Dýrafjörður

kort

Hnit: 65°53'N 23°30'W
Flatarmál: 77 km2
Meðal dýpi: 40 m
Mesta dýpi: 45 m

Dýrafjörður liggur norðan við Arnarfjörð. Þetta er stór fjörður rúmir 9 km í fjarðarmynni milli Hafnarness og Skaga en 6,4 km frá Hafnarnesi í Voga. Hann fer mjókkandi eftir því sem innar dregur og er um 30 km langur frá fjarðarmynni í botn. Dýpi er um 40-55m í ytri hluta fjarðarins en fer grynnkandi eftir því sem innar dregur og nær ströndum hans. Í innsta hluta hans er minna en 20 m dýpi. Flatarmál fjarðarins er um 77 km2.

Botn

Gert hefur verið botnkort af Dýrafirði með svokölluðum fjölgeislamæli (sjá mynd). Fram kemur að í mynni fjarðarins er mun grynnra (30 m) en er kemur inn í fjörðinn. Með ströndum beggja vegna fjarðarinns er lítið grunn þar sem dýpi er allt að 30 m en síðan dýpkar hratt ofan í miðfjörðinn þar sem dýpi er rúmlega 40 m nema rétt innan við mynni fjarðarins þar sem dýpi er mest rúmlega 45 m. Innri hluti fjarðarins þ.e. innan við Þingeyri er grunnur þ.e. minna en 30 m djúpur en síðan grynnkar enn meira er innar dregur og er dýpi i innsta hlutanum 10 til 20 m. Á móts við Þingeyri virðist vera lágur þröskuldur þvert yfir fjörðinn og á fjölgeislakortinu er einnig að sjá hraun eða hóla innan við Þingeyri sunnan megin í firðinum og í framhaldi af þeim lágan þröskuld yfir fjörðinn.

Fjölgeislakort úr Dýrafirði

Fjölgeisladýptarkort af Dýrafirði.

Botndýr í Dýrafirði

Líffræðistofnun og Náttúrustofa Vestfjarða hafa gert rannsóknir á botndýralífi Dýrafjarðar og niðurstöður hafa verið birtar í skýrslum. Eftirfarandi er unnið upp úr nokkrum greinum um botndýr í Dýrafirði (sjá heimildir).

Frumrannsókn var gerð innarlega í Dýrafirði 1985 áður en brúin var gerð við Lambadalsodda. Árið 2007 var gerð samanburðarrannsókn á svæðinu innan við brúna. Ennfremur hafa botndýr verið skoðuð undir fiskeldiskvíum á Haukadalsbót og út af Mýrarfelli og við Gemlufall vegna fyrirhugaðs fiskeldis.

Algengasta tegundin í innri hluta fjarðarins 1985 var burstaormurinn Maldane sarsi en aðrar algengar tegundir voru leirlaufi (Etone longa), Pholoë spp. og marflóin Pontoporeia femorata, en þessar tegundir eru algengar víða um land. Tegundafjöldi utan við brúarstæðið var hærri en fyrir innan en algengustu tegundir flestar þær sömu. Við samanburðarrannsókn sem gerð var á svæðinu 2007, innan við brúarstæðið, fundust fleiri samlokutegundir en mun færri burstaormategundir.

Algengustu tegundir undir Mýrafelli og út af Gemlufalli voru samlokurnar gljáhnytla (Ennucula tenuis) og trönuskel (Nuculana pernula). Engin burstaormategund var afgerandi í fjölda á þessum stöðuvm en burstormarnir Galathowenia oculata, Cossura longocirrata og Sablellides octocirrata voru með mestan fjölda þeirra undir Mýrafelli en Sternapsis scutata var í mestu magni undir Gemlufelli.

Sýni voru tekin með botngreip í öllum rannsóknunum.

Heimildir: Böðvar Þórisson, Cristian Gallo og Þorleifur Eiríksson. (2010). „Athugun á botndýrum utarlega í Dýrafirði 2009“ Unnið fyrir Dýrfisk ehf. NV nr. 7-10
Jörundur Svavarsson og Arnþór Garðarsson. (1986). „Botndýralíf í Dýrafirði“. Líffræðistofnun Háskólans Fjölrit nr. 25.
Þorleifur Eiríksson og Böðvar Þórisson. (2012). „Athugun á botndýralífi út af Gemlufalli og Mýrafelli í Dýrafirði“ NV nr. 13-12
Þorleifur Eiríksson og Böðvar Þórisson. (2008). „Dýralíf í Önundarfirði og Dýrafirði. Áfangaskýrsla 3. Rannsóknir á botndýrum í Dýrafirði“ NV nr. 08-08.

Dýrafjörður var þveraður 1991 og brúin formlega opnuð 1992. Vegna fyrirhugaðrar þverunar voru gerðar þar úttektir á dýralífi á árunum 1984-1986. Ný rannsókn var gerð árið 2008 af Þorleifi Eiríkssyni og Böðvari Þórissyni (sjá http://www.nave.is/utgefid_efni/skra/79/)

Tilgangur þessarar rannsóknar er að athuga hvort breytingar hafi orðið á botndýralífi innan brúar í Dýrafirði eftir þverun. Sýni voru tekin á sömu átta stöðvum og í fyrri rannsókn (A-H), en auk þess var tekin aukastöð nálægt brú (stöð I).

mynd af stöðvum í Dýrafirði

Sýnatökustöðvar við botndýrarannsóknir í Dýrafirði 2008.

Niðurstöður benda ekki til að tegundafjölbreytni botndýra innan brúar i Dýrafirði hafi minnkað í kjölfar þverunar fjarðarins. Flestir dýrahópar og tegundir sem fundust í fyrri rannsókn fundust einnig nú á sömu stöðvum, en með ákveðnum undantekningum.

Auðnuskel, burstaormar af ættinni Flabelligeridae og pungrækjan Eudorella emarginata fundust í fyrri rannsókn og tvær þær síðastnefndu á nokkrum stöðvum, en engin þeirra fannst í þessari rannsókn.

Aftur á móti fundust eftirfarandi tegundir nú, sem ekki fundust í fyrri rannsókn: Hjartarskel, báruskel, kolkuskel og gljáhnytla, pungrækja af ætthvíslinni Leucon og marflóin Corophium bonelli.

Hafa ber í huga að á þessum 22 árum milli rannsókna hafa orðið breytingar á lífríki við strendur landsins og einnig verða sveiflur í stofnstærðum óháð breytingum í umhverfinu.

Líf

Skarkolaseiði í Dýrafirði

Skarkolinn er mikilvægur nytjafiskur og mjög algengur á grunnslóð allt í kringum landið. Í júlí 2006 var farinn leiðangur hringinn í kringum landið og sýni tekin á 32 stöðvum með litlu trolli (1. mynd) sem dregið var í sandfjörum með handafli af tveimur mönnum (2. mynd). Trollið er bjálkatroll sem er nokkurskonar botntroll. Það er spennt á álramma sem situr á meiðum, 1 m á breidd og 20 cm á hæð, og er það dregið með handafli í fjöruborðinu á u.þ.b. 1 m dýpi eða af slöngubát á dýpra vatni. Leitast var við að dreifa sýnasöfnun þannig að á sem stystum tíma fengist heildstæð mynd af fjölda og lengdardreifingu skarkolaseiða allt í kringum landið.

mynd af skarkolaseiðatrolli

1. mynd. Skarkolaseiðatroll.

mynd af dregnu trolli

 2. mynd. Trollið dregið.

mynd af skarkolaseiði

3. mynd. Nýklakið skarkolaseiði (ljósm. Björn Gunnarsson).

Tilgangur rannsóknanna sem hér er greint frá var að auka skilning á uppruna skarkolaseiða við Ísland (3. mynd). Til þess var útbreiðsla, aldur og vöxtur seiða við landið kannaður og í framhaldinu er ætlunin að tengja þessa þætti við upplýsingar um strauma og rekhraða og þannig áætla frá hvaða svæðum seiðin eru (sjá Björn Gunnarsson og fl. 2010).

Þann 21. júlí 2006 voru tekin þrjú 100 m tog í norðanverðum Dýrafirði (65.8987 N - 23.4940 V) og reyndist þéttleiki skarkolaseiða þar vera um 1493 einstaklingar á hverja 100 m2 og var meðallengdin um 19.5 mm. Þetta reyndist vera næsthæsti þéttleiki skarkolaseiða sem mældist við landið.

Heimildir: Björn Gunnarsson, Jónas P. Jónasson og Bruce J. McAdam. (2010). Variation in hatch date distributions, settlement and growth of juvenile plaice (Pleuronectes platessa L) in Icelandic waters. Journal of Sea Research 64, 61-67.

Nytjar

Fiskveiðar

Í Dýrafirði hefur verið veitt með flestum veiðarfærum en hér eru settar fram upplýsingar um veiðar á nytjategundum í fimm veiðarfæri (1. mynd). Heildarafli á tímabilinu 2000 til ársins 2014 var um 300 tonn ef miðað er við upplýsingar úr gagnasafni Hafrannsóknastofnunar. Mest hefur fengist af þorski í firðinum á þessu tímabili rúm 140 tonn en næstmest af ýsu rúm 110 tonn. Af öðrum tegundum hefur fengist mun minna aðallega steinbítur, skarkoli og sandkoli. Mestur afli hefur fengist í dragnót (1. mynd) en næstmest á handfæri og línu.

mynd af afla eftir tegundum

1. mynd. Afli í Dýrafirði eftir fisktegundum og veiðarfærum.

Gerð var samantekt á skiptingu afla milli tegunda á tímabilinu 2000 - 2014 í Dýrafirði og kom þá í ljós að hlutfallslega var mest veitt af þorski eða 45 %, 36 % af ýsu en af öðrum tegundum fékkst mun minni afli (2. mynd).

mynd af hlutfallslegum afla

 2. mynd. Hlutfallslegur afli mismunandi tegunda án tillits til veiðarfæra.

Eldi

Fiskeldi hefur lengi verið stundað í Dýrafirði. Félagið Dýrfiskur elur nú regnbogasilung í kvíum í firðinum og hefur leyfi til framleiðslu á allt að 2000 tonnum af regnbogasilungi en hyggur á stækkun eldisins.

Botnþörungar

Klóþang, Ascophyllum nodosum(Linnaeus) Le Jolis, er brúnþörungur sem vex víða í fjörum umhverfis allt Ísland og er líklega sú tegund lífvera sem mest er af í fjörum hér við land. Þéttleiki þess getur verið afar mikill (1. mynd). Klóþang vex aðallega á fremur skjólsælum grjót- og klapparfjörum (2. mynd) en finnst þó einnig í brimasömum fjörum.

Þörungurinn hefur lítið verið nýttur nema áður fyrr þegar sauðfé var beitt í fjörur, en fjörubeit þótti reyndar teljast til hlunninda bænda í eina tíð. Fáum hefur dottið í hug að hægt væri að nýta tegundina til listrænnar sköpunar. En nú er það breytt.

mynd af fjöru

1. mynd. Klóþang í Flekkuvík (ljósm. Karl Gunnarsson).

Mynd af þangi

 2. mynd. Klóþang (ljósm. Karl Gunnarsson).

Kristín Helgadóttir listakona á Dýrafirði segir að hún hafi oft hugsað mér sér þegar hún var á gangi í fjörunni hvort ekki væri hægt að gera eitthvað úr þessu þangi sem var svona listilega hannað af móður náttúru.

mynd af fjöruperlum

3. mynd. Hálsmen úr klóþangskúlum.

Kristín tínir sjálf þangið, snyrtir það síðan og þurrkar. Eftir að hún hefur pússað það og sett saman í hálsmen eða eyrnalokka þá eru þetta gullfallegir skartgripir og hver kúla eða „perla“ er sérstök (3. mynd).

Hún fór að safna þessum kúlum og gerði sér hálsmen með einni kúlu. Fyrir röð tilviljana sem allar byggðust á athyglinni sem hálsmenið góða fékk er Kristín orðin skartgripaframleiðandi og efniviðurinn er algengur brúnþörungur, klóþang, sem vex víða í fjörum landsins.

Heimildir

Agnar Ingólfsson. (1986). Fjörulíf í innanverðum Dýrafirði. Líffræðistofnun Háskólans. Fjölrit nr. 24, 30 bls.

Björn Gunnarsson, Jónas P. Jónasson og Bruce J. McAdam. (2010). Variation in hatch date distributions, settlement and growth of juvenile plaice (Pleuronectes platessa L) in Icelandic waters. Journal of Sea Research 64, 61-67.

Böðvar Þórisson. (2012). Straummælingar út af Mýrarfelli í Dýrafirði, júlí-ágúst 2012. NV nr. 14-12

Böðvar Þórisson og Þorleifur Eiríksson. (2004). Dýralíf í Önundarfirði og Dýrafirði. Áfangaskýrsla 1. Styrkt af Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Náttúrustofa Vestfjarða NV nr. 4-04, 7 bls.

Böðvar Þórisson & Þorleifur Eiríksson. (2004). Dýralíf í Önundarfirði og Dýrafirði. Áfangaskýrsla 3. Rannsóknir á botndýrum í Dýrafirði. Náttúrustofa Vestfjarða. NV nr. 08-08.

Böðvar Þórisson, Cristian Gallo og Þorleifur Eiríksson. (2010). Athugun á botndýrum utarlega í Dýrafirði 2009. Unnið fyrir Dýrfisk ehf. Náttúrustofa Vestfjarða. NV nr. 7-10.

Einar Jónsson. (1980). Líffræðiathuganir á beitusmokk haustið 1979. Áfangaskýrsla. Biological studies on squid, Todarodes sagittatus (Lamarck) in Icelandic waters during the autumn 1979 with notes on its distribution and migration. Progress report. Hafrannsóknastofnunin Fjölrit nr. 7, 22 s.

Guðrún G. Þórarinsdóttir og Sólmundur Tr. Einarsson. (1994). Kúfskeljarannsóknir á Norðvesturlandi janúar til mars 1994. Hafrannsóknastofnun 1994, 29 bls.

Hrafnkell Eiríksson. (1986). Hörpudiskurinn, Clamys islandica, Muller, Hafrannsóknir, 35: 5-40.

Jörundur Svavarsson og ArnþórGarðarsson. (1986). Botndýralíf í Dýrafirði. Líffræðistofnun Háskólans. Fjölrit nr. 25, 38 bls.

Lúðvík Kristjánsson. (1980). Íslenskir sjávarhættir I. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.

Munda, I. M. (1978). Trace metal concentrations in some Icelandic seaweeds. Bot. Mar., 21: 261-263.

Munda, I. M. Survey of the benthic algal vegetation of the Dýrafjörður, northwest Iceland. Nove Hedwigia 29: 281-403.

Þorleifur Eiríksson og Böðvar þórisson. (2006). Dýralíf í Önundarfirði og Dýrafirði. Áfangaskýrsla 2. Könnun á fjörum í Dýra- og Önundarfirði. Náttúrustofa Vestfjarða, NV nr. 11-06.

Þorleifur Eiríksson og Böðvar Þórisson. (2008). Dýralíf í Önundarfirði og Dýrafirði. Áfangaskýrsla 3. Rannsóknir á botndýrum í Dýrafirði. Náttúrustofa Vestfjarða, NV nr. 08-08.

Þorleifur Eiríksson, Böðvar Þórisson. (2012). Athugun á botndýralífi út af Gemlufalli og Mýrarfelli í Dýrafirði. NV nr. 13-12.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?