Önundarfjörður

kort

Hnit - 66°03'N 23°33'W
Flatarmál - 51 km2
Meðaldýpi - 20-30 m
Mesta dýpi - 30 m

Önundarfjörður liggur norðan við Dýrafjörð en sunnan við Súgandafjörð. Mynni hans er á milli annesjanna Sauðaness að norðanverðu og Barða að sunnanverðu. Hann er all víður fjörður miðað við lengd, um 6,6 km í fjarðarmynni og um 15 km langur frá fjarðarmynni í botn. Hann fer hægt mjókkandi eftir því sem innar dregur og er tæpir 2 km á breidd í fjarðarbotni. Dýpi í ytri hluta fjarðarins er um 30 m. Flatarmál fjarðarins er um 51 km2.

Ingjaldssandur er í Önundarfirði utarlega að vestanverðu en kauptúnið Flateyri er innan við miðjan fjörðað norðanverðu. Beggja vegna við Önundarfjörð eru há fjöll, flest á milli 600-700 metrar. Undirlendi er lítið uns komið er innan við Breiðadal og Hjarðardal. Við Veðrará er fjörðurinn orðin mjög grunnur þar sem kallast Vöð, en þar var Önundarfjörður þveraður árið 1980. Þar innan við eru bæði Korpudalur og Hestdalur. Aðrir inndalir Önundarfjarðar eru Klofningsdalur, Hólsdalur, Breiðadalur, Bjarnardalur, Hjarðardalur, Valþjófsdalur og loks Ingjaldssandur sem áður hefur verið getið.

Botn

Gert hefur verið botnkort af Önundarfirði með svokölluðum fjölgeislamæli (sjá mynd). Fram kemur á kortinu að mest er dýpi í mynni fjarðarins um 40 m en er kemur inn í fjörðinn er dýpi um 30 m og grynnkar í innsta hluta hans í 10 til 15 m dýpi og minna þar sem taka við leirur.

kort af önundarfirði
Fjölgeisladýptarkort af Önundarfirði.

Sjór

Hiti

Hitamælingar voru gerðar á yfirborðssjó í Önundarfirði í tengslum við svifþörungarannsókn sem gerð var árið 1994 (1. mynd). Sjávarhiti í lok mars í yfirborði var um 1 °C og hækkaði jafnt og þétt er leið fram á sumar upp í rúmar 10 °C í seinni hluta ágúst. Eftir það fór hiti lækkandi er leið fram á haustið og var rúmar 5 °C í nóvember.

kort af yfirborðshita

1. mynd. Hiti í yfirborði sjávar í Önundarfirði 1994.

Heimildir: Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal. (1994). Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s.

Selta

Seltumælingar voru gerðar í yfirborði sjávar í Önundarfirði í tengslum við svifþörungarannsókn sem gerð var árið 1994. Nokkrar sveiflur voru í yfirborðsseltu í Önundarfirði frá vori til hausts árið 1994 og sveifluðust seltugildi frá 28,4 til 34,6 (1. mynd). Mestan hluta mælitímans voru seltugildi yfir 34. Aðalseltulækkunin varð í byrjun maí og aftur um mánaðarmótin maí til júní og tengist snjóbráðnum sem eykur ferskvatnsrennsli tímabundið til sjávar. Í byrjun ágúst varð einnig nokkur lækkun í seltu í stuttan tíma. Lækkun seltu í Önundarfirði var samsvarandi lækkun í Fljótavík og mun meiri en fram kom í Aðalvík þar sem rannsóknir voru gerðar á sama tíma. Megin ferskvatnsrennslið var vegna leysinga og þar með aðalseltulækkunin í Önundarfirði varð þó um 2 vikum fyrr en í Aðalvík og Fljótavík.

mynd af yfirborðsseltu

1. mynd. Selta í yfirborðssjó í Önundarfirði 1994.

Heimildir: Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal. (1994). Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s.

Næringarefni

mynd af styrk nítrats
1. mynd. Styrkur nítrats í sjó í Önundarfirði 1994.

Næringarefnamælingar voru gerðar í yfirborði sjávar í Önundarfirði í tengslum við svifþörungarannsókn sem gerð var árið 1994 (1. mynd). Styrkur nítrats í byrjun apríl var milli 11 og 12 µmól/l, sem er nokkuð lægra en mældist í Aðalvík og Fljótavík. Hann féll mjög hratt niður undir 0 µmól/l í byrjun maí, samfara vorhámarki svifþörunga. Nítratstyrkur jókst síðan aftur upp í tæplega 2 µmól/l í síðari hluta maí og hélt þeim styrk út júní. Þá kláraðist nítrat á nýjan leik vegna aukins vaxtar svifþörunga og voru gildi afar lág fram í ágústlok. Úr því fer sjórinn að blandast upp að nýju og nítrat gildi fara hækkandi fram á haustið og eru orðin hærri en 8 µmól/l í lok október.

Styrkur fosfats var hæstur í apríl var tæplega 0,9 µmól/l en féll mjög hratt úr því niður fyrir 0,2 µmól/l samfara vorhámarki svifþörunga (2. mynd). Sumargildi fosfats sveifluðust í kringum 2 µmól/l en byrjuðu að hækka í ágúst við vetrarblöndun sjávar og höfðu náð meira en 0,8 µmól/l í lok október.


mynd af styrk kísils         

 

 

 

2. mynd. Styrkur fosfats í sjó í Önundarfirði 1994.                                

mynd af styrk fosfats

3. mynd. Styrkur kísils í sjó í Önundarfirði 1994

Styrkur kísils í byrjun apríl var rúmlega 9 µmól/l en féll mjög hratt úr því niður fyrir 1 µmól/l samfara vorhámarki kísilþörunga í byrjun maí. Mikil aukning varð tvívegis á styrk kísils, fyrst í maí og svo aftur í júní samfara auknu ferskvatnsrennsli í fjörðinn og tilsvarandi seltulækkun. Sumargildin sveifluðust í kringum 4 µmól/l en jukust í stuttan tíma í júní og ágúst samfara auknu ferskvatnsrennsli til sjávar en það ber með sér kísil. Styrkur kísils fer síðan hækkandi er haustar vegna vetrarblöndunar sjávar og hafa náð um 6 µmól/l styrk í lok nóvember.

Heimildir: Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal. (1994). Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s. 

Líf

Stofnstærðarmat kúfskelja í Önundarfirði byggt á neðansjávarmyndatökum

mynd af kúfskeljaopum á sjávarbotni

1. mynd. Kúfskeljaop sýnileg í sjávarbotni.

Í Önundarfirði fór fram stofnstærðarmat kúfskelja á vegum Hafrannsóknastofnunar í júlí 1999 sem byggt var á botnmyndatökum. Myndað var á tveimur svæðum (I og II) sem valin voru með hliðsjón af stofnstærðarmælingum sem fram fóru árið 1994. Alls voru teknar 400 myndir og öll dýr sem sáust á myndunum voru greind og talin og fjöldinn umreiknaður á fermetra. Fjöldi skelja var umreiknaður í lífþyngd (kg/m2)  og var stuðst við meðalþyngd skelja er veiðst höfðu með vatnsþrýstiplógi á svæðunum. Að auki var setgerð metin af myndunum. Misjafnt er eftir árstímum hversu langt niðri í botnlaginu skelin liggur. Yfir vetrartímann er ekki óvanalegt að skeljarnar dvelji allt niður á 15 cm og eru þá lokaðar, anda loftfirrðri öndun og engin op eru sýnilega á sjávarbotninum.

mynd af fjölda kúfskelja á fermetra

2. mynd. Fjöldi kúfskelja á m2 í mismunandi botngerð á svæði I í Önundarfirði.

mynd af fjölda kúfskelja á fermetra eftir ólíkri botngerð

3. mynd. Fjöldi kúfskelja á m2 í mismunandi botngerð á svæði II í Önundarfirði.

mynd af fjölda slöngustjarna

4. mynd. Fjöldi kúfskelja á m2 í mismunandi botngerð í Önundarfirði (svæði I+II).

Þéttleiki (lífþyngd) kúfskelja var einnig metinn með vatnsþrýstiplógi og var 1,8 kg/m2 en var 3,5 kg/m2 árið 1994. Að hluta til má rekja þennan mun til mikillar kúfskeljaveiði í firðinum á tímabilinu og fækkunar skelja þess vegna.

Lífþyngd kúfskelja byggð á afla úr plógsýni (1,8 kg/m2) gaf aðeins 26% af lífþyngd byggðri á talningu skelja af botnmyndum (6,8 kg/m2) á svæði I en skýringin gæti legið í ofmati á veiðihæfni plógsins og því að plógurinn veiðir lítið af skeljum sem eru minni en 60 mm á lengd. Þessar skeljar koma fram á myndunum og eru að öllum líkindum léttari en meðalskel úr plógi.

Fjöldi slöngustjarna

5. mynd. Fjöldi slöngustjarna á má mismunandi botngerð á svæði I í Önundarfirði.

Breytileiki í fjölda skelja á svæði I og II var mikill og var munur á fjölda skelja á milli nærliggjandi mynda oft mjög mikill. Ástæður þessarar miklu hnappdreifingar kúfskelja geta verið margvíslegar til dæmis setgerð. Veiðiálag með plógi er líklega blettótt, sum svæði eru undir meira veiðiálagi en önnur, sem einnig gæti útskýrt mikla hnappdreifingu.

Heimild: Kúfskeljarannsóknir í Önundarfirði í júlí 1999. Guðrún G. Þórarinsdóttir og Stefán Áki Ragnarsson. Skýrsla 13 bls.

Stofnstærðarmat kúfskelja í Önundarfirði

Mynd af kúfskeljum

 1. mynd. Kúfskel (Arctica islandica) (Ljósm. Guðrún G. Þórarinsdóttir).

Kúfskel(Arcticaislandica) (1. mynd) finnst nánast allt í kringum Ísland og lifir á 0-200 m dýpi í sendnum leirbotni, sandbotni eða skeljasandbotni. Skelin sem lifir niðurgrafin í sjávarbotninum allt frá því að vera rétt undir yfirborði og niður á 15 cm, er staðbundin en getur hreyft sig upp og niður í botnlaginu með hjálp fótarins.Kúfskelin er sérlega langlíf og hægvaxta dýrategund og getur orðið yfir 400 ára gömul. Skeljarnar eru sérkynja. Veiðar á kúfskel til beitu hafa verið stundaðar á Íslandi frá aldamótunum 1900 en tilraunaveiðar til manneldis hófust fyrst 1987 og svo aftur árið 1995 til útflutnings og var hámarks landaður afli rúm 14000 tonn árið 2003.

Snemma árs 1994 hófust rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á kúfskel (1. mynd) við Vestfirði með það markmið að kortleggja útbreiðslu, magn á flatareiningu og stofnstærð í fjörðunum með nýtingu í huga. Einnig voru skeljar úr afla lengdarmældar og vigtaðar. Til rannsóknanna var notaður skelveiðibátur útbúinn vatnsþrýstiplógi (2. mynd).

mynd af vatnsþrýstiplóg

2. mynd. Vatnsþrýstiplógur (ljósm. Guðrún G. Þórarinsdóttir).

Í Önundarfirði vor tekin 14 tog á 5 ferkílómetra svæði og var lífþyngdin að meðaltali 3.9 kg/m2 (3. mynd). Stofnstærð var áætluð um 19 000 tonn á svæðinu. Meðallengd í afla var 76 mm og lengdardreifingin frá 39-96 mm (4. mynd). Meðalþyngd skeljanna var 118 gr og holdfyllingin 30%.

Þess ber að geta að vatnsþrýstiplógurinn veiðir aðallega skeljar stærri en 50 mm og eykst veiðigetan eftir því sem skelin er stærri.

kort af rannsóknasvæði

3. mynd. Rannsóknarsvæðið í Önundarfirði. Punktarnir tákna togin en liturinn magnið (kg/5 mín tog), rautt= >1000 kg; gult= 500-1000kg; grænt = 100-500kg og blátt = 10-100 kg.

lengdardreifing kúfskelja

4. mynd. Lengdardreifing kúfskelja í afla vatnsþrýstiplógs í Önundarfirði.

Heimildir: Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson. (1994). Kúfskeljarannsókn (Arctica islandica) á Norðvesturlandi janúar til mars 1994 (Investigation of Arctica islandica in Northwest Iceland, January-March 1994).  Hafrannsóknastofnunin, 29 pp.

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson. (1997). Kúfskel við Ísland.  Náttúrufræðingurinn, 66 (2), 91-100. 

G. G. Thórarinsdóttir & S. Einarsson. (1996). Distribution and abundance of ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), from Icelandic waters.  J. Shellf. Res. 15 (3), 729-733.

Fuglar

Miklar leirur eru innan Holtsodda og er mikið fuglalíf í Önundarfirði. Helstu staðfuglar eru æðarfugl og stokkönd ásamt mávategundum og sendling. Margar tegundir farfugla venja komur sínar í Önundarfjörð enda aðstæður á leirunum góðar fyrir vaðfugla.

Heimildir: Arnþór Garðarson, Ólafur Karl Nielsen og Agnar Ingólfsson. (1980). Rannsóknir í Önundarfirði og víðar á vestfjörðum 1979: Fuglar og Fjörur. Reykjavík. Líffræðistofnun Háskólans, Fjölrit nr 12.

Nytjar

Fiskveiðar

Í Önundarfirði hefur verið veitt með flestum veiðarfærum en hér eru settar fram upplýsingar um veiðar á nytjategundum í fimm veiðarfæri (1. mynd). Heildarafli á tímabilinu 2000 til ársins 2014 var 1400 um tonn ef miðað er við upplýsingar úr gagnasafni Hafrannsóknastofnunar. Mest hefur fengist af ýsu í firðinum á þessu tímabili um 800 tonn en næstmest af þorski um 550 tonn. Af öðrum tegundum hefur fengist mun minna. Mestur afli hefur fengist í dragnót (1. mynd) en næstmest á línu en mun minna í önnur veiðarfæri.

afli eftir fisktegundum

1. mynd. Afli í Önundarfirði eftir fisktegundum og veiðarfærum.

Gerð var samantekt á skiptingu afla milli tegunda í Önundarfirði á tímabilinu 2000 til 2014 og kom þá í ljós að aflahlutfall ýsu er 55 %, af þorski 37 % en af öðrum tegundum er aflahlutfall langt innan við 5 % (2. mynd).

mynd af hlutfallslegum afla

2. mynd. Hlutfallslegur afli mismunandi tegunda á tillits til veiðarfæra.

Heimildir

Agnar Ingólfsson og Arnþór Garðarsson. (1975). Forkönnun á lífríki Laxárvogs, Álftafjarðar og Önundarfjarðar. Líffræðistofnun Háskólans, fjölrit nr. 4, 43 bls.

Arnþór Garðarsson, Ólafur K. Nielsen og Agnar Ingólfsson. (1980). Rannsóknir í Önundarfirði og víðar á Vestfjörðum 1979: Fuglar og fjörur. Líffræðistofnun Háskólans, fjölrit nr. 12, 65 bls.

Björn Gunnarsson, Jónas P. Jónasson og Bruce J. McAdam. (2010). Variation in hatch date distributions, settlement and growth of juvenile plaice (Pleuronectes platessa L) in Icelandic waters. Journal of Sea Research 64, 61-67.

Böðvar Þórisson & Þorleifur Eiríksson. (2008). Dýralíf í Önundarfirði og Dýrafirði. Áfangaskýrsla 1. Náttúrustofa Vestfjarða. NV nr. 4-04

Guðrún G. Þórarinsdóttir og Sólmundur Tr. Einarsson. (1994). Kúfskeljarannsóknir á Norðvesturlandi janúar til mars 1994. Hafrannsóknastofnun 1994, 29 bls.

G. G. Thórarinsdóttir & S. Einarsson. (1996). Distribution and abundance of ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), from Icelandic waters. J. Shellf. Res. 15 (3), 729-733.

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson. (1997). Kúfskel við Ísland.  Náttúrufræðingurinn, 66 (2), 91-100. 

Guðrún G. Þórarinsdóttir og Stefán Áki Ragnarsson. (1999). Kúfskeljarannsóknir í Önundarfirði í júlí 1999. Skýrsla 13 bls.

Gudrún G. Thórarinsdóttir & Stefán Áki Ragnarsson. (2001). Assessment of density and biomass of Ocean quahog, Arctica islandica, using a hydraulic dredge and underwater photography. ICES 2001/P:24. 9 pp.

Kristján G. Þorvaldsson. (1951). Vestur – Ísafjarðarsýsla. Árbók Ferðafélags Íslands.

Stefán A. Ragnarsson & Gudrun G. Thorarinsdóttir. (2002).  Abundance of ocean quahog, Arctica islandica,, assessed by underwater photography  and hydraulic dredge. Journal of  Shellf. Res. vol 21 (2), 673-676.

Lúðvík Kristjánsson. (1980). Íslenskir sjávarhættir I. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.

Þorleifur Eiríksson og Böðvar þórisson. (2006). Dýralíf í Önundarfirði og Dýrafirði. Áfangaskýrsla 2. Könnun á fjörum í Dýra- og Önundarfirði. Náttúrustofa Vestfjarða, NV nr. 11-06.

Þorleifur Eiríksson, Halldór G. Ólafsson, Böðvar Þórisson, Guðmundur Víðir Helgason. (2012). Rannsóknir á fiski og botnlægum hryggleysingjum innan og utan veiðisvæða dragnótar árið 2011. NV nr. 4-12

Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal. (1994). Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 bls. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?