Fljótavík

kort

Hnit: 66°26,8'N 22°57,9'W
Flatarmál: 16,9 km2
Meðaldýpi: <20 m
Mesta dýpi: 35 m

Það sem hér er kallað Fljótavík eru eiginlega tvær víkur. Vestan megin er lítil vík sem heitir Rekavík en austan megin er hin eiginlega Fljótavík og er hún miklum stærri en sú fyrrnefnda. Svæðið er nefnt hér einu nafni Fljótavík. Víkin nær frá Straumnesfjalli að vestan að Kögurnesi að austan. Breidd í víkurmynni er um 7,2 km en fjarlægð frá víkurmynni inn að strönd um 3,4 km og flatarmál tæpir 17 km2. Dýpi utanvert á víkinni er 25-35 metrar en grynnkar þar fyrir innan að landi. Í víkina er afrennsli úr tveimur vötnum, að vestan úr Rekavíkurvatni sem er allstórt en að austan úr Fljótavatni sem er mun stærra. Nokkurt undirlendi er í kringum það einkum vestan við það.

Sjór

Litlar sjórannsóknir hafa farið fram í Fljótavík og má segja að aðeins ein rannsókn liggi fyrir sem gefi hugmynd um breytingar á hita, seltu og næringarefnum í víkinni. Ekki hafa verið mældir straumar í Fljótavík en vitað er að strandstraumur á þessu svæði liggur með landi til austurs.

Hiti

Yfirborðshitamælingar voru gerðar í Fljótavík í tengslum við svifþörungarannsókn sem gerð var árið 1994 (1. mynd). Sjávarhiti í lok mars í yfirborði var um 1 °C og hækkaði jafnt og þétt er leið fram á sumar upp í rúmar 10 °C í ágúst. Eftir það fór hiti lækkaði er leið fram á haustið og var orðinn 4-5 °C í nóvember.

hitamynd frá Fljótavík

1. mynd. Breytingar á hita i yfirborði sjávar í Fljótavík árið 1994.

Heimildir: Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal. (1994). Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s.

Selta

Seltumælingar voru gerðar í yfirborði sjávar í Fljótavík í tengslum við svifþörungarannsókn sem gerð var árið 1994. Nokkrar sveiflur voru í yfirborðsseltu í Fljótavík frá vori til hausts árið 1994 og sveifluðust seltugildi frá 27,9 til 34,6 (1. mynd). Mestan hluta mælitímans voru seltugildi þó vel yfir 34. Aðal seltulækkunin varð í júní til júlí en þá varð mjög skörp seltulækkun á stuttum tíma og tengdist snjóbráðnun sem jók ferskvatnsrennsli tímabundið til sjávar. Lækkun seltu í Fljótavík var mjög samsvarandi lækkun á seltu á sama tíma í Önundarfirði en mun meiri en fram kom í Aðalvík þar sem selturannsóknir voru gerðar á sama tíma.

seltumynd

1. mynd. Árstíðabreytingar í seltu í yfirborði sjávar í Fljótavík árið 1994.

Heimildir: Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal. (1994). Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s.

Næringarefni

Næringarefnamælingar voru gerðar á yfirborðssjó í Fljótavík í tengslum við svifþörungarannsókn sem gerð var árið 1994. Styrkur nítrats í byrjun apríl var rúmlega 14 µmól/l en féll mjög hratt úr því niður fyrir 2 µmól/l í byrjun maí, samfara vorhámarki svifþörunga (1. mynd). Nítratstyrkur jókst síðan aftur í síðari hluta maí upp í tæplega 4 µmól/l um miðjan júní. Þá fór styrkur nítrats lækkandi á nýjan leik og kláraðist nítrat nánast alveg í byrjun ágúst vegna aukins vaxtar svifþörunga á þessu tímabili. Þegar leið á ágúst jókst nítrat á nýjan leik. Úr því fór sjórinn að blandast upp að nýju og nítrat gildi fóru hækkandi fram á haustið og voru orðin hærri en 7 µmól/l í lok október.

nitratmynd

1. mynd. Styrkur nítrats í sjó í Fljótavík árið 1994.

Styrkur fosfats í byrjun apríl var rúmlega 0,9 µmól/l en féll mjög hratt úr því niður í 0,2 µmól/l samfara vorhámarki svifþörunga (2. mynd). Sumargildi fosfats sveifluðust milli 0,2-0,4 µmól/l en byrjuðu að hækka í september við vetrarblöndun sjávar og höfðu ná 0,7 µmól/l í lok október.

fosfatmynd

2. mynd. Styrkur fosfats í sjó í Fljótavík árið 1994. 

Styrkur kísils í byrjun apríl var tæplega 10 µmól/l en féll mjög hratt úr því niður fyrir 1 µmól/l samfara vorhámarki kísilþörunga í byrjun maí (3. mynd). Sumargildin sveifluðust frá 1 til 5 µmól/l en jukust verulega í stuttan tíma í júní og júlí samfara auknu ferskvatnsrennsli til sjávar sem bar með sér kísil. Styrkur kísils fór síðan hækkandi þegar haustaði vegna vetrarblöndunar sjávar og var í kringum 5 µmól/l frá september til nóvember.

kísilmynd

3. mynd. Styrkur kísils í sjó í Fljótavík árið 1994.

Heimildir: Þórunn Þórðardóttir og Agnes Eydal. (1994). Phytoplankton at the Ocean Quahog Harvesting Areas Off the Southwest Coast of Iceland 1994. Svifþörungar á kúfiskmiðum út af norðvesturströnd Íslands 1994. Hafrannsóknastofnun. Fjölrit, 51, 28 s.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?