1997). Kúfskel við Ísland. Náttúrufræðingurinn, 66 (2), 91-100.

Gudrun G. Thorarinsdóttir, Hafsteinn G. Guðfinnsson, Svanhildur Egilsdóttir og Jón Örn Pálsson. (2013). The gametogenic cycle and spawning in Mytilus edulis L in two fords in northwest Iceland. J. Mar. Biol. 93(6), 1609-1615.

Guðrún G. Þórarinsdóttir, Hafsteinn G. Guðfinnsson & Jón Örn Pálsson. (2015). Kræklingarækt og umhverfisaðstæður í Patreksfirði og Steingrímsfirði. Hafrannsóknastofnunin. Fjölrit nr. 177.

Hrafnkell Eiríksson. (1986). Hörpudiskurinn, Clamys islandica, Muller, Hafrannsóknir, 35: 5-40.

Jón Sólmundsson, Hjalti Karlsson. (1999). Göngur skarkola frá sunnanverðum Vestfjörðum. Fiskifréttir, 17(16), bls 12.

Jón Sólmundsson, Hjalti Karlsson. (2000). Skarkolamerkingar við sunnanverða Vestfirði. Sjómannadagsblað Vestfjarða, 2000, 40-41.

Lúðvík Kristjánsson. (1980). Íslenskir sjávarhættir I. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.

Stefán S. Kristmannsson. (1989). Sjávarhitamælingar við strendur Íslands 1987-1988. Hafrannsóknastofnun Fjölrit nr. 17.

Stefán Kristmannsson. (1991). Sjávarhitamælingar við strendur Íslands 1989-1990. Hafrannsóknastofnun Fjölrit nr. 24.

Mat á umhverfisáhrifum - Tillaga að matsáætlun. 16.000 tonna framleiðsla af laxi og regnbogasilungi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Matstillaga Fjarðarlax og Dýrfisks, 2014.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?