Erfðafræði Atlantslax kortlögð

Erfðafræði Atlantslax kortlögð

Í nýrri grein sem birt var í Vísindariti Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES Journal of Marine Science, er greint frá niðurstöðum viðamikilla rannsókna á erfðafræði Atlantslax. Lax í 13 Evrópulöndum var rannsakaður og notuð 14 erfðamörk. Sýnum (26.822 fiskar) var safnað af 467 stöðum í 282 vatnakerfum. Tveir íslenskir vísindamenn eru meðal höfunda, þeir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, og Kristinn Ólafsson, sem starfaði hjá Matís.

Gögnin sýna að íslenskur lax er fjarskyldur öðrum evrópskum laxastofnum. Annars staðar í álfunni greinist laxinn í tvo meginhópa, norðurhóp og suðurhóp. Síðan er hægt að greina lax í erfðahópa eftir svæðum. Með þessum gögnum er unnt að rekja lax sem veiðist í sjó til síns heima, annað hvort eftir landsvæði eða til ákveðinnar áar.

Íslenskur lax skiptist einnig í hópa. Þar eru tveir meginhópar, annar á Norðurlandi, hinn á Vesturlandi. Líklegt er að lax á Suðurlandi myndi þriðja hópinn, en frekari rannsókna er þörf til að staðfesta það. Í flestum laxveiðiám landsins er sérstakur stofn.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?