Magnús Thorlacius flytur erindi á málstofu

Magnús Thorlacius flytur erindi á málstofu

Fimmtudaginn 15. febrúar mun Magnús Thorlacius fiskifræðingur flytja erindið Hlutverk svipgerða í innrás ágengra fisktegunda á málstofu Hafrannsóknastofnunar. Málstofan verður haldin í fyrirlestrasal á 1. hæð Skúlagötu 4 og verður jafnframt streymt á YouTube-rás stofnunarinnar.

Málstofan hefst kl. 12:30. Öll velkomin.

Ágrip

Fólks- og vöruflutningar verða sífellt auðveldari/ódýrari sem hefur í för með sér kröfur um styttri fluttningstíma sem aftur á móti hefur komið niðri á eftirliti með ómennskum laumufarþegum. Meðal slíkra tegunda er fisktegundin round goby (Neogobius melanostomus). Round goby (enn sem komið er hefur tegundin ekki fengið íslenskt nafn) er uppruninn í Svartahafi og Kaspíahafi en fyrir u.þ.b. 30 árum tók að bera á tegundinni í kjölvatni fluttningaskipa og varð hennar vart í Gdansk flóa í Póllandi og í Vötnunum miklu í Norður Ameríku árið 1990. Eftir það hefur tegundin dreift sér um meginland Evrópu og Norður Ameríku bæði með og án aðstoðar manneskjunnar. Í Póllandi hefur hún valdið töluverðum breytingum á vistkerfum með neikvæðum áhrifum á aðra fiskstofna.

Við rannsóknir á ágengum tegundum hefur komið í ljós að ýmsar aðlaganir eiga sér stað sem auka hraðan eftir því sem þær dreifa sér lengra. Þetta gerist þegar einstaklingar sem hafa dreift sér lengst bera svipgerðareinkenni sem gera þá hæfari til þess að ferðast og/eða leggja undir sig ný svæði. Þessir einstaklingar fjölga sér í kjölfarið með einstaklingum sem bera sömu einkenni. Við það verða þau ýktari og tegundin dreifist enn hraðar.

Í tilraunum sem voru framkvæmdar í Eystrasaltinu 2011-2015 kom í ljós að einstaklingar í 1-2 ára stofnum voru viðkvæmari fyrir háum þéttleika, hugaðri og meira virkir heldur en einstaklingar sömu tegundar á svæðum sem þeir lögðu undir sig ~20 árum fyrr. Í annari tilraun kom í ljós að einstaklingar í nýrri stofnum dreifa sér fyrr eftir því sem þeir eru virkari á meðan engin tenging fannst á milli atferlis og hversu fljótt þeir dreifa sér í eldri stofnum. Í þriðju tilrauninni kom í ljós að einungis líða 3-5 ár frá því að tegundin berst til hafnar þar til hún fer að dreifa sér í miklum mæli til nærliggjandi strandsvæða. Smávaxnir einstaklingar sem forðast nálægð við aðra einstaklinga af sömu tegund, dreifa sér fyrst.

Af niðurstöðum þessara tilrauna, ásamt fjölda annarra, má ráða að fremsta lína innrása þessarar tegundar hefur önnur svipgerðareinkenni en gengur og gerist í eldri stofnum. Það verður til þess að tegundin dreifir sér hraðar eftir því sem lengra er komið frá upphaflegu landnámi. Enn sem komið er hefur hún ekki fundist við Ísland, að mestu leiti vegna hárrar seltu í Atlantshafinu, en hennar hefur orðið vart í höfninni í Varberg í Svíþjóð, á vatnasvæðunum innan við Rotterdam og að sama skapi hafa danskir vísindamenn mælt útbreiðslu upp á 5 km á ári meðfram ströndum Danmerkur. Round goby hefur fundist í seltu upp að 22 ppt (~35 í Atlantshafinu) og því spurning hvort til séu hafnir á Íslandi sem eru nægilega nálægt árósum til þess að hættan sé á ferðum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?