Arnarfjörður

 

kort

Hnit: 65°38´N 23°37'W
Flatarmál: 285 km2
Meðaldýpi: 70-100 m
Mesta dýpi: 110 m

Arnarfjörður er einn af syðri fjörðunum vestan til á Vestfjörðum, norðan við Patreksfjörð og Tálknafjörð og opnast til norðvesturs. Hann er mikill fjörður um 9 km á breidd í fjarðarkjaftinum milli Kópanes og Sléttanes en mjókkar er innar dregur og er um 7 km á breidd rétt utan við Bíldudal. Aðalfjörðurinn klofnar við Langanes og heldur hluti hans áfram til austurs endar í Borgarfirði og Dynjandisvogi. Sunnan við Langanes heita Suðurfirðir. Þar liggur fjörðurinn til suðurs og endar í svokölluðum Suðurfjörðum. Þeir eru fjórir, Fossfjörður, Reykjafjörður, Trostansfjörður sem allir eru stuttir og Geirþjófsfjörður sem er nyrstur og lengstur en örmjór. Auk þess er Bíldudalsvogur yst vestan megin en við hann stendur Bíldudalur. Frá fjarðarmynni inn að Langanesi eru um 25 km en þaðan inn í Borgarfjörð um 16 km. Frá Langanesi inn í botn á Geirþjófsfirði eru einnig um 16 km. Alls er því Arnarfjörður um 40 km langur frá fjarðarmynni í botn. Heildarflatarmál fjarðarins með innfjörðum eru um 285 km2

Í Arnarfirði er svokallaður þröskuldur eða grunn í fjarðarmynninu sem er grynnra en fjörðurinn þar fyrir innan. Dýpi í fjarðarmynninu er um 50 m en skammt þar inn af er dýpi um 100 m. Fjörðurinn er nokkuð jafndjúpur um 90-100 m á dýpt en þó liggja fjórir hryggir 20 til 40 m háir þvert á fjörðinn (sjá nánar kafla um botnlögun og botnkort). Mesta dýpi er um 110 m og meira en 100 m dýpi mælist innan við alla hryggina.

Botn

Arnarfjörður er mjög sérstakur fjörður á íslenskan mælikvarða þar sem hann er einn af örfáum þröskuldsfjörðum sem finnast á Íslandi. Mynni hans er mun grynnra en innri hlutinn og nokkrir botnhryggir liggja þvert á fjörðinn alla leið inn í Borgarfjörð

Botnskort

Á korti Arnarfjarðar má sjá að fjörðurinn er tiltölulega grunnur í mynni hans, þar sem er svokallaður þröskuldur eða grunn með dýpi kringum 50 m. Innan við mynnið er talsvert dýpra svæði þar sem mesta dýpi er rúmlega 100 metrar. Á milli Hvestu sunnan megin og Baulhúsaskriða norðan megin er annar þröskuldur þar sem dýpi er 60-70 m. Þar innan við er djúp sem nær alla leið inn í Suðurfirðina þar sem mesta dýpi er ríflega 100 m. Fyrir mynni innri hluta Arnarfjarðar, þar sem hann heldur áfram til austurs, er enn einn þröskuldur með dýpi 70 til 80 m en þar innan við er djúp langt inn eftir firði þar sem mesta dýpi er rúmlega 100 m. Enn innar í þessum anga Arnarfjarðar eru tveir hryggir með allmiklu dýpi á milli þeirra og einnig innan við þann innri. Þegar nálgast botn fjarðarins fer að grynnka þar sem heitir Borgarfjörður og Dynjandisvogur.

Hér fyrir neðan er hægt að smella á hlekk til að fara inn á síðu með dýptarkorti frá Arnarfirði. 

https://www.hafogvatn.is/is/rannsoknir/kortlagning-hafsbotnsins/arnarfjordur

Botngerð

Út frá gögnum sem safnað er með fjölgeislamælingum má vinna svo kölluð botnhörkukort sem gefa hugmynd um botngerðina þ.e. hvort botninn er mjúkur leirbotn eða harður hraunbotn. Slíkt kort af Arnarfirði má sjá hér fyrir neðan. Dekkstu svæðin tákna mestu botnhörku. Jökulgarðar eru auðgreinanlegir enda gerðir úr hörðu og grófu efni. Þeir þvera fjörðinn norðan við Hvestu og ganga út frá Langanesi. Einnig eru jökulgarðar í Borgarfirði. Skriður í hlíðum koma greinilega fram. Set, sem þekur meginhluta fjarðarbotnsins er ljósara á kortinu.

Mynd af botngerð Arnarfjarðar

Botnhörkukort af Arnarfirði (mynd: GH og PR)

Sjór

Súrefni

Í leiðangri til Vestfjarða á R/S Hafþór haustið 1974 var súrefnisstyrkur sjávar kannaður á stöðvum í Ísafjarðardjúpi, innfjörðum þess og í Arnarfirði. Leiðangurinn hófst 25. október og honum lauk 13. nóvember.  Stöðvarnar þar sem sýnum var safnað eru sýndar á 1. mynd. 

Leysni súrefnis í sjó fer eftir hitastigi sjávarins og einnig eftir seltu.  Þannig er súrefnisstyrkur í köldum sjó sem er í jafnvægi við loft hærri en í hlýjum sjó. Niðurstöður mælinga á súrefni í sjó má setja fram í styrkeiningum eða bera mældan styrk saman við mettunargildi sjávar miðað við hita hans og seltu.  Þannig framsetning er mettunarprósenta, % mettun, sem hér verður notuð.

Súrefni berst í sjó um yfirborðið úr lofti og það myndast í sjó við ljóstillífun þörunga. Súrefni eyðist úr sjó við öndun eða rotnun lífræns efnis og þess í stað bætist koltvíoxíð í sjóinn.
Stöðvamynd frá Vestfjörðum

1. mynd. Stöðvakort fyrir súrefnismælingar í leiðangri H12-74 í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði haustið 1974 (mynd: Jón Ólafsson).

Þess má vænta að haustlagi, að sjór sé undirmettaður.  Sjórinn er þá að kólna og við það eykst leysni súrefnis og flæði úr lofti til sjávar nær oftast ekki að hafa við kælingunni. Ennfremur er ljóstillífun lítil þá vegna skorts á birtu en súrefni mikið notað vegna rotnunar lífrænna leifa frá sumrinu. Þegar komið er niður á nokkurt dýpi og niður að botni fer súrefnisstyrkur ennfremur eftir því hvernig háttar til um blöndun yfirborðssjávar niður á dýpið og strauma sem flytja að súrefnisríkan sjó. Botnlögun getur ráðið miklu um endurnýjun sjávar við botn og aðflutning súrefnis með straumum. Þröskuldsfirðir eru vel þekktir fyrir það að oft er hæg endurnýjum botnsjávar í þeim.

Niðurstöður mælinga á uppleystu súrefni í leiðangri H12/74 sýndu að súrefnismettun var alls staðar hærri en 70% í Ísafjarðardjúpi og innfjörðum þess. Á 9 stöðvum í Arnarfirði mældist súrefnismettun undir 70 %. Á þessum stöðum var súrefnismettunin yfirleitt lægst í sýnum sem voru tekin nálægt botni í innanverðum friðinum, en þó yfir 50%, myndir 2-4.  Því fer þó fjarri að súrefnisþurrð hafi verið aðsteðjandi. Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar í samhengi við eðlismassa sjávarins kemur fram að sjórinn í Arnarfirði með lægstu súrefnismettun hafði svipaðan eðlismassa og var að öðru leyti sambærilegur við sjóinn í Ísafjarðardjúpi, 5. mynd. Því má ætla að ástæða lágrar súrefnismettunar í Arnarfirði sé sú að þröskuldur er í firðinum utanverðum og tregari endurnýjun botnsjávar þar en Ísafjarðardjúpi.

mynd af súrefnismettun

2. mynd. Breytingar á súrefnismettun með dýpi á stöðvum 61, 62, 66 og 67 í Arnarfirði (mynd: Jón Ólafsson).

mynd af súrefnismettun

3. mynd. Breytingar á súrefnismettun með dýpi á stöðum 68, 69, 70 og 73 í Arnarfirði (mynd: Jón Ólafsson).

mynd af súrefnismettun

4. mynd. Breytingar á súrefnismettun með dýpi á stöð 77 í Arnarfirði (mynd: Jón Ólafsson).

mynd af eðlismassa og súrefnismettun

5. mynd. Eðlismassi og súrefnismettun sjósýna úr Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði (mynd: Jón Ólafsson).

Önnur efni

Rannsóknaskýrsla um ólífræn snefilefni í lífverum við NV-land

Tilgangur rannsóknarinnar var að leita skýringa á sérstöðu NV-miða, sérstaklega Arnarfjarðar, m.t.t. ólífrænna snefilefna, einkum kadmíns, í lífverum. Í því skyni var mældur styrkur snefilefna í sýnum af kræklingi (Mytilus edulis), hörpudiski (Chlamys islandica) og sjávarseti á nokkrum stöðum við Ísland, en sérstök áhersla lögð á sýnasöfnun á NV-miðum.

Helstu niðurstöður verkefnisins eru að styrkur kadmíns í kræklingasýnum frá Arnarfirði er almennt töluvert hærri en í öðrum sýnum sem tekin voru af krælingi á NV-miðum og er þessi munur tölfræðilega marktækur (T-próf, α = 0,05 (5%)). Sömuleiðis er tilhneiging til að styrkur járns, kopars, mangan og sínks sé lægri í kræklingi í Arnarfirði en öðrum fjörðum á NV-miðum, og er þessi munur mest áberandi fyrir járn og sink. Niðurstöðurnar leiða í ljós að styrkur kadmíns í krælingi úr Arnarfirði er yfir hámarksgildum ESB fyrir krækling í 9 sýnum af 10, auk þess eru sýni af kræklingi af ræktunarböndum úr Hestfirði í Ísafjarðardjúpi og Ósafirði (inn af Patreksfirði) yfir mörkum ESB (1,0 mg/kg votvigt fyrir samlokur). Kræklingasýni frá Dýrafirði, Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi og Patreksfirði við Sandodda eru einnig mjög nálægt mörkum ESB. Magn snefilefna í seti á NV-miðum virðist vera mjög svipað og fyrri mælingar á snefilefnum í íslensku sjávarseti á þessum slóðum gefa til kynna. Þetta bendir til þess að skýringa á háum styrk kadmíns í kræklingi úr Arnarfriði sé líklega ekki að leita í hærri styrk kadmíns í seti á þessu svæði.

Niðurstöður verkefnisins gefa upplýsingar um sérstöðu íslenskra hafsvæða m.t.t. ólífrænna snefilefna. Slíkar upplýsingar og vísindaleg gögn eru forsenda þess að Íslendingar geti haft áhrif á ákvarðanatöku við setningu hámarksgilda fyrir matvæli t.d. hjá ESB. Niðurstöður úr verkefninu hafa nú þegar verið nýttar til að að hafa áhrif á hækkun á hámarksgildum ESB fyrir kadmín í samlokum og hafa verið send til EFSA vegna gagnasöfnunar um kadmín í matvælum.

Botndýr í Arnarfirði

Náttúrustofa Vestfjarða gerði athugun á botndýralífi á þeim svæðum þar sem fyrirhugað var að fara í kalkþörunganám í Arnarfirði. Sýnataka fór fram dagana 21. og 26. september 2001 á rannsóknarbátnum Ormi IS-104-6506. Botndýrum var safnað með botngreip (200 cm2) út af Langanesi, Otradal og í Reykjafirði. Fyrir hvert greiparsýni var gert sjónrænt mat á setgerð í hverju sýni  fyrir sig sem og tilvist kalkþörunga sem og þara. Samsetning botndýra var mismunandi á milli svæða sem og breyttist með dýpi. Höfundar álykta að tegundafjölbreytni samfélaga sé mikil sem og að kalkþörunganám gæti haft töluverð áhrif á botndýralíf.

Heimild: Þorleifur Eiríksson & Hafsteinn H. Gunnarssson 2002. Botndýr í Arnarfirði. Náttúrustofa Vestfjarða. NV nr. 4-02

Botndýrarannsóknir á þremur svæðum í Arnarfirði 2010

Sumarið 2010 safnaði Náttúrustofa Vestfjarða einnig sýnum á á þremur svæðum í Arnarfirði þar sem fyrirhugað var laxeldi. Tekin voru sýni á þremur fyrirhuguðum fiskeldissvæðum, þ.e. í Dynjandisvogi, Geirþjófsfirði og Fossfirði. Botnsýni voru tekin með Van Veen greip (200 cm2). Tekin voru 3 sýni á hverri stöð en samtals voru 15 stöðvar. Unnið var úr 2 sýnum af hverri stöð og botngerð í þeim var lýst. Helstu niðurstöður voru þær að yfirhöfuð var botngerðin sem og botndýralífið svipað á öllum svæðunum. Fjölbreytileikinn var lágur í öðru sýninu í Geirþjófsfirði vegna mikils fjölda Prionospio steenstrupi.

Heimild: Böðvar Þórisson, Cristian Gallo og Þorleifur Eiríksson 2010. Botndýrarannsóknir á þremur svæðum í Arnarfirði 2010. Unnið fyrir Fjarðarlax. Lokaskýrsla. NV nr. 08-10

Könnun á botndýralífi og botngróðri í Fossfirði og á fyrirhuguðu uppfyllingarsvæði við Bíldudal

Þann 16 apríl 2004 var kannað botndýralíf og botngróður við fyrirhugað uppfyllingarsvæði fyrir kalkþörungaverksmiðju við höfnina í Bíldudal og á fyrirhuguðu efnistökusvæði í Fossfirði. Á báðum þessum svæðum voru teknar ljósmyndir með neðansjávarmyndavél en af þeim fengust magnbundar upplýsingar um þéttleika stærri botndýra og þekju og tegundasamsetningu þörunga. Að auki var 2 sýnum safnað með þríhyrnu en hún er notuð til að ná sýnum af stærri lífverum af botninum.

Fjölbreytni botndýralífs í Fossfirði er mun meira en við fyrirhugað uppfyllingarsvæði við Bíldudal. Í Fossfirði var slöngustjarnan (Ophiura albida) langalgengust. Úrvinnsla mynda gaf einnig til kynna að samlokur sem lifa ofan í botnsetinu væru mjög algengar. Innan fyrirhugaðs uppfyllingarsvæðis var skollakoppur algengastur í grjótinu næst ströndinni. Kúfskel var algengust í setinu fjærst bryggjunni en þegar komið er nær er meira um sandmaðk en næst bryggjunni sést hvar skel af rækju úr rækjuvinnslunni hafði safnast fyrir.

Algengasti þörungurinn í Fossfirði var ungur beltisþari (Saccharina latissima). Á grjóti var kalkskán algeng en á smásteinum og skeljum ofan á setinu uxu þunnaskegg (Polysiphonia stricta) og meyjarhár (Desmarestia viridis). Á uppfyllingasvæðinu við Bíldudal var talsvert af stærra grjóti en lítill gróður óx á því. Lítið eitt fannst þó af beltisþara (Saccharina latissima), maríusvuntu (Ulva lactuca), meyjarhári (Desmarestia viridis) og sölvum (Palmaria palmata). Almennt er botngróður fátæklegur á báðum stöðum. Í Fossfirði stafar það fyrst og fremst af því að þar er lítið af stærra grjóti fyrir þörunga að festa sig á. Innan uppfyllingarsvæðis við Bíldudal er hins vegar talsvert af grjóti en þar er mikið af ígulkerinu skollakopp (Strongylocentrotus droebachiensis) sem hugsanlega heldur niðri gróðri á svæðinu.

Þegar á heildina er litið er lífríki á athugunarstöðunum fremur fábreytt. Allar þær tegundir sem fundust í þessarri rannsókn eru algengar grunnsævistegundir sem finnast víða hér við land. Engin tegund fannst sem telst vera sjaldgæf.

Heimild: Stefán Áki Ragnarsson og Karl Gunnarsson, 2004. Könnun á botndýralífi og botngróðri í Fossfirði og á fyrirhuguðu uppfyllingasvæði við Bíldudal. Hafrannsóknastofnun, óútgefin skýrsla.

Algengi fiska

Í Arnarfjörð eru farnir reglulegir rannsóknaleiðangrar til athugunar á fiskgeng og fiskmagni. Þessir leiðangrar eru rækjurall að vori og hausti þar sem notuð er rækjuvarpa við rannsóknirnar, sem er með fínriðnum möskva, og svo vor- og haustrall þar sem notuð er fiskibotnvarpa með fínriðinni klæðningu í poka til þess að ná til smæsta fiskjarins.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá tíðnidreifingu þeirra fisktegunda sem hafa komið fyrir í þessum rannsóknum í Arnarfirði. Myndin segir ekkert til um magn viðkomandi tegundar heldur aðeins um það hvort hún hefur komið fyrir í viðkomandi veiðarfæri/togi á rannsóknatímabilinu. Gögnin sem notuð eru við gerð myndarinnar eru: Vorrall (SMB) 1985-2013 í mars, Haustrall (SMH) 1995-2013 í október, Rækjurall að vori/seinni hluta vetrar (febrúar og mars) og Rækjurall að hausti (september og október).

Langalgengast er að fá þorsk í rækjutroll og hann er einnig mjög algengur í fiskitroll að vori eða í öðru sæti. Skrápflúra, ýsa og þorskur fást alltaf í vorralli í firðinum. Síld, skrápflúra og ýsa eru með algengustu tegundum í rækjutroll bæði vor og haust en skrápflúra er algengust í fiskitroll bæði vor og haust. Aðrar kolategundir eru mjög algengar í vorralli en í haustralli eru mjónar með algengustu tegundum sem fást í Arnarfirði.

mynd af tíðni tegunda

Tíðni tegunda sem koma fyrir í rannsóknaleiðöngrum í Arnarfirði

Athuganir á beitusmokk

Beitusmokkur gengur óreglulega hingað til lands, eða að meðaltali annað hvert ár. Beitusmokkurinn hrygnir djúpt vestur af Skotlandi og allt suður undir Azoreyjar í desember til febrúar. Sviflæg eggin berast með straumi í norðurátt, en talið er að norðlæg útbreiðsla hrygningar hafi meiri áhrif á hvort smokkur gengur alla leið norður til Íslands.

Algeng kápulengd beitusmokks er um 15-20 cm, þegar hann birtist á Íslandsmiðum seinni hluta sumars. Oftast hverfur smokkurinn suður á bóginn í seinasta lagi í desember. Talið er að hann nái kynþroska þegar á öðru ári.

Um 20. ágúst 1979 varð vart við smokkfiskgöngu í Faxaflóa. Þann 30. ágúst varð vart við hann í Arnarfirði og nokkrum dögum síðar í Dýrafirði og í Jökulfjörðum. Aðalgangan kom hins vegar ekki í Ísafjarðardjúp fyrr en um mánaðamótin september-október. Smokkurinn virðist að mestu hafa horfið af þessum slóðum í nóvember, en lítillega varð vart við beitusmokk allt austur í Öxarfjörð eftir áramótin, sem er óvenjulegt.

útbreiðslumynd beitusmokks

Þekkt útbreiðslu og veiðisvæði beitusmokks við Ísland haustið 1979 og veturinn 1980 (mynd: KTh)

Smokkurinn vex mjög hratt, en aðalfæða hans eru fiskseiði (42%) og smokkur (28%).  Haustið 1979 lengdist smokkurinn að meðaltali um 4-5 cm og þyngdist um ca. 150 g á einungis tveimur mánuðum (september – október).  Um 375 tonn voru veidd af smokkfiski haustið 1979, aðallega á Vestfjörðum.

Heimild: Einar Jónsson 1980. Líffræðiathuganir á beitusmokk haustið 1979. Áfangaskýrsla. Biological studies on squid, Todarodes sagittatus (Lamarck) in Icelandic waters during the autumn 1979 with notes on its distribution and migration. Progress report. Hafrannsóknastofnunin Fjölrit nr. 7, 22 s.

Spendýr

Selir og hvalir sjást iðulega í Arnarfirði sennilega sem fardýr en útbreiðsla þeirra og upplýsingar um búsvæði liggja ekki fyrir. Þó er vitað að engin selalátur finnast í firðinum.

Nytjar

Í Arnarfirði hafa verið stundaðar margvíslegar nytjar á sjávarfangi. Mikilvægastar síðustu áratugina eru rækjuveiðar en veiðar á nytjategundum fiska hafa verið stundaðar frá ómunatíð.

Fiskveiðar

Í Arnarfirði hefur verið veitt með flestum veiðarfærum en hér eru settar fram upplýsingar um veiðar á nytjategundum í fimm veiðarfæri (1. mynd). Heildarafli á tímabilinu 2000 til ársins 2014 var rúm 10000 tonn ef miðað er við upplýsingar úr gagnasafni Hafrannsóknastofnunar. Mest hefur fengist af rækju í firðinum vel yfir  5000 tonn á þessu tímabili en hún er veidd í rækjutroll. Næstmest hefur fengist af þorski og ýsu rúmlega  3500 tonn af hvorri tegund aðallega í dragnót og á línu. Afli í önnur veiðarfæri  hefur verið mun minni (1. mynd) aðallega þorskur á handfæri.

mynd af aflatölum

1. mynd. Afli í Arnarfirði eftir tegundum og veiðarfærum

Gerð var samantekt á skiptingu afla milli tegunda í Arnarfirði á tímabilinu 2000 til ársins 2014 og kom þá í ljós að aflahlutfall rækju er 41 %, þorsks er 29 % og ýsu 28 %. Af öðrum tegundum er afli um 2 % (2. mynd).

kökurit af hlutfallslegum afla tegunda

2. mynd. Hlutfall tegunda í afla í Arnarfirði.

Heimildir: Gagnagrunnur Hafrannsóknastofnunar

Stofnstærðarmat kúfskelja í Arnarfirði

Kúfskel (Arctica islandica) (1. mynd) finnst nánast allt í kringum Ísland og lifir á 0-200 m dýpi í sendnum leirbotni, sandbotni eða skeljasandbotni. Skelin sem lifir niðurgrafin í sjávarbotninum allt frá því að vera rétt undir yfirborði og niður á 15 cm, er staðbundin en getur hreyft sig upp og niður í bontlaginu með hjálp fótarins. Kúfskelin er sérlega langlíf og hægvaxta dýrategund og getur orðið yfir 400 ára gömul. Skeljarnar eru sérkynja. Veiðar á kúfskel til beitu hafa verið stundaðar á Íslandi frá aldamótunum 1900 en tilraunaveiðar til manneldis hófust fyrst 1987 og svo aftur árið 1995 til útflutnings og var hámarks landaður afli rúm 14000 tonn árið 2003.

Mynd af kúfskeljum

1. mynd Kúfskeljar (Arctica islandica).

Snemma árs 1994 hófust rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á kúfskel (1. mynd) við Vestfirði með það markmið að kortleggja útbreiðslu, magn á flatareiningu og stofnstærð í fjörðunum með nýtingu í huga. Einnig voru skeljar úr afla lengdarmældar og vigtaðar.

Til rannsóknanna var notaður skelveiðibátur útbúinn vatnsþrýstiplógi (2. mynd). Þess ber að geta að vatnsþrýstiplógurinn veiðir aðallega skeljar stærri en 50 mm og eykst veiðigetan eftir því sem skelin er stærri.

Mynd af skelplóg

2. mynd. Losun vantsþrýstiplógs (mynd: Guðrún G. Þórararinsdóttir).

Í norðanverðum Arnarfirði vor tekin 7 tog tog á 0,3 km2 svæði og var lífþyngdin að meðaltali 3,3 kg/m2 og stofnstærðin um 1000 tonn á svæðinu. Í sunnanverðum firiðinum voru 19 tog tekin, á 0,7 km2 svæði og var lífþyngdin að meðaltali 4,5 kg/m2 og stofnstærðin áætluð um 3500 tonn á svæðinu. Úti fyrir firðinum voru tekin 24 tog á 7,5 km2 svæði, lífþyngdin 2 kg/m2 og var stofnstærðin áætluð um 16000 tonn. (Kort yfir rannsóknastöðvar vantar).

Meðallengd skelja í afla var 74 og 77 mm í norðan- og sunnanverðum firðinum og lengdardreifingarnar 11-94 mm (4. mynd) og 12-107 mm (5. mynd). Meðalþyngd skeljanna var 118 gr og 132 gr  að norðan og sunnan og holdfyllingin 25%. Úti fyrir Arnarfirði var meðalleng skelja 72 mm, lengdardreifingin 20-98 mm (6. mynd), meðalvigt 117 gr, holdfyllingin 28%.

mynd af lengdardreifingu

 

4. mynd Lengdardreifing kúfskelja í norðanverðum Arnarfirði.

mynd af lengdardreifingu

 

5. mynd. Lengdardreifing kúfskelja í sunnanverðurm Arnarfirði.

mynd af lengdardreifingu

6. mynd. Lengdardreifing kúfskelja utan Arnarfjarðar.

Heimildir

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson, 1994. Kúfskeljarannsókn (Arctica islandica) á Norðvesturlandi janúar til mars 1994 (Investigation of Arctica islandica in Northwest Iceland, January-March 1994).  Hafrannsóknastofnunin, 29 pp.

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson, 1997. Kúfskel við Ísland.  Náttúrufræðingurinn, 66 (2), 91-100. 

G. G. Thórarinsdóttir & S. Einarsson, 1996. Distribution and abundance of ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), from Icelandic waters.  J. Shellf. Res. 15 (3), 729-733.

Rækjurannsóknir í Arnarfirði

Hafrannsóknastofnun hefur farið í staðlaða rækjukönnun að hausti í Arnarfirði árlega frá 1988 til að meta stofnvísitölu rækju. Tekin hafa verið 22 föst tog í firðinum (1. mynd). Þegar togstöðvar voru valdar var staðsetning þeirra byggð á reynslu sjómanna og á niðurstöðum fyrri rannsókna, en kannanir hafa farið fram allt frá árinu 1973 í Arnarfirði. M.a. var tekið tillit til afla og mestrar útbreiðslu rækjunnar. Til að tryggja samanburð milli ára er nauðsynlegt að staðla rækjukönnunina og það fellst meðal annars í að nota sömu staðsetningu togstöðva á hverju ári.

mynd af rækjutogum að hausti

1. mynd. Árleg rækjutog Hafrannsóknastofnunar að hausti í Arnarfirði.

Helstu veiðislóðir og sögulegt hegðunarmynstur rækju í Arnarfirði

Rækjuveiðar hófust í Arnarfirði á 4. áratug síðustu aldar og hafa rækjuveiðar verið stundaðar samfellt í firðinum frá þeim tíma. Undanskildar eru þó vertíðirnar 2005/2006 og 2006/2007 þegar rækjustofninn var í mikilli lægð. Þegar stöðluð rækjukönnun hófst (1988) var rækja dreifð um allan Arnarfjörð. Á þeim tíma var rækja veidd í öllum firðinum (2. mynd). Þegar þorskur og ýsa fóru að koma í meira mæli inní fjörðinn (1996) þá hörfaði rækjan innar í fjörðinn og um aldamótin (2000) takmarkaðist útbreiðslusvæði rækju að hausti til að mestu leiti við innanverðan fjörðinn (2. mynd). Á síðustu árum hefur útbreiðslan minnkað enn meir og á tímabilinu frá 2004-2007 fannst rækja nánast eingöngu í Borgarfirði. Síðustu ár hefur töluverð rækja einnig fundist í Suðurfjörðunum í haustkönnun rækjurannsókna.

mynd af rækjuafla

2. mynd. Rækjuafli í Arnarfirði í rannsóknum og veiðum frá 1990 til 2009.

Veiðisvæði rækju

Veiðisvæði rækju í Arnarfirði hefur verið í samræmi við útbreiðslu rækju í rækjukönnunum. Rækja var veidd um allan Arnarfjörð árið 1990. Þegar útbreiðslusvæði rækjunnar minnkaði voru rækjuveiðar einnig stundaðar á minna svæði en áður. Frá árinu 2004 hefur rækja að mestu verið veidd í mynni Borgarfjarðar og inni á Borgarfirði. Einnig var töluverð veiði í Suðurfjörðunum árið 2004 en datt svo aftur niður árin 2005-2008 en jókst síðan aftur frá árinu 2009. Veiðisvæði rækju (rækjutog) frá árinu 2008 til 2013 eru sýnd á 3. mynd en þessi gögn eru byggð á færslum úr VMS kerfum (Vessel Monitoring System) rækjubáta en á þessum árum voru veiðisvæði rækjubáta  mest á svæðum í Borgarfirði en einnig á Suðurfjörðum Arnarfjarðar.

mynd af rækjutogum báta

3. mynd. Útbreiðsla rækjutoga veiðibáta (veiðisvæði)  frá 2008-2013.

Laxeldi

Fyrirtækið Arnarlax hefur leyfi fyrir ræktun á 3000 tonnum af laxi á ári á tveimur stöðum í Suðurfjörðum. Á árinu 2014 hófst eldið með útsetningu laxaseiða í kvíar.

Kalkþörungar

Lifandi kalkþörungar finnast á botni með ströndum innarlega í Arnarfirði. Einnig finnst óvenju mikið af kalkþörungaseti sem er tilkomið vegna dauðra kalkþörunga. Lifandi kalkþörungar þurfa ljós eins og aðrar plöntur og geta því ekki lifað á meira en 30-40 m dýpi vegna ónógs sólarljóss. Mest er af þeim á 10 til 20 m dýpi. Þeir vaxa afar hægt eða aðeins fáeina millimetra á hverju ári og því er litið á búsvæði kalkþörunga sem afar viðkvæm svæði sem umgangast þarf með varúð. Rannsóknir sýna að kalkþörungasetið í firðinum nemur a.m.k. 21 milljón rúmmetra.

Kalkþörungaseti hefur verið dælt upp undanfarin ár úr Arnarfirði, allt að 82.500 m3 á ári. Því er landað á Bíldudal þar sem unnið er úr efninu í sérstakri verksmiðju en hún hefur leyfi til framleiðslu á allt að 57.000 tonnum á ári. Afurðir verksmiðjunnar eru steinefnafóður og jarðvegsbætiefni sem er pakkað til útflutnings.

Útbreiðslukort kalkþörunga í Arnarfirði er að finna í skýrslunni Nýtingaráætlun Arnarfjarðar, mynd 7.4. (sjá skýrslu Íslenska kalkþörungafélagsins).

Heimildir

Böðvar Þórisson, Eva Dögg Jóhannsdóttir, Þorleifur Eiríksson 2012. Botndýraathuganir í Arnar- og Patreksfirði vegna fyrirhugaðs fiskeldis Fjarðarlax. NV nr. 7-12

Böðvar Þórisson, Georg Haney og Þorleifur Eiríksson 2011. Straum og súrefnismælingar í Arnarfirði: desember 2010 og janúar 2011. Unnið fyrir Arnarlax. Janúar 2011, NV nr. 2-11.

Böðvar Þórisson, Cristian Gallo og Þorleifur Eiríksson 2010. Botndýrarannsóknir á þremur svæðum í Arnarfirði 2010. Unnið fyrir Fjarðarlax. Lokaskýrsla. NV nr. 08-10.

Böðvar Þórisson, Cristian Gallo og Þorleifur Eiríksson. Súrefnis, seltu og hitamælingar í Arnarfirði í ágúst 2010. Unnið fyrir Arnarlax. Náttúrustofa Vestfjarða. NV 17-10.

Einar Jónsson 1980. Líffræðiathuganir á beitusmokk haustið 1979. Áfangaskýrsla. Biological studies on squid, Todarodes sagittatus (Lamarck) in Icelandic waters during the autumn 1979 with notes on its distribution and migration. Progress report. Hafrannsóknastofnunin Fjölrit nr. 7, 22 s. https://www.hafogvatn.is/static/research/files/fjolrit-007pdf

Eva Dögg Jóhannesdóttir og Valgeir Ægir Ingólfsson 2014. Sjávartengd ferðaþjónusta á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. NV nr. 01-14

Guðrún G. Þórarinsdóttir og Sólmundur Tr. Einarsson 1994. Kúfskeljarannsóknir á Norðvesturlandi janúar til mars 1994. Hafrannsóknastofnun 1994, 29 bls.

G. G. Thórarinsdóttir & S. Einarsson 1996. Distribution and abundance of ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), from Icelandic waters.  J. Shellf. Res. 15 (3), 729-733.

Gudrún G. Þórarinsdóttir & Sólmundur Einarsson 1997. Kúfskel við Ísland.  Náttúrufræðingurinn, 66 (2), 91-100. 

Guðrún G. Þórarinsdóttir og Sigmar Arnar Steingrímsson 2000. Size and age at sexual maturity and sex ratio in ocean quahog, Arctica islandica (Linnaeus, 1767), off northwest Iceland. Journal of Shellfish Research, vol 19, no. 2, 943-947.

Hrafnkell Eiríksson 1986. Hörpudiskurinn, Clamys islandica, Muller, Hafrannsóknir, 35: 5-40.

Jóhannes Briem 2002. Mælingar á straumum, hita- og seltu í Arnarfirði frá 5. júlí til 15. september árið 2001. Fjölrituð skýrsla, júní 2002, Hafrannsóknastofnunin.

Jón Örn Pálsson 2013. Greinargerð. Umhverfisáhrif af 4.500 tonna framleiðsluaukningu á laxi í Fossfirði. Tilkynning til Skipulagsstofnunar, 25 bls.

Karl Gunnarsson 1977. Þörungar á kóralsetlögum í Arnarfirði. Hafrannsóknir, 10: 3-10.

Kjartan Thors 2000. Setþykkt á kalkþörungasvæðum í Arnarfirði. Jarðfræðistofa Kjartans Thors, skýrsla unnin fyrir Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, 9bls.

Kjartan Thors 2001. Setþykktarmælingar í Arnarfirði vorið 2001. Jarðfræðistofa Kjartans Thors. Skýrsla unnin fyrir Íslenska kalkþörungafélagið, 12 bls.

Lúðvík Kristjánsson 1980. Íslenskir sjávarhættir I. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.

Stefán Áki Ragnarsson og Karl Gunnarsson 2004. Könnun á botndýralífi og botngróðri í Fossfirði og á fyrirhuguðu uppfyllingarsvæði við Bíldudal. Hafrannsóknastofnunin, fjölrituð skýrsla 7 bls.

Unnur Skúladóttir 1967. Aðferð til að meta afurðagetu rækjustofna í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði. Ægir, 60: 5.tbl., 81-83.

Unnur Skúladóttir 1967. Krabbadýr og skeldýr. Í ritinu „Vinnsla sjávarafla” ráðstefnurit Verkfræðingafélags Íslandss, s. 13-23.

Unnur Skúladóttir 1976. Stjórnun veiða. Rækjuveiðarnar á Arnarfirði. Sjómannabl. Víkingur, 38: 299-303.

Unnur Skúladóttir 1979. Comparing several methods of assessing the maximum sustainable yield of Pandalus borealis in Arnarfjörður. Rapports et Proces-Verbaux, 175: 240-252.

Unnur Skúladóttir, Guðmundur Skúli Bragason, Stefán Brynjólfsson 1988. Rækjan í Arnarfirði. Sjávarfréttir, 16(2): 26-30.

Þorleifur Eiríksson & Hafsteinn H. Gunnarssson 2002. Botndýr í Arnarfirði. Náttúrustofa Vestfjarða. NV nr. 4-02.

Þorleifur Eiríksson og Böðvar Þórisson 2003. Greinargerð um klasagreiningu á botndýrasamfélögum í Arnarfirði og á öðrum svæðum. Skýrsla unnin fyrir Íslenska kalkþörungafélagið ehf. Náttúrustofa Vestfjarða, NV nr. 13-03, 19 bls.

Þorleifur Eiríksson og Böðvar Þórisson 2010. Botndýrarannsóknir á þremur svæðum í Arnarfirði 2010. Unnið fyrir Fjarðarlax, Áfangaskýrsla 1. Febrúar 2010, NV nr. 3-10

Þorleifur Eiríksson, Christian Gallo, Böðvar Þórisson 2010. Botndýraathuganir í Arnarfirði 2010. Unnið fyrir Arnarlax. NV nr. 16-10 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?