Laus er til umsóknar staða doktorsnema í vatnalíffræði

Ljósm. Ragnhildur Magnúsdóttir Ljósm. Ragnhildur Magnúsdóttir

Laus er til umsóknar staða doktorsnema í vatnalíffræði, með áherslu á fiskifræði, við Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna og Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Háskóla Íslands. Staðan er á sviði vistfræði Atlantshafslaxins (Salmo salar) og umhverfi hans í ám á Norðausturlandi.

Doktorsneminn mun hafa aðstöðu á Hafrannsóknastofnun og í Háskóla Íslands. Auk þess gefst nemanum möguleiki á að vinna hluta rannsókna sinna með aðstöðu við Imperial College í London. Vettvangsvinnan mun fara fram í ám á Norðausturlandi og þarf doktorsneminn því að verja töluverðum tíma í senn ár hvert á vettvangi.

Um verkefnið og starfslýsing

Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem unnið verður undir stjórn vísindamanna frá Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands og Imperial College í London og styrkt er af Falkathing ehf. Heildarmarkmið verkefnisins er að öðlast frekari skilning á hvaða þættir í umhverfinu séu ráðandi fyrir vöxt og viðgang laxastofna. Með rannsókninni er áætlað að taka saman fyrirliggjandi gögn og afla nýrra gagna um vistfræði laxa og vistkerfi þeirra í ám á Norðausturlandi. Rannsókninni verður skipt niður í tvo hluta og til að sinna þeim verða ráðnir tveir doktorsnemar. Annar þeirra verður við Imperial College í London, sem mun einkum fást við líkanasmíði og hinn verður ráðinn við Hafrannsóknastofnun og mun sá sjá um rannsóknir á vettvangi ásamt því að vinna úr tiltækum gögnum um vistfræði laxa í ám á Norðausturlandi. Gert er ráð fyrir nánu samstarfi doktorsnemanna tveggja og við sérfræðinga á þeim stofnunum sem að rannsókninni koma.

Helstu rannsóknaþættir verða: a) far laxa innan árkerfa og búsvæðanotkun laxa, b) gerð fæðuvefja og ákvörðun á orkuflæði milli fæðuþrepa m.t.t. laxa, c) áhrif fiskræktar á stofnvistfræði laxa, d) söfnun erfðaefnis til uppbyggingar á stofnerfðafræðilegum gagnagrunni, e) greining á vatnasviðseinkennum m.t.t. hugsanlegrar áhrifa skógræktar á vistfræði laxa og f) samantekt og úrvinnsla á eldri gögnum úr gagnabanka Hafrannsóknastofnunar um vistfræði laxa í ám á Norðausturlandi.

Um er að ræða stöðu til fjögurra ára. Ráðning er háð því að nemandinn sæki formlega um doktorsnám við Háskóla Íslands og verði samþykktur inn í það.

Hæfniskröfur

- Umsækjendur skulu hafa lokið M.Sc. gráðu í líffræði eða sambærilegri gráðu.

- Hæfni til að vinna bæði sjálfstætt og í teymi er nauðsynleg

- Góð færni í ensku, bæði rituðu og töluðu máli

- Kostur er ef umsækjendur hafa góða færni í tölulegri greiningu, tölfræði og gerð stærðfræðilíkana

- Kostur ef umsækjendur hafa reynslu af útivinnu og bílpróf er nauðsynlegt.

Umsókninni skal fylgja: a) kynnisbréf (1-2 bls.) þar sem fram kemur almenn áhugasvið, hvað helst vekur áhuga á þessu verkefni og hvað umsækjandi hefur fram að færa við mótun og vinnslu þess. Hvers umsækjandi væntir af náminu.  b) ferilsskrá ásamt ritalista og afriti af ritum (greinar, skýrslur eða námsritgerðir) c) afrit af prófskírteinum fyrir fyrstu- og aðra háskólagráðu (grunn- og meistaranám) listi yfir námskeið sem tekin voru í hvorum námshluta og d) tvö umsagnarbréf og upplýsingar um hvernig má hafa samband við umsagnaraðila.

Umsóknarfrestur er til og með 31.október n.k.

Umsóknir skulu sendar á póstfangið umsokn@hafogvatn.is eða á skrifstofu Hafrannsóknastofnunar, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.

Gert er ráð fyrir að nemandinn hefji störf fyrri hluta janúar 2020. Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðuneytis og FÍN.

Nánari upplýsingar veita Guðni Guðbergsson sviðsstjóri Ferskvatnslífríkissviðs (gudni.gudbergsson@hafogvatn.is) og Sólmundur Már Jónsson mannauðsstjóri (solmundur.mar.jonsson@hafogvatn.is).

Jafnt karlar sem konur, eru hvött til að sækja um stöðuna. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna er stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði haf- og vatnarannsókna og gegnir auk þess ráðgjafarhlutverki varðandi skynsamlega nýtingu og verndun auðlinda hafs og vatna. Stofnunin rekur auk aðalstöðva í Reykjavík starfsstöðvar vítt og breytt um landið, tilraunaeldisstöð, tvö rannsóknaskip og hefur að jafnaði um 190 starfsmenn í þjónustu sinni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?