MS-verkefni í vistfræði dýrasvifs við Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands

MS-verkefni í vistfræði dýrasvifs við Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands

MS-verkefni í vistfræði dýrasvifs við Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands

Útbreiðsla dýrasvifs og lífrænna agna á fín- og stórskala á Íslandsmiðum

Tilgangur verkefnisins er að rannsaka útbreiðslu dýrasvifs og lífræns reks (e. marine snow) í Suðurdjúpi og í Grænlandshafi í tengslum við umhverfisþætti. Gögnum verður safnað í rannsóknaleiðöngrum með fjölsýnaátuháfum (e. Multinet) og svifsjá (e. Video Plankton Recorder). Einnig verða fjöltíðna bergmálsgögn höfð til hliðsjónar. Upplýsingum sem safnast um magn og stærðardreifingu lífrænna agna verða nýttar til að áætla með reiknilíkönum hrip þeirra úr yfirborðslögum og niður á meira dýpi, en það hefur þýðingu varðandi bindingu hafsins á lífrænu kolefni og tengist þannig hnattrænni hlýnun jarðar. Svifsjáin er í raun neðansjávarsmásjá sem dregin er á eftir rannsóknaskipi eða sökkt niður þegar skipið stoppar og tekur í sífellu hágæða stafrænar litmyndir af svifi og lífrænu reki í sjónum (u.þ.b. 15 myndir á sekúndu), af ögnum sem eru frá 50 µm til nokkurra sentímetra að stærð. Jafnframt mælir tækið hita, seltu, flúrljómun og dýpi. Svifsjáin tekur myndirnar í þekktu rúmmáli sjávar þannig að úrvinnsla myndefnisins gefur færi á að fá magnbundnar upplýsingar um magn svifdýra og agna, þ.e. fjölda á rúmmálseiningu. Við úrvinnslu myndefnisins er notast við tækni sem byggir á gervigreind.

Verkefnið tengist evrópska rannsóknaverkefninu MEESO (Ecologically and economically sustainable mesopelagic fisheries) sem Hafrannsóknastofnunin er aðili að. MEESO-verkefnið beinist að lífríki miðsjávarlaga, en það eru lög eða belti lífvera, sem koma fram á dýptarmælum, og er að finna á tiltölulega miklu dýpi (~200-1000 m) á úthafssvæðum í flestum heimshöfum, m.a. við Ísland. Í þessum lögum er fjölbreytileiki lífríkisins mjög mikill og er þar að finna mergð tegunda, sérstaklega fiska, hveljur, smokkfiska, rækjur, ljósátu og önnur svifdýr. Lítið er vitað um magn, framleiðni og nýtingarmöguleika lífveranna í miðsjávarlögunum á Íslandsmiðum og um hlutverk þeirra í kolefnisbúskap hafsins og er MEESO-verkefninu ætlað að bæta úr því.

Nemandinn mun fara í rannsóknaleiðangra á íslenskum rannsóknaskipum.

Nemandinn mun tengjast alþjóðlegu neti sérfræðinga í MEESO verkefninu og fá tækifæri til að kynna niðurstöður á alþjóðlegum vettvangi.

 

Hæfniskröfur:

  • Umsækjendur skulu hafa lokið B.S. gráðu í líffræði eða sambærilegri gráðu.
  • Hæfni til að vinna bæði sjálfstætt og í teymi er nauðsynleg.
  • Krafist er góðrar færni í ensku, bæði rituðu og töluðu máli.
  • Kostur er ef umsækjendur hafa góða færni í tölulegri greiningu og tölfræði.
  • Færni í R og/eða Matlab er æskileg.
  • Kostur ef umsækjendur hafa reynslu af því að vera á sjó.

Umsókninni skal fylgja: a) kynnisbréf (1-2 bls.) þar sem fram kemur almennt áhugasvið og hvað helst vekur áhuga á þessu verkefni; b) ferilsskrá ásamt ritalista og afriti af birtum ritum, er slíkar eru fyrir hendi; c) afrit af prófskírteini B.S. gráðu, og d) bréf frá tveimur umsagnaraðilum (helst vinnuveitendum og kennurum úr háskólanámi) og netföng og símanúmer þeirra.

Verkefninu fylgir styrkur, sem veitist til tveggja ára. Upphæðin miðast við hefðbundna meistaranámsstyrki, sem veittir eru við Háskóla Íslands. Ekki kemur til aukagreiðslu vegna sjóferða.

Í MS nefnd verða Jörundur Svavarsson prófessor og Ástþór Gíslason sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun.

Umsóknarfrestur er til og með 1. febrúar 2020.

Umsóknir skulu sendar á póstfangið umsokn@hafogvatn.is eða á skrifstofu Hafrannsóknastofnunar, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.

Nánari upplýsingar veita Ástþór Gíslason, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun (575200/8945091; astthor.gislason@hafogvatn.is) og Jörundur Svavarsson (5254610/8966739; jorundur@hi.is), Öskju, Háskóla Íslands.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?