Fossfjörður

kort

Hnit: 65°37,6'N 23°32,2'W
Flatarmál: 8,6 km2
Meðaldýpi: >50 m
Max depth: 92 m

Fossfjörður er vestastur suðurfjarða Arnarfjarðar. Í fjarðarmynni er hann um 2 km á breidd frá flugvelli að Boða. Lengd fjarðarins er 4,5 km og er hann nokkuð jafnbreiður ef undan er skilinn innsti hlutinn. Flatarmál Fossfjarðar er 8,6 km2. Fjörðurinn er djúpur. Mesta dýpi er í fjarðarmynni rúmlega 90 m en alldjúpur áll gengur inn eftir firðinum sem grynnist smám saman. Dýpi inn fyrir miðjan fjörð er meira en 60 m og skammt frá botni er enn 40 m dýpi. Með landi sitthvorum megin er fremur mjó ræma þar sem dýpi er minna en 20 metrar með bröttum kanti og því dýpkar mjög hratt niður í miðsvæði fjarðarins.

Botnkort

Í Tilkynningu Fjarðarlax (bls. 7) um aukið laxeldi í Fossfirði (sjá heimild) er birt nákvæmt dýptarkort af Fossfirði með 10 m jafndýpislínum sem gert er af Landhelgisgæslunni/Sjómælingum Íslands.  Þar kemur fram að djúpur áll (60 til 80 m) gengur inn eftir Fossfirði og er dýpi í honum meira en 60 m alveg inn undir Dufnisdal. Meira en 40 metra dýpi er þaðan og inn undir fjarðarbotn um miðfjörðinn þar sem grynnkar hratt upp á 10 m dýpi. Með landi er mjó ræma beggja vegna fjarðar niður á 20 m dýpi en úr því dýpkar mjög hratt ofan í fjörðinn.

mynd af dýpi Fossfjarðar

1. mynd. Dýpi í Fossfirði. Mynd frá Fjarðarlax ehf í "Tilkynning til Skipulagsstofnunar bls. 7 (sjá heimildir).

Heimild: Jón Örn Pálsson, 2013. Greinargerð. Umhverfisáhrif af 4.500 tonna framleiðsluaukningu á laxi í Fossfirði. Tilkynning til Skipulagsstofnunar, 25 bls.

Könnun á botndýralífi og botngróðri í Fossfirði og á fyrirhuguðu uppfyllingarsvæði við Bíldudal

Þann 16 apríl 2004 var kannað botndýralíf og botngróður við fyrirhugað uppfyllingarsvæði fyrir kalkþörungaverksmiðju við höfnina í Bíldudal og á fyrirhuguðu efnistökusvæði í Fossfirði. Á báðum þessum svæðum voru teknar ljósmyndir með neðansjávarmyndavél en af þeim fengust magnbundar upplýsingar um þéttleika stærri botndýra og þekju og tegundasamsetningu þörunga. Að auki var 2 sýnum safnað með þríhyrnu en hún er notuð til að ná sýnum af stærri lífverum af botninum.

Úrvinnsla þríhyrnusýna

Í töflu 1 eru upplýsingar um þær dýrategundir sem söfnuðust í þríhyrnuna. Greinilegur munur var á botndýralífi í Fossfirði og við fyrirhugað uppfyllingarsvæði við Bíldudal. Í fyrsta lagi var tegundafjölbreytni í Fossfirði mun meiri en við uppfyllingarsvæðið, en innan Fossfjarðar fannst 31 tegund meðan að aðeins 11 tegundir fundust innan uppfyllingarsvæðis. Sú tegund sem var ríkjandi í sýnum úr Fossfirði var slöngustjarnan Ophiura albida. Af öðrum algengum tegundum mætti nefna rörbyggjandi burstaorminn Pectinaria koreni, samlokurnar Cardium fasciatum og Astarte crenata og nökkvategundina Ischnochiton albus. Innan uppfyllingarsvæðis, var ígulkerið Strongylocentrotus droebachiensis (skollakoppur) ríkjandi tegund. Einnig var nokkuð af burstaormunum Cirratulus cirratus og Pectinaria koreni

Fjölbreytni botndýralífs í Fossfirði er mun meira en við fyrirhugað uppfyllingarsvæði við Bíldudal. Í Fossfirði var slöngustjarnan (Ophiura albida) langalgengust. Úrvinnsla mynda gaf einnig til kynna að samlokur sem lifa ofan í botnsetinu væru mjög algengar. Innan fyrirhugaðs uppfyllingarsvæðis var skollakoppur algengastur í grjótinu næst ströndinni. Kúfskel var algengust í setinu fjærst bryggjunni en þegar komið er nær er meira um sandmaðk en næst bryggjunni sést hvar skel af rækju úr rækjuvinnslunni hafði safnast fyrir.

Algengasti þörungurinn í Fossfirði var ungur beltisþari (Saccharina latissima). Á grjóti var kalkskán algeng en á smásteinum og skeljum ofan á setinu uxu þunnaskegg (Polysiphonia stricta) og meyjarhár (Desmarestia viridis). Á uppfyllingasvæðinu við Bíldudal var talsvert af stærra grjóti en lítill gróður óx á því. Lítið eitt fannst þó af beltisþara (Saccharina latissima), maríusvuntu (Ulva lactuca), meyjarhári (Desmarestia viridis) og sölvum (Palmaria palmata). Almennt er botngróður fátæklegur á báðum stöðum. Í Fossfirði stafar það fyrst og fremst af því að þar er lítið af stærra grjóti fyrir þörunga að festa sig á. Innan uppfyllingarsvæðis við Bíldudal er hins vegar talsvert af grjóti en þar er mikið af ígulkerinu skollakopp (Strongylocentrotus droebachiensis) sem hugsanlega heldur niðri gróðri á svæðinu.

Þegar á heildina er litið er lífríki á athugunarstöðunum fremur fábreytt. Allar þær tegundir sem fundust í þessarri rannsókn eru algengar grunnsævistegundir sem finnast víða hér við land. Engin tegund fannst sem telst vera sjaldgæf.

Heimild: Stefán Áki Ragnarsson og Karl Gunnarsson, 2004. Könnun á botndýralífi og botngróðri í Fossfirði og á fyrirhuguðu uppfyllingarsvæði við Bíldudal. Hafrannsóknastofnun, óútgefin skýrsla.

Laxeldi

Fyrirtækið Fjarðarlax ehf. hefur stundað laxeldi í Fossfirði frá árinu 2010. Fyrirtækið hefur leyfi fyrir 1500 tonna laxeldi á ári og hefur eldið gengið svo vel að fyrirtækið hyggur á stækkun eldisins í 6000 tonn á ári.

Kalkþörungar

Kalkþörungar vaxa á botni í Fossfirði niður á 30 m dýpi. Íslenska Kalkþörungafélagið hefur nýtingarrétt á kalkþörungaseti á grunnsævi í Fossfirði en hefur ekki nýtt þann rétt enn sem komið er.

Heimildir: Jón Örn Pálsson, 2013. Greinargerð. Umhverfisáhrif af 4.500 tonna framleiðsluaukningu á laxi í Fossfirði. Tilkynning til Skipulagsstofnunar, 25 bls.

Sjá einnig  heimildarlista fyrir Arnarfjörð

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?