Jökulfirðir

Jökulfirði á korti

Hnit - 66°17'N 22°49'W
Flatarmál - 169 km2
Meðaldýpi - 70-90 m
Mesta dýpi - 105 m

Austur úr Ísafjarðardjúpi utanverðu gengur breiður flói eða fjörður sem fimm firðir kvíslast frá til norðurs, austurs og suðurs. Heita þeir einu nafni Jökulfirðir. Þeir voru friðlýstir árið 1975. Jökulfirðir bera nafn með réttu því að tveir þeirra ganga upp undir Drangajökul. Fjöll að þeim eru allhá og brött en undirlendi lítið. Mynni Jökulfjarða afmarkast af Bjarnarnúp að austan en Grænuhlíð að vestan og breidd þess um 7,4 km en mjókkar heldur er innar dregur. Mesta lengd Jökulfjarða frá mynni þeirra inn í botn Hrafnsfjarðar eru 29 km. Flatarmál þeirra með innfjörðum er 169 km2. Dýpi í mynni Jökulfjarða eru um 90 metrar og gengur áll eftir miðju fjarðarins svipaður að dýpt alveg inn undir innstu firði en þar grynnkar hratt upp á 30 til 40 metra. Aðdjúpt er mjög að ströndunum. Mesta dýpi er um miðjan fjörðinn rúmlega 100 metrar.

Sjór

Næringarefni

Árin 1987 og 1988 fóru fram á vegum Hafrannsóknastofnunar rannsóknir í Ísafjarðardjúpi þar sem margir þættir vistkerfisins voru skoðaðir. Farnir voru 13 rannsóknaleiðangrar með u.þ.b. mánaðar millibili og rannsakaðar 24 stöðvar bæði í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum. Mæld voru næringarefni, nítrat (NO3), fosfat (PO4) og kísll (SiO2) í öllum leiðöngrunum.

stöðvarkort

 1. mynd. Rannsóknastöðvar í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum (mynd: Sólveig R. Ólafsdóttir).

styrkur nítrars í Jökulfjörðum

2. mynd. Árstíðabreytingar í styrk nítrats í µmól l-1 í Jökulfjörðum frá 13. febrúar 1987 til 6. janúar 1988 (mynd: Sólveig R. Ólafsdóttir).

Vetrarástand ríkti í firðinum frá því í febrúar 1987 og fram í apríl. Þá var sjór í firðinum uppblandaður og einsleitur. 2. mynd sýnir ársferil nítrats á stöð 23 í Jökulfjörðum (sjá mynd 1). Vetrarstyrkur (hámark) nítrats mældist nærri 15 µmól í lítra í febrúar til mars 1987. Þegar vorvöxtur svifþörunga hefst gengur á nítrat í sjónum. Það sést vel á því hve lágur styrkur köfunarefnis er í efstu 40 metrunum frá vori og fram í september en þá hægir á frumframleiðni svifþörunga og sjórinn blandast á nýjan leik með tilheyrandi endurnýjun næringarefna.

Ársferil kísils er sýndur á 3. mynd á stöð 23 í Jökulfjörðum (sjá mynd 1). Hámarksstyrkur kísils verður síðla vetrar í febrúar til mars og verður hæstur rúmlega 9 µmól í lítra. Við vorvöxt kísilþörunga gengur hratt á kísilmagnið í sjónum. Kísilstyrkur verður mjög lágur frá maí til ágúst sem bendir til hraðrar upptöku hans vegna vaxtar kísilþörunga á þessu tímabili alveg niður á 50 metra dýpi.

styrkur kísils í Jökulfjörðum

3. mynd. Árstíðabreytingar í styrk kísils í µmól l-1 í Jökulfjörðum frá 13. febrúar 1987 til 6. janúar 1988 (mynd Sólveig Ólafsdóttir).

Líf

Svifþörungar

Árin 1987 og 1988 fóru fram á vegum Hafrannsóknastofnunar rannsóknir í Ísafjarðardjúpi þar sem margir þættir vistkerfisins voru skoðaðir m.a. vöxtur og viðgangur plöntusvifs. Farnir voru 13 rannsóknaleiðangrar með u.þ.b. mánaðar millibili og rannsóknir gerðar á 24 stöðvum bæði í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum.

stöðvamynd

 1. mynd. Rannsóknastöðvar í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum (mynd: Sólveig R. Ólafsdóttir).

Vetrarástand ríkti í firðinum frá því í febrúar 1987 og fram í apríl. Þá var sjór í firðinum uppblandaður og einsleitur og blaðgræna í lágmarki.

2. mynd sýnir ársferil blaðgrænu á stöð 23 í Jökulfjörðum (sjá mynd 1). Í mars er vorvöxtur svifþörunga hafinn en snemma í apríl varð vorblómi þeirra. Seinni hluta apríl og fram í miðjan maí var lífmassi þörunganna mestur (~8 mg m-3 af blaðgrænu). Lífmassi þörunga féll í júní en reis svo aftur í júlí og ágúst (~3 -4 mg m-3 Chla).

árstíðabreytingar á blaðgrænu

2. mynd. Árstíðabreytingar í styrk blaðgrænu (mg m-3) í Jökulfjörðum frá 13. febrúar 1987 til 6. janúar 1988 (mynd: Sólveig R. Ólafsdóttir).

Er leið á sumarið var dýpra niður á svifþörungana. Í lok ágúst og byrjun september minnkaði blaðgrænumagnið hratt og þegar kom fram í október var magn blaðgrænu orðið mjög lítið.

Fiskar

Í Jökulfirði eru farnir reglulegir leiðangrar til athugunar á rækju. Þessir leiðangrar eru rækjurall að vori og hausti þar sem notuð er rækjuvarpa við rannsóknirnar, sem er með fínriðnum möskva.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá tíðnidreifingu þeirra fisktegunda sem hafa komið fyrir í þessum rannsóknum í Jökulfjörðum. Myndin segir ekkert til um magn viðkomandi tegundar heldur aðeins um það hvort hún hefur komið fyrir í viðkomandi veiðarfæri/togi á rannsóknatímabilinu. Gögnin sem notuð eru við gerð myndarinnar eru: Rækjurall að vori/seinni hluta vetrar (febrúar og mars) og Rækjurall að hausti (september og október).

Langalgengast er að fá skrápflúru í rækjutroll bæði vor og haust. Sandkoli síld, marhnútur og þorskur lenda í 2-5 sæti að vori. Ýsa, þorskur, síld og lýsa lenda hins vegar í 2.-5. sæti að hausti. Stór hluti tegundanna koma fyrir bæði vor og haust en nokkrar aðeins að vori t.d. grálúða eða að hausti eins og t.d. skötuselur.

mynd af tíðni tegunda

Tíðni fisktegunda sem hafa fengist í rannsóknaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar í Jökulfjörðum.

Athuganir á beitusmokk

Beitusmokkur gengur óreglulega hingað til lands, eða að meðaltali annað hvert ár. Beitusmokkurinn hrygnir djúpt vestur af Skotlandi og allt suður undir Azoreyjar í desember til febrúar. Sviflæg eggin berast með straumi í norðurátt, en talið er að norðlæg útbreiðsla hrygningar hafi meiri áhrif á hvort smokkur gengur alla leið norður til Íslands.

Algeng kápulengd beitusmokks er um 15-20 cm, þegar hann birtist á Íslandsmiðum seinni hluta sumars. Oftast hverfur smokkurinn suður á bóginn í seinasta lagi í desember. Talið er að hann nái kynþroska þegar á öðru ári.

útbreiðslumynd beitusmokks

 Þekkt útbreiðslu- og veiðisvæði beitusmokks við Ísland haustið 1979 og veturinn 1980 (mynd: Konráð Þórisson).

Um 20. ágúst 1979 varð vart við smokkfiskgöngu í Faxaflóa. Þann 30. ágúst varð vart við hann í Arnarfirði og nokkrum dögum síðar í Dýrafirði og í Jökulfjörðum. Aðalgangan kom hins vegar ekki í Ísafjarðardjúp fyrr en um mánaðamótin september-október. Smokkurinn virðist að mestu hafa horfið af þessum slóðum í nóvember, en lítillega varð vart við beitusmokk allt austur í Öxarfjörð eftir áramótin, sem er óvenjulegt.

Smokkurinn vex mjög hratt, en aðalfæða hans eru fiskseiði (42%) og smokkur (28%).  Haustið 1979 lengdist smokkurinn að meðaltali um 4-5 cm og þyngdist um ca. 150 g á einungis tveimur mánuðum (september – október).  Um 375 tonn voru veidd af smokkfiski haustið 1979, aðallega á Vestfjörðum.

Einar Jónsson 1980. Líffræðiathuganir á beitusmokk haustið 1979. Áfangaskýrsla. Biological studies on squid, Todarodes sagittatus (Lamarck) in Icelandic waters during the autumn 1979 with notes on its distribution and migration. Progress report. Hafrannsóknastofnunin Fjölrit nr. 7, 22 s.

Heimildir

Einar Jónsson. (1980). Líffræðiathuganir á beitusmokk haustið 1979. Áfangaskýrsla. Biological studies on squid, Todarodes sagittatus (Lamarck) in Icelandic waters during the autumn 1979 with notes on its distribution and migration. Progress report. Hafrannsóknastofnunin Fjölrit nr. 7, 22 s.

Lúðvík Kristjánsson,. (1980). Íslenskir sjávarhættir I. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?