Laust starf forstöðukonu/-manns SHSÞ

Hafrannsóknastofnun leitar eftir forstöðukonu/-manni í fullt starf við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (SHSÞ). Hlutverk skólans er að vinna í samræmi við stefnu stjórnvalda í þróunarsamstarfi á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda sjávar og vatna og í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í samstarfslöndum skólans í Afríku, Asíu og eyríkjum Karíbahafsins. Stærsta verkefni skólans ár hvert er 6 mánaða framhaldsnám á Íslandi fyrir starfandi fagfólk í samstarfslöndunum þar sem mikil áhersla er lögð á hagnýtingu þekkingar. Frekari upplýsingar má finna á vef skólans, www.unuftp.is.

Leitað er að öflugum og jákvæðum stjórnanda í krefjandi starf.

Starfssvið:

 • Ábyrgð á daglegu starfi og rekstri skólans
 • Skipulagning náms
 • Fjármál og starfsmannahald
 • Samstarf við samstarfsaðila, innanlands og utan
 • Gerð kennslu-, þjónustu- og samstarfssamninga

Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Meistaranám eða doktorsnám sem nýtist í starfi
 • Stjórnunarreynsla
 • Reynsla af kennslu og rannsóknum í sjávarútvegi eða fiskeldi
 • Þekking og reynsla af þróunarsamstarfi æskileg
 • Mjög góð íslensku- og enskukunnátta, jafnt í rituðu sem mæltu máli
 • Sjálfstæð og öguð vinnubrögð
 • Mjög góðir samskiptahæfileikar og hæfni til að vinna með fólki frá mismunandi menningarheimum

Um er að ræða fullt starf með starfsstöð í Reykjavík en fyrir liggur að stofnunin flytur í Hafnarfjörð á árinu. Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðuneytis og viðkomandi stéttarfélags. Æskilegt að umsækjendur geti hafið störf ekki síðar en 1. ágúst.

Óskað er eftir að umsókn fylgi greinargóð ferilskrá yfir menntun og fyrri störf, staðfesting á námi og kynningarbréf þar sem umsækjandi gerir grein fyrir ástæðu umsóknarinnar og sinni sýn varðandi hlutverk og starfssemi skólans.
Umsóknarfrestur er til og með 6. maí n.k.

Umsóknir skulu sendar á netfangið umsokn@hafogvatn.is eða á skrifstofu Hafrannsóknastofnunar, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.
Nánari upplýsingar veita Tumi Tómasson, forstöðumaður og Sigurður Guðjónsson, forstjóri í síma 5752000.

Jafnt karlar sem konur eru hvött til að sækja um starfið. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna er stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði haf- og vatnarannsókna og gegnir auk þess ráðgjafarhlutverki varðandi skynsamlega nýtingu og verndun auðlinda hafs og vatna. Stofnunin rekur auk aðalstöðva í Reykjavík starfsstöðvar vítt og breytt um landið, tilraunaeldisstöð, tvö rannsóknaskip og hefur að jafnaði um 190 starfsmenn í þjónustu sinni. SHSÞ er að mestu fjármagnaður af framlögum Íslands til þróunarsamvinnu og rekinn af stofnuninni í samstarfi við utanríkisráðuneytið, Matís, HÍ, HA og Hólaskóla og í góðum tengslum við sjávarútveg á Íslandi. Skólinn hefur verið rekinn í yfir 20 ár og býr starfsfólk hans yfir mikilli reynslu og þekkingu á sjávarútvegi á Íslandi og verkefnum skólans.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?